Leita í fréttum mbl.is

Hvar enda þessi ósköp? Hverjir verða timburmennirnir?

Margir veltu því fyrir sér hvort íslenska krónan mundi gefa verulega eftir í janúar þegar kæmi að stórum gjalddögum krónubréfa. Spurning var hvort að ný krónubréf yrðu gefin út á móti þannig að skuldastaðan yrði sú sama og hægt yrði að halda krónunni uppi eitthvað lengur.

Nú liggur fyrir að tekist hefur að selja krónubréf fyrir 76 milljarða eða sem svarar afborgun þeirra krónubréfa sem gjaldféllu í janúar auk vaxta. Vextir af krónubréfum er mjög háir og því freista margir að fjárfesta í þeim til skammst tíma í þeirri von að krónan hangi meðan krónubréfin þeirra eru að skila arði. Með þessu erum við að flytja inn peninga og út vexti og/eða eins og nú virðist vera að bæta vöxtum ofan á þannig að höfuðstóllinn hækkar og hækkar þangað til stóra fallið kemur.

Hver einasti einstaklingur veit að það væri mjög gott að greiða aldrei neitt af lánunum heldur skuldbreyta stöðugt vöxtum og afborgunum með því að taka stöðugt hærri og hærri lán. Í sjálfu sér væri það allt í lagi kæmi ekki að skuldadögum. En svo fer alltaf þegar fólk, fyrirtæki eða þjóðir haga sér óskynsamlega að það kemur að skuldadögum. Spurninig er þá hversu alvarlegir verða timburmennirnir og hvaða afleiðingar hafa þeir fyrir fólk, fyrirtæki og þjóðfélag.

Mér er ljóst og væntanlega mörgum öðrum að skuldasöfnun þjóðarinnar er orðin of mikil og það er brýnt að haga efnahagsstjórninni þannig að þjóðin geti búið við stöðugleika og öryggi í efnahagsmálum og hagsstjórn. Stefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar stuðla að hinu gagnstæða. Það verður að vinda ofan af skuldsetningunni og taka upp alvörugjaldmiðil.


mbl.is Stærsti útgáfumánuður krónubréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég spái að þetta endi um 2010-2012 og timburmennirnir felist í algeru gjaldþroti þjóða og almennings, hugsanlega drepsótt (fuglaflensunni) og í framhaldi, fullkominn þrældómur almennings, þar sem eignir eru ekki til, aðeins inneignir, sem svo núllast ef þú notar þær ekki innan þess tímabils þegar nýjar inneignir eru gefnar út.

Allt slór eða niðurrifsstarfsemi (svo sem að skrifa eða tala gegn kerfinu) veldur lækkun eða niðurfellingu á inneignum, og þá getur orðið erfitt að lifa, í landi þar sem allt er eign kerfisins, vatnið (vatnalögin), loftið (loftalögin eru á leiðinni, sjá allt talið um "kolefnisjöfnun"), matur og húsaskjól. 

Gullvagninn (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 14:59

2 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þetta endar auðvitað með því að við verðum tekin inn í Evrópusambandið vegna þess að við höfum glutrað niður efnahagslegu sjálfstæði (hefur þegar gerst þar sem ríkissjóður og seðlabanki eru sem dvergar samanborið við erlenda lánadrottna sem í raun hafa öll okkar ráð í hendi sér). Það þýðir ekkert fyrir stjórnmálamenn að þykjast koma af fjöllum með þetta og ekki verður það þagað í hel. Tölurnar tala sínu máli og þær eru skuggalegar og fara versnandi. Það er í rauninni verið að stela landinu og flytja það út og það ferli hefur verið í gangi sirka síðasta áratuginn og hraði þess ferlis eykst sífellt.

Baldur Fjölnisson, 29.1.2008 kl. 20:37

3 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þetta getur einungis farið á einn vel, erum við ekki öll viss um það.

Vonandi verð ég þá komin í krukkuna.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 29.1.2008 kl. 21:41

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Þökkum Drottni fyrir þessi tíðindi. Það er auðheyrt hver þín efnahagsstefna er Jón minn; Glórulaust gengisfall, afnám verðbóta= hiinhá verðbólga=fjárksortur=atvinnuleysi = Miðstýring Seðlabanka á efnahagslífinu.  

Allt gamlar lummur sem við þekkjum úr fortíðinni og maður hélt að hefðu dáið út með falli múrsins og kommúnismans. En þetta er bara sprellifandi í Frjálsynda flokknum. Eða þetta les ég útúr pistli þínum.

Eða er ég bara eins og sá í neðra, sem sagt er að lesi bíflíuna á hvolfi ?

Halldór Jónsson, 29.1.2008 kl. 23:32

5 Smámynd: haraldurhar

   Auðvitað heldur útgáfa jöklabréfa áfram, svo lengi sem Seðlabankinn heldur til streitu okurvaxtastefnu sinni.  Þetta endar auðvitað með allsherjar hruni, og því stærra eftir því sem krónubréfa útgáfan stækkar.   Þetta er hagfræði sem var stunduð í Suður-Ameríku, og allir vita hverning það fór.  Eg mann eftir manni sem stundaði svipaða starfsemi niður í Hafnarstræði, tók við peningum og gaf út ávísanir, og hækkaði vaxtastuðulinn ef menn framlengdu ávísuninna, en einhverja hluta vegna kom lögreglan og lokaði fyrirtækinu, og hann lennti í steininum fyrir okur.  Nú eru aðrir tímar Seðlabanki í forustuhlutverkinu, og allir dansa með

   Hverning væri nú ef Alþingi fjallaði um málið, og stoppaði þessa glórulausu peningastefnu, og hreinsaði út úr Seðlabankanum, skipaði honum nýja stjórn með kunnáttumönnum, og einn bankastjóra sem hefði tilskilda menntun og reynslu til að stýra bankanum.

   Seðlabanki á ekki að vera elliheimili fyrir afdankaða pólítíkusa.

haraldurhar, 30.1.2008 kl. 00:32

6 Smámynd: Þórir Kjartansson

,,Þökkum Drottni fyrir þessi tíðindi" segir minn gamli/fyrrverandi samflokksmaður Halldór Jónsson.  Ja, það er ekki von á góðu ef meginþorri sjálfstæðismanna lítur þessi mál með svona gleraugum.   Því trúi ég bara ekki.          

Þórir Kjartansson, 30.1.2008 kl. 11:56

7 Smámynd: Jón Magnússon

Halldór Jónsson veit það að það dugar ekki mjög lengi í kulda að pissa í skóinn sinn til að halda á sér hita. Það dugar heldur ekki í efnahagsmálum. Það er hægt að halda hágengisstefnu ef það er innistæða fyrir stefnunni og vonandi verður það. En ég fæ ekki séð að svo sé meðan við erum að flytja inn peninga í jafn miklum mæli og skuldbreyta með því að bæta vöxtunum við höfuðstól skuldanna í hvert sinn sem gjalddagi kemur. Hvar er framleiðslan til að standa undir þessu?

Jón Magnússon, 30.1.2008 kl. 14:52

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Við höfum búið við falskan kaupmátt sem hefur byggst á 1. ríkisstýrðum og allt of ódýrum gjaldmiðli og 2. óhóflegri peningaframleiðslu (skuldaframleiðslu). Lánveitingar snúast í raun bara um tímabundna framvísun kaupmáttar. Bankinn lánar þér peninga og við það millifærist ákveðinn kaupmáttur frá honum til þín og það gengur síðan til baka eftir því sem lánið er endurgreitt (kaupmátturinn tapast aftur). Núna eru allir og hundurinn líka með yfirdrátt upp fyrir haus og vísakortið yfirspennt og allt á raðgreiðslum. Í rauninni teygist þessi falski kaupmáttur mánuði eða jafnvel ár inn í framtíðina, með öðrum orðum þetta er óviðráðanleg vitleysa.

Til að vinna gegn óðaverðbólgunni sem þessi óstjórnlega peningaframleiðsla (skuldaframleiðsla) hefur skapað höfum við flutt inn í vörum verðhjöðnun og offramleiðslugetu annarra. Verðbólgan hefur því leitað í verðbréf og húseignir sem hefur gert kleift að auka yfirdráttinn og svo er óreiðan reglulega sett á skuldabréf með verðbréf og húseign að veði og síðan taka menn út á yfirdráttinn og svo framvegis.

Þessi brjálæðislega stefna hefur síðan drepið mestalla framleiðslu innanlands og leitt til furðulegs þjónustukerfis þar sem hver þjónar undir annan. Atvinnuleysið er síðan vandlega falið í tröllvöxnum atvinnuleysisgeymslum hins opinbera. Hægri kommar eru jafnvel enn verri hvað þetta varðar en vinstri kollegar þeirra. Slysist þeir til að leggja niður eitthvað batterí á vegum hins opinbera stofna þeir strax þrjú í staðinn.

Þetta þjónustukerfi er afar viðkvæmt fyrir efnahagssamdrætti. Menn skera sjálfsagt fyrst niður kostnað á borð við hundaföt, árulækningar, afeitranir og annað í þeim dúr þegar dregur saman með vinnu og það sem enn mikilvægara er í þessu skuldum drifna kerfi - þegar bankarnir draga saman útlánin og hætta að skuldbreyta.

Baldur Fjölnisson, 30.1.2008 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 453
  • Sl. viku: 3036
  • Frá upphafi: 2294655

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 2768
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband