Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Þá þurfti að taka í lurginn á stjórn Íbúðarlánasjóðs

Þegar fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Íbúðarlánasjóðs lak því í Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra að stjórnin ætlaði að skipa starfandi forstjóra, þá brást Árni Páll við hart og krafðist þess að skipuð yrði sérstök valnefnd til að velja forstjóra fyrirtækisins.

Í raun þýðir þessi flumbru- og yfirgangur félagsmálaráðherra gagnvart stjórn Íbúðarlánasjóðs ekki annað en það að hann treystir ekki stjórninni til að afgreiða mál eins og ráðningu forstjóra að sjóðnum.  Þá er það greinilega mikil endemi að mati félagsmálaráðherra að stjórnin skuli ætla sér að skipa hæfan forstjóra sem gengt hefur starfinu með prýði.  Sá sem stjórnin ætlaði að skipa skorti ekki hæfi eða reynslu það eina sem hana skorti var vinátta við félagsmálaráðherra og félagsskírteini í Samfylkingunni.

Aftur og aftur reynir félagsmálaráðherra að slá upp skjaldborg um vinnumiðlun Samfylkingarinnar fyrir góða flokksmenn, en hundsar  eðlilegar leikreglur í lýðræðisþjóðfélagi. 

Hvað var eiginlega að starfandi forstjóra var hún ekki góður valkostur. Af hverju lætur stjórn Íbúðalánasjóðs ráðherra ganga yfir sig af gerræði varðandi skipun forstjóra?


Davíð Þór Jónsson

Í þeirri orrahríð sem hefur geisað að undanförnu um málefni þjóðkirkjunnar þá var það nánast andleg svölun að hlusta á yfirvegaðan og öfgalausan málflutning Davíðs Þórs Jónssonar í Kastljósi í kvöld.

Það er allt of algengt að fólk beri af leið í umræðum hér á landi og þær séu óvandaðar. Sú var hins vegar ekki raunin á í Kastljósi kvöldsins. Viðmælandi Davíðs var mjög góð, en Davíð var að mínu mati þungavigtarmaður í umræðunni.  Það er full ástæða til að óska honum til hamingju með frammistöðu sína í kvöld. Hann á það skilið.  


Sótt að þjóðkirkjunni

Herra biskupinn yfir Íslandi, Karl Sigurbjörnsson hefur verið farsæll í starfi. Honum hefur gengið vel að setja niður alvarlegar deilur innan kirkjunnar og fara þann gullna meðalveg sem nauðsynlegt er á óróleikatímum.  Karl Sigurbjörnsson er líka góður kennimaður og skilaði góðu dagsverki sem prestur áður en hann settist í biskupsstól.

Miðað við þessa forsögu þá er það óneitanlega nokkuð sérstakt að talað sé um það í einhverri alvöru að biskupinn eigi að segja af sér.  Stjórnandi Kastljóss spurði biskup að þessu í kvöld og hann svaraði að vonum að til þess kæmi ekki.  Ég sé ekki að nokkuð réttlæti þessa spurningu stjórnandans.

Dregið hefur verið upp gamalt mál þar sem sr. Karl Sigurbjörnsson kom að ásamt sr. Hjálmari Jónssyni og varðaði fyrrverandi biskup. Hugsanlega hefðu þeir báðir getað höndlað það mál betur en áttu sennilega báðir að neita að koma að málinu í upphafi og benda á þær leiðir sem væru í boði í réttarríkinu.

En ég get ekki betur séð en þeir hafi ákveðið að ganga erinda fyrir konu sem hafði verið órétti beitt til að málið fengi þann endi sem hún þá óskaði. Það gekk ekki eftir og málið var þá ekki lengur í höndum þeirra sr. Karls og sr. Hjálmars.  Hvorugur þeirra var í þeirri stöðu að vera rannsóknarréttur í máli þáverandi biskups, því miður.  Þessi viðleitni sr. Hjálmars og sr. Karls til að láta gott af sér leiða þó ekki tækist betur til verður því ekki höfð uppi gegn þeim með nokkrum skynsamlegum rökum og það er svo gjörsamlega fráleitt að Karl Sigurbjörnsson hafi bakað sér einhverja ábyrgð með því að freista þess af góðmennsku sinni að láta gott af sér leiða.

Þeir eru til sem telja nauðsynlegt að veikja allar þær stofnanir sem eru hornsteinar réttarríkisins og siðaðs þjóðfélags.  Kirkjan er einn af þessum hornsteinum. Hún liggur því undir árásum þeirra sem eru í almennum mótmælum gagnvart þjóðfélaginu. Kirkjan á einnig ævarandi óvini í mörgum trúleysingjum sem telja það æðstu skyldu sína að sverta kirkjuna og gera lítið úr mikilvægu starfi hennar.  Af þeim sökum eru alltaf margir tilbúnir til að leggja mikið af mörkum til að sverta og gera lítið úr kirkju og kristindómi.

Kirkjan á ekki að hrekjast undan hvaða goluþyt sem er og standa fast á sínu sem sá klettur sem henni er og var ætlað að vera. En kirkjan verður að bregðast við réttmætum efasemdum um heilindi eigin þjóna. Það er þess vegna mikilvægt að mál sem varða fyrrverandi biskup verði tekin upp og þau leidd til lykta með eðlilegum hætti á grundvelli þeirra leikreglna sem gilda í réttarríkinu Íslandi.  Ásakanir á hendur fyrrverandi bískupi eru svo alvarlegar að það skiptir máli bæði fyrir þá sem hafa þær í frammi, kirkjuna og aðra sem að koma að leiða þau farsællega til lykta eftir því sem framast er unnt.

Ég gat ekki skilið biskupinn yfir Íslandi Karl Sigurbjörnsson með öðrum hætti í kvöld en það væri einmitt það sem hann ætlaði sér að gera.  Á hann þá ekki frekar heiður skilið en að vandlætingarsvipann sé látin dynja á honum gjörsamlega að ástæðulausu. En engin verður víst óbarinn biskup.


Sagan af vel reknu ísbúðinni

Í sumarblíðunni um daginn fór ég að kaupa ís með lúxusdýfu fyrir ungviðið. Íssalinn minn sem rekur aðgerðarmikla ísbúð sagði mér að hann væri orðinn hálf þreyttur á að puða frá morgni og fram undir miðnætti hvern einasta dag vikunnar og þar sem hann hafði frétt að framtakssjóður Lífeyrissjóðanna ætlaði sér að fjárfesta í góðum fyrirtækjum þá hafði hann leitað hófanna að selja þeim ísbúðina svo hann gæti lifað í vellystingum praktuglega og notið árangurs erfiðis síns.

Íssalinn minn sagði mér að honum hefði verið vísað á dyr vegna þess að fyrirtækið sem hann bauð til sölu væri gott fyrirtæki sem skilaði góðum hagnaði og framtakssjóður lífeyrissjóðina væri ekki til þess  að kaupa einhverjar sjoppur sem skulduðu ekki neitt. Íssalinn hafði greinilega misskilið leikreglurnar í þjóðfélaginu.

Íssalinn minn sagði að þeir hjá framtakssjóðnum hefðu sagt sér að markmið sjóðsins væri að sóa lífeyri landsmanna til að kaupa  fyrirtæki sem skulduðu mikið og reka þau með bullandi hagnaði jafnvel þó engum hefði áður tekist að gera það hvorki í góðæri né illæri. Þeir hjá framtakssjóðnum vildu þannig stuðla að íslenskri atvinnuuppbyggingu, aukinni samkeppni og þjóðlegri framleiðslu.

Íssalinn minn sagðist hafa bent á að framleiðsla hans væri heldur betur þjóðleg, íslenskur ís úr íslenskri mjólk og rjóma sem helsta hráefnið, en á það hafi ekki verið hlustað.  Íssalinn minn sagðist hins vegar vænta þess að vel mundi fara með þennan framtakssjóð þar sem að þeir töframenn héldu nú um sjóðinn sem alltaf hefðu skilað af sér fyrirtækjum sem þeir hefðu komið nálægt í mikilli sókn og mun verðmeiri en þegar þeir komu að þeim hvort heldur þeir hafi verið framkvæmdastjórar fyrirtækjanna eða setið í stjórn þeirra.

Íssalinn minn sagðist því sætta sig við að puða áfram og borga í lífeyrissjóðinn sinn þar sem að sjoppurekstur lífeyrissjóðanna væri mun líklegri til að skila árangri með þessum nýju stjórnendum sem að vísu aldrei hefðu þurft að taka áhættu með eigið fé heldur eingöngu með fé annarra og þeir vissu greinilega ráð til að reka nú vonlaus fyrirtæki með þeim hætti að engin hætta væri á að of mikið safnaðist í lífeyrissjóði landsmanna á næstu áratugum.

Eða voru annars lífeyrissjóðirnir ekki stofnaðir til að standa í áhætturekstri á kostnað lífeyrisþega? Voru lífeyrisþegar einhvern tíma spurðir um þetta? Hafa stjórnendur lífeyrissjóðanna ekki tapað nógu miklu nú þegar?


Dómharði presturinn í Laugarnessókn

Samfylkingarpresturinn sr. Bjarni Karlsson úr Laugarnessókn, sem frægastur hefur orðið þegar hann gerði ásamt nokkrum félögum sínum aðför að dómstólum landsins gerir nú kröfu til þess að sett verði það sem Þjóðverjar kalla "Berfusverbot" eða bann við að einstaklingar gegni starfi hafi þeir skoðanir andstæðar þeirri einu réttu.

Ef til vill gerir sr. Bjarni Karlsson sér ekki grein fyrir því áð þær skoðanir sem hann setur fram á Eyjabloggi sínu undir heitinu "Nú verður sr. Geir Waage að víkja" eiga ekkert skylt við fjálslynd viðhorf og grundvöll þeirra mannréttinda sem mótuð hafa verið ekki síst á grundvelli kristilegra lífsskoðana.  Því miður verður ekki annað séð en sú skoðanakúgun og ofstopi sem birtist í skrifum sr. Bjarna í garð sjónarmiða og viðhorfa kollega síns liggi nær fasisma og kommúnisma en frjálslyndra viðhorfa nútíma lýðræðissinna.

Sem dæmi um ummæli í bloggi sr. Bjarna má nefna: "það er háskalegt og varðar hreinan brottrekstur  úr prestsembætti að halda því fram sem sr. Geir Waage gerir" 

Í annan stað segir þessi öfgafulli þjónn þjóðkirkjunnar: "Hér er ekki um mál að ræða sem þolir deildar meiningar". 

Í þriðja lagi má nefna úr þessum skrifum klerksins í Laugarnesi, sem lýsti fyrir nokkru þeirri girnd sinni að berja Brynjar Níelsson formann lögmannafélagsins vegna skoðana hans, að hann telji biskup Íslands og Kirkjuráð ekki líkleg til að sýna einurð og dug til að  stunda þá skoðanakúgun sem Bjarni Karlsson telur nauðsynlega  og standa að brottrekstri þeirra kollega hans sem ekki eru sammála honum.  

Dómharði presturinn í Laugarnessókn mætti e.t.v. huga að orðum frelsarans um dóma.  Hann mætti e.t.v. líka íhuga grundvöll og hugmyndir þeirra sem vörðuðu leiðina til almennra mannréttinda. Hann ætti síðan að ígrunda vel hvort að þær hugmyndir sem hann setur fram séu meira í ætt við skoðanakúgun eða virðingu fyrir frjálsum skoðanaskiptum.

Mér var nóg boðið þegar ég sá Laugarnesklerkinn gera aðför að dómstólum landsins. Mér var ofboðið þegar Laugarnesklerkurinn lýsti yfir þeirri girnd sinni að berja Brynjar Níelsson vegna skoðana hans og mér er enn meira ofboðið nú þegar sr. Bjarni Karlsson setur sig í dómarasæti og  krefst að sett verði "Berufsverbot" á sr. Geir Waage sóknarprest í Reykholti.

Sr. Geir Waage vekur athygli á mikilvægu atriði sem skiptir miklu máli fyrir alla sem njóta starfa sinna vegna sérstaks trúnaðar. Þar koma til greina prestar, lögmenn, læknar, sálfræðingar og margar fleiri starfsstéttir. Hversu langt þagnarskylda presta og fleiri starfsstétta skuli ná hefur verið ágreiningsefni um langa hríð. Sr. Geir Waage, Bjarni Karlsson, biskupinn yfir Íslandi eða ég höfum engan einkarétt á sannleikanum í því sambandi. En allir megum við og eigum við að geta haft okkar skoðun án þess að þurfa að þola fasísk viðurlög.


Sviss vill ekki ganga í EES. Af hverju?

Svisslendingar tóku skynsamlegustu ákvörðun þeirra þjóða sem vildu eiga gott samband og samstarf við Evrópusambandið en voru ekki tilbúin að ganga í Evrópusambandið.  Þeir gerðu tvíhliða samning við Evrópusambandið á meðan við gengum í EES

EES var í raun ekki hugsað til annars en að vera undirbúningferli fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu. Öll ríkin sem mynduðu EES með okkur hafa gengið í Evópusambandið þannig að bara við Norðmenn og Lichtenstein erum eftir.  Á sínum tíma skrifaði hið virta rit "The Economist" um EES sem fordyri Evrópusambandsins og sagði eitthvað á þá leið að það þjónaði í sjálfu sér engum tilgangi að fara í EES nema fyrir þjóðir sem ætluðu að ganga síðar eða fljótlega í Evrópusambandið.

Með því að ganga í EES þá samþykktum við að framselja verulegan hluta fullveldis okkar m.a. hluta löggjafarvaldsins í raun.  Við féllumst m.a. á opinn vinnumarkað sem varð til þess að magna upp spennuna á árunum 2005-2008 og valda síðari tíma atvinnuleysi og dýpka kreppuna meir en ella hefði verið. Öllum aðvörunarorðum varðandi innflutnings þúsunda erlendra starfsmanna var vísað frá sem röngum og jafnvel rasískum eins gáfulegt og það nú var.

Því miður tókum við ekki þann kost sem Svisslendingar tóku að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið, en það hefði haft verulega kosti í för með sér fyrir okkur, hefðum við farið að dæmi Svisslendinga.  

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2010/08/19/svisslendingar_vilja_ekki_adild_ad_ees/

 


Baráttan gegn Lúpínunni

Fyrir nokkrum árum var útivistarfólk hvatt til að taka með sér lúpínufræ og sá þeim á gönguleiðum sínum. Ég tók þessari áskorun af mikilli alvöru og hef sáð lúpínufræum víða um fjöll og firnindi. Síðan hef ég fyllst stolti af að sjá mikinn árangur lítils erfiðis. Þar sem áður voru naktir eyðimelar og fjallshlíðar er kominn sterkur lúpínugróður. Lúpínugróðurinn bindur jarðveginn og kemur m.a. í veg fyrir að landið fjúki burt eins og Ríó tríóið söng um af svo miklum tilfþirfum á sínum tíma.

En nú er vá fyrir dyrum. Umhverfisráðherra hefur fundið í lúpínunni þann hinn sanna óvin sem ógnar íslenskri alþýðu þannig að jafnbrýnir orkuverum og erlendum fjárfestum.  Umhverfisráðherra hefur því skorið upp herör gegn lúpínunni þannig að öll meðöl þar á meðal eiturefnahernaður verði leyfður til þess að ná því marki að eyða þessari plöntu sem hefur unnið mikið og þarft landnám á íslenkum heiðalöndum og eyðijörðum.

Umhverfisráðherrann er meiri ógn við farsæld fólks og umhverfis en lúpínan.  Ekki er vafi á því að það er mikilvægara að losna við hana úr ráðherrastóli en ráðast gegn þessum harðduglega landnema lúpínunni.  En sumir ráðamenn þar á meðal umhverfisráðherra þarf alltaf að búa sér til óvini og baráttu gegn þeim til að breiða yfir málefnasneyð sína.

 


Skattahækkanir lengja og dýpka kreppuna. Steingrímur hefur brugðist.

Bretar, Írar og Íslendingar lentu í verulegum erfiðleikum vegna bankahruns síðari hluta árs 2008. Hér völdu menn bestu leiðina með því að fella vonlausa banka í stað þess að pumpa inn í þá peningum sem ekki voru til eins og Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vildi gera.

Ljóst var strax haustið 2008 að tekjur ríkissjóðs mundi dragast saman og Írar brugðust við þeim vanda með því að skera verulega niður ríkisútgjöld. Þeir lækkuðu laun opinberra starfsmanna og drógu saman á öllum sviðum þjóðlífsins þó hlutfallslega minnst í velferðarmálum.

Írar voru í erfiðari aðstæðum en við að því leyti að þeir gátu ekki verðfellt alla hluti í þjóðfélaginu af því að þeir eru með Evru. Það hafði hins vegar þá þýðingu að eignir fólksins héldu nánast verðgildi sínu í stað þess að hrapa í verði um 50-65% í Evrum talið eins og hér.

Sú sársaukafulla leið sem Írar völdu að draga saman ríkisútgjöld hefur nú skilað árangri og hagvöxtur eykst á ný þar í landi. Írska ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að auka samkeppni og skapa eðlilegt umhverfi fyrir fjármála- og atvinnulíf. Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Paul Krugmann hefur lofað mjög þessar aðgerðir Íra og gagnrýnt að þeir fái ekki eðlileg verðlaun í samræmi við þann efnahagsbata sem hafi orðið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar þar í landi.

Hér er fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon sem stöðugt ber sér á brjóst og segist hafa gert mjög mikið. Samt sem áður er hann að reka ríkissjóð með bullandi halla og samdráttur í eyðslu hins opinbera er hverfandi lítill þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Steingrímur fór þá leið öfugt við Íra að hækka skatta og draga óverulega úr ríkisútgjöldum. Nú situr skattahækkana nefnd hans að störfum við að leita leiða til að auka enn skattheimtuna.

Aðgerðarleysiskostnaður ríkisstjórnarinnar þá sérstaklega Steingríms J í ríkisfjármálum er orðinn að gríðarlegum vanda og dregur úr hagvexti og framtíðarmöguleikum. Rangar ákvarðanir og heigulsháttur við að taka á opinberum útgjöldum veldur því að kreppan verður hér mun lengri en ella hefði þurft að vera.

Það sem verður að gera nú er að draga verulega úr ríkisútgjöldum í stað þess að hækka skatta. Áframhald skattastefnunnar og óhófseyðslunnar eykur hættu á því að nýtt efnahagshrun verði í stað efnahagsbata sem hefði getað verið kominn fram hefðum við haft alvöru ríkisstjórn sem hefði þorað að gera það sem þarf að gera.


Háskólaspeki hin nýja

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við sama háskóla og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur sett fram nýja kenningu varðandi umgengni ráðherra við sannleikann.

Sjálfsagt vill Gunnar Helgi koma samkennara sínum í Háskóla Íslands til aðstoðar í þeim mikla vanda sem Gylfi er í vegna þess að hann sagði Alþingi ósatt í fyrirspurn um krónulánin sem tengd voru myntkörfu.

Hin nýja háskólaspeki Gunnars Helga stjórnmálafræðiprófessors er sú að Gylfi Magnússon hafi ekki sagt Alþingi ósatt heldur hafi hann afvegaleitt Alþingi með svörum sínum með því að segja þinginu ekki satt. Ef til vill má finna hárfínan fræðilegan mun á þessu, sem getur nýst Gunnari Helga til heilabrota og fræðilegrar framsetningar með einum eða öðrum hætti í nokkur ár. Venjulegt fólk skilur hins vegar þegar verið er að segja því ósatt og vill kalla hlutina réttum nöfnum.

Gunnar Helgi vill nú láta setja lög um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra.  Af hverju skyldi stjórnmálafræðiprófessorinn nálgast málið með þessum hætti?

Veit prófessorinn ekki að til eru ákvæði í lögum sem gilda líka fyrir ráðherra og þá sem gegna stjórnmálastarfi og störfum á vegum framkvæmdavaldsins. 

En af hverju segir prófessorinn ekki hvort hann telur framgöngu Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra vera þess eðlis að hann geti setið áfram eða verði að víkja. Hefur hann ekki skoðun á því.

Finnst Gunnari Helga e.t.v. réttlætanlegt út frá heilaleikfimi háskólaspekinnar að það sé afsakanlegt fyrir mann eins og Gylfa að segja Alþingi ósatt. Alla vega fordæmir hann ekki framgöngu ráðherrans út frá fræðunum. 

Gæti einhver sagt öðruvísi mér áður brá?


Skjaldborgin um Gylfa Magnússon ráðherra

Undanfarna daga hefur þjóðin orðið vitni að  alvarlegustu tilraun forustumanna í ríkisstjórn og stjórnsýslu til að leyna hana upplýsingum og afflytja mál í því skyni að slá skjaldborg um viðskiptaráðherra.

Afskipti Jóhönnu Sigurðardóttur og nokkurra hátt settra embættismanna þ.m.t. Seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra af vandamálum viðskiptaráðherra bera ekki vott um opna og heiðarlega stjórnsýslu.  Þrátt fyrir tilraunir forustumanna í stjórnsýslu og ríkisstjórn til að halda upplýsnigum frá þjóðinni þá liggja samt fyrir upplýsingar sem sýna að viðskiptaráðherra getur ekki setið.

Viðskiptaráðherra hefur verið beraður af því að gefa Alþingi rangar upplýsingar um gengisviðmiðuðu lánin. Upplýst hefur verið að upplýsingar um verulegan vafa um gildi lánanna lágu fyrir í ráðuneytinu vorið 2009 og ráðherra hefur viðurkennt að hafa vitað af málinu sama haust. Samt sem áður gerði hann í fyrsta lagi ekkert til að leiðrétta ummæli sín á Alþingi sem svar við fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um málið.

Í öðru lagi þá hafði viðskiptaráðherra engan viðbúnað vegna þess vafa sem óneitanlega var fyrir hendi um gildi lánanna.

Í þriðja lagi þá verður ekki séð að hann hafi gert samráðherrum sínum í ríkisstjórn grein fyrir málinu svo sem honum bar að gera.

Í fjórða lagi leitaði viðskiptaráðherra ekki upplýsinga um málið hjá Neytendastofu eða Fjármálaeftirliti og kannast ekki við aðvaranir Talsmanns neytenda svo merkilegt sem það nú er.

Í fimmta lagi gerði viðskiptaráðherra ekkert með viðvaranir sem honum bárust sannanlega eftir því sem hann sjálfur segir í september 2009. 

Í sjötta lagi þá kann viðskiptaráðherra með vanrækslu sinni að hafa bakað þjóðinni skaðabótaábyrgð svo nemur milljörðum króna, en um það ræðir Árni Tómasson hjá skilanefnd Glitnis í morgun hafi menn vitað meira en þeir gerðu grein fyrir.

Óneitanlega er það furðulegt að skjaldborg skuli nú slegin um viðskiptaráðherrann, Gylfa Magnússon af  ríkisstjórn og forustumönnum Seðlabanka Íslands. Hvar sem væri í nágrannalöndum okkar hefði verið óhjákvæmilegt að Gylfi Magnússon segði af sér að ósk forsætisráðherra ekki síðar en á mánudaginn. Sú staðreynd að hann skuli sitja ennþá sem ráðherra sýnir betur en margt annað hversu spillt og vanhæf ríkisstjórnin er og hvað litla dómgreind og stjórn Jóhanna Sigurðardóttir hefur á málunum.

Óneitanlega velta margir fyrír sér hvernig á því stendur að vaski stjórnsýslufræðingurinn Sigurbjörg kveður sér ekki hljóðs núna um vanhæfa ráðamenn og vonda stjórnsýslu. Hvar er nú Lilja Mósesdóttir sem er formaður viðskiptanefndar?

Þá vekur þögn vinanna og bandamannanna Egils Helgasonar og verðlaunablaðamannsins Jóhanns Haukssonar sérstaka athygli. E.t.v. er vert að minna á að meðan Gylfi Magnússon var formaður Samkeppnisráðs þá sá ráðið ekki ástæðu til annars en fara mildum höndum um Baug og fyrirtæki því tengdu.

Geri forsætisráðherra sér ekki ljóst að Gylfi Magnússon getur ekki setið lengur sem ráðherra og henni ber að víkja honum úr ríkisstjórn sinni þegar í stað,  sýnir hún ótvírætt fram á vanhæfni sína til að leiða ríkisstjórnina.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 189
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4010
  • Frá upphafi: 2427810

Annað

  • Innlit í dag: 176
  • Innlit sl. viku: 3712
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband