Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Hvað segja tölurnar okkur?

Niðurstaða Landskjörstjórnar um úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20.10. s.l. liggja fyrir.  Á kjörskrá voru 236.903 kjósendur. Atkvæði greiddu 115.980 um 49% eða minni hluti kjósenda.

Þeir sem greiddu því atkvæði að leggja skyldi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá voru 73.408 eða 31% kjósenda á kjörskrá.  Það þýðir að 69% kjósenda greiddi þeirri tillögu ekki atkvæði sitt.

Hafa verður í huga að verið er að tala um mikilvægustu lagasetningu í þjóðfélaginu. Grundvöll stjórnskipunar og mannréttinda. Þegar áhugi fyrir breytingum á grundvallarlögum sem þessum nýtur ekki víðtækari stuðnings en raun ber vitni þá er spurning hvernig á að túlka það.

Þýðir þetta að alþingismenn séu bundnir við þessa niðurstöðu? Stjórnarskrárvarinn réttur þingmanna til að greiða atvkæði í samræmi við sannfæringu sína segir að svo sé ekki.

Ávallt hefur legið fyrir að Alþingi er stjórnarskrárgjafinn og þess vegna er búið að fara í vinstri hringleið með atlöguna að eðlilegri stjórnskipan í landinu sem hefur kostað mikið en skilað litlu.

Athyglivert er að skoða það að þeir stjórnmálaflokkar sem harðast börðust fyrir tillögum stjórnlagaráðs, Samfylking, Borgarahreyfingin og Vinstri grænir fengu samtals 109.805 atkvæði í síðustu Alþingiskosningum eða rúmum 36.000 atkvæðum meira en tillögurnar um stjórnlagaráðstillögurnar hlutu í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Segir þetta einhverja sögu?


Nýja Íslandið

Jóhanna Sigurðardóttir segir að baráttan sé um hið nýja Ísland Samfylkingarinnar og hins gamla sem hún segir Sjálfstæðisflokkinn vera í forsvari fyrir.  Hvað er hið nýja Ísland? Hvað er að gerast þar?

ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru sammála um að ríkisstjórnin svíki samninga

Hlutafjárútboð í Eimskip óskabarni þjóðarinnar er með þeim ósköpum að flestum er ofboðið.

Bakkavararbræður tryggja sér meiri hluta í Bakkavör eftir tuga milljarða afskriftir skulda.

Karl Wernerson og fleiri kóngar ofurskuldsettra fyrirtækja sem hafa fengið milljarða afskriftir fá 20% álag á peninga sem þeir koma með til Íslands. Karl fékk 240 milljónir fyrir 200.

Sjálftaka slitastjórna og annarrs sjálftökuliðs skiptir milljörðum á ári.

Verðbólga magnast og verðtryggðu lánin hækka og hækka.

Ekkert er gert af viti til að leysa skuldavanda einstaklinga og fjölskyldna.

Atvinnuleysi er viðvarandi.

Uppbygging í atvinnulífinu er nánast engin.

Skattheimta eykst

Krónan fellur og fellur og Seðlabankinn hefur engin úrræði.

Lífskjör versna og spillingin blasir við í öllum áttum.

Er þetta það Nýja Ísland sem Samfylkingin  berst fyrir?


Tillögum stjórnlagaráðs hafnað. Aðförin að stjórnarskránni X

Minni hluti kjósenda taldi ástæðu til að kjósa í skoðanakönnuninni um tillögur stjórnlagaráðs.  Þrátt fyrir það að ekki hafi verið talið upp úr kjörkössunum er ljóst að þjóðin hefur hafnað að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Kjósendur voru spurðir að því hvort þeir vildu leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar og það er ljóst af kosningaþáttökunni að þeir vilja það ekki. Meiri hluti kjósenda hafnar tillögunum. 

Stjórnlagaráðsmaðurinn Eiríkur Bergmann er kokhraustur og sagði í fréttum á stöð 2 (sá eini sem fékk að tjá sig) að þeir sem heima sátu; "hafi verið að leyfa öðrum að taka fyrirliggjandi ákvörðun í sinn stað"

Þetta er rangt. Þess vegna eru sett ákvæði, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru um lágmarksþáttöku, hvað margir þurfa að greiða atkvæði með að lágmarki o.s.frv.. Þar sem beint lýðræði er  túlka menn hjásetu kjósenda með öðrum hætti en  Eiríkur Bergmann.

Atlagan að stjórnarskránni mistókst í þetta sinn. Spurning hvort Jóhanna Sigurðardóttir axlar ábyrgð á þessu ferli og fjáraustrinum í sambandi við það.


Þjóðin hefur ekki áhuga á tillögum stjórnlagaráðs. Aðförin að stjórnarskránni IX

Ég hef ítrekað hvatt fólk til að taka þátt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer fram í dag og segja NEI við að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Félgsskapur nokkurra sem sátu í stjórnlagaráðinu, og tala jafnan í nafni þjóðarinnar, sem ber rangnefnið "SANS" hefur hamast í langan tíma og dreift röngum og villandi upplýsingum um aðförina að stjórnarskránni. Reynt hefur verið að blekkja fólk til fylgis við ófullburða tillögur stjórnlagaráðs. Sama hafa nokkrir fjölmiðlar gert í mismiklum mæli.

Í ráðgefandi  þjóðaratkvæðagreiðslu eins og þessari þá eru það ekki aðrir en þeir sem greiða viðkomandi hugmynd atkvæði sem eru stuðningsmenn hennar. Aðrir hafa ekki áhuga á henni. 

Verði niðurstaða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að færri en helmingur kjósenda á kjörskrá greiði atkvæði með því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar varðandi nýja stjórnarskrá þá þýðir það að þjóðin hefur ekki áhuga á tillögunum og þeim hefur þá verið hafnað.

Verði þetta niðurstaðan; þá þýðir það líka að þjóðin lýsir vannþóknun á aðförinni að stjórnarskránni.

Vafalaust hefði meiri hluti landsmanna frekar viljað eyða þeim 1.3 milljarði króna sem farið hefur í aðförina að stjórnarskránni til vitrænni hluta eins og t.d. kaupa á nauðsynlegum tækjum á Landsspítalann Háskólasjúkrahús.


Rökfræðileg uppgjöf. Atlagan að stjórnarskránni VIII.

Stjórnlagaráðsliðar sem hafa hvað hæst um nauðsyn heildarbreytingar á stjórnarskránni eru rökþrota.

Undanfarið hef ég hrakið rök og sjónarmið þeirra sem standa að atlögunni að stjórnarskránni. Engin haldbær mótmæli hafa komið fram þó að sjónarmið stjórnlagaráðsliðanna hafi verið hrakin lið fyrir lið. 

Rangfærslum og ósannindum er beitt er af hálfu þeirra sem krefjast þess að þóðin játi ófullburða og oft vanhugsuðum tillögum stjórnlagaráðsins.  Þeir treysta sér ekki til að mótmæla með rökum en halda sig við sömu röngu fullyrðingarnar í þeirri von að blekka megi þjóðina fram yfir kjördag.

Rökfræðileg uppgjöf þeirra sem gera atlögu að stjórnarskránni er algjör.

Það skiptir því máli að kjósendur hrindi þessari atlögu og mæti á kjörstað og sýni upphlaupsliðinu það sem það á skilið með atkvæði sínu.

Til ítrekunar vil ég benda á að tillögur stjórnlagaráðs breyta ekki fiskveiðistjórnarkerfinu, þær greiða ekki lánin, þær afnema ekki verðtrygginguna og þær hafa ekkert með hrun á banka- eða fjármálamarkaði að gera.

Þetta upphlaup og atlaga að stjórnarskránni hefur dregið athygli þjóðarinnar frá þeim verkefnum sem eru mikilvægust og skipta máli við uppbyggingu aukinnar velferðar og velmegunar.

Ljúkum þessu óráðs- ferli núna og segjum afgerandi  Nei við tillögum stjórnlagaráðs.

Snúum síðan bökum saman til sóknar til aukins jöfnuðar, gegn spillingu, gegn verðtryggingu og fyrir bættum lífskjörum.


Heildarendurskoðun hvað er það? Aðförin að stjórnarskránni VII.

Ítrekað er haldið fram af stjórnlagaráðsliðum að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hafi staðið til frá 1944  með þeim hætti að lýðveldisstjórnarskráin yrði afnumin. 

Þetta er rangt. Um það má m.a. lesa í bókinni Land og Lýðveldi I.hefti bls. 177-206. 

Dr. Bjarni Benediktsson  forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins gerir þar grein fyrir störfum stjórnarskrárnefndar, tillögum og hugmyndum. Bjarni var þá formaður nefndarinnar en með honum í nefndinni sátu af hálfu Sjálfstæðisflokksins þeir Dr. Gunnar Thoroddsen og Jóhann Hafstein.

Sjálfstæðismenn lögðu til 20 breytingar á stjórnarskránni. Aðrar hugmyndir voru ekki um  endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944. Af þessum 20  hafa 5 náð fram að ganga að fullu en nokkrar að hluta.

"Gallana á núverandi fyrirkomulagi ber að finna og úr þeim bæta en ekki kasta fyrir borð öllu því, sem vel hefur reynst í heild,"  var það sem haft var að leiðarljósi.

Hvernig rímar það við hugarsmíð stjórnlagaráðsliða?

Lagt var til að Forseti Íslands fengi aukin völd og meiri hluti þjóðarinnar yrði að greiða honum atkvæði sitt. Tillögurnar um aukin völd forsetans voru 5. Engin náði fram að ganga.

Fleiri tillögur má nefna varðandi aukin jöfnuð og auðveldari leið til að breyta kjördæmaskipan, takmörkun ríkisútgjalda og leggja niður Landsdóm

Aðrar tillögur um endurskoðun stjórnarskrárinnar voru ekki til staðar nema hvað varðaði kjördæmaskipan. Það er því sögufölsun að halda því fram að það hafi alltaf staðið til að kollvarpa lýðveldisstjórnarskránni.  Það stóð aldrei til. Á þessari röngu söguskýringu byggir stjórnlagaráð verk sitt og viðmiðanir.

Um leið og Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir tillögum sínum, Gunnars og Jóhanns segir hann:

"Ég legg áherslu á að stjórnarskrármálið er mál, sem ekki má eingöngu eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði það er alþjóðarmál sem meta verður með langa framtíð fyrir augum" 

Loks segir Bjarni:

"Ég hef ætíð talið að það skipti ekki öllu máli, hvort stjórnarskrárbreytingar yrðu afgreiddar árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti, að þjóðin áttaði sig til hlítar á, um hvað væri að ræða, og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um, svo að hin nýja stjórnarskrá hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð."

Aldrei stóð annað til en að gera afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni. Mikilvægustu atriðin hafa náð fram að ganga önnur en um aukin völd forsetans og takmörkun á möguleikum til að auka ríkisútgjöld.

Þetta rifjað upp til að sýn að rangt er farið með staðreyndir af helstu stuðningsmönnum stjórnlagaráðstillagnanna varðandi breytingar á stjórnarskrá.  Allt frá lýðveldisstofnun hefur verið ríkur skilningur á því að stjórnarskrárbreytingar ætti að gera í góðri sátt með þessum hætti:

að skaplegt samkomulag geti fengist um ný stjórnarskrárákvæði eftir ítarlegar umræður og athuganir.

Tillaga stjórnlagaráðs uppfyllir ekki þessi skilyrði. Hún byggir á fölskum og röngum forsendum. Reynt er að þvinga fram ákvæði eftir takmarkaðar umræður og umfjöllun. Svona gera menn ekki og mega ekki gera í lýðræðisríki varðandi mikilvægustu grundvallarlög þjóðarinnar.  

Þess vegna verður svarið við atlögunni að stjórnarskránni að hafna því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Segjum NEI við að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Stöndum vörð um góða stjórnarskrá en breytum því sem þarf að breyta. 

Nei við tillögum stjórnlagaráðs.  
 


Stjórnarskráin lagar ekki lífskjörin. Atlagan að stjórnarskránni VI)

Margir halda að tillögur stjórnlagaráðsins hafi þýðingu varðandi breytingu á kvótakerfinu. Þannig er það ekki. Tillögur stjórnlagaráðs þó samþykktar yrðu breyta engu um stjórn fiskveiða.

Tillögur stjórnlagaráðs breyta engu um starfsemi fjármálafyrirtækja eða almenna starfsemi á markaði.

Tillögur stjórnlagaráðs  létta ekki af verðtryggingunni eða lánaokrinu í landinu. Þær draga ekki úr hættu á nýju bankahruni eða spillingu í fjármálakerfinu.

Með því að fara í aðför að stjórnarskránni eins og ríkisstjórnin beitti sér fyrir var athygli fólks beint frá mikilvægustu úrlausnarefnum í þjóðfélagsmálum en efnt til deilna um stjórnarskrána.

Mikilvægasta viðfangsefnið í þjóðfélaginu í dag og allt frá bankahruni eru og hafa verið  að skapa viðunandi lífskjör fyrir unga fólkið í landinu sem og aðra. Það verður að búa þannig að atvinnumálum að dugandi fólk hafi svipuð kjör og á hinum Norðurlöndunum.  Þá verður að afnema verðtrygginguna og tryggja að fólk búi við svipuð lánakjör og á hinum Norðurlöndunum.  Verðlag í landinu er  þriðja atriðið sem mestu máli skiptir varðandi velmegun og lífskjör í landinu.

Þessi atriði  eru þau sem mestu máli skipta til að koma hlutum í viðunandi horf eftir bankahrun. 

Þessi mál urðu aukaatriði eins konar afgangsmál. Þess í stað einhenti ríkisstjórnin sér í  umræður um formalisma og stjórnarskrá. Með því að beina sjónum almennings í áttir sem skipta lífskjör og velmegun í núinu engu máli eins og stjórnarskrármálið tókst því miður að rugla margt gott fólk í ríminu. Með milljarðs kostnaði og einhliða áróðri er síðan haldið fram að stjórnlagaráðstillögurnar séu eitthvað annað en þær eru.

Tillögur stjórnlagaráðs bjarga ekki húsinu þínu frá uppboði. Þær búa ekki til arðbær störf eða draga úr forréttindum eða spillingu í þjóðfélaginu. Tillögurnar fjalla um allt annað.

Með glöggum hætti benda þeir Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við H.Í og Ágúst Þór Árnason formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri á meginstaðreynd í stjórnarskrármálinu og hvetja fólk til að segja NEI við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum en þeir segja:

" hryggjarstykki stjórnarskrárinnar á sér djúpar rætur í íslensku samfélagi. Með frumvarpi stjórnlagaráðs er gerð tillaga um að þessar rætur séu rifnar upp og haldið verði út í óvissuna."

Við skulum standa vörð um rætur og grundvöll íslensks samfélags og segja NEI við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum.

Berjumst fyrir þeim breytingum sem skipta máli varðandi lífskjör og velmegun í landinu tillögur stjórnlagaráðs fjalla ekki um þau atriði.


Atlagan að stjórnarskránni V

Stjórnarskrár eru grundvöllur lagasetningar í flestum lýðræðisþjóðfélögum. Í þeim er mælt fyrir um meginreglur um stjórnskipulagi og æðstu stjórn ríkja og vernd mannréttinda einstaklinga gegn ofurvaldi ríkisins. Meginreglurnar eru markvissar og skýrar til að stjórnarfar sé traust og dómstólar geti beitt þessum réttindum. Stjórnarskrár eru samdar af fólki með óskorað umboð og reynt er að ná víðtækari sátt um efni þeirra. 

Þannig var ekki staðið að málum þegar elíta nokkurra vinstri háskólamanna í Reykjavík ákvað að gera atlögu að stjórnarskránni og fékk til liðs við sig margt gott fólk sem féll fyrir tilhæfulausu orðskrúði þeirra um úrelta stjórnarskrá sem hefði átt þátt í bankahruni.

Eftir að Hæstiréttur, æðsti dómstóll landsins, hafið ógilt kosningu svokallaðs stjórnlagaþings, var brotið gegn grundvallarreglum réttarríkis, stjórnskipunar og siðferðis og minnihluti Alþingis skipaði svokallað stjórnlagaráð. Fólk tók samt skipan í ólögmætu stjórnlagaráði - eins og menn sem kaupa þýfi. Það vefðist þó fyrir Salvöru Nordal sem kjörinn var formaður Stjórnlagaráðs.

Frá upphafi var ljóst svokallað stjórnlagaráð hafði ekkert umboð og takmarkaða þekkingu til að vinna að gerð stjórnarskrár. Afrakstur vinnunnar var óskýr, ómarkviss texti sem er fullur af óþarfa og beinlínis skaðlegur stjórnskipun landsins. Ef tillögurnar yrðu að grundvallarlögum myndi fjöldi ágreiningsmála koma upp og fara fyrir dómstóla.

Hingað til hefur umboðslausa fólkið í stjórnlagaráði látið eins og tillögur þess væru tímamótaverk.  Nú er hins vegar brostinn flótti í liðið. 

Salvör Nordal hefur viðurkennt að skiptar skoðanir séu innan stjórnarlagaráðs um hvort að tillögur þess hafi verið endanlegar eða hvort þær þarfnist frekari vinnu!  Hún viðurkennir einnig að tillögurnar séu ekki tækar í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og þær eru!      Athyglisvert.

Þegar formaður stjórnalagaráðs hleypst undan ábyrgð á tillögum stjórnlagaráðs, eins og formaður stjórnlagaráðs  gerir, þá geta landsmenn ekki verið beðnir um að samþykkja þær.  Ljóst er af því sem kemur fram frá formanni og varaformanni stjórnlagaráðs að lagt var út í gjörsamlega ótímabærar og vanhugsaðar kosningar um málið. Þegar svo er, þá er fráleitt að samþykkja slíkan óskapnað.

Íslendingar þurfa að koma í veg fyrir stórslys og stjórnskipulegri óvissu. 

Til þess þarf að segja NEI við tillögum stjórnlagaráðs.

Ekki ætlast til að aðrir taki ómakið af þér. Mætið öll og segið NEI


Atlagan að stjórnarskránni IV.

Þ. 25.1.2011 komst 6 manna dómur Hæstaréttar að neðangreindri niðurstöðu: 

Framangreindir annmarkar á framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verða við úrlausn málsins metnir heildstætt og er það niðurstaða Hæstaréttar að vegna þeirra verði ekki hjá því komist að ógilda hana.

Ályktarorð:

Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild.

Hvað er gert í lýðræðisríkjum þegar æðsti dómstóll landsins ákvarðar kosningar ógildar.  Annmarkarnir sem voru á framkvæmd kosninganna eru lagfærðir og síðan er kosið aftur. Aðrar leiðir eru ekki tækar.

30 þingmenn á Alþingi ákváðu hins vegar að fara aðra leið. Þeir ákváðu að fara leið valdbeitingarinnar og hafna því að hlíta ákvörðun Hæstaréttar. Þess vegna var lögð fram þingsályktunartillaga um stjórnlagaráð. Athugi orðalagið stjórnlagaráð af því að kosningar til stjórnlagaþings voru ógildar.  Allir sem kosnir höfðu verið ógildri kosningu voru skipaðir í ráðið.  Þannig var stjórnlagaráðið fætt í veikleika og lögleysu og reis aldrei upp til styrkleika enda ekki von til þess miðað við það hvernig til þess var stofnað.

Þeir sem reyna að afsaka þessa ólýðræðislegu aðferðarfræði 30 þingmanna á Alþingi hafa gjarnan á orði að það sé ekkert að marka Hæstarétt og þessi ákvörðun Hæstaréttar sé röng. Þannig hafa m.a. fulltrúar í ólögmæta stjórnlagaráðinu talað. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr eða eru sáttir eða ósáttir þá er Hæstiréttur æðsti dómstóll landsins og það ber að fara að niðurstöðum hans. Það hefur enginn rétt til að taka sér það vald sem Hæstarétti er falið í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. En það vald tóku samt 30 alþingismenn með þessum hætti og þeir sem settust í stjórnlagaráðið. Stjórnarskrárliðar með siðferðiskennd reyndu að afsaka sig með sama hætti og þeir sem reyna að afsaka vísvitandi kaup á þýfi. Hinir tóku glaðir og án athugasemda það sem að þeim var rétt.

Afurðin sem ólögmæta stjórnlagaráðið skilaði af sér er síðan eins og við mátti búast. Settar eru iðulega fram tillögur sem eru nánast eins og óskalisti í stjórnmálaályktun. Slík afurð er ekki tæk til að verða grunnur að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að segja NEI við þeirri spurningu hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að leggja til grundvallar varðandi nýja stjórnarskrá.

Þá eru í tillögunum endalausir leppar þar sem kveðið er á um það að ákveðin atriði skulí ákveðin í lögum. Skoðum nokkur dæmi til byrjunar:

Dæmi: 106 gr. Nálægðarregla:

"Á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum." 

Skoðum núverandi ákvæði stjórnarskrár:

" Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða." 

Hvort er betra?  Var einhver ástæða til að krukka í þessu?

Annað dæmi: 3.gr. Yfirráðasvæði: "Íslenskt landssvæði er eitt og óskipt. Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin í lögum. " Hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði. Ekki neina. Skiptir máli hvort þetta er í stjórnarskrá eða ekki?

Þriðja dæmið 17.gr. Frelsi menningar og mennta: "Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista."  Hvaða efnisinntak hefur þetta ákvæði. Skiptir það máli í þróuðu lýðræðisríki? Að sjálfsögðu ekki. Er ekki nú þegar tryggt í lögum frelsi vísindas, fræða og lista?

Þannig eru fjölmörg dæmi sem sýna vel að arftakar Thomas Jefferson Bandaríkjaforseta voru víðsfjarri störfum stjórnlagaráðsins enda þess ekki að vænta miðað við hvernig til var stofnað. Sá merki maður hefði aldrei samþykkt þá lögleysu sem meðferð þessa máls er hvað þá annað sem ekkert erindi á í stjórnarskrá og er beinlínis skaðlegt fyrir stjórnarfar í einu landi.

Þess vegna er mikilvægt að segja NEI.

Annað er ávísun á stjórnskipulega óreiðu eins og  Forseti lýðveldisins hefur bent á með góðum og glöggum hætti.


Berjum manninn.

Vinur minn sendi mér úrdrátt af  fésbókarsíðu eins stuðningsmanns tillagna stjórnlagaráðsins þar sem hann og vinir hans tjá sig m.a. um síðuhöfund vegna andstöðu hans við tillögur stjórnlagaráðs.

"Það ætti að vera siðferðisleg skylda hvers manns á Íslandi að gefa Jóni Magnússyni svo kölluðum "lögmanni" utanundir þegar honum er mætt á götu. Það má furðu sæta að þessi vitfirringur skuli enn ganga laus á meðal fólks."

"Jòn Magnùsson er audvitad løggiltur f...... En thad er athyglisvert ad staksteinaòthverrinn skuli vitna ì hann med jàkvædum hætti? Thad segir nù eitthvad?"

"En því miður er það staðreynd að flest allir þeir lögmenn sem tjáð hafa sig um málið eru keyptar mellur LÍÚ og Sjálfstæðisflokksins."

Eðlilegt að vini mínum brygði í brún en þetta sýnir eitt með öðru rökþrot stuðningsmanna tillagna stjórnlagaráðsins. Þegar rökin eru ekki fyrir hendi þá þykir þessu fólki rétt að láta hendur skipta.

Er skrýtið að mikið af sómakæru fólki veigri sér við því að taka þátt í umræðu og tjá skoðanir sínar þegar það getur átt von á trakteringum eins og þessum.

En þegar þeir góðu og gáfuðu leyfa sér að standa á hliðarlínunnni þá geta vondir hlutir farið að gerast.

Svo virðist sem stuðningsmenn tillagna stjórnlagaráðs hafi engin málefnaleg rök þegar þeim er andmælt. Þess vegna grípa þeir til orðræðu eins og sýnishorn ber birt af hér að ofan.

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 196
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4017
  • Frá upphafi: 2427817

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 3719
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 177

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband