Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Pólskan sækir á í Englandi.

Sagt er frá því í fréttum í dag frá Englandi að pólska sé orðin næst algengasta málið í landinu. Meir en hálf milljón segja að pólska sé móðurmál sitt í Englandi og velta þá tungumálunum Urdu og Bengali úr sessi. 

Margir hafa talið að enska yrði alþjóðamál og þannig er það raunar að felst menntafólk í heiminum talar ensku venjulega sem annað mál sitt. En það er verulega pottur brotinn varðandi það að allir tali ensku í Englandi.  Um milljón manns í Englandi segja að þeir tali litla eða enga ensku. Svo virðist sem ríkisvaldið hafi lítil áform varðandi aðlögun innflytjenda að þjóðfélaginu. Telja sennilega að það komi af sjálfu sér.

Í London eru um 20% íbúa sem tala annað móðurmál en ensku og  aðeins í þrem af 33 hverfum í London eru töluð færri en 100 tungumál. 

Óneitanlega athyglisverðar upplýsingar í landi alheimsmálsins.

 


Dýr mundi Steingrímur allur

Nú liggur fyrir að ákvarðanir Steingríms J. Sigfússonar varðandi sparisjóðinn í Keflavík mun kosta skattgreiðendur 25 milljarða króna.  Tap af aðgerðum Steingríms vegna Sjóvá-Almennar tryggingar kostar 4 milljarða og Byr-ákvarðanir Steingríms kosta a.m.k.  100 milljónir. 

Þessu til viðbótar fengu VBS, Saga Capital og Askar Capital  52 milljarða frá Steingrími þegar hann lánaði þessum félögum þá fjárhæð.  Í ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA kemur fram hvað VBS og Saga Capital mátu þennan ríkisstuðning til margra milljarða þannig að það þarf enginn að velkjast í vafa um það.

Beint tap ríkisins vegna Steingríms er hátt í 80 milljarðar króna. 

Þá er ótalið mögulegt tjón vegna gengisákvæða í uppgjörssamningum Landsbankans. Undirverðlagning við sölu bankanna til kröfuhafa (vogunarsjóða). 

Sem betur fer tókst Steingrími ekki að koma 500 milljarða Icesave kröfunni til viðbótar á þjóðina eins og hann lagði til eftir sumarsamninga flokksbróður hans Svavars Gestssonar, sem sá enga ástæðu til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar af því að það var komið sumar. 


Steingrímur J. kostar margfalt meira en Icesave

Steingrímur  J. Sigfússon hefur kostað þjóðina margfalt meira en Icesave.

Nefna má má dæmi sem eitt og sér kostar þjóðina meira en Icesave, en það er meðferð Steingríms J á málum Sparisjóðs Keflavíkur.

Sparisjóður Keflavíkur átti rúma 5 milljarða í eigið fé samkvæmt ársreikningi sem kom út í apríl 2009 þar sem tekið hafði verið tillit til Hrunsins. Eiginfjárhlutfallið var undir lögbundnu lágmarki og því fékk Sparisjóður Keflavíkur undanþágu til að lagfæra eiginfjárhlutfallið. Sparisjóðurinn starfaði síðan á undanþágu í eitt ár með stórtapi.

Í apríl 2010 stofnaði Seingrímur J. nýjan sparisjóð SpKef, sem var að öllu leyti í eigu ríkisins. Fjármálaráðherrann Steingrímur J var eini stofnfjáreigandinn og fór með öllu völd. Eignir sem færðar voru í þetta nýja fjármálafyrirtæki Steingríms J. áttu að vera umfram skuldir.

SpKef sparisjóður Steingríms J starfaði í 11 mánuði án þess að uppfylla kröfur um lögbundið eiginfjárhlutfall, en slíkt er augljóst lagabrot.  SpKef tapaði stórfé á þessu tæpa ári sem Steingrímur J rak sparisjóðinn.

Kostnaður ríkisins vegna SpKef var rúmir 25 milljarðar en þá er eftir að telja nokkra kostnaðarliði.

Með því að reka Sparisjóð Keflavíkur og SpKef í 2 ár olli Steingrímur J ríkissjóði tjóni sem nemur að lágmarki 25 milljarða króna. Auk þess varð þetta brölt Steingríms J til mismuna samkeppnisaðilum á fjármálamarkaðinum.

Er ekki kominn tími til að stjórnarandstaðan leggi fram vantrausttillögu á þennan ráðherra. Þetta er bara eitt dæmi sem sýnir að Steingrímur er okkur dýrari en Icesave. Þrátt fyrir að þjóðinni hafi tekist að koma í veg fyrir að hann velti yfir á þjóðina hundruðum milljarða skuldbindingum vegna Icesave sem þjóðin bar aldrei ábyrgð á.


Til hamingju Ísland.

Við getum vissulega óskað hvort öðru til hamingju íslendingar vegna sigurs í ICESAVE málinu. 

Það eru einkum tveir menn sem öðrum fremur komu fram með þeim hætti að Ísland samdi ekki af sér með því að samþykkja ICESAVE samninga ríkisstjórnarinnar, Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og Ólafur Ragnar Grímsson forseti lýðveldisins.

Allt frá upphafi var Davíð Oddsson sannfærður um það að Íslandi bæri ekki að greiða vegna ICESAVE og fór hamförum gegn samningum ríkisstjórnarinnar svo sem honum einum er lagið. Með skrifum sínum og andstöðu hafði Davíð þau áhrif að mikill meiri hluti þjóðarinnar snérist gegn samningum ríkisstjórnarinnar. Ólafur Ragnar Grímsson neitaði ítrekað að samþykkja vilja merihluta Alþingis. Sú afstaða forsetans hefur nú fengið verðskuldaða réttlætingu með dómi EFTA dómstólsins.

Dómur EFTA dómstólsins leiðir til þess að við losnum undan milljarðasúpunni sem ríkisstjórnin vildi að við greiddum. Þó þeir Davíð og Ólafur hafi orðið merkisberar baráttunnar gegn því hryðjuverki sem ríkisstjórnin vildi vinna þjóðinni þá eiga ýmsir aðrir einnig mikinn heiður skilið og skal hér látið nægja að minnast á framlag þeirra Stefáns Más fyrrum prófessors og Lárusar Blöndal lögmanns sem og Indefense hópsins.

Eftir stendur að ríkisstjórn Íslands og meirihluti Alþingis getur ekki hlaupist undan því að hafa viljað leggja óbærilegan skuldaklafa á íslensku þjóðina, sem framsýnir og glöggir menn eins og Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson gátu með hörku og einbeitni komið í veg fyrir.

Er ekki rétt að þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon axli ábyrgð og segi af sér ekki síðar en þegar í stað?


Jón Ásgeir fékk ekkert út út málsókninni.

Það er lærdómsríkt að fylgjast með hvernig fjölmiðlar gera grein fyrir fréttum. Þegar Hæstiréttur felldi dóm í máli Björns Bjarnasonar gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni mátti fyrirfram búast við að fjölmiðlar sem eru undir handarjaðri Jóns Ásgeirs mundu gera hlut hans sem hagfelldastan, en að hluta til var það ekki alveg rétt þó tilburðir væru í þá áttina.

Í einfaldleik sínum snérist málið um það að Jón Ásgeir Jóhannesson krafðist þess að ákveðin ummæli í bók Björns Bjarnasonar "Rosabaugur yfir Íslandi" yrðu dæmd dauð og ómerk, Björn yrði dæmdur til refsingar, til að greiða Jóni miskabætur, greiðslu til að birta dóminn og málskostnað. Af hálfu Björns var krafist sýknu og á það bent að þau ummæli sem um væri að ræða hefðu þegar verið ómerkt af Birni sjálfum þar sem hann hafði birt yfirlýsingu á netsíðu sinni og yfirlýsingu í Morgunblaðinu þar sem hann leiðrétti ummælin.

Niðurstaðan í Hæstarétti er sú að Björn var sýknaður af öllum ávirðingum Jóns Ásgeirs. Þau ummæli sem Björn hafði þegar lýst dauð og ómerk voru ómerkt. Eftir því sem næst verður komist vegna þess að eintök úr 1. prentun þar sem umrædd ritvilla sem Jón Ásgeir gerði svona mikið úr voru ekki innkölluð.

Málið er ekki flóknara. Jón Ásgeir fékk ekkert þegar upp er staðið út úr málinu. Hann var á sama stað og þegar hann lét lögmann sinn byrja málareksturinn gegn Birni. Björn hefur hins vegar fengið staðfestingu á því að afsökunarbeiðni hans á ritvillunni í bókinn var fullnægjandi og dómsvaldið gerir ekki frekari athugasemdir við það.  Miðað við þá niðurstöðu hefði mátt ætla að fyrirsagnir annarra fjölmiðla en heyra undir Jón Ásgeir hefði verið eitthvað á þessa leið:

"Björn vann málið gegn Jóni Ásgeiri"   "Jón Ásgeir náði engu fram í málarekstri gegn Birni Bjarnasyni" eða eitthvað ámóta.

Þess vegna er athyglisvert að sjá með hvaða hætti fréttastofa Ríkisútvarpsins sem rekið er fyrir fé skattgreiðenda greindi frá málinu en þar sagði:

"Dómur Hæstaréttar er að nokkru samhljóma niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, það er að segja að því leyti að tvenn ummæli eru ómerkt. Þau fjalla annars vegar um hvernig brot Jón Ásgeir hafi verið dæmdur fyrir í Baugsmálinu og hins vegar ummæli sem dómurinn taldi villandi um fyrir hversu marga ákæruliði hann hefði verið dæmdur. Hæstiréttur kemst hins vegar sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að greiða miskabætur en Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Björn til að greiða Jóni Ásgeiri 400 þúsund krónur í miskabætur auk hálfrar milljónar í lögfræðikostnað. Hæstiréttur lætur hvorn um sig, Björn og Jón Ásgeir, bera sinn málskostnað."

Fréttastofa Ríkisútvarpsins kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að það sé grundvallarmunur á niðurstöðu héraðsdómara og Hæstaréttar að þá sé dómur Hæstaréttar að nokkru samhljóða Héraðsdómnum.  Sérkennilegt að fréttastofa allra landsmanna skuli ítrekað lesa jafnvitlaust í einföld aðalatrði einkum þegar forustumenn í Sjálfstæðisflokknum eiga í hlut.


Prófkjör og verðtrygging

Á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins var mörkuð sú stefna að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa með sanngirni niður óeðlilegar hækkanir á verðtryggðum lánum. Þetta var mikilvæg samþykkt, en efnir þingflokksins hafa ekki verið í samræmi við einróma samþykki Landsfundarins.

Einn af þeim mönnum sem harðast barðist fyrir því að ná fram samþykkt Landsfundarins um afnám verðtryggingar og niðurfærslu höfuðstóla var sr. Halldór Gunnarsson. Sr. Halldór hefur verið óþreytandi bráttumaður í og fyrir Sjálfstæðisflokkinn í marga áratugi. 

Sr. Halldór gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hann á skilið stuðning þeirra sem vilja ná fram breytingu á lánakjörum til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki í landinu. 

Það skiptir máli að fá öruggan og hreinskiptinn málsvara gegn verðtryggingunni í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Andstæðingar verðtryggingarinnar eiga því kost á því að styðja sr. Halldór og  ber skylda til vilji þeir leggja þessu mikilvæga málefni lið.

Auk sr Halldórs Gunnarssonar hefur Halldór B. Jóhannesson hagfræðingur tekið upp baráttuna gegn verðtryggingunni og skrifað eftirtektarverðar greinar um nauðsyn þess að verðtryggingin verði afnumin.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi eiga þess því kost að kjósa með stefnu flokksins gegn verðtryggingu og verðbólgu. 


Ólafur Ragnar fordæmir Níðhögg

Níðhöggur var ormurinn nefndur sem nagaði rætur Yggdrasils, lífsins tré í Ásatrú.

Gordon Brown var  Níðhöggur þegar hann vó að fullveldi og afkomu Íslands í kjölfar bankahrunsins. Ólafur Ragnar Grímsson Forseti lýðveldisins á þakkir skildar fyrir að fordæma Níðhögginn Gordon Brown. Slík fordæming hefði átt að koma strax og Bretar beittu hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi.

Við Guðni Ágústsson höfum nýlega vakið á því athygli í tveim greinum í Morgunblaðinu, að Bretar beittu hryðjuverkalögunum án þess að hafa nokkrar forsendur til þess og hafa aldrei getað komið með réttlætingu á þeirri aðför að frjálsu fullvalda bandalagsríki. Við vöktum líka athygli á nauðsyn þess að slíta stjórnmálasambandi við Breta í kjölfar þessarar aðfarar og taka málið upp á vettvangi NATO og Sameinuðu þjóðanna og gera bótakröfu á hendur Bretum fyrir þessa tilhæfulausu aðför að Íslandi.

Nú hefur Forseti lýðveldisins réttilega vakið athygli á ábyrgð Gordon Brown og á hann miklar þakkir skildar fyrir að gera það að þessu ómenni viðstöddu. Í kjölfar réttmætrar og skörulegrar málafylgju Forsetans ber þinginu að samþykkja að krefjast réttmætra bóta vegna þess níðhöggsins sem Níðhöggur Brown og félagar hans beittu Ísland þegar verst stóð á.


Dögun að kvöldi komin

Bræðingurinn sem nefnir sig Dögun virðist búinn að vera. Lýður Árnason sem hefur verið fyrirliði í þessum hópi hefur gefst upp og þá er lítið eftir.

Að Dögun standa Borgarahreyfingin, Hreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn. Þrátt fyrir það hefur bræðingurinn aldrei náð neinu fylgi samkvæmt skoðanakönnunum og eftir því sem forsvarsmenn Dögunar hafa kynnt sig meir þá hefur fylgið dvínað í réttu hlutfalli. 

Þeir sem hafa verið hvað mest áberandi talsmenn Dögunar eru æstustu stjórnlagaráðsliðarnir eins og Þorvaldur Gylfason, Lýður Árnason og  Gísli Tryggvason sem sóma sér vel í samfélagi við Þór Saari sem hefur fjallað um stjórnarskrána af álíka skörpum skilningi og þeir.  Þorvaldur mun hafa gengist inn á það að bjóða sig fram fyrir Dögun en horfið frá því þegar hann sá að fylgið dvínaði jafnt og þétt og nú stendur Gísli Tryggvason einn eftir og ætlar enn í framboð  í Norð Austur kjördæmi þó að Dögun sé að kvöldi komin. 

Fróðlegt verður að sjá hvað verður um þennan bræðing sem hangir helst saman á nokkrum tugum milljóna sem Borgarahreyfingin á í sjóði, sem hefur aðallega verið notaður til að greiða framkvæmdastjóranum Andreu Ólafsdóttur launin sín ásamt auglýsingum um fundarhöld hennar og nokkurra annarra sem ætla í framboð.

Talað er um að Kristinn H. Gunnarsson sem gefur kost á sér í Norð-Vesturkjördæmi fyrir Dögun muni flytja líkræðuna yfir  Dögun enda er hann á móti öllum helstu stefnumálum Dögunar,  en ætlar samt að bjóða sig fram til Alþingis fyrir bræðinginn.

 


Hvers konar flokkur er Samfylkingin?

Það var athyglisvert að hlusta á frambjóðendur til formennsku í Samfylkingunni í Kastljósi í kvöld. Þeir sögðust hafa komið sér saman um að segja ekki neitt sem máli skiptir. Í sjálfu sér er það í samræmi við málflutning flokksins á kjörtímabilinu.

Athyglisvert var þó að heyra að báðir frambjóðendurnir eru logandi hræddir við gamla afturhaldið í flokknum, sem Jóhanna er í forsvari fyrir og Guðbjartur raunar arftaki þeirra sem hugsa með svipuðum hætti. Það vantaði ekkert á málflutning Guðbjarts annað en hann mælti fyrir þjóðnýtingu, en þá hefði hann verið með nákvæmlega sömu stefnu og róttækir sósíalistar um miðja síðustu öld. Raunar virðist Guðbjartur holdgervingur slíkra sjónarmiða nema þegar kemur að launamálum á Landsspítalanum.

Ef stefna og málflutningur Samfylkingarinnar undanfarin ár er skoðuð kemur í ljós að Samfylkingin er til vinstri við sósíaldemókratíska flokka á Norðurlöndunum, Þýskalandi og Bretlandi og frá forustumönnum flokksins heyrast iðulega sjónarmið sem eru fjandsamleg frjálsri markaðsstarfsemi, sem er fáheyrt meðal nútíma jafnaðarmanna í Evrópu. Að vísu örlaði á smá skilningi á nútímalegri jafnaðarstefnu hjá Árna Páli og það kann að vera þess vegna sem undirsáti Jóns Gnarr, Dagur B. Eggertsson kallar hann sportbíl en Guðbjart Volvo. En Dagur þessi virðist ekki átta sig á að Vovo framleiðir ekki bara þunga sleða eins og Guðbjart heldur líka sportbíla.

Samfylkingin er eini flokkurinn í Evrópu sem kallar sig sósíaldemókratískan sem dettur í hug að ætla að knýja fram stjórnarskrárbreytingar án þess að eðlileg vinna og skoðun á stjórnarskrármálinu hafi farið fram og  í fullri andstöðu við stóran hóp þjóðarinnar. Fullyrða má að engin sósíaldemókratískur flokkur í Evrópu mundi láta sér detta þetta til hugar nema Samfylking Jóhönnu Sigurðardóttur ef hægt er þá að kalla flokkinn sósíaldemókratískan undir forustu Jóhönnu.

Það voru vonbrigði að annars góður sjónvarpsmaður Helgi Seljan skyldi ekki spyrja formannsframbjóðendurna um afstöðu þeirra til þessa makalausa rugls sem tillögur stjórnlagaráðsins eru sem Jóhanna reynir að troða ofan í kok á þjóðinni.  Sjálfsagt hefðu þeir sagt eins og varðandi aðrar spurningar að þeir hefðu komið sér saman um að hafa ekki afstöðu í málinu og fólk yrði að finna það sjálft út hvað þeir vildu.

Óneitanlega sérkennilegir stjórnmálamenn og frambjóðendur sem geta ekki tjáð sig um það sem þeir vilja í pólitík og gera fólki ekki grein fyrir því af hverju það á að kjósa þá. Til hvers eru þeir eiginlega að bjóða sig fram til formennsku í þessum persónuleikalausa flokki?

 


Lánaokrið á Íslandi og lánamarkaðurinn í Englandi

Í laugardagsblaði Daily Telgraph er sagt frá því að íbúðaverð hafi lækkað í Englandi og vextir séu nálægt sögulegu lágmarki og búist við enn meiri lækkun.

Í greininni segir m.a. að Yorkshire Building Society hafi lækkað vexti nýlega á fasteignaveðlánum niður í 1.99% ársvexti og því spáð að þessir vextir geti farið niður í 1.15% ársvexti. Að sjálfsögðu óverðtryggt þó að verðbólga í Bretlandi sé um og yfir 2%

Loks er sagt frá því að meðalvaxtagjöld séu nú 3.38% ársvextir á fasteignaveðlánum.

Í Brelandi dettur engum í hug að taka upp verðtryggingu. Þar áttar fólk sig á að þegar verð á fasteignum lækkar þá verður líka að lækka vexti á fasteignaveðlánum.

Skrýtið að við hér í sérleiðunum okkar skulum ekki átta okkur á því að það er ekki hægt að misbjóða neytendum endalaust og láta þá borga langhæstu vexti í Evrópu og búa við verstu lánakjör. Við byggjum ekki upp velferðarþjóðfélag með þeim hætti.

Með verðtryggðum lánum á okurvöxtum eyðileggjum við möguleika fólks til að rísa úr fátækt til bjargálna og fleiri og fleiri fara úr landi til að sækja sér viðunandi afkomu og lífskjör.

Er ekki tími til kominn fyrir unga Ísland og framtíðna að afnema verðtryggingu á neytendalánum og taka upp sambærilega lánastarfsemi og í nágrannalöndunum? 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 823
  • Sl. viku: 5766
  • Frá upphafi: 2472436

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 5251
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband