Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Hækkaði höfuðstóll lánsins þíns um 340 þúsund?

Verðbólga mælist 4.6%. Frá því var sagt að meðal verðtryggt lán fjölskyldna í landinu væri um 22 milljónir og höfuðstóll þess mundi hækka um 340 þúsund um þessi mánaðarmót. 

Eignir fólksins í landinu eru étnar upp af verðtryggingunni. 22 milljóna lánið verður 1.mars 22.340.000 og þann 1.apríl haldi fram sem horfir 22.700.000.- Þetta er glórulaus vitleysa og rán frá fólkinu.

Á 4 árum hefur verðtryggingin hækkað lánin um 400 milljarða. Verðmæti alls fiskafla landsins í á þeim tíma eru um 500 milljarðar.  Fiskurinn er helsta auðlind okka.  Þetta sýnir að það er engin virðisauki í þjóðfélaginu sem stendur undir þessu eða réttlætir þetta lánaokur.

Fólkið tapar eignum sínum. Greiðsluvandi verður meiri. Eignastaða banka og lífeyrissjóða uppfærist en það eru falskar eignir sem eru ekki til.  Gjaldþrota Íbúðalánasjóður ætti að segja verðtryggingarblindingjunum að þetta gengur ekki  þetta er ekki hægt. Verðtryggingin er þjóðhættulegt fyrirbæri og fjandsamleg eðlilegri efnahagsstarfsemi og gerir fólk að öreigum.

Meðan  verðtryggingarruglinu er haldið áfram þá er ekki hægt að koma hér á eðlilegri þjóðfélagsstarfsemi. Útilokað að það verði kaupmáttur eða fjármagn sem geti komið okkur út úr sívaxandi og harðnandi kreppu með auknum fólksflótta.

Verðtryggingarfurstarnir verða að skila ránsfengnum til fólksins. Annars er hætt við því að þeir tapi á endanum öllu sínu sínu eins og fólkið í landinu.


Flórinn hans Steingríms J. og Jóhönnu.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon dæsa mæðulega og andvarpa þegar þau eru spurð erfiðra spurninga af fjölmiðlum og svara síðan staðlað "Já en það varð hrun" og "Við þurftum að moka flórinn eftir Íhaldið og Framsóknarflokkinn"

Staðreyndin er nú samt sú að hér urðu helstu viðskiptabankarnir gjaldþrota, en þjóðfélagið hélt áfram vegna neyðarlaganna og réttra viðbragða og vinnubragða.  Þannig tókst að afstýra hruni. Flórinn sem þau vitna í hefur aldrei verið skilgreindur. En hvað skilja þau Jóhanna og Steingrímur eftir sig.

Seðlabankinn keypti nýlega evrur á gjaldeyrisútboði á 233 krónur. Opinbera gengið var þá 167 krónur. Gengi krónunnar er því skráð um 30-40% of hátt.

Kaupmætti er haldið uppi með falskri gengisskráningu.

Verðbólga hefur verið viðvarandi allt kjörtímabilið og fer nú vaxandi.

Heildarskuldir ríkisins eru yfir 1500 milljarðar auk 500 milljarða króna skuldbindingar vegna lífeyrisréttinda og Íbúðalánasjóðs.  Hver á að takast á við vanda 2 þúsund milljarða skulda ríkisins?

Vaxtakostnaður ríkisins er 90 milljarðar á ári eða andvirði helmings verðmætis fiskafla úr sjó við Ísland árlega. Hver á að takast á við þann vanda og leysa hann.

Seðlabankastjóri lýsir því yfir að Íbúðalánasjóður sé í raun gjaldþrota hver á að takast á við það.

Vandi skuldsettra heimila vegna verðtryggingarránsins er algjörlega óleystur hver á að leysa það.

Jóhanna og Steingrímur hafa ekki mokað neinn flór. Þau hafa því tafið þá uppbyggingu sem var hafin þegar Samfylkingin ákvað að gera byltingu með VG í janúar 2009 til að tryggja sér völd og aukin áhrif. 

 Það þarf kjark, dugnað og áræði til að takast á við þau vandamál sem þetta ólánsfólk skilur eftir sig og það verður ekki létt verk að hreinsa þá rotþró.


Sjálfstæðisflokkurinn á móti verðtryggingu?

Ýmsir lásu það út úr lokaafgreiðslu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins að við andstæðingar verðtryggingarinnar hefðum ekki haft neina eftirtekju af baráttunni gegn verðtryggingu og fyrir sambærilegu lánakerfi og í nágrannalöndum okkar. Þetta er hins vegar nokkur misskilningur. Þó ég hefði persónulega kosið ákveðnari ályktun gegn verðtryggingunni, þá felst samt í ályktun Landsfundar sem samþykkt var með nánast öllum greiddum atkvæðum að verðtrygging verði lögð af og skuldavandi heimilanna verði leystur með almennum aðgerðum, en ekki sértækum. Þannig segir í ályktun Landsfundar:

"Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verði markvissar aðgerðir til að bregðast við greiðslu- og skuldavanda heimilanna með almennum aðgerðum Þessi aðgerð er mikilvæg forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags. Framtíðarskipan húsnæðis- og neytendalána þarf að taka mið af ríkjandi neytendaverndarreglum innan EES sem Ísland hefur þegar lögleitt. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðikaupa sem getur leitt til þess að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar."

Meginatriðin sem þarna koma fram er í samræmi við ályktunartillögu sem við lögðum fram og þýðir að stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu er þessi m.a. 1. Miðað er við sambærilegt lánakerfi og í nágrannalöndum okkar. 2. Almennar aðgerðir til lausnar skuldavanda heimilanna. 3. Afnám verðtryggingar, en neytendareglur EES mundu ekki heimila verðtryggð lán með þeim hætti sem nú er gert. 

Þessi atriði eru mikilvæg auk þess að skoða önnur ákvæði svo sem ákvæði í stjórnmálaályktun og víðar um að verðtrygging verði ekki almenn regla í lánaviðskiptum við neytendur.

Með þessu er í raun verið að segja að verðtryggingin verði ekki lengur valkostur í neytendalánum eins og við vildum að yrði sagt beinum orðum en ekki með hringleiðum.

En dropinn holar steininn og nú hefur forusta Sjálfstæðisflokksins skuldbundið sig með því að flytja þá málamiðlunartillögu sem þýðir afnám verðtryggingar í raun, til þess að vinna að hagsmunamálum heimilanna og til að leysa skuldavandann með þeim hætti að verðtrygging verði afnumin og skuldavandinn leystur með almennum aðgerðum.

Það er bara til ein almenn aðgerð í þessum málum og hún er að færa niður höfuðstóla innheimtanlegra skulda þannig að þær verði viðráðanlegar fyrir venjulegt fólk og verðtryggða ránsfengnum verði skilað til baka.

Sjálfstæðiflokkurinn afgreiddi ályktun með loðnu orðalagi sem verður ekki skýrð með öðrum hætti en þeim þegar hún er lesin í heild en að verðtrygging verði afnumin og almenn niðurfærsla skulda eigi sér stað.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ættu því að geta myndað velferðar- og viðreisnarstjórn til að afnema verðtrygginguna og leiðrétta skuldir heimilanna með almennri niðurfærslu svo fremi þeir fái fylgi til þess. Þeir eru skuldbundnir kjósendum að gera það.


Hvað þýðir að draga úr vægi verðtryggingar?

Öðru hvoru reyna stjórnmálamenn sem hafa svikið loforð sín um að afnema verðtryggingu á neytendalánum að klóra í bakkann og segjast vilja draga úr vægi verðtryggingar. Í dag sagði Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra þetta.  Þetta hjal hefur enga merkingu í raun.

Dregið hefur úr verulega úr vægi verðtryggingar á þessu kjörtímabili ekki vegna þess að stjórnmálamenn hafi gert neitt heldur vegna þess að neytendur vilja ekki taka verðtryggð lán. Þeir vita að það eru dýrustu og verstu lán í heimi. Spurningin er að afnema verðtrygginguna á neytendalánum. Annað hefur ekki merkingu.

Verðtryggð lán til neytenda samrýmist ekki leikreglum þess fjármálakerfis sem við erum aðilar að. Ætlum við samt að halda í verðtrygginguna? Verðtryggð lán mundu ekki fást samþykkt ef setja ætti þau á í dag. Þau eru ósamrýmanleg reglum um neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu. Ætla menn samt að halda þessu áfram?

Eitt er að afnema og annað að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla. Þeir sem á annað borð vilja gæta hagsmuna neytenda ættu að sameinast um það að afnema verðtryggingu á neytendalánum strax. Svo er það flóknara úrlausnarefni að færa niður stökkbreytta höfuðstóla en það verður samt að gera til að Ísland komist sem fyrst út úr kreppunni.

Verðtrygging eykur verðbólgu og étur upp eignir fólks. Verðtrygging er óréttlát gagnvart lántakendum og þess vegna getur hún ekki verið valkostur í þjóðfélagi sem vill gæta réttlætis, sanngirni og jafnréttis borgaranna.


Aðförin að stjórnarskránni misheppnast.

Aðförin sem gerð hefur verið að stjórnarskránni á þessu kjörtímabili er nú endanlega runnin út í sandinn. Þór Saari sækist eftir því að flytja líkræðuna til að ná forskoti fyrir Dögun á Lýðræðisvaktina eða hvað þeir nú heita nýjustu skemmtikraftarnir með formanninn sem klæðir sig til höfuðsins sem kúreki norðursins.

Aðförin hófst með því að hópur fólks með viðskiptafræðiprófessor í broddi fylkingar hrópaði að Hrunið væri stjórnarskránni að kenna. Á þeim tíma var þessi prófessor í nokkrum metum. Nú sjá fleiri og fleiri að þessir menn eru naktir vitrænt eins og keisarinn í Nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen. Rök þeirra halda ekki.

Við erum með góða stjórnarskrá. Sambærilega þeim sem eru í nágrannalöndum okkar. Nauðsyn ber til að skoða nokkur ákvæði hennar t.d. varðandi þjóðaratkvæði, eignarráð og ráðstöfun auðlinda, en engin þörf var á að umbylta stjórnarskránni. Slík aðför hefði haft slæmar afleiðingar hefðu bestu menn ekki komið í veg fyrir það. 

Eftir að álit Feneyjarnefndarinnar lá fyrir og allir málsmetandi lögfræðingar landsins höfðu varað við samþykkt stjórnlagafrumvarpsins sem Valgerður og Jóhanna rembast enn við að styðja varð ljóst að Alþingi mundi ekki samþykkja þetta ólánsfrumvarp.

Athyglisvert er, að helsta stuðningsfólk aðfararinnar að stjórnarskránni var líka stuðningsfólk Icesave landráðasamninganna. Ef til vill segir það einhverja sögu.


Hroki háskólakennarans

Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, hefur í Fréttablaðinu dregið upp ófagra mynd af verkum Gylfa Magnússonar sem ráðherra og stjórnarmanns í Orkuveitunni. Lítið hefur orðið um efnisleg svör hjá Gylfa. Einhverjir fjölmiðlar sögðu þó að hann bæðist „afsökunar“ á að hafa hótað íslendingum „Kúbu norðursins“. En á hverju baðst Gylfi afsökunar?

Gylfi baðst ekki afsökunar á tilraunum til að þvinga skuldaklafa á þjóðina með landráðasamningum. Gylfi baðst einungis afsökunar á samlíkingu við „Kúbu“, sem hefur verið mönnum aðhlátursefni. Ummælin sem Gylfi kallar „vanhugsuð og kjánaleg“ voru þó einkennandi fyrir yfirlætisfulla framgöngu hans sem ráðherra.

Full ástæða er til að skoða náið Icesave-landráðasamningana og tilraunir ráðherra til að þvinga þeim upp á þjóðina. Ekki síður þarf að rannsaka stjórnskipulega ábyrgð Gylfa á milljarðasóun opinbers fjár vegna  VBS, Saga Capital, Askar Capital, Sparisjóðs Keflavíkur, Byr sparisjóðs, SpKef og Byr hf. Jafnframt þarf að skoða vinnubrögð við sölu bankanna til vogunarsjóða,  galna uppgjörssamninga vegna Landsbankans og ranga upplýsingagjöf til Alþingis.

Gylfi Magnússon, sem talaði niður til þjóðarinnar, tók ríkan þátt í hrunadansinum. Hann sat í stjórn Kauphallarinnar á meðan bólan byggðist upp. Hann leyfði viðskiptablokkum og auðhringjum að leika lausum hala sem formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins. Hann setti Kaupþing og bankamenn á sérstakan stall, sem formaður dómnefndar útflutningsverðlauna forseta Íslands, þegar hann veitti þeim verðlaun fyrir útrásina og viðskiptasnilld.  Gylfi sagði  m.a. í umsögn dómnefndar um Kaupþing: „Fyrirtækið fer fremst í öflugri útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og hefur vakið athygli fyrir framsækin og arðbæran rekstur“!

Svo gerðist þessi maður helsti byltingaforinginn í búsáhaldabyltingunni og talaði á útifundum á Austurvelli um vonda kapítalista og ábyrgðarlaust fólk. 


Andlitslyfting Vinstri grænna í anda Pútíns

Steingrímur J. Sigfússon er klókur stjórnmálamaður. Hann áttar sig á því að hann hefur glastað trausti sem stjórnmálamaður og glutrað niður fylgi Vinstri grænna. Stór hluti þingflokksins hefur yfirgefið flokkinn á kjörtímabilinu.  Hvað átti Steingrímur að gera annað en taka Pútín bragðið.

Medvedev Vinstri grænna í líki Katrínar Jakobsdóttur kom fram nokkrum klukkustundum eftir afsögn Steingríms og sagðist ætla að taka við. Þannig að Gerska ævintýrinu er ekki lokið og enn tekur þessi arftaki Kommúnistaflokks Íslands fyrirmyndir austan frá Volgubökkum. 

Steingrímur J. segir að kjósendur séu svo vitlausir. Þeir skilji ekki hvað hann og Jóhanna séu búin að leiða þjóðina farsællega þess vegna ætlar hann að hætta.  Sem stjórnmálamaður hefur Steingrímur glatað öllu trausti ekki vegna þess hve kjósendur séu vitlausir. Kjósendur dæma Steingrím af verkum sínum eins og þeim að afsala Arion og Íslandsbanka til erlendra vogunarsjóða. Eyða 50 milljörðum í gjaldþrota sparisjóði, kaupa tryggingarfélag fyrir á annan tug milljarða. Síðast en ekki síst reyna ítrekað að koma hundraða milljarða skuldaklafa á fólkið í landinu með Icesave landráðasamningum.  Steingrímur er rúinn trausti og fylgi vegna þess að kjósendur eru ekki eins heimskir og hann lætur í veðri vaka.

Katrín Jakobsdóttir er velmeinandi kona. Það er ekki samasem merki á milli þess og vera góður stjórnmálamaður. Það sem Katrín hefur sýnt af sér er nánast ekki neitt þrátt fyrir fjögurra ára setu sem ráðherra í ríkisstjórn. Hún er þekkt fyrir að segja þegar hlutir eru komnir fram yfir síðasta söludag ákvarðana að hún sé búin að setja málið í ferli. Þekktasta ferlisverkið er stjórnkerfi Hörpunar sem hún setti í ferli þegar Hörpuhneykslið var afhjúpað fyrir ári. Síðan þá hefur stjórnkerfið ekkert breyst og ekkert fréttist af ferlisverki Katrínar frekar en öðrum slíkum á hennar borði eða snöfurmannlegum ákvörðunum ráðherrans.

Skyldi þessi andlitslyfting í anda Pútín bjarga Vinstri grænum frá algjöru afhroði í  kosningunum.


Ný stjórnmálasamtök í burðarliðnum

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor sem heldur að alþjóðlega fjármálakreppan sé íslensku stjórnarskránni að kenna, ætlar að stofna ný stjórnmálasamtök á morgun.

Stofnfundurinn verður í leyndum. Jafn fínt fólk og Þorvaldur og félagar vilja að sjálfsögðu ekki fá hvern sem er svo að ekki verði komið frekara óorði á stjórnmálasamtökin.

Þeir sem helst eru nefndir með Þorvaldi sem sporgöngumenn eru nokkrir stjórnlagaráðsliðar. Þar fara fremstir þeir Lýður Árnason, Örn Báður Jónsson og Pétur Gunnlaugsson allt flóttamenn úr Dögun eins og Þorvaldur, en hann tók þátt í rútuferð um landið fyrir nokkru til að fá fólk til að kjósa Dögun. 

Svo skildu leiðir með Dögn og Þorvaldi,  þegar Þorvaldur ákvað að standa vörð um verðtrygginguna.

Auk stjórnlagaráðsliðanna sem nefndir eru til sögunnar sem stofnendur nýju stjórnmálasamtakanna eru  Kristinn H. Gunnarsson sem má ekki heyra góðs framboðs getið án þess að tilkynna framboð sitt fyrir það og Grétar Mar Jónsson sagðir vera með. Óvíst er þó að Þorvaldi finnist þeir Grétar Mar og Kristinn nógu fínir til að mæta á stofnfundinn í svona flottum klúbb þó hafa megi af þeim gagn síðar.

Þjóðin bíður spennt eftir því að þeir endurlausnarar og snillingar sem þarna koma við sögu geti haldið áfram að telja þjóðínni trú um að fall bankans Lehman Brothers hafi verið íslensku stjórnarskránni að kenna.


Aðförin að stjórnarskránni. Það liggur mikið á.

Ef til vill væri ekki úr vegi að Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnarskrárnefndar Alþingis rifjaði upp sjónarmið merkasta stjórnmálaleiðtoga Íslands á síðustu öld.  Bjarna Benediktssonar fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.

Í ræðu sem Bjarni Benediktsson hélt árið 1953 um stjórnarskrármálið gerði hann grein fyrir tillögum Sjálfstæðismanna um breytingar á stjórnarskránni en sagði síðan:

"Ég legg áherslu á að stjórnarskrármálið er mál sem ekki má eingöngu, eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði. Það er alþjóðarmál, sem meta verður með langa framtíð fyrir augum, en ekki hvað kemur tilteknum flokki að gagni um stundarsakir." 

Síðar í ræðunni segir Bjarni:

"Ég hef ætíð talið að það skipti ekki öllu máli, hvort stjórnarskrárbreyting yrði afgreidd árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti, að þjóðin áttaði sig til hlítar á, um hvað væri að ræða, og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um, svo að hin nýja stjórnarskrá gæti orðið hornsteinn hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð."

Væri ekki rétt að fylgja þessum sjónarmiðum við stjórnarskrárbreytingar nú. Einkum þegar hrákasmíð frumvarps um breytingar á stjórnarskrá,  sem nú liggur fyrir Alþingi  hefur fengið falleinkun bæði frá helstu fræðimönnum á Íslandi, Feneyjarnefndinni auk Umboðsmanns Alþingis.

Það verður að afstýra þessu háskalega upphlaupi sem aðförin að stjórnarskránni er.


Sérfræði nei takk

Valgerður Bjarnadóttir er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Sú nefnd hefur helst fjallað um tillögur til breytinga á stjórnarskránni. Í gær gaf hún lítið fyrir sérfræðilega vinnu við stjórnarskrána.

Tilefnið var að Feneyjarnefndin skilaði athugasemdum við tillögur til breytinga á stjórnarskrá.  Athugasemdir Feneyjarnefndarinnar voru margar og þegar álit nefndarinnar er skoðað þá kemur í ljós að bak við kurteislegt orðfæri sem svona fjölþjóðlegar nefndir nota jafnan þá gefur Feneyjarnefndin  stjórnarskrártillögunum algjöra falleinkunn. 

Valgerði Bjarnadóttur þingmanni Samfylkingarinnar fannst af því tilefni rétt að taka fram sérstaklega aðspurð um álit Feneyjanefndarinnar að í nefndinni sætu lögfræðingar sem væru eins og lögfræðingar almennt en ekki væri mikið gefandi fyrir slíka pótintáta. Þeir væru sérfræðingar í lögum en töluðu ekki eins og almenningur.

Valgerður ráðleggur þá sennilega fólki í samræmi við þetta álit sitt á sérfræðingum að rétt sé að leita til pípulagningarmanna við magakveisu af því að magalæknar tali mál sem almenningur skilur ekki og fyrirtak sé að trésmiðir taki að sér lýtalækningar. Þetta er þó sagt með fullri virðingu fyrir sérfræðiþekkingu pípulagningamanna og trésmiða.

Í samræmi við þetta álit formannsins þegar um mikilvægustu löggjöf landsins stjórnarskrána er að ræða þá er rétt að leggja af allar sérfræðinefndir sem eiga að vera Alþingi til ráðuneytis um vandað löggjafarstarf og segja upp lögfræðingum sem starfa fyrir Alþingi. Þeir þvælast sennilega bara fyrir að mati formannsins.

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 14
  • Sl. sólarhring: 426
  • Sl. viku: 4230
  • Frá upphafi: 2449928

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 3941
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband