Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Þegar heiftin tók yfir

Björgvin G. Sigurðsson fyrrum viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar segir að með setningu neyðarlaganna í október 2008 hafi tekist að koma í veg fyrir altjón og algjöra upplausn í samfélaginu. Síðan lýsir hann því myrka tímabili þegar pólitískur hefndarleiðangur Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og taglhnýtinga þeirra hófst með þessum orðum:   

"Síðan þegar heiftin tók yfir og pólitískir hefndarleiðangrar þeirra sem með ráðin fóru eftir kosningar hófust þá tók við skuggalegt og dapurlegt tímabil." 

Síðar einnig:  

"Þó maður hafi vissulega einnig séð inní myrkari hliðar í sálarlífi margra, ekki síst í eftirmál efnahagsvandans þegar sökudólgaleitin var í algleymingi sem endaði með einkar snautlegum hætti fyrir þá sem fyrir henni fóru.

Loks segir Björgvin:

Sú stjórn (Jóhönnu Sig) byggði sitt starf á neyðarlögunum og samstarfinu við AGS sem ríkisstjórn Geirs Haarde stóð að. Á því grundvallast efnahagsbatinn og staðan nú."  

Hér talar einn af forustumönnum Samfylkingarinnar og bendir á þessar mikilvægu staðreyndir: 

1.  Ríkisstjórn Geirs H. Haarde tóks að koma í veg fyrir altjón í þjóðfélaginu

2.  Sá bati sem náðist í efnahagsmálum í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur er að þakka þeirri stefnu sem mótuð var af ríkisstjórn Geirs H. Haarde

3.  Pólitískur hefndarleiðangur undir forustu Steingríms J og Jóhönnu fór af stað. Afleiðing þess var m.a. Landsdómsákæra á hendur Geir H. Haarde sem hefur orðið okkur til minnkunar sem réttarríki meðal allra nágrannaþjóða okkar. 

4.  Pólitíski hefndarleiðangurinn endaði með snautlegum hætti fyrir þá sem fyrir honum fóru. Hér hlítur Björgvin að eiga við þau Steingrím og Jóhönnu sem stóðu upp frá ráðherrastólum sínum rúin trausti kjósenda. Væntanlega þá líka starf nefndar Atla Gíslasonar og Rannsóknarnefndar Alþingis. 

Það var mál til komið að Samfylkingarmaður gerði þetta að umtalsefni með þeim hætti sem Björgvin G. Sigurðsson gerði í viðtalinu við Eyjuna.  

 


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna III

Mikilvægustu tillögur forsætisráðherra vegna skuldavanda heimilanna eru höfuðstólsleiðréttingar verðtryggðra skulda og afnám verðtryggingar á neytendalánum.

Önnur atriði sem nefnd eru felast í eins konar lyklafrumvarpi þ.e. að eigendur yfirveðsettra íbúða geti skilað þeim án þess að þola gjaldþrotameðferð í framhaldinu vegna ógreiddra húsnæðisskulda.  Hér er um nauðsynlega aðgerð að ræða fyrir venjulegt fólk sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði á þenslu og verðbólgutímum.

Afnema á stimpilgjalda vegna kaupa á húsnæði til eigin nota og frumvarp þess efnis lagt fyrir á haustþingi 2013. Ég flutti frumvarp þessa efnis þegar ég sat á þingi og það mætti dusta rykið af því og hér með gef ég Bjarna Benediktssyni sem hefur umsjón með verkefninu höfundarréttinn.

Sum önnur atriði í tillögum forsætisráðherra skipta litlu eða engu máli eða eru langtímaverkefni. Þannig verður ekki séð réttlæting sérstakrar gjaldtöku af fjármálafyrirtækjum vegna endurútreiknings gengistryggðra lána nema um skaðabótaábyrgð sé að ræða. Ríkið getur fellt niður gjaldtöku vegna gjaldþrota einstaklinga og auðveldað eignalausum einstaklingum að óska eftir gjaldrþoti. Ekki flókið.

Hvað sem þessu öllu líður þá er það fyrst og fremst afnám verðtryggingar og niðurfærsla höfuðstóla sem skipta máli fyrir venjulegt fólk. Það skiptir máli að þar verði hendur látnar standa fram úr ermum og gerðar þær leiðréttingar sem sanngjarnar eru og nauðsynlegar.  Það þýðir ekkert hálfklák. Með myndarlegum aðgerðum í þessum efnum skapast grundvöllur til nýrrar sóknar þjóðarinnar til farsælli og hamingjuríkari framtíðar.

Aukinn hagvöxtur og einkaneysla mun þá knýja áfram þær aflvélar þjóðfélagsins sem skipta mestu til að ná fram verulegum kjarabótum og hagsæld.


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna II.

Forsætisráðherra leggur til að skipaður verði sérfræðihópur um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Með neytendalánum virðist forsætisráðherra miða við verðtryggðar lánveitingar til neytenda hvort heldur er til húsnæðiskaupa eða annars. Verkefni sérfræðingahópsins er að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána.

Hér er ekki gengið nógu langt. Nokkur óvissa gildir um það hvort verðtryggð neytendalán séu lögleg. Löng og óslitin lagaframkvæmd gæti haft þýðingu við mat á því. Hins vegar virðist nokkuð ljóst að verðtrygging neytendalána mundi ekki standast lög ef setja ætti hana á núna.

Verði verkefni sérfræðingahópsins að útfæra afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum er verkefni hans einfalt og mætti ljúka starfinu fyrir helgi og leggja frumvarp fyrir sumarþing til að ljúka þeim þætti málsins.

Raunar hefur almenningur í landinu flúið verðtryggðu lánin í nokkur ár með sama hætti og fólkið sem bjó við Kommúnismann greiddi atkvæði með fótunum gegn Kommúnismanum og flúði í frelsið til Vesturlanda. Ríkisstjórnin verður að gefa þeim sem bundnir eru á klafa verðtryggingarinnar kost á að flýja hana og njóta frelsis í stað helsis verðtryggðra skulda.

Mikilvægt er að víkka verkefni sérfræðingahópsins og miða við að hópurinn útfæri afnám verðtryggingar neytendalána jafnt gamalla sem nýrra. 


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna I.

Forsætisráðherra hefur kynnt tímasetta aðgerðaráætlun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Þær hugmyndir lofa góðu og tímamörk sem einstökum ráðherrum eru sett til að ljúka vinnunni.

Miðað er við það í tillögu forsætisráðherra að ná fram leiðréttingu verðtryggðra höfuðstóla lána vegna verðbólguskots áranna 2007-2010.  Verðbólguskotið sem talað er um hófst raunar ekki að marki fyrr en í janúar árið 2008 og var komið niður í þokkalega ástættanleg mörk í júní árið 2010. Annað verðbólguskot kom frá júlí 2011 til júlí 2012. 

Viðmiðun forsætisráðherra er að leiðrétta verðtryggða höfuðstóla á ákveðnu tímabili. Einfaldasta leiðin, sem tryggir fullt jafnræði, er sú að taka vísitölu verðtryggingar úr sambandi frá því í janúar 2008 til júní 2010. Höfuðstóll lánanna yrði þá óbreyttur að frádregnum greiðslum inn á höfuðstól frá 1.1.2008 til 1.6.2010. Höfuðstólshækkun mundi þá ekki reiknast fyrr en í júní 2010 af höfuðstólnum 1. janúar 2008 miðað við vísitöluhækkun m.v. næsta mánuð á undan. Uppfærður höfuðstóll miðað við þennan útreikning mundu skuldarar síðan geta breytt í óverðtryggð lán með 2% hærri ársvöxtum en verðtryggðu lánin bera frá og með 1.1.2014. 

Þessi leið sem hér er bent á er einföld, sanngjörn og mismunar ekki skuldurum. Varla er hægt að ganga skemur í leiðréttingu stökkbreyttra höfuðstóla verðtryggðu lánanna. Vissulega kostar þessi leið, en sá kostnaður er fyrst og fremst því að kenna að stjórnmálamenn neituðu að taka á þessum vanda þegar átti að taka á honum í október 2008 og vandinn varð verri og verri í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Forsætisráðherra hefur með framsetningu sinni hvað varðar niðurfærslu stökkbreyttra verðtryggðra höfuðstóla  stigið jákvæðasta skrefið sem ráðamaður í landinu hefur stigið frá bankahruni og fram til þessa.

Þessa vinnu verður að vinna hratt vegna þess að hver mánuður sem líður er dýr.


Það sem máli skiptir Sigmundur Davíð.

Fróðlegt verður að hlusta á forsætisráðherra í kvöld og sjá með hvaða hætti ríkisstjórnin leggur upp forgangsröðunina í landsmálunum.

Það sem helst hefur fréttst er að leggja eigi af veiðigjald á útgerðina, lækka virðisaukaskatt á útlendinga og endurskoða rammaáætlun.

Framsóknarmenn gera sér væntanlega grein fyrir því að fylgisaukning þeirra varð ekki síst fyrir loforð um þá lausn á skuldavanda heimilanna, að afnema verðtryggingu á neytendalánum og færa niður höfuðstóla verðtryggðu lánanna. Sjálfstæðismenn samþykktu fyrir rúmum tveim árum svipaða stefnu. Þannig ætti forgangsröðunin að vera ljós.

Samt sem áður heyrist helst að það skipti mestu að afnema veiðigjald með öllu og lækka virðisaukaskatt á útlendinga og vandræðast gegn umhverfisvernd. Veiðigjaldið eins og það var ákveðíð var alls ekki í lagi og sjálfsagt að endurskoða lögin og koma á skaplegri skipan. En það er varla forgangsverkefni á sumarþingi þegar skattheimtuna er ekki einu sinni hægt að framkvæma fyrir þá sök hve afglapalega Steingrímur J. Sigfússon stóð að þeirri lagasetningu.

Væri ekki eðlilegra fyrst á að krukka í skattmálum á annað mál að afnema óréttláta skatta vinstri stjórnarinnar almennt en ekki bara fyrir ákveðnar atvinnugreinar.

Fyrir helgi gerði forstjóri Hafrannsóknarstofnunar grein fyrir því að auka ætti veiðiheimildir þannig að um tug eða tugir milljarða mundu koma í hlut útgerðarinnar við þá aukningu. Í Bretlandi og Bandaríkjunum hefði á stundum verið lagðir á sérstakir "Wind Fall" skattar þegar svo hagar til.

Ríkisstjórnin nýtur mikilla vinsælda en hætt er við að þær dvíni hratt ef afnám verðtryggingar og skuldaleiðrétting verða ekki settar í algeran forgang.


Þegar ríkið stal gjaldeyrinum.

Ástmundur hefur lengi verið skrifstofustjóri á ríkisstofnun. Hann segir farir sínar ekki sléttar. Hann sagði að vegna tíðra utanlandsferða fyrir ríkið, hafi hann jafnan fengið farareyri, en þar sem hann er maður sparsamur hafi hann alltaf átt fyrningar og lagt afganginn inn á gjaldeyrisreikninga í Evrum og Bandaríkjadölum. Sama sagðist Ástmundur hafa gert með annan erlendan gjaldeyri sem hann fékk. 

Ástmundur  á rúmlega 100 þúsund Evrur á gjaldeyrisreikningnum  og álíka mikið í Bandaríkjadölum. Fyrir nokkru afréð Ástmundur að festa kaup á íbúð á Costa del Sol. Vegna íbúðarkaupanna ætlaði Ástmundur að millifæra af gjaldeyrisreikningunum sínum en þá kom babb í bátinn.

Ástmundur segir að bankafólkið hans hafi sagt að hann ætti engan gjaldeyri. Þessir reikningar hans væru reikningseiningar í erlendum gjaldmiðli en hann ætti hvorki Evrur né Bandaríkjadali. Ástmundur segist hafa hváð og fengið þetta ítrekað þrátt fyrir að hann hafi alltaf lagt inn gjaldeyri á reikningana.

Ríkið plataði Ástmund til að leggja inn gjaldeyri og stal honum síðan og býður honum að fá greitt í íslenskum krónum.  Ástmundi finnst að þessi þjófnaður á gjaldeyrinum hans jaðri við hegningarlög.

Nú krefst Ástmundur þess að hann sitji við sama borð og erlendir kröfurhafar í bankana. Fái kröfuhafarnir greitt í gjaldeyri þá ætlar Ástmundur að krefjast þess á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að hann fái líka greitt af gjaldeyrisreikningunum sínum í gjaldeyri. Ástmundur skilur hreint ekki að annað eigi að gilda fyrir hann en erlendu kröfuhafana.

 


Til hvers sumarþing?

Stjórnarandstaðan segist hafa fengið fundarboð á sumarþing með matseðli eldhúss Alþingis. Slíkt fundarboð er óvenjulegt en ekki úr takti við soðbrauðið og aðrar krásir sem fjölmiðlar röktu svo rækilega að væru á borðum formannanna við stjórnarmyndunina.

Óháð fundarboðinu þá er spurning af hverju verið er að boða til sumarþings.  Slíkt er eðlilegt ætli ríkisstjórnin að beita sér fyrir breytingum á lögum sem ekki mega bíða til haustsins í stað þess að beita bráðabirgðalögum. 

Vissulega er eðlilegt að boða sumarþing til að afnema verðtryggingu á neytendalánum þ.m.t. húsnæðislánum neytenda þegar í stað. Einnig er mikilvægt að nota tækifærið í sparnaðarskyni til að leggja af stofnanir og rekstur sem ríkisstjórnin telur að ekki sé á vetur setjandi.  Ekki verður séð að önnur mál kalli sérstaklega á sumarþing.

Við andstæðingar verðtryggingar á neytendalánum getum því verið vongóð um að ríkisstjórnin láti það mál til sín taka eigi síðar en í næstu viku.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 1257
  • Sl. viku: 1579
  • Frá upphafi: 2293047

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1433
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband