Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Sendiherrar og sýndarrök.

Utanríkisráðherra skipaði tvo nýja sendiherra í gær. Auðvelt er að gagnrýna það ráðslag með málefnalegum rökum. Heildarúttekt á utanríkisþjónustunni hefur ekki farið fram. Sendiráð og sendinefndir eru of margar. Sendiherrar of margir. Sendiherrastöður á að auglýsa. En formaður VG gerir það ekki.

Björn Valur Gíslason varaformaður VG er þó sýnu málefnalegri í  gagnrýni sinni á  flokksfélaga sinn Árna Þór Sigurðsson nýskipaðan sendiherra. Formaður VG, Katrín Jakobsdóttir hefur ekkert við skipan Árna að athuga, en allt á hornum sér vegna skipunar Geirs H. Haarde.

Katrín segir að ekki megi skipa Geir þar sem hann eigi í málaferlum við Ríkið. Samt veit hún vel að opinberir starfsmenn hafa oft leitað réttar síns gegn Ríkinu. Hingað til hafa það verið talin sjálfsögð mannréttindi. Katrín sagði ekkert þegar Már Seðlabankastjóri fór í mál við Seðlabankann. Það var í lagi af því að þar var félagi Már. Öðru máli gegnir um Geir. Geir Haarde má ekki leita réttar síns ekki einu sinni til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Forustumenn VG og forvera þess flokks hafa iðulega talað um helgan rétt opinberra starfsmanna sem og anarra að leita réttar síns. Þeir hafa fordæmt Verufsverbot, embættisbann vegna skoðana. En það á ekki við um Geir að mati Katrínar. Geir má ekki leita álits dómstóls á því hvort mannréttind hafi verið á honum brotin. Þessi málatilbúnaður Katrínar eru sýndarrök og henni til minnkunar, en e.t.v. eðlileg þar sem hún var einn af ákærendunum í pólitískri ákæru gegn Geir.

Geir H. Haarde er umdeildur, en það er ekki vegna starfa hans að utanríkismálum m.a. sem utanríkisráðherra.  Hann hefur fjölþætta menntun, gott vald á mörgum tungumálum auk annarra kosta sem þykja skipta miklu svo úr verði góður sendirherra. Skipan Geirs var því rökrétt miðað við feril hans og stöðu. Að halda öðru fram er ómálefnalegur hatursáróður.

Það má gagnrýna með hvaða hætti sendiherrar eru skipaðir, en hitt er ljóst að hvort sem um væri að ræða valnefnd eða annars konar málefnalegt hlutlægt ráðningarferli í starf sendiherra, að þá mundu fáir komast með tærnar þar sem Geir Haarde hefur hælana. 

  


Pólitískt nýmál.

Við sem erum fædd um og fyrir miðja síðustu öld eigum stundum erfitt með að átta okkur á að orð sem hafa verið okkur töm eins og öðrum af okkar kynslóð flokkast nú sem dónaleg, óviðurkvæmleg, særandi og jafnvel niðurlægjandi.

Nokkrir hafa farið hamförum yfir því að ritstjóri Morgunblaðsins skuli ekki hafa tileinkað sér pólitískt nýmál og sagt múlatti um mann sem á svartan fyrirgefið litaðan nei fyrirgefið aftur negra ó nei, nei  nú sagði ég eitthvað ljótt og meiðandi. Alla vega var verið að tala um Obama sem á föður fæddan í Afríku og er ekki með sama litarhátt og móðir hans sem hefði verið hægt að segja fyrir 20 árum að væri WASP, en Guð veit hvort það er réttlætanlegt í dag. Leyfir pólitískt nýmál að tala um hvítt fólk eða á að segja eitthvað annað. Má e.t.v. ekki tala um litarhátt lengur?

Tíu litlir negrastrákar gengur alls ekki lengur. Ég er búinn að stinga þeirri bók efst úti í horni á barnabókaskápnum svo barnabörnin rekist ekki á þetta subbulega heiti og fari að bulla einhverja vitleysu. 

Í bók sinni 1984 skrifar George Orwell um alræðisríkið þar sem tekið var upp pólitískt nýmál og þar segir: "Ætlunin var að þegar Nýmál hefði verið tekið upp og Gamalmál gleymt að þá væru trúvillukenningar óhugsanlegar alla vega að því leyti sem orð tækju til þeirra."

Á grundvelli pólítísks nýmáls má ekki segja neitt ljótt og mynd Clint Eastwood sem hét á sínum tíma "The good, the bad and the ugly."  Heitir í dag "The good, the client of the correctional system and the cosmetically different."

Nú er engin leiðinlegur heldur öðruvísi áhugaverður. Feitabolla er ekki lengur til heldur maður með annað vaxtarlag. Harmur mikill verður síðan kveðinn að hagfræðinni því nú má ekki segja lengur að maður sé fátækur heldur hagrænt fórnarlamb.  Spurning hvað við fáum lengi að halda órökræna nýyrðinu áfallastreituröskun sem fellur  þó einkar vel að ruglhyggju pólitíks réttmáls.

  


Hlýnunin sem hvarf.

Klappstýrur vísindamanna sem boðað hafa hlýnun jarðar af mannavöldum í tvo áratugi rembast við að að halda því fram að hún sé enn í gangi, þrátt fyrir  þá óþægilegu staðreynd, að engin hlýnun hefur verið í heiminum í síðustu 14 ár samfellt.

Öll tölvúlíkön og forspár talsmanna hnattrænnar hlýnunar hafa reynst röng. Einn helsti sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í hnattrænum hlýnunarmálum Kevin Trenberth, segir að ástæða þess að hnattræn hlýnun hafi ekki mælst í 14 ár sé vegna þess að heimshöfin hafi gleypt hlýnunina frá árinu 1997 djúpt í sjónum þar sem við verðum hennar ekki vör. Heimshöfin eru því að hlýna gríðarlega þar sem við verðum þess ekki vör. Æðstu prestar  hnattrænu hlýnunarinnar  hafa gripið þessa kenningu fegins hendi.

Engar sannanir eða líkindi hafa verið færð fram fyrir þessari kenningu  Trenberth. Nú hefur virtasti haffræðingur heimsins  Carl Wunsch staðhæft að það sé ekkert sem styðji kenningu Trenberths nema tölvulíkön og þvert á kenninguna þá hafi heimshöfin ekki hlýnað heldur  kólnað síðustu ár. 

Nigel Lawson fyrrum fjármálaráðherra Breta heldur því fram að kenningar um hnattræna hlýnun af mannavöldum standist ekki rökfræðilega skoðun. Af þeim sökum  fær ekki að tjá sig á BBC. Þeir sem efast er haldið frá fjölmiðlum og opinberum styrkjum.  Það er billjóna bísníss í dag að hræða fólk með hnattrænni hlýnun. Sá bísníss gæti orðið dýrasta lygi mannkynssögunnar. 

Hvernig er hægt að skýra það með vitrænum hætti að um sé að ræða hnattræna hlýnun af mannavöldum vegna koltvísýringsmengunar þegar engin hlýnun hefur átt sér stað í 14 ár þrátt fyrir aukinn útblástur. Af hverju ekki skoða hlutina með opnum huga. Af hverju ekki að leggja meiri peninga í umhvefisvernd, hreinlæti og uppbyggingu og draga úr dansinum í kring um þessa pólítísku veðurfræðina. 


Svefngengill í forsetastóli

Heimspekingurinn George Santayana sagði "Americans don´t solve problems they leave them behind"  (Bandaríkamenn leysa ekki vandamál þeir skilja þau eftir). Í sjálfu sér er þetta vel sagt, en staðhæfing er röng skoðuð í ljósi sögunnar. Hún á þó meiri rétt á sér á síðustu árum en áður.  Vitnað er í þessa staðhæfingu í góðri grein sem Matt Lewis skrifar í Daily Telegraph í dag undir heitinu "Obama sleepwalks into history".

Í greininni er vikið að því að á unanförnum dögum hafi:  A. Malasískri farþegaflugvél var grandað yfir Úkraínu  B. Þúsundir verið drepnar á Gasa svæðinu. C. Kristið fólk hrakið frá Mósul þar sem það hefur búið í meir en 2000 ár og hryðjuverkasamtökin ISIS sæki fram. D. Gríðarlegt flóttamannavandamál og mannlegir harmleikir séu á landamærum Bandaríkjanna við Mexícó, þar sem ungt fólk streymir að frá Mið- og Suður-Ameríku.

Meðan þessu hefur farið fram  þá hefur Obama:  A. Spilað golf  B. Staðið að fjársöfnunum fyrir Demókrata C. Borðað á grillstað í Texas og hamborgarabúllu í Delaware.

Obama ætti að læra eitthvað af fyrirrennara sínum er sagt og eyða minni tíma í að spila golf, en George W.Bush jr. sem sagði eitt sinn eftir hryðjuverkin 11. september " Ég skora á allar þjóðir að gera það sem í þeirra valdi stendur til að stoppa þessa hryðjuverkamenn. Þakka ykkur fyrir".  Hafið síðan golfkylfuna á loft og sagt. "Jæja takið eftir þessu höggi."

Greininni lýkur  síðan " Ef Neró lék á fiðlu meðan Róm brann, þá er Obama í matarboðum, að spila golf og safna peningum í pólitíska sjóði á meðan heimurinn hrynur.


Stríð og friður í Palestínu

Ítrekað hefur verið reynt að ná viðunandi samkomulagi í deilum Ísraelsmanna annars vegar og Palestínu-Araba, Líbana og Sýrlendinga hins vegar. Í friðarviðræðum sem Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseti stóð fyrir nokkru áður en hann lét af embætti munaði sárgrætilega litlu að varanlegir samningar næðust.

Öfgafólk á alla bóga hafa ítrekað afrekað að koma í veg fyrir að leið friðarins yrði valin í stað áframhaldandi ófriðar milli Palestínu-Araba og Ísrael.

Það er andstætt hugmyndum lýðræðissinna og einstaklingshyggjufólks að ákveðinn hópur eða þjóð undiroki aðra. Við sem þannig hugsum getum því ekki samþykkt að Írael haldi áfram að halda stórum hópum fólks í herkví, undiroki það og haldi því í gíslingu. 

Á sama tíma hafa Hamas liðar það á stefnuskrá sinni að drepa hvern einasta Gyðing. Ekki bara Gyðinga sem búa í Ísrael heldur alla. Heimurinn hefur um áratugaskeð fordæmt kynþáttahyggju og útrýmingabúðir Adolfs Hitlers og þýsku nasistana. Hamas liðar hafa á stefnuskrá sinni að ganga enn lengra, en heimurinn fordæmir það ekki með sama hætti og framferði þýsku nasistana. E.t.v. vegna þess að þýsku nasistanarnir komu illvirkjum sínum í framkvæmd.

Hvernig mundi ástandið vera ef Hamas liðar hefðu mátt til að framkvæma það sem þeir boða og hlutverkum væri snúið við þannig að þeir byggju yfir hernaðarmætti, en Gyðingar væru innikróaðir?

Ísraelsmenn réðu Gasa svæðinu fram á þessa öld. Þeir yfirgáfu svæðið og Palestínumenn tóku við stjórn þess. Stjórnendur í Ísrael þurftu að flytja meir en tíuþúsund svonefnda landnema Gyðinga nauðuga í burtu frá Gasa af þessu tilefni. Nokkru síðar fór sprengjum að rigna yfir Ísrael frá Hamas liðum. Ítrekað hafa Ísraelsmenn svarað þessum linnulausu árásum Hamas og heimurinn hefur fordæmt þá en gleymt að gera kröfur til að Hamas láti af  flugskeytaárásum, sjálfsvígssprengingum og fleiri illvirkjum. Samið hefur verið um vopnahlé en sprengjur frá Hamas rignir samt áfram yfir Ísrael

Vænir vestrænir stjórnmálamenn sögðu í framhaldi af því að Ísraelsmenn svöruðu þessum árásum Hamas að þeir ættu rétt á að verja sig en þetta væri allt of mikið. En hvað þýðir það að Ísraelsmenn hafi rétt til að verja sig fyrir hryðjuverkaárásum? Mega þeir beita lofthernaði? Mega þeir fara inn með her og leggja undir sig svæðið á ný? Mega þeir senda drápssveitir til að drepa foringja Hamas? Ef svarið við þessum spurningum er ávallt nei þá liggur fyrir að frasinn um að Ísraelsmenn eigi rétt til sjálfsvarna eru innantóm orð.

Vilji góðviljað fólk um allan heim og ráðamenn þeirra ríkja sem hafa mest áhrif á deiluaðila í Palestínu leggja sín lóð á vogaskálina til að stuðla að friði þá er fyrsta skrefið að samið verði tafarlaust um vopnahlé sem allir aðilar virða.  Í framhaldi af því verður að koma á sjálfstæðu ríki Palestínumanna á Gasa og á svonefndum vesturbakka í Ísrael. Jafnframt verða báðir aðilar að lýsa yfir og virða tilverurétt hvors annars.

Á sínum tíma voru ítrekað framin hermdarverk af IRA liðum frá Írlandi í London og víðar. Breska ríkisstjórnin samdi um frið við IRA, en ekki fyrr en þeir höfðu samþykkt að láta af hryðjuverkaárásum. Deilan milli IRA og Breta virtist óleysanleg ekkert síður en ágreiningurinn nú í Palestínu. Samt sem áður var hægt að leysa þá deilu.

Það er líka hægt að leysa deiluna milli Ísrael og Palestínu-Araba með sama hætti á grundvelli sanngirni á forsendum hugmyndafræðinnar um jafnt gildi allra einstaklinga og rétt til mannréttinda og sjálfstjórnar.  Nú er e.t.v. betri möguleiki en nokkru sinni áður til að semja um slíkan frið og réttindi fólks vilji Ísrael,  Bandaríkin, Egyptaland, Jórdanía og Al Fatah samtökin og framsýnir forustumenn Palestínu-Araba leggja allt á sig til að ná slíkum friði.


Hin heilögu landamæri

Obama Bandríkjaforseti og David Cameron forsætisráðherra Bretlands hafa farið hamförum vegna þeirrar ógæfu, þegar farþegaflugvél var skotin niður fyrir mistök yfir Úkraínu.  Þeir hafa reynt að nýta sér þetta hörmulega slys til að ná sér niðri á Rússum og knýja á um hertar refsiaðgerðir gegn þeim.

Cameron hefur m.a. krafist þess að Frakkar hættu vinnu við og afhendingu orustuskipa sem þeir eru að smíða fyrir Rússa.  Franska forsætisráðherranum var nóg boðið og benti á að Bretar ættu þá frekar að taka á rússnesku oligörkunum sem væru hvergi fleiri en í London í stað þess að gera kröfur um að Frakkar stæðu að aðgerðum sem mundu kosta þúsundir manna atvinnuna. 

Sumir fjölmiðlar bjuggu til vandamál úr því að uppreisnarmenn í Úkraínu komu líkum úr flugvélinni fyrir í kældum vögnum í stað þess að láta þau liggja óhreyfð á víðavangi í ofsahita. Þessar fréttir voru rugl frá upphafi til enda, en  til þess fallnar að valda óþægindum og sorg hjá nánum ættingjum þeirra sem höfðu misst ástvini sína í þessu hörmulega slysi. Einnig til að reyna að koma höggi á Rússa. Þetta sýnir hversu gagnrýnislausir fréttamiðlar á Vesturlöndum eru orðnir og hvað illa þeir vinna fréttir og taka við tilbúnum áróðursfréttum leyndra eða augljósra ríkisstofnana í Bandaríkjunum.

Hatrammur áróður gegn Rússum byrjaði nokkru eftir að þeir veittu Snowden hæli. Snowden var hundeltur af útsendurum Obama fyrir að bera sannleikanum vitni. Í framhaldi af niðurlægingu Obama og Cameron í Sýrlandsdeilunni,  þegar þeir vildu ganga í lið með Al Kaída liðum og ISIS og hefja lofthernað gegn löglegum yfirvöldum í Sýrlandi en fengu ekki stuðning þjóðþinga sinna og þeim fannst þeir niðurlægðir af Putin harnaði áróðurinn gegn Rússum til muna. Áróðurinn gegn Rússum náði þá m.a. til Íslands þar sem Rússar voru allt í einu orðnir sekir um að vera mestu hatarar samkynhneigðra í heiminum þó það sé fjarri öllum sanni.

Þegar uppreins í Úkraínu heppnaðist fyrir tilstyrk Bandaríkjanna og Evrópusambandsins bjuggu þeir Cameron og Obama til þá kenningu að landamærum mætti ekki raska hvergi í heiminum óháð því hvernig þau væru tilkomin. Slík stefna hefur iðulega leitt til styrjalda sem hefði mátt komast hjá hefðu stjórnendur haft sögulega þekkingu, yfirsýn og víðsýni. En þeir Obama og Cameron virðast ekki búa yfir slíkri þekkingu eða hæfileikum. 

Þegar Sovétríkin féllu og járntjaldið féll vonaðist ég til að Vesturlönd og fyrrum kommúnistaríki gætu náð saman til að skapa betri heim. Eftir árásirnar á tvíburaturnana bauð Putin fram alla þá aðstoð sem Rússar gætu veitt. Því miður tóku Vesturlönd ekki í þá útréttu sáttarhönd. Tveir lítt hæfir Bandaríkjaforsetar og forsætisráðherrar Bretlands hafa valdið gríðalegu tjóni í alþjóðamálum og komið í veg fyrir alla vega tímabundið að hægt væri að skapa alþjóðlegt skipulag og frið í heiminum því miður. Engum öðrum verður frekar um það kennt.    


Vín í hvaða búðir?

Enn einu sinni er deilt um hvort að selja eigi vín í matvörubúðum eða ekki. Rök þeirra sem segja að slíkt muni auka drykkja voru gild fyrir nokkru síðan en halda tæpast lengur. Ástæðan er sú að vín er til sölu í mörgum stórmörkuðum iðulega við hliðina á matvörubúðinni. Auk þess er vín venjulega til sölu á kaffistöðum og í greiðasölum meðfram þjóðvegi 1 og víðar. Aðgengi að áfengi er því nánast ótakmarkað.

Úr því sem komið er yrði því engin héraðsbrestur þó áfengi yrði selt í matvörubúðum, þó mér finnist það í sjálfu sér ekki æskilegt.

Meðan fólk deilir um hvort selja eigi áfengi í matvörubúðum eða ekki, þá er horft framhjá því að vínbúðirnar eru opinber fyrirtæki með opinberu starfsfólki. Ríkisstarfsmenn sem vinna við að afgreiða áfengi og eru í BSRB en ekki VR. Er einhver glóra í því að ríkið sé að reka þessar verslanir.

Af hverju má ekki draga úr ríkisumsvifum með því að selja vínbúðirnar til einstaklinga sem mundu þá reka þær eins og hvert annað fyrirtæki með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.   Ég hef aldrei skilið af hverju það þurfi ríkisstarfsmenn til að afgreiða áfengi í sérverslunum með áfengi. Á sama tíma eru unglingar að ganga um beina og selja vín á veitingastöðum. Af hverju eru þeir ekki í BSRB. Þarf ríkisstarfsmann til að selja rauðvínsflösku út úr vínbúð en venjulegt verslunarfólk til að selja rauðvínsflöskuna á vetingastað.

Vilji einhver reyna að rökfæra það að eðlilegt sé að ríkið reki sérverslanir með áfengi þá má með sama hætti rökfæra að ríkið eigi að sjá um alla sölu og dreifingu áfengis hvort sem er í verslunum eða vegasjoppum.

Nú skora ég á Vilhjálm Árnason hinn vaska unga þingmann Sjálfstæðisflokksins sem ætlar að flytja frumvarp um að áfengi verði selt í matvöruverslunum, að fylgja stefnu flokks síns um að draga úr ríkisumsvifum og flytji í kjölfarið frumvarp um að opinberu vínbúðirnar verði einkavæddar strax.  


Mátturinn og dýrðin.

Obama Bandaríkjaforseti heldur að hann sé enþá alráður í heiminum eða "master of the universe".

Í gær tilkynnti Obama að Bandaríkjamenn ætluðu að herða viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna baráttu aðskilnaðarsinna í Úkraínu og hvatti aðrar þjóðir til hins sama. Í sömu tilkynningu lét Obama hins vegar hjá líða að tilkynna um það hvenær hann ætlaði að senda 50 milljónir dollara til Íslamista til að herja í Sýrlandi sem er þó meiri ógn við heimsfriðinn en átökin í Úkraínu og meiri ógn við frjálsa og fullvalda þjóð en allar aðgerðir Rússa vegna aðskilnaðarsinna í Úkraínu.

Garmurinn hann Ketill, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra Íslands, sem dvalið hefur með klumbufótinn í Úkraínu frá því í vor lætur sér vel líka og telur hertar refsiaðgerðir eiga fullan rétt á sér.

Yfirlýsing Obama um hertar viðskiptaþvinganir og áskorun til heimsbyggðarinnar að fara að fordæmi Bandaríkjanna í því efni eru vægast sagt broslegar þegar það er skoðað að fyrir tveimur dögum undirrituðu BRIC þjóðirnar svokölluðu þ.e. Brasilía, Rússland, Indland og Kína sérstakan vináttu og viðskiptasamning sín á milli sem felur í sér betri kjör og áheit um meiri og öflugri viðskipti milli þessara landa. Lætur nærri að íbúar þessara þjóða séu nærri helmingi jarðarbúa.

Fyrir okkur vini Bandaríkjanna er dapurlegt að horfa upp á að forseti Bandaríkjanna geri sig hlægilegan með þessu og öðru. Nú styttist í að síðara kjörtímabili Obama ljúki. Hann gæti e.t.v. náð því að komast úr einu neðsta sætinu um lélega forseta Bandaríkjanna ef hann einbeitti sér nú að því að leysa deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna og lokað haturs fangabúðunum í Guantanamo á Kúbu í stað þess að skipta sér af málum sem hann hvorki skilur né ræður við.  


Eitthvað til að vera stoltur af?

Á sama tíma og hersveitir Sýrlandsstjórnar sækja að Aleppo síðustu borginni sem uppreisnarmenn í Sýrlandi hafa enn að hluta til á valdi sínu, lofar Obama Bandaríkjaforseti að styrkja uppreisnarmenn með viðbótarframlagi frá skattgreiðendum í Bandaríkjunum um 500 milljón dollara eða tæpa 60 milljarða og framlengja með því hörmungar og mannvíg í landinu.

Assad Sýrlandsforseti er einræðisherra og harðstjóri, en hann er síður en svo verri en bestu vinir Bandaríkjanna og Breta í Mið-Austurlöndum, Saudi Arabar eða furstafjölskyldurnar í Kuveit eða Quatar.

Uppreisnin í Sýrlandi var takmörkuð en með stuðningi og fjárframlögum og vopnum ríkisstjórna Tyrklands, Quatar, Saudi-Arabíu, Bretlands og Bandaríkjanna breiddist hún út og hefur verið viðhaldið með óbætanlegu tjóni og hörmunum fyrir almenna borgara í Sýrlandi.

Óneitanlega hlítur Barack Obama og David Cameron að líta yfir verk sín og velta því fyrir sér hvort þeir geti ekki verið stoltir af afskiptum sínum í Mið-Austurlöndum.

1. Eftir að hafa ráðist inn í Írak og farið síðan og skilið allt eftir í öngþveiti,  geisar þar blóðug borgarastyrjöld og klofningsbrot frá Al Kaída hefur tekið drúgan hlut landsins og hefur nú um milljón dollara tekjur á dag fyrir sölu á olíu.  

2. Í Sýrlandi hefur borgarastyrjöld verið viðhaldið með fjárframlögum, vopnum og flutningi þúsunda vígamanna til landsins.

3. Í Líbýu þar sem hinum illa Gaddafi var steypt af stóli berjast mismunandi hreyfingar Islamista og annarra um völdin og í síðustu kosningum þar í landi tók einungis lítill hluti þátt eða um eða innan við 20%. Borgarar eru ekki óhultir og mannréttindi eru af skornum skammti.

4 Í Afganistan undirbúa Bandaríkjamenn brottför hers síns eftir rúmlega 10 ára hernað gegn hryðjuverkum án nokkurs árangurs. Talíbanar eru þar enn í fullu fjöri.  

Utanríkisstefna Bandaríkjanna og Breta hefur haft hroðalegar afleiðingar þar sem þessar þjóðir hafa beitt virkasta diplómatíska vopni sínu, hernum.

Árrangursleysi af hernaði og sóun tuga þúsunda mannslífa og billjarða dollara sóun til einskis ætti að vera búið að kalla á hörð viðbrögð skattgreiðenda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Það ætti líka að kalla á að kjósendur þessara  ríkja vikju frá þessum lánlausu stjórnmálamönnum sem hafa staðið að þessum glæpaverkum oft á tíðum í trássi við alþjóðalög. Menn sem nú vita ekki sitt rjúkandi ráð eftir að hafa komið illu einu til leiðar.

 


Tækifærissinnar

Sumt Samfylkingarfólk er þeirrar náttúru að það sér sérstök tækifæri þegar vandamál og erfiðleikar steðja að fólki.

Í kjölfar Hrunsins árið 2009 þegar verðtryggðu lánin höfðu farið gjörsamlega úr böndum og fólk var umvörpum að missa húsin sín á nauðungaruppboði sagði Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB að nú væri tækifæri til að koma upp öflugum leigumarkaði. Formanni BSRB datt ekki í hug að gera kröfu fyrir hönd félagsmanna sinna og annarra um að verðtrygging yrði afnumin og fólki gert kleifta að eiga íbúðirnar sínar.  Nei þessi tækifærissinni sá tækifærið í því að öflug leigufélög t.d. í eigu lífeyrissjóða eða auðmanna keyptu íbúðir fólksins á hrakvirði til þess síðan að geta leigt því.

Á sunnudagskvöldið varð stórbruni í Skeifunni 11. Eignatjón nemur milljörðum. Fjöldi fólks missir atvinnuna. Rekstraraðilar horfa margir upp á rekstrarstöðvun og jafnvel þaðan af verra. Þrátt fyrir það horfir Samfylkingarmaðurinn og borgarfulltrúinn Hjálmar Sveinsson  ekki á þessi vandamál heldur sér hann tækifæri skapast vegna þessara hamfara til að hægt verði að byggja ógrynni nýrra íbúða á brunarústunum.

Vissulega er gott að sjá björtu hliðarnar á tilverunni og tækifæri þar sem það á við án þess að fjöldi fólks þurfi að gjalda fyrir það. Engan þarf því  að undra að fólk sem hefur lífsskoðun Samfylkingarinnar, að veita eigi fólki lífsgæði á kostnað annarra,  skuli fyrst og fremst horfa á tækifærin sem myndast vegna vandamála annarra.

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 189
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4010
  • Frá upphafi: 2427810

Annað

  • Innlit í dag: 176
  • Innlit sl. viku: 3712
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband