Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020

Verðugur friðarverðlaunahafi?

Forsætisráðherra Eþíópíu, Abiy Ahmed var sæmdur friðarverðlaunum Nóbels á árinu 2019 vegna frábærs starfs í þágu friðarmála og vinna að friði og alþjóðlegri samvinnu eins og sagði í umsögn norsku Nóbels friðarverðlauna nefndarinnar.

Undir stjórn þessa friðarverðlaunahafa var ráðist á Tigray  héraðið í Eþíóbíu og um 40 þúsund íbúa hraktir á flótta. Í gær var tilkynnt að hernaðaraðgerðum væri lokið með sigri hers friðarverðlaunahafans og tilheyrandi mannfalli. Þó fréttir séu takmarkaðar, þá hafa samt borist fréttir af miklu mannfalli og hermdarverkum stjórnarhers friðarverðlaunahafans.

Stjórn Tigray héraðs hefur sakað ríkisstjórn Eþíóbíu um þjóðernishreinsanir og mótmæltu þegar friðarverðlaunahafinn framlengdi kjörtímabil sitt um eitt ár án kosninga. Þá hefur Abiy látið loka Internetinu og takmarkað svo sem verða má fréttaflutning. Ekki óþekkt þegar vinna á verk,sem þola illa dagsbirtuna.

Úthlutunarnefnd friðarverðlauna Nóbel hefur oft áður gert sjálfri sér skömm til. Abiy er ekki eini vinstri sinnaði stjórnmálamaðurinn sem vinstra fólkið í nefndinnin hefur útnefnt, Friðarverðlaunahafinn hefur síðar staðið fyrir árásum og vopnaskaki sbr. Obama og  Aung San Suu Kyi, sem vílar ekki fyrir sér að afsaka skammarlegt þjóðarmorð og þjóðernishreinsanir á Rohingjum í Búrma.

Sérkennilegt að nefndinni skuli aldrei hafa dottið í hug að tilnefna hægri sinnaðan stjórnmálamann sem friðarverðlaunahafa. Sem slíkur kæmi Donald Trump sterklega til álita eftir að hafa haldið aftur af hernaðaröflunum í henni Ameríku í stjórnartíð sinni. Það hefur enginn annar forseti Bandaríkjanna gert á þessari öld.  


Snillingar stjórnsýslunnar

Fyrir allmörgum árum voru sýndir þættir í sjónvarpi, sem hétu "Já ráðherra". Ráðuneytisstjórinn Sir Humphrey Appleby gætti þess, að halda öllum völdum hjá sér. Flóknar setningar, orðskýringar, útlistanir og setningar sem höfðu enga merkingu eða þvældu málum svo, að enginn fékk skilið, náðu þeirri fullkomnun hjá Sir Humphrey að fáir töldu að met hans yrði nokkru sinni slegið. 

Nú hefur höfundur frumvarps til sóttvarnarlaga jafnað þessa fullkomnun Sir Humphrey. Í dæmaskyni um þessa snilli,skal vísað í skýringu orðsins "farsótt". En farsótt er:  

"Tilkoma sjúkdóms, ákveðins heilsutengds atferlis eða annarra atburða sem varða heilsu fólks innan samfélags eða landssvæðis, í tíðni sem er umfram það sem vænta má."

Orðskýring frumvarpsins er svo loðin og teygjanleg að hún opnar á möguleika ráðherra til að beita borgarana hvaða frelsisskerðingu sem frumvarpið heimilar m.a. útgöngubanni nánast að geðþótta.

Hvernig er hægt að verjast því að "aðrir atburðir sem varða heilsu fólks" komi upp í landinu eða séu stöðugt til staðar? Hvað er átt við með tíðni sem er umfram það sem vænta má? Já og hver er skilgreiningin á heilsutengdu atferli? og eru einhver takmörk eða frekari skýringar á fyrirbrigðinu "aðrir atburðir"?

Íslenskir Applebíar telja greinilega ekki rétt, að nota alþóðlegar viðmiðanir t.d. um lágmarksviðmið smita við skýringu á orðinu "farsótt", þó ekki væri nema til að takmarka aðeins valdheimildir og geðþóttaákvarðanir ráðherra, en það var sjálfsagt ekki meiningin.  

 


Hinir ábyrgðarlausu

Hver vill bera ábyrgð á því, að sjúkraþyrla komist ekki til að ná í dauðveika sjúklinga til að bjarga lífi þeirra eða aðstoða sjómenn í sjávarháska?

Tveir stjórnmálaflokkar Samfylkingin og Píratar segja að það komi þeim ekki við. Aðrir stjórnmálaflokkar öxluðu þá ábyrgð sem fylgir því að vera í pólitík og greiddu atkvæði með því að mikilvæg björgunartæki séu til taks ef líf liggur við. 

Píratar hafa á líftíma sínum markað sér stöðu, sem ábyrgðarlaus á móti flokkur án takmarks eða skiljanlegs tilgangs. 

Öðru máli gegnir um Samfylkinguna, sem á sér nokkra sögu um að vera ábyrgur flokkur. En frá því að Logi Már Einarsson tók við formennsku, hefur Samfylkingin hoppað í takt með Pírötum og frumkvæðislaus, en gagnrýnt allar aðgerðir með óábyrgum yfirboðum. Logi skákaði Samfylkingunni síðan rækilega út í horn með því að útiloka samstarf við flokka sem njóta fylgis um 40% þjóðarinnar.

Það er slæmt fyrir íslensk stjórnmál, að jafnaðarmenn skuli ekki eiga flokk lengur, sem hefur hugmyndafræðilega kjölfestu eins og jafnaðarmannaflokkar á hinum Norðurlöndunum og þor til að takast á við vandamál sem koma upp í þjóðfélaginu, en skáka sér út í ábyrgðarleysishornið í hverju málinu á fætur öðru. 


Enn skal haldið og engu sleppt

Smitstuðull Covid er lægstur á Íslandi af löndum Evrópu í dag. Samt sem áður segir Þórólfur smitsjúkdómalæknir að veður séu svo válynd, að halda verði að mestu leyti þeim hertu aðgerðum sem gripið var til fyrir rúmum mánuði. Á sama tíma segir tölfræðingurinn Thor Aspelund, að smitstuðullinn sé slíkur að það geti orðið sprenging í fjölda smita.

Þetta er hræðsluáróður.

Samt er smitstuðullinn enn sá lægsti í Evrópu. Ætli menn að halda trúverðugleika verða þeir, að segja fólki satt og neita sér um þann lúxus að stunda hræðsluáróður til að drepa niður frjálst mannlíf og eðlileg samskipti fólksins í landinu. 

Hafi sóttvarnarlæknir haft rétt fyrir sér í byrjun september. Liggur þá ekki fyrir, að hægt er að miða við sambærilegar reglur og þá giltu? Ef hann hefur hins vegar haft rangt fyrir sér þá, ber þá ekki að taka ráðleggingum hans með fyrirvara?

Það vill enginn veikjast af þessari pest og engin smita. Þessvegna skilar jákvæður áróður um smitvarnir sér til fólksins og með því að gera alla meðvirka í að halda eðlilegri varúð í samskiptum vinnum við sigur á þessum vágesti. En við vinnum ekki sigur með því að reyra höftin svo mjög og umfram alla skynsemi, að fólk hætti að taka mark á þeim.

 


Ríkið og trúin

Allt frá lögfestingu tíundarlaga á 11.öld hefur ríkisvaldið talið eðlilegt að hafa afskipti af trúarskoðunum einstaklinga og greiðslur þeirra til guðdómsins. Spurning er hvort það sé eðlilegt enn í dag að ríkisvaldið vasist í þeim málum.

Nú deila kirkjunnar menn á ríkisstjórnina fyrir að borga henni ekki það sem kirkjunni ber af sóknargjöldum. Þannig fái keisarinn meira en honum ber á kostnað Guðdómsins.  

Auðvelt ætti að vera að skera úr um þetta, þar sem við höfum sérstök lög í landinu um sóknargjöld nr. 91/1987 skv. þeim greiðir ríkið 15. hvers mánaðar til trúfélaga fyrir nef hvert í viðkomandi trúfélagi. 

En hvað sem líður sóknargjöldum og fjárhæð þeirri er þá ekki eðlilegt að spyrja, hvort ekki sé óeðlilegt, að ríkisvaldið vasist í innheimtu fyrir trú- og lífsskoðunarfélög í landinu. Af hverju ætti ríkisvaldið frekar að skipta sér af því en innheimtu æfingagjalda til íþróttafélaga?

Árið 2020 væri eðlilegt að ríkisvaldið segði sig frá þessari gjaldheimtu á einstaklinga og lækkaði skatta þeira sem því nemur og segði nú verður guðdómurinn að sjá um að innheimta það sem Guðs er, keisarinn sér um sig.  


Launahækkanir ábyrgðarleysi hvers

Morgunblaðið bendir réttilega á það í leiðara, að engin innistæða er fyrir launahækkunum sem hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði í djúpri kreppu. En hvað veldur?

Þeir sem leiða launahækkanirnar og hafa gert allt þetta kjörtímabil eru stjórnmálamenn, sem létu hækka laun sín af vinum sínum í Kjararáði um leið og þeir settust í valdastóla eftir kosningar. Sú launahækkun var órökstudd og röng og það var þá þegar fyrirséð, að tæki Alþingi og ríkisstjórn ekki á því, þá mundu verða keðjuverkanir á launamarkaðnum eða höfrungahlaup eins og fjármálaráðherra kallar það. 

Sú hefur líka orðið raunin og órói hefur verið á vinnumarkaðnum allt frá þessari sjálftöku stjórnmálastéttarinnar og æðstu embættismanna ríkisins. Aðeins einn þingmaður reyndi að andæfa, en ekki var hlustað á hann og hann er því miður þagnaður.

Þegar Morgunblaðið bendir réttilega á að sú launaþróun sem orðið hefur í landinu stenst ekki miðað við aðrar þjóðhagsstærðir, þá þarf fyrst að beina athyglinni að þeim sem tróna á toppnum og eru með starfskjör, sem eru langt umfram það sem almenni vinnumarkaðurinn getur boðið eða staðið undir. 

Það er því fyrst og fremst við ábyrgðarlausa ríkisstjórn og stjórnmálasétt að sakast. Þjóðfélagið lifir ekki endalaust á seðlaprentun og gjafapökkum frá ríkisstjórninni á kostnað framtíðarinnar.  


Að hafa stefnu eða hafa ekki stefnu

Ríkisstjórnin hefur þá stefnu í sóttvarnarmálum, að samþykkja tillögur sóttvarnarlæknis með fyrirvara um samþykki landsstjórans Kára Stefánssonar.

Engin heildarstefna hefur verið mörkuð af ríkisstjórninni um viðbrögð við Covid fárinu, en eina viðmiðið sem sett hefur verið fram er að heilbrigðiskerfið ráði við álagið. 

Enginn ágreiningur er um að gæta skuli öryggis til að tryggja sem bestan árangur í baráttunni við Covidið, en spurningin er hvað er nauðsynlegt að gera hverju sinni og hvenær er farið yfir mörkin.

Æskilegt hefði verið að ríkisstjórn gerði borgurunum grein fyrir því hvað þurfi til að koma til að gripið sé til mismunandi ráðstafana. Ekkert slíkt hefur verið gert og nú þegar fyrir liggur að toppnum var náð nokkru áður en hertar reglur voru síðast settar á og fjöldi smita á niðurleið, þá skal ekki slakað á og borgurunum gert að norpa fyrir utan verslanir í vetrarkulda, af því að sóttvarnarlæknir telur enga ástæðu til að bregðast við breyttum aðstæðum fyrr en tími hertra aðgerða er fullnaður í desember n.k. 

Sé eingöngu tekið mið af ráðleggingum sóttvarnarlæknis gegnum tíðina, þá er ljóst, að sá tími er kominn, sem rétt væri að létta verulega af hömlum á frelsi fólks svo sem fjölda í verslunum og kaffihúsum svo dæmi séu tekin. En valdtökumennirnir vilja ekki afsala sér kyrkingartökunum á þjóðlífinu jafnvel þó að forsenda aðgerðanna sé löngu liðin hjá. Hinir hlýðnu jarma í kór, að fara beri að hinum vísindalegu tillögum sóttvarnarlæknis, þó þær séu aðrar nú en oft áður við sömu aðstæður. Vísind á bakvið aðgerðirnar liggja því fjarri því ljós fyrir eða eru til staðar yfirhöfuð.

Ríkisstjórnin bregst að sjálfsögðu ekki við vegna þess, að hún hefur enga stefnu nema þá að ráðum hinna nýju valdsmanna, sóttvarnarlæknis og Kára verði hlýtt, þó þeir séu ekki lýðkjörnir til að taka slíkar ákvarðanir einhliða. Þægindunum við að vera ábyrgðarlaus vill ríkisstjórnin ekki afsala sér. 

Nú berast fréttir af bóluefnum sem eiga að ráða niðurlögum Covid. Það er að sjálfsögðu af hinu góða. En svo virðist, sem það hafi hleypt nýjum móði í frelsissviptingarfurstana um að gefa nú hvergi eftir í að skerða frelsi borgarana þar til að stór hópur hefur verið bólusettur. Í annan stað þá er kominn upp sú krafa, að lýðinn skuli bólusetja með góðu eða illu. Þannig hafa nokkur flugfélög tilkynnt, að þau muni ekki fljúga með aðra en Covid bólusetta farþega í framtíðinni. 

Þegar fjöldahræðsla grípur um sig eins og í þessu tilviki, þar sem fræðimenn, ríkisstjórn og fjölmiðlar leggjast á eitt um að mynda hana, þá eiga þeir erfitt uppdráttar, sem tala um einstaklingsfrelsi, meðalhóf og krefjast þess, að rök séu færð fyrir einstökum aðgerðum ríkisstjórna og heilbrigðisyfirvalda. Þeir eru hraktir og smáðir eins og þjóðníðingurinn í samnefndu leikverki Íbsens forðum.

En samt sem áður verður að fara að leikreglum lýðræðisríkis og virða þær reglur sem fara verður eftir varðandi réttindi borgaranna. Þó veruleg áhöld séu um að það hafi verið gert í Cóvíd viðbrögðunum, þá er hægt að stoppa upp í þau göt, þar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um breytingar á sóttvarnarlögum, þar sem vegið er að rétti fólksins í landinu og réttindi þess skert. Það verður þó ekki sagt annað um ríkisstjórnina en að hún hafi þó fundið fjölina sína að þessu leyti og miði við að ríkisstjórnir í framtíðinni búi við sama öryggi ábyrgðarleysis og stefnuleysis og ríkisstjórnin fylgir. 


Margaret Thatscher sannleikurinn og Crown sagnfræðin

Í dag eru 30 ár síðan Margaret Thatcher lét af embætti sem forsætisráðherra í Bretlandi en hún tók við embætti 1979.

Tíminn er fljótur að líða og fólk að gleyma. Þessvegna skiptir máli að sagnfræðingar segi rétt frá og í sögulegu samhengi. Þegar Thatscher á í hlut,er iðulega hallað réttu máli og reynt að gera hlut hennar sem minnstan og rangfæra staðreyndir. 

Ég hef horft á nokkra af vinsælu Netflix þáttunum "Crown", þar sem fjallað er um samskipti Thacher og bresku drottningarinnar og breskt þjóðlíf á níunda áratug síðustu aldar. Þar eru hlutir heldur betur teknir úr samhengi og jafnvel sagt rangt frá. 

Þegar Thatcher tók við embætti 1979, hafði verkamannaflokks ríkisstjórn James Callaghan setið að völdum um árabil og ástandið var þannig, að Bretar þurftu að sækja um aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, verkföll og ólga í landinu voru svo mikil, að Callaghan óttaðist um það á tímabili, að hann yrði að kalla á herinn til aðstoðar við að halda uppi röð og reglu. Atvinnuleysi var svo mikið að eitt helsta vígorð Íhaldsmanna í kosningunum 1979 var "Labour is not working".  Bretland var veiki maðurinn í Evrópu efnahagslega. Það var við þessar kringumstæður sem Thatscher tók við.

Thatscher tók til óspilltra málanna og gjörbreytti efnahagsstefnunni á grundvelli einstaklingfrelsis og athafnafrelsis. Stjórnkerfið var endurskoðað,mörg ríkisfyrirtæki sem voru rekin með tapi voru lögð niður eða seld ef þess var kostur. Víðtækar skattbreytingar voru gerðar auk ýmiss annars. Thatcher þurfti að heyja harðvítuga baráttu við verkalýðshreyfinguna í Bretlandi sérstaklega námumenn og hafði sigur og sá sigur þýddi það að stjórnvöld náðu aftur að stjórna landinu án þess að eiga stöðugt á hættu verkföll eða lamandi skyndiverkföll.

En aðgerðir Thatscher stjórnarinnar mættu mikilli andstöðu sumra og m.a. árituðu 364 af fremstu hagfræðingum Bretlands mótmælaskjal gegn stefnu ríkisstjórnarinnar árið 1982, sem þeir töldu að stefndi efnahagskerfi Bretlands í stórkostlega hættu og væru af hinu illa. Það segir sitt um stöðu hagfræðinnar á þeim tíma og jafnvel síðar, að í framhaldi af þessari andspyrnu hagfræðinganna tók fjárhagur Breta heldur betur að rétta úr kútnum, vextir lækkuðu og atvinnuleysi minnkaði. Þegar Thatscher lét af störfum var staða Bretlands sem fjármálaveldis sterk og atvinnuleysi hafði dregist gríðarlega saman. 

Thatscher naut virðingar og stjórn hennar stóð sig vel í utanríkismálum. Milli hennar og Ronald Reagan Bandaríkjaforseta myndaðist traust samband og vinátta og þau voru áhrifamestu leiðtogarnir til að vinna bug á kommúnismanum í Evrópu. Thatscher var andstæðingur apartheit stefnunnar í Suður-Afríku, en var samt á móti því eins og Reagan að beita landið viðskiptaþvingunum. Það sjónarmið rökfærði hún vel, ég var þeim innilega sammála á þeim tíma og er enn. 

Í Crown þáttunum sem ég hef horft á, er reynt að varpa rýrð á Thatscher með ýmsu móti m.a. er látið í veðri vaka að henni sé um að kenna mikið atvinnuleysi, en þess ekki getið að það var búið sem hún tók við af Verkamannaflokknum. Þá er gert mikið úr því, að hún og drottningin hafi lent í mikilli deilu vegna þess, að Thatscher vildi ekki samþykkja viðskiptabann á Suður-Afríku það er gert til að sýna að Elísabet drottning hafi alltaf verið á móti kynþáttaaðskilnaðarstefnunni (apartheit) en Thatscher ekki. Allt er þetta rangt auk þess sem það er rofið úr samhengi. Í þessu sambandi er vert að benda á ummæli Nelson Mandela fyrrum forsætisráðherra Suður-Afríku, sem sagði um Thatscher "She is an enemy of apartheit-. We have much to thank her for."

Margareth Thatcher var tvímælalaust einn merkasti stjórnmálamaður síðari hluta síðustu aldar. Breta geta þakkað henni fyrir það að hafa komið Bretlandi upp úr öldudal óstjórnar, verkfalla og efnahagslegrar kyrrstöðu og öngþveitis og komið því til leiðar að Bretland varð aftur efnahagslegt stórveldi þar sem treysta mátti á stöðugleika og öryggi í viðskiptum.

Af sjálfu leiðir, að vinstri menn mega ekki til þess hugsa, að saga Thatscher sé sögð óspjölluð og sannleikanum samkvæmt. Sú saga er sigurganga þar sem stefna frjáls framtaks og takmarkaðra ríkisafskipta sigraði og sýndi fram á þá einu leið, sem þjóðfélög nútímans eiga til að komast frá fátækt til velmegunar. 

  


Ellert

Ég lauk við að lesa bókina Ellert, endurminningar Ellerts B. Schram vinar míns fyrir nokkru. Bókin er skemmtileg aflestrar og frásagnarstíllinn léttur og skemmtilegur mjög svo í anda höfundar. 

Gerð er góð grein fyrir fjölbreytileikanum í lífi, starfi og áhugamálum höfundar. Þar er af svo mörgu að taka, að eðlilegt er að því séu ekki öllu gerð ítarleg skil og sumu raunar yfirborðslega. Ég reikna með að þeir sem fylgdu Ellert í íþróttastarfi og innan íþróttahreyfingarinnar sakni margs, sem þeir telja mikilvægt að hefði komið fram alveg eins og við samferðamenn Ellerts í pólitík söknum margs, sem hefði verið gaman að höfundur gerði fyllri skil. 

Við Ellert áttum lengi samleið í pólitík eða allt til þess, að hann gekk í Samfylkinguna, en við það fjölgaði raunar skemmtilegu fólki í Samfylkingunni um þriðjung. Ég hefði viljað sjá ítarlegri umfjöllun í bókinni um hvað réði því, að Ellert sagði endanlega skilið við Sjálfstæðisflokkinn og valdi að ganga í Samfylkinguna. Einnig að höfundur hefði gert fyllri grein fyrir þeim átökum sem voru í Sjálfstæðisflokknum í átökunum milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen og þá ákvörðun hans að hætta við að gefa kost á sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins í framboði á móti Geir Hallgrímssyni, en af því tilefni,skrifaði meðritstjóri Ellerts á DV, Jónas Kristjánsson heitinn, að þjóðin hefði eignast sinn Hamlet.

Ellert gerir takmarkað grein fyrir þingstörfum sínum á fyrri árum þingmennsku sinnar og á það skortir að gerð sé grein fyrir ýmsum helstu baráttumálum höfundar í pólitík í gegnum tíðina.

Hefði höfundur og Björn Jón Bragason sem vann bókina með Ellert kosið að gera ítarlegri grein fyrir þeim mörgu atriðum, sem æskilegt hefði verið að gert yrði og ég hefði kosið, hefði bókin að sjálfsögðu orðið öðruvísi og vafalítið leiðinlegri aflestrar fyrir flesta og bókin meir en helmingi lengri.

Bókin er eins og hún er, létt og skemmtileg og lýsir vel leiftrandi frásagnargáfu höfundar og gerir góða grein fyrir helstu þáttum í lífi og starfi höfundar og sýnir lesendum inn í þann heim sem höfundur ólst upp við, þroskaferil hans, áföllum og sigrum. 

Það má virkilega mæla með þessari bók fyrir þá sem vilja lesa skemmtilega bók um endurminningar manns, sem hefur komið víða við og gegnt mörgum trúnaðarstörfum og tekur sjálfan sig ekki allt of hátíðlega nema í undantekningartilvikum. 

 

 


Of lítið. Of seint

Innanríkisráðherrar Evrópusambandsins samþykktu í gær að efla öryggi í álfunni og herða eftirlit á ytri landamærunum vegna ódæðisverka Íslamista í Austurríki og Frakklandi fyrir stuttu. 

Þess var minnst, að 5 ár eru liðin frá stórfelldum hryðjuverkum Íslamista í París og víðar. En af hverju var ekki brugðist við þá með hertum aðgerðum? 

Ráðamenn Evrópu bera mikla ábyrgð á því að bregðast ekki við af hörku fyrr. Fyrir 5 árum mátti staðan í þessum málum vera ljós. Hættan var veruleg ekki síst vegna þess að fjölmargir múslimar í Evrópu telja ekkert athugavert við hryðjuverkin og sumir dásama hryðjuverkamennina. 

Fólkið í Evrópu hefur lengið krafist þess, að reglur yrðu hertar, en ráðamenn hafa frestað því ítrekað sennilega af ótta við að verða kallaðir rasistar og níðingar eins og "góða fólkinu" er svo tamt að kalla þá sem vilja gera ráðstafanir í samræmi við heilbrigða skynsemi varðandi móttöku fólks frá íslömskum löndum. 

Hryðjuverk, morð og víðtækar nauðganir hafa verið afleiðingar andvaraleysis ráðamanna Evrópu og nú er boðað til aðgerða, enn einu sinni, sem frekast virðast miða við, að friða almenning og láta sem verið sé að gera eitthvað. 

Á sama tíma fara ráðamenn Íslands að, eins og sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi heyri þeir ekki. Ógnin og vandinn sem liggur fyrir vegna móttöku svokallaðra flóttamanna hefur legið fyrir um árabil og einmitt þá æða íslenskir stjórnmálamenn ofan í það sama fen og er í Evrópu til að búa til ógn gegn öryggi borgara þessa lands og valda víðtækum vandamálum í framtíðinni. 

Því miður í boði Sjálfstæðisflokksins voru búin til vitlausustu útlendingalög sem til eru í álfunni. Auk heldur hafa landamæri Íslands orðið þau galopnustu í Evrópu með þeim afleiðingum að við tökum nú við fleiri flóttamönnum og kvótaflóttamönnum en önnur Norðurlönd. 

Sjá íslenskir stjórnmálamenn virkilega ekki ástandið í Svíþjóð, þar sem forsætisráðherra landsins Stefan Lövgren viðurkennir að um ógn sé að ræða og lögreglan ráði ekki við vandamálin á fjölmörgum svæðum. Sjá menn ekki að Danir m.a. danski forsætisráðherrann sem líka er sósíaldemókrati gengur í að herða reglur til að stemma stigu við þessum vágestum m.a. með skírskotun hvernig ástandið er í Danmörku. 

Íslenskir stjórnmálamenn neita að horfast í augu við vandann og gera ekkert. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lætur það viðgangast, að félagi hryðjuverkasamtaka Íslamista fái landvist á Íslandi með fjölskyldu sinni. Öryggi fólksins í landinu er greinilega ekki í fyrsta sæti á þeim bæ.

Íslensk stjórnvöld verða að bregðist við með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi og gera m.a. víðtækar breytingar á útlendingalögunum og taki upp þá reglu að þeim sem geta ekki gert grein fyrir sér og komu sinni verði vísað tafarlaust til baka og skylda þann flutningsaðila,sem kom með fólkið að flytja það til baka. 

Það er ekki of seint að bregðast við. En tíminn styttist óðum. Við viljum ekki lenda í sama vanda og Svíar og Danir.  


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 189
  • Sl. sólarhring: 833
  • Sl. viku: 4010
  • Frá upphafi: 2427810

Annað

  • Innlit í dag: 176
  • Innlit sl. viku: 3712
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband