Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020

Eins og Paris Hilton

Harry og Meghan eru eins og Paris Hilton forðum daga. Ekkert sérstakt við þau annað en að Harry er konungborin og þau skreyta sig með titilinum hertogi og hertogaynja þó þau hafi sagt sig nánast úr lögum við bresku konungsfjölskylduna. Skrýtið að hún skyldi ekki afsala sér titlinum miðað við það sem hún segir um þessa fjölskyldu að öðru leyti.

En fjölmiðlar væru ekki að elta þessar ekki fréttir ef það væri ekki eftirspurn eftir fánýtum fréttum af fólki, sem stendur ekki fyrir neitt í tilverunni. 

Hversu lengi skyldi fólkið í veröldinni sætta sig við að hafa arfakónga á þeim grundvelli að það sé merkilegra fólk en annað fólk. Já og borga offjár til þeirra fyrir ekki neitt.  


mbl.is Nágrannar Harrys og Meghan pirraðir á flutningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn

10 dögum eftir, að ríkisstjórnin tók þá afdrifaríku ákvörðun að skikka komufarþega til að fara í seinni skimun vegna Covid 19 eftir 5 daga sóttkví, að Enginn- Enginn af þeim 17.000, sem sýni hafa verið tekin af á landamærunum, hefur greinst jákvæður í seinni skimun. Það þýðir að þessar nýju reglur voru mistök og höfðu og hafa enga sóttvarnarlega þýðingu. 

Hvað gera góðir stjórnmálamenn þegar þeir horfa fram á, að hafa tekið kolranga ákvörðun sem veldur gríðarlegu tjóni fyrir land og þjóð? Ákvörðun sem hefur enga þýðingu varðandi sóttvarnir.

Þeir viðurkenna mistök sín breyta til fyrra horfs og segja jafnvel af sér. 

Nú verður fróðlegt að sjá hvað ríkisstjórnin gerir með eða án aðkomu Þórólfs eða Kára. 


Vér einir vitum

Vígorð einvaldskonunga og einræðisherra var og er "Vér einir vitum" á síðari tímum hefur það verið hlutskipti háskólamenntaðra "sérfræðinga" að taka sér þessi orð í munn eða njóta slíks átrúnaðar eins og arfagkonungar gerðu forðum. Enda þurfti þá ekki frekari vitnanna við.

Í C-19 faraldrinum hafa fjölmiðlar, heilbrigðisyfirvöld og margir stjórnmálamenn farið hamförum, þannig að valdið hefur ofsahræðslu meðal almennings, sem hefur sætt sig við innilokanir og aðrar frelsisskerðingar vegna átrúnaðar á óskeikulleika "sérfræðinga". 

Ríkisstjórn Íslands gafst upp á því að stjórna landinu eða hafði ekki til þess kjark og fól sóttvarnarlækni og síðan ásamt Kára Stefánssyni, að taka ákvarðanir fyrir sína hönd að vísu yfirstimplaðar af viðkomandi stjórnvaldi, sem fór í framhaldi af því í felur eins og henni kæmi málið ekki við. 

Brugðist var við andófi við nýjum allsherjarreglum í boði sóttvarnaryfirvalda með því að kalla andólfsfólk, kverúlanta, fólk, sem viðurkenndi ekki vísindi og í versta falli til að sýna hverskonar úrhrök hér væri á ferðinni "Trumpista" Síðan komu sérvaldir hamfarahagfræðingar í hópin til að tvístimpla aðgerðirnar um raunverulega lokun landsins, efnahagslegar hamfarir og aukna fátækt og atvinnuleysi.

Nú bregður svo við, að margt fólk lætur ekki bjóða sér þetta lengur og skynjar, að það er falskur tónn í áróðrinum. Hættan er í fyrsta lagi ekki eins mikil og látið hefur verið í veðri vaka. Til að mynda deyja nú fleiri í Bretlandi vegna sumarhita en vegna C-19. Í öðru lagi eru engin markmið eða stefna sett fram varðandi aðgerðirnar. Í þriðja lagi eru vísindin að baki þeim ekki ótvíræð og í fjórða lagi þá brjóta þær gegn lögum. 

Stórséníið skemmtilegasti maður þjóðarinnar Óttar Guðmundsson nálagast þetta með háði, sem honum einum er lagið. Bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi Karl Pétur Jónsson bendir réttilega á að markmiðin að baki ráðstöfununum og stefnan sé óviss. Einn fremsti lögmaður landsins Reimar Pétursson segir á vef Fréttablaðsins, skoðanir, að sóttvarnaraðgerðirnar nú brjóti í bága við stjórnarskrá og er þá í hópi með lögfræðingum, sem hafa bent á að ekki sé gætt meðalhófs í aðgerðum ríkisvaldsins og að öllum líkindum sé ekki lagagrundvöllur fyrir þeim. Seðlabankastjóri gefur greinilega lítið fyrir álit hamfarahagfræðinga þjóðarinnar um einhliða tap þjóðfélagsins af því að leyfa ferðafólki að koma til landsins og segir slíka útreikninga út í hött. 

Einvaldsstétt sóttvarnarsérfræðinga með ríkisstjórnina í sínu rækilega taumhaldi getur því ekki lengur fordæmt þá sem tjá sig um málið gegn niðurstöðum þeirra, sem kjána, Trumpista eða fólks í afneitun.

Í dag rekur Jón Ívar Einarsson prófessor við læknadeild Harvard háskóla í Bandaríkjunu í grein í Morgunblaðinu, enn einn naglann í fráleitt regluverk veirutríósins og Kára. Jón bendir á, að dánartíðni vegna sóttarinnar sé mjög lítil og ýmislegt annað í þjóðfélaginu sé mun hættulegra. Þá bendir hann á, að það sé óraunhæf útópía að búa í veirufríu landi og það sé skynsamlegra að gæta meðalhófs og vernda lýðheilsu, en jafnframt að hlúa að frelsi einstaklingsins og finna leiðir til að lágmarka skaðann fyrir alla. Hér talar maður sem hefur ekki síðra vit á því sem hér er um að ræða heilsufarslega en veirutríóið og Kári. 

Ég hef hér vísað í skrif tveggja lækna, seðlabankastjóra sem er hagfræðingur og bæjarfulltrúa, sem allir sýna fram á með skynsamlegum öfgalausum málflutningi hversu glórulausar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í sóttvarnarmálum.

Ríkisstjórnin verður að fara að stjórna landinu út frá þeim forsendum sem Jón Ívar og Reimar Pétursson tala um, að lágmarka skaðann fyrir alla. Þessvegna á ríkisstjórnin þegar í stað að marka stefnu í samræmi við lög landins þar sem mannréttindaákvæði stjórnarskrár eru virt og afnema þær reglur, sem leiða til stórkostlegs atvinnuleysis, fjöldagjaldþrota og skertrar lýðheislu fólks í framtíðinni. Ríkisstjórnin hefur enga afsökun fyrir að bregðast ekki strax við til að efla þjóðarhag.  


Að vera pínulítið óléttur

Einhverntímann var sagt, að fólk væri annaðhvort ólétt eða ekki. Það væri ekki hægt að vera pínulítið óléttur. 

Svo virðist hinsvegar að það sé hægt að vera pínulítið smitaður af C-19 veirunni miðað við það sem landlæknir segir: Hún sagði í daglegum sjónvarpsþætti veirutríósins í dag, að einu skýring á því af hverju veiran nú legðist mun léttara á fólk en í vor væri ef til vill sú, að fólk fengi ekki eins mikið magn af veirunni í sig vegna sóttvarna. 

Er það ekki svo að annaðhvort smitast fólk eða ekki. Er hægt að fá meira eða minna smit eftir atvikum? Miðað við þessa nýju kenningu landlæknis, þá ætti að vera komin upp virk leið til að leysa C-19 vandann í eitt skipti fyrir öll. Þannig er þá hægt að smita fólk hæfilega lítið þannig að það fyndi ekki fyrir þessu og myndaði mótefni. Málið leyst. 

En að sjálfsögðu er það ekki svo. 

Hræðsluáróðrinum verður að viðhalda. Af hverju má ekki viðurkenna, að það sem nú er í gangi sem ný Covid smit leggjast almennt ekki þyngra á fólk en flensusmit. Frá því var greint í Daily Telegraph í gær, að fleiri deyja nú vegna sumarhita í Bretlandi en vegna Covid. Raunar er þessi seinni bylgja það væg, að engin þörf er fyrir sérstakar ráðstafanir. Þó fæstir vilji smitast og sjálfsagt sé að fólk viðhaldi almennum smitvörnum. 

Af hverju er veirutríóinu og Kára Stefánssyni svona mikið í mun að viðhalda óttanum og knýja fram ráðstafanir sem kosta hundruði milljarða? Ráðstafanir, sem munu valda verri lífskjörum, þrátt fyrir að meiningin sé að leggja stóran hluta byrðana í núinu á ungabörn og ófædda.  

Ber ríkisstjórnin ekki ábyrgð á því að starfa skv. heilbrigðri skynsemi og aflétta ónauðsynlegum frelsisskerðingum þegar í stað og segja fólki þann sannleika að miðað við þessa seinni bylgju C-19 faraldursins, þá er hættan á dauða eða alvarlegum afleiðingum vegna sjúkdómsins svo lítil, að engin ástæða sé til að halda þjóðfélaginu öllu í helgreipum vegna ógnar sem er minni en við höfum ítrekað staðið frammi fyrir án þess að skerða frelsi borgaranna. 


Fyrrum formaður Viðreisnar skákar Samfylkingunni út í horn í fáránleikanum

Stofnandi og fyrsti formaður Viðreisnar skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið undir heitinu "Ég er ekki rasisti en..

Greinarhöfundur telur,að Viðreisn eigi ekki frekari atkvæða von hjá Sjálfstæðisfólki eða fólki hægra megin við miðju og jafnvel á miðju stjórnmálanna og því sé helst atkvæðavon að höfða til hefðbundins fylgis Samfylkingarinnar og yfirbjóða Samfylkingarfólk í rangnefnum og merkimiðapólitík.

Greinin er árás á skrif formanns Miðflokksins um samtökin BLM.  Greinarhöfundur telur Sigmund slíkt úrhrak að heimilt sé að hengja merkimiða ófrægjingar á hann m.a. að hann sé rasisti.

Skilgreiningar greinarhöfundar á því á hverja skuli hengja rasistaheitið er athyglisverð. 

Greinarhöfundur telur að gulu stjörnu rasismans skuli hengja á alla þá, sem segi: Öll líf skipta máli, en ekki bara svört. Fáir hafa slegið met fáránleikans jafn rækilega. 

Þá segir, að þeir sem þannig tali séu slægir stjórnmálamenn, sem séu að fiska í gruggugu vatni. Greinarhöfundi kemur annaðhvort ekki til hugar eða hann telur ekki pólitískt praktískt að nefna það, að einhverjir séu til, sem fari ekki í kynþáttaaðgreiningu og telji öll líf óháð því hvers litar og kynþáttar fólk er skipti máli. Nei að mati greinarhöfundar eru þeir sem þannig tala rasistar. Hlutum er snúið á hvolf eins og sósíalistum og systurflokkum þeirra fasistum og nasistum hefur tekist betur að gera en nokkrum öðrum.

En þetta er ekki nóg greinarhöfundur hefur öðlast sýn á því hvers konar skepnur það eru, sem tala um að öll líf skipti máli og eru þar af leiðandi rasistar og því fylgir að mati greinarhöfundar að slíkt fólk er: marhnútar, afætur, talar háðslega um "góða fólkið", rétttrúnaðinn og fórnarlambamenningu. En ekki nóg með það svona dýrslegar skepnur sem segja að öll líf skipti máli geri líka gys að konum, og fötluðum í góðra vina hópi.

Jafnan er fullkomin og skilgreiningin slík að ólíklegt verður að telja að helstu hugmyndafræðingar Samfylkingarinnra Logi formaður og Ágúst frændi minn Ágússon nái að toppa hana.


Í tilefni fundar nr. 100

Veirutríóið mun byrja sinn hundraðasta fund vegna C-19 fljótlega. Í byrjun var skírt markmið: að halda veikinni í því lágmarki að heilbrigðisþjónustan gæti jafnan sinnt þeim sjúku. 

Markmiðið náðist.Fullur sigur miðað við markmiðssetninguna. 

Síðan varð stefnulaust tómarúm. Haldið var við allskyns varúðarráðstafanir eftir sem áður jafnvel þó smit greindust ekki svo vikum skipti. 

Svo komu smit. Engum dettur þó í hug að það verði til þess, að heilbrigðisþjónustan geti ekki sinnt þeim sjúku. Hvert er markmiðið núna? Hvenær á að létta af takmörkunum á frelsi fólks?

Ríkisstjórnin hefur ekki markað neina stefnu í málinu hvorki fyrr né síðar. Hún hefur jafnan borið Þórólf sóttvarnarlækni fyrir sig eins og skjöld, sem þessvegna hefði mátt letra á: "Sómi Íslands sverð og skjöldur". Hún hefur skrifað upp á allt sem hann hefur lagt til. Svo fór á endanum, að jafnvel þessum sóma þjóðarinnar ofbauð og fór fram á, að ríkisstjórnin færi að stjórna landinu. Hann er í hópi örfárra einstaklinga sem njóta þess ekki að vera einráðir, en eru tilbúnir að afsala sér völdum.

Hvað sem lokunum og opinberum þvingunarúrræðum áhrærir, þá sýndi það sig um helgina,að sá hópur þjóðfélagsins sem er í mikilli þörf fyrir að viðhalda tegundinni og hefur fulla getu til þess, jafnvel á hinsegin dögum, lét sér lítt segjast um fjarlægðartakmarkanir og önnur bönn. Fróðlegt verður að sjá hvort að C-19 smitum fjölgar vegna þessa eftir viku eða svo. Ef ekki er þá ekki nokkuð ljóst að samfélagssmit eru hér fá og óþarfi að banna strákum og stelpum að hlaupa léttklæddum eftir fótbolta eða öðrum að horfa á þau hvað þá ýmsar anna sambærilegt og samfélagslegt. 

Nú þegar 100 fundir veirutríósins hafa verið haldnir. Hvernig væri þá að ríkisstjórnin birti stefnumið sín varðandi baráttuna við C-19 og hvað þarf til að fólk fái aftur að búa við fullt frelsi og því verði sjálfu treyst fyrir eigin sóttvörnum. 


Af hverju Bandaríkin en ekki Belgía?

Á hverjum degi frá morgni til kvölds færa allar tiltækar fréttastofur okkur fréttir af Covid 19. Nokkra furðu vekur, að flestar eiga það sammerkt að tiltaka sérstaklega í hvert skipti hvað magir hafi smitast í Bandaríkjunum og hvað margir hafi dáið þar. Þessar ávirku fréttir virðast hafa þann tilgang, að koma því inn hjá fólki að ástandið í þessum málum sé verst í Bandaríkjunum og iðulega er vikið að því hver fari þar með æðstu stjórn mála og nánast sett samansem merki þar á milli. 

Er það svo að tölur séu ekki jafntiltækar frá öðrum löndum. Getur verið að dreifing C-19 sé meiri í Bandaríkjunum en annarsstaðar eða eitthvað sé sérstaklega fréttnæmt hvað varðar faraldurinn þar í landi. Eftir því sem næst verður komist þá er ekkert slíkt til staðar. 

Það land sem hefur orðið verst úti t.d. hvað dauðsföll varðar miðað við íbúafjölda heitir Belgía. Aldrei er vikið að því í fréttum. Ekki er gerð tilraun til að reyna að finna skýringu á því af hverju Belgía verður svona miklu verr úti en t.d. nágrannalöndin, Holland og Lúxemborg. Hvernig skyldi standa á því. Nú gæti það verið mikilvæg lýðfræðileg stúdía að átta sig á hvernig dreifing C-19 er einmitt í Belgíu. En það vekur ekki áhuga fréttamanna, ef til vill vegna þess, að þar er enginn óvinur við stjórnvölin, sem þarf að koma höggi á. 

Mat á hvað er frétt og hvað ekki og hvað er sagt og hvað ekki víkur æði oft fyrir pólitísku mati fréttaelítunnar.

 


Twitter og Fésbók taka sér dómsvald og virða ekki tjáningarfrelsi.

Fjölmiðlarnir Twitter og Fésbók segjast taka hart á hatursorðræðu og röngum fréttum. Ekki þarf langa skoðun til að sjá, að þeir báðir eru samt fullir af röngum staðhæfingum og hatursáróðri. Eigið dómsvald þessara fjölmiðla er varhugavert og getur verið atlaga að frjálsum skoðanaskiptum. 

Sem dæmi skal vísað til þess að sama dag fyrir nokkru vísaði ég til fyrrum forustumanns í Þýskalandi fyrir miðja síðustu öld og Guðmundur Ólafsson prófessor í vígorð flokks hans. Ummæli okkar beggja voru neikvæð í garð þeirrar stjórnmálahreyfingar en eftir sem áður var lokað á okkur í heilan dag á Fésbókinn. Þessi sérkennilega ritskoðun kom mér verulega á óvart.

Nú hafa Twitter og Fésbók fjarlægt færslu forseta USA og segja hana falsfréttir. Forsetinn sagði í orðræðu á fréttastöð, að ungt fólk væri nánast ónæmt fyrir að smitast af C-19, en verið var að ræða um hvort opna ætti skóla aftur eða ekki. Fesbók og Twitter telja þetta hættulegar og rangar upplýsingar og fjarlægðu færsluna og lokuðu Trump twittinu þangað til umrædd færsla hefði verið fjarlægð. 

Ekki þarf að leita lengi eftir ónákvæmum og villandi ummælum Trump og margra annarra stjórnmálamanna á síðustu misserum og árum hvort sem þau hafa birst á Twitter, fésbók eða annarsstaðar og hingað til hafa ekki verið gerðar athugasemdir við þau, en voru þessi ummæli Trump röng?

Í bókstaflegri merkingu eru þau það. Börn eru ekki ónæm fyrir C-19, þó smittíðni þeirra séu helmingi lægri en fullorðina skv. könnun sem Ross Clark dálkahöfundur í Daily Telegraph vísar til í dag (ONS 26.4-27.6.2020). 

Samt sem áður virðist börnum og unglingum vera lítil hætta búin af því að sýkast af C-19 eða þurfa að glíma við alvarlegar afleiðingar. Vafalaust var Trump að vísa til þess, þegar hann mælti með því að skólar í USA yrðu opnaðir að nýju.

Ross Clark bendir líka á, að af 15.230 dauðsföllum í New York vegna C-19 fram til 13.maí s.l.,hafi aðeins 9 dauðsföll fólks undir 18 ára aldri verið rakin til C-19,af þeim 9 hafi 6 verið með undirliggjandi heilsufarsvandamál. Ross Clark segir í þessu sambandi, að þar sem umræðan hefði snúist um hvort börn og unglingar ættu að fara aftur í skólann og Trump hefði verið að tala um, að það væri engin ástæða til annars, þá hafi umfjöllun hans verið fjarri því að vera óskynsamleg eða órökrétt þó hún væri vissulega ógætileg.

En spurningin er af þessum gefnu tilefnum. Er það afsakanlegt, að fésbók og Twitter taki sér ritskoðunarvald og úrskurði sjálft hvaða skorður tjáningarfrelsinu skuli settar og útiloki að geðþótta þær skoðanir sem þeim er ekki að skapi? Í því sambandi má velta því fyrir sér líka, hvaða hag þessir fjölmiðlar telja sig hafa eða rétt til að standa með þeim, sem magna stöðugt upp ástæðulausan ótta vegna C-19

 

 


Ferðaþjónustan sem lokar ekki þrátt fyrir Covid. Vegabréf óþörf

Verulega hefur dregið úr ferðum venjulegs fólks á mill landa eftir að Covid faraldurinn brast á í Evrópu. Allskonar takmarkanir eru settar, m.a. þarf fólk að vera með grímur, ekki má hafa handfarangur um borð í flugvélum (hvaða tilgangi sem það nú þjónar)ferðaframboð er takmarkað og ferðalangar þurfa að fara í skimun eða jafnvel 14 daga sóttkví. 

Önnur ferðaþjónusta, sem studd er dyggilega af auðkýfingnum Soros, Guteres framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og nytsömum sakleysingjum í Evrópu blómstrar samt sem aldrei fyrr.  Það er ferðaþjónusta glæpahringja með ólöglega innflytjendur.

Umsvif ólöglegu ferðaþjónustunar hefur aukist það mikið í Covid faraldrinum, að starfsfólk á strandgæsluskipum í Bretlandi segir að flotinn þurfi að skerast í leikinn. Alls hafa 3000 ólöglegir innflytjendur komið til Bretlands þann tíma ársins sem C-19 hefur geisað, en þeir voru alls 1.892 allt árið í fyrra. Þessir ólöglegu ferðamenn þurfa ekki að sýna passa enda eru þeir yfirleitt búnir að henda þeim til að villa á sér heimildir. Þeir fara ekki í skimun fyrr en þeir leita fyrst eftir ókeypis velferðarþjónustu. 

Starfsfólk breskra strandgæsluskipa segist ekki geta ráðið við báta með 40 ólöglegum innflytjendum eða fleiri og þessvegna verði flotinn að skerast í leikinn skv. því sem Daily Telegraph segir í frétt þ.4.8. s.l. 

Á sama tíma segir tímaritið The Economist frá því með hvaða hætti glæpahringir og fleiri undirbúi ólöglega innflytjendur fyrir að komast ólöglega til Evrópu. Það er vísað á lögmenn, sem eru hjálplegir, mannúðarsamtök, hvernig á að ganga í hagkvæmnishjónabönd eða koma sér upp fölsuðum vinnusamningum. 

Einnig eru leiðbeiningar um það hvernig á að komast hjá því að ólöglegum innflytjendum verði vísað úr landi og fái stöðu sem fólks sem nýtur alþjóðlegarar verndar eins og það heitir á pólitísku nýmáli stjórnmála- og fréttaelítunar. Þar er m.a. bent á, að fólk haldi því fram, að þau séu börn, séu að leita að föður sínum, konu, börnum eða komi frá stríðshrjáðum löndum og til þess að geta haldið þessu fram, þarf að henda vegabréfum og reyna að halda sér sem lengst í lyginni þangað til að yfirvöld gefast upp. 

Ólöglega ferðaþjónusta glæpamannanna sem standa í því að smygla fólki til Evrópu hefur allar þessar upplýsingar á reiðum höndum og hjálpfúsir nytsamir sakleysingjar í Evrópu hamast við að standa með smyglurunum í misskildu mannúðarskyni. 

Þrátt fyrir að vitað sé, að meir en 90% þeirra ólöglegu innflytjenda sem koma til Vestur Evrópu eru ekki að flýja stríð, handtöku eða hörmungar heima fyrir, hefur Evrópa undir forustu Guteres framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna tekið upp vitlausustu löggjöf sem til er í málefnum ólöglegra innflytjenda, sem voru síðar skírðir hælisleitendur og loks umsækjendur um alþjóðlega vernd. Skv. þessum lögum þ.á.m. íslensku útlendingalögunum er sönnunarbyrði alfarið lögð á ríkisvaldið en engin á ólöglega innflytjandann. Það má ekki einu sinni gera einfaldar prófanir og rannsóknir á því hvort viðkomandi er að segja satt eða ljúga t.d. hvað varðar aldursgreiningu. Íslenska ríkisstjórnin gekk síðan þennan planka á enda með því að samþykkja svokallaðan Marokkó sáttamála varðandi hælisleitendur.

Venjulegt fólk þarf að nota vegabréf til að komast á milli landa. Ólöglegu innflytjendurnir gera það ekki og framvísa ekki neinu slíku. Af hverju kemst það þá inn í land eins og Ísland sem er eyja og ólöglegu innflytjendurnir koma allir með flugi? Það er vegna þess að íslensk stjórnvöld gera ekki nauðsynlegar ráðstafanir eins og t.d. að krefjast þess, að flytji flugfélag ólöglegan innflytjenda án vegabréfs, þá verði það að koma þeim sama aðila aftur til upphafsstaðar ferðarinnar á sinn eigin kostnað. 

Venjulegur ferðamaður að og frá Íslandi þarf sjálfur að greiða fyrir fæði, uppihald, læknisþjónustu, sálfræðiþjónustu, tannlæknaþjónustu o.s.frv. Ólöglegu innflytjandinn gerir það ekki. Allur kostnaður vegna þeirra er tekinn frá skattgreiðendum. Kostnaður íslenska ríkisins vegna þessarar ólöglegu ferðaþjónustu kostar skattgreiðendur marga milljarða á ári.

Þegar fyrir liggur hvers eðlis ferðaþjónusta ólöglegra innflytjenda er, þá má ætla að einhverjir stjórnmálamenn telji eðlilegt m.a. vegna afleiðinga Covid að standa vörð um velferð eigin borgara og hagsmuni frekar en að stuðla að ólöglegum flutningum ólöglegra innflytjenda til landsins. 


Getur enginn neitt nema Ríkið?

Ríkisbáknið hefur vaxið öruggum og hröðum skrefum. Mikil hækkun á launum alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna ríkisins í upphafi kjörtímabilsins hafa leitt launaþróun, sem engin innistæða var fyrir og það var fyrirséð, eftir að gírugur ráðamenn vildu engu sleppa af feng sínum. 

Ríkissjóður var rekinn með verulegum halla 2019 í mesta góðæri sem við höfum fengið. Nú er fyrirséð, að tekjur ríkisins muni dragast verulega saman. Þrátt fyrir það hefur fjármálaráðherra mótað þá efnahagsstefnu, að ekki skuli skera niður í ríkisfjármálum og ráðist skuli í auknar fjárfestingar hin opinbera að því er sagt er, til að verja störf. 

Sú var tíðin, að Sjálfstæðisflokkurinn boðaði, að nauðsyn bæri til að minnka umsvif ríkisins og lækka skatta. Með því yrðu þau öfl leyst úr læðingi, sem mundu stuðla að aukinni nýsköpun,  framkvæmdavilja og aukinni arpðsköpun. Við það mundu ný störf verða til og tekjur ríkissjóðs aukast. Ungir sjálfstæðismenn leiddu baráttuna undir vígorðinu "Báknið burt."

Stefnumótun fjármálaráðherra nú sýnir að það hefur orðið 180 gráðu stefnubreyting hjá Sjálfstæðisflokknum, Talið er vænlegast til árangurs og varnar gegn þjóðarvá að stækka ríkisbáknið hlutfallslega með því að spara ekkert og með auknum fjárfestingum hins opinbera, en með þeim hætti verði störfin varin. 

Samkvæmt hefðbundinni borgaralegri hagfræði þýðir þessi stefna, gríðarlegan hallarekstur ríkssjóðs og þar sem ekki á að lækka skatta þrátt fyrir efnahagsáföll, sem bitna af mestum þunga á þeim helmingi vinnumarkaðarins, sem þarf að standa sjálfur undir launagreiðslum með því að afla tekna fyrst áður en hægt er að greiða laun verður greinilega þröngt í búi. Ef það verður þá nokkuð bú eftir annað en þrotabú. 

Hjá ríkisvaldinu í núinu er því öfugt farið og hin nýja stefna þýðir, að fyrst skuli eytt áður en teknanna er aflað. Stórfelldum halla á ríkissjóði verður þá ekki mætt nema leggja á aukna skatta á fólk og fyrirtæki nema sú auðvelda leið bráðabirgðaaðgerða verði valin, að vísa þessum vanda eyðslustefnu ríkissjóðs til framtíðarinnar. Til barna og barnabarna.

Stjórnmálastéttin hefur á fáum árum hlaðið undir sig með margvíslegum hætti og færri og færri þingmenn eru í raunverulegum tengslum við framleiðsluatvinnugreinarnar í landinu. Stjórnmálastéttin hefur á kjörtímabilinu bætt kjör sín verulega og langt umfram flestar aðrar stéttir í landinu. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir verið á einu máli um að fjölga aðstoðarmönnum bæði þingflokka og ráðherra auk þess sem framlög til stjórnmálaflokka hafa verið margfjölduð.

Það er dapurlegt, að formaður þess stjórnmálaflokks, sem hafði það einu sinni á stefnuskrá sinni að draga úr ríkisútgjöldum, bruðli og sóun í ríkisrekstrinum en hlúa að frjálsu framtaki skuli ekki sjá neina leið til að spara ogdraga saman  m.a. með því að lækka ofurlaun íslenska stjórnunaraðalsins. Þá er slæmt, að ekki skuli  vera til í orðabók ríkisstjórnarinnnar, að lækka skatta til að stuðla að nýsköpun og fleiri störfum.

Ég sé því ekki betur, en Óli Björn Kárason undirritaður og vafalaust margt annað Sjálfstæðisfólk séum orðin eins og nátttröll í flokki, sem var flokkur einstaklingshyggjunar. Hvað sem því líður, þá er ég ekki tilbúinn til að víkja frá þeirri stefnu í pólitík, sem mótast af því. "að hver sé sinnar gæfu smiður"  og "sinna verka skuli hver njóta". Slíkt gerist ekki nema ríkisvaldið hafi sem minnst afskipti af borgurum þessa lands.  


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 25
  • Sl. sólarhring: 393
  • Sl. viku: 3862
  • Frá upphafi: 2428083

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 3571
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband