Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spaugilegt

Hræðslubandalagið

Fyrirbrigðið Dögun stjórnmálaafl var stofnað með töluverðum gauragangi fyrir nokkru. Að Dögun stóðu Hreyfingin, Borgarahreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn, Þorvaldur Gylfason og nótar hans úr stjórnlagaráðinu. Fljótlega eftir stofnunina sagðist Birgitta Jónsdóttir ekki eiga samleið og stofnaði Pírata. Nokkru síðar sögðu nótar Þorvaldar sig úr hreyfingunni og stofnuðu Lýðræðisvaktina. Málefnaágreiningur lá þá ekki fyrir. 

Eftir ítrekað slakt gengi í skoðanakönnunum og brotthvarf litríkra einstaklinga úr Dögun og Lýðræðisvaktinni ákváðu forustumenn Dögunnar og Lýðræðisvaktarinnar að freista þess að mynda sameiginlegt Hræðslubandalag. Eini tilgangurinn er að fá mann kjörinn á þing.

Birgitta Jónsdóttir pírati  er sú eina í þessum þríhöfða söfnuði sem skynjar að ágreiningurinn um eitthvað sem engin skilur er of mikill til að skilvirkt Hræðslubandalag verði myndað fyrir kosningarnar.  Forustumenn Dögunnar og Lýðræðisvaktarinnar ætla samt að reyna til þrautar enda þingsætin æðri málefnunum.

Fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst í þessum söfnuði sem ætti e.t.v. frekar að segja sig til sveitar á höfuðbólinu Samfylkingunni, hjáleigunni Bjartri framtíð eða heiðarkoti Vinstri grænna.

 


Aðförin að stjórnarskránni misheppnast.

Aðförin sem gerð hefur verið að stjórnarskránni á þessu kjörtímabili er nú endanlega runnin út í sandinn. Þór Saari sækist eftir því að flytja líkræðuna til að ná forskoti fyrir Dögun á Lýðræðisvaktina eða hvað þeir nú heita nýjustu skemmtikraftarnir með formanninn sem klæðir sig til höfuðsins sem kúreki norðursins.

Aðförin hófst með því að hópur fólks með viðskiptafræðiprófessor í broddi fylkingar hrópaði að Hrunið væri stjórnarskránni að kenna. Á þeim tíma var þessi prófessor í nokkrum metum. Nú sjá fleiri og fleiri að þessir menn eru naktir vitrænt eins og keisarinn í Nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen. Rök þeirra halda ekki.

Við erum með góða stjórnarskrá. Sambærilega þeim sem eru í nágrannalöndum okkar. Nauðsyn ber til að skoða nokkur ákvæði hennar t.d. varðandi þjóðaratkvæði, eignarráð og ráðstöfun auðlinda, en engin þörf var á að umbylta stjórnarskránni. Slík aðför hefði haft slæmar afleiðingar hefðu bestu menn ekki komið í veg fyrir það. 

Eftir að álit Feneyjarnefndarinnar lá fyrir og allir málsmetandi lögfræðingar landsins höfðu varað við samþykkt stjórnlagafrumvarpsins sem Valgerður og Jóhanna rembast enn við að styðja varð ljóst að Alþingi mundi ekki samþykkja þetta ólánsfrumvarp.

Athyglisvert er, að helsta stuðningsfólk aðfararinnar að stjórnarskránni var líka stuðningsfólk Icesave landráðasamninganna. Ef til vill segir það einhverja sögu.


Hroki háskólakennarans

Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, hefur í Fréttablaðinu dregið upp ófagra mynd af verkum Gylfa Magnússonar sem ráðherra og stjórnarmanns í Orkuveitunni. Lítið hefur orðið um efnisleg svör hjá Gylfa. Einhverjir fjölmiðlar sögðu þó að hann bæðist „afsökunar“ á að hafa hótað íslendingum „Kúbu norðursins“. En á hverju baðst Gylfi afsökunar?

Gylfi baðst ekki afsökunar á tilraunum til að þvinga skuldaklafa á þjóðina með landráðasamningum. Gylfi baðst einungis afsökunar á samlíkingu við „Kúbu“, sem hefur verið mönnum aðhlátursefni. Ummælin sem Gylfi kallar „vanhugsuð og kjánaleg“ voru þó einkennandi fyrir yfirlætisfulla framgöngu hans sem ráðherra.

Full ástæða er til að skoða náið Icesave-landráðasamningana og tilraunir ráðherra til að þvinga þeim upp á þjóðina. Ekki síður þarf að rannsaka stjórnskipulega ábyrgð Gylfa á milljarðasóun opinbers fjár vegna  VBS, Saga Capital, Askar Capital, Sparisjóðs Keflavíkur, Byr sparisjóðs, SpKef og Byr hf. Jafnframt þarf að skoða vinnubrögð við sölu bankanna til vogunarsjóða,  galna uppgjörssamninga vegna Landsbankans og ranga upplýsingagjöf til Alþingis.

Gylfi Magnússon, sem talaði niður til þjóðarinnar, tók ríkan þátt í hrunadansinum. Hann sat í stjórn Kauphallarinnar á meðan bólan byggðist upp. Hann leyfði viðskiptablokkum og auðhringjum að leika lausum hala sem formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins. Hann setti Kaupþing og bankamenn á sérstakan stall, sem formaður dómnefndar útflutningsverðlauna forseta Íslands, þegar hann veitti þeim verðlaun fyrir útrásina og viðskiptasnilld.  Gylfi sagði  m.a. í umsögn dómnefndar um Kaupþing: „Fyrirtækið fer fremst í öflugri útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og hefur vakið athygli fyrir framsækin og arðbæran rekstur“!

Svo gerðist þessi maður helsti byltingaforinginn í búsáhaldabyltingunni og talaði á útifundum á Austurvelli um vonda kapítalista og ábyrgðarlaust fólk. 


Ný stjórnmálasamtök í burðarliðnum

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor sem heldur að alþjóðlega fjármálakreppan sé íslensku stjórnarskránni að kenna, ætlar að stofna ný stjórnmálasamtök á morgun.

Stofnfundurinn verður í leyndum. Jafn fínt fólk og Þorvaldur og félagar vilja að sjálfsögðu ekki fá hvern sem er svo að ekki verði komið frekara óorði á stjórnmálasamtökin.

Þeir sem helst eru nefndir með Þorvaldi sem sporgöngumenn eru nokkrir stjórnlagaráðsliðar. Þar fara fremstir þeir Lýður Árnason, Örn Báður Jónsson og Pétur Gunnlaugsson allt flóttamenn úr Dögun eins og Þorvaldur, en hann tók þátt í rútuferð um landið fyrir nokkru til að fá fólk til að kjósa Dögun. 

Svo skildu leiðir með Dögn og Þorvaldi,  þegar Þorvaldur ákvað að standa vörð um verðtrygginguna.

Auk stjórnlagaráðsliðanna sem nefndir eru til sögunnar sem stofnendur nýju stjórnmálasamtakanna eru  Kristinn H. Gunnarsson sem má ekki heyra góðs framboðs getið án þess að tilkynna framboð sitt fyrir það og Grétar Mar Jónsson sagðir vera með. Óvíst er þó að Þorvaldi finnist þeir Grétar Mar og Kristinn nógu fínir til að mæta á stofnfundinn í svona flottum klúbb þó hafa megi af þeim gagn síðar.

Þjóðin bíður spennt eftir því að þeir endurlausnarar og snillingar sem þarna koma við sögu geti haldið áfram að telja þjóðínni trú um að fall bankans Lehman Brothers hafi verið íslensku stjórnarskránni að kenna.


Sérfræði nei takk

Valgerður Bjarnadóttir er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Sú nefnd hefur helst fjallað um tillögur til breytinga á stjórnarskránni. Í gær gaf hún lítið fyrir sérfræðilega vinnu við stjórnarskrána.

Tilefnið var að Feneyjarnefndin skilaði athugasemdum við tillögur til breytinga á stjórnarskrá.  Athugasemdir Feneyjarnefndarinnar voru margar og þegar álit nefndarinnar er skoðað þá kemur í ljós að bak við kurteislegt orðfæri sem svona fjölþjóðlegar nefndir nota jafnan þá gefur Feneyjarnefndin  stjórnarskrártillögunum algjöra falleinkunn. 

Valgerði Bjarnadóttur þingmanni Samfylkingarinnar fannst af því tilefni rétt að taka fram sérstaklega aðspurð um álit Feneyjanefndarinnar að í nefndinni sætu lögfræðingar sem væru eins og lögfræðingar almennt en ekki væri mikið gefandi fyrir slíka pótintáta. Þeir væru sérfræðingar í lögum en töluðu ekki eins og almenningur.

Valgerður ráðleggur þá sennilega fólki í samræmi við þetta álit sitt á sérfræðingum að rétt sé að leita til pípulagningarmanna við magakveisu af því að magalæknar tali mál sem almenningur skilur ekki og fyrirtak sé að trésmiðir taki að sér lýtalækningar. Þetta er þó sagt með fullri virðingu fyrir sérfræðiþekkingu pípulagningamanna og trésmiða.

Í samræmi við þetta álit formannsins þegar um mikilvægustu löggjöf landsins stjórnarskrána er að ræða þá er rétt að leggja af allar sérfræðinefndir sem eiga að vera Alþingi til ráðuneytis um vandað löggjafarstarf og segja upp lögfræðingum sem starfa fyrir Alþingi. Þeir þvælast sennilega bara fyrir að mati formannsins.

 

 


Dögun að kvöldi komin

Bræðingurinn sem nefnir sig Dögun virðist búinn að vera. Lýður Árnason sem hefur verið fyrirliði í þessum hópi hefur gefst upp og þá er lítið eftir.

Að Dögun standa Borgarahreyfingin, Hreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn. Þrátt fyrir það hefur bræðingurinn aldrei náð neinu fylgi samkvæmt skoðanakönnunum og eftir því sem forsvarsmenn Dögunar hafa kynnt sig meir þá hefur fylgið dvínað í réttu hlutfalli. 

Þeir sem hafa verið hvað mest áberandi talsmenn Dögunar eru æstustu stjórnlagaráðsliðarnir eins og Þorvaldur Gylfason, Lýður Árnason og  Gísli Tryggvason sem sóma sér vel í samfélagi við Þór Saari sem hefur fjallað um stjórnarskrána af álíka skörpum skilningi og þeir.  Þorvaldur mun hafa gengist inn á það að bjóða sig fram fyrir Dögun en horfið frá því þegar hann sá að fylgið dvínaði jafnt og þétt og nú stendur Gísli Tryggvason einn eftir og ætlar enn í framboð  í Norð Austur kjördæmi þó að Dögun sé að kvöldi komin. 

Fróðlegt verður að sjá hvað verður um þennan bræðing sem hangir helst saman á nokkrum tugum milljóna sem Borgarahreyfingin á í sjóði, sem hefur aðallega verið notaður til að greiða framkvæmdastjóranum Andreu Ólafsdóttur launin sín ásamt auglýsingum um fundarhöld hennar og nokkurra annarra sem ætla í framboð.

Talað er um að Kristinn H. Gunnarsson sem gefur kost á sér í Norð-Vesturkjördæmi fyrir Dögun muni flytja líkræðuna yfir  Dögun enda er hann á móti öllum helstu stefnumálum Dögunar,  en ætlar samt að bjóða sig fram til Alþingis fyrir bræðinginn.

 


Kynblinda

Vinur minn Guðmundur Sigurðsson aðstoðarforstjóri Samkeppnisstofnunar vakti athygli mína á fyribrigðinu kynblinda og spurði hvort ég vissi hvað það væri. Fátt varð um svör.

Guðmundur sagðist hafa rekist á frétt í dagblaði þar sem fjallað var "um tilraunaverkefni í kynjaðri fjárhags- og starfsáætlunargerð (hm!) hjá Reykjavíkurborg. Niðurstaðan var sú að fjárlög og fjárhagsáætlanir mismuni ekki kynjunum en“fjárúthlutanir eru ekki að nýtast kynjunum jafnt og er því ekki um kynhlutleysi að ræða heldur kynblindu.“

Tæpst tæmir þetta nú alveg skýringu á hugtakinu kynblindu og væri æskilegt að þeir sem ábyrgð bera á þessu nýyrði geri okkur fyllri grein fyrir fyrirbrigðinu sem sómir sér væntanlega vel við hlið fyrirbrigðisins í stóli borgarstjóra sem ég veit ekki hvort er haldinn kynblindu eða ekki miðað við skilgreiningu fréttarinnar.

Svo er spurningin hvort að kynblindir þurfi ekki á bókum að halda með kynblindraletri og kynblindrastaf til að rata ekki í ógöngur vegna kynblindunnar.


Hlutfallslega mest aukning þjóðarframleiðslu hvað?

Jóhanna Sigurðardóttir þrástagast á því að á Íslandi hafi orðið mestur vöxtur þjóðarframleiðslu ríkja í Evrópu á síðasta ári. Þetta er raunar ekkert afrek miðað við aðstæður undanfarin ár.

Þetta minnti mig á vini mína tvo sem fóru í megrunarkeppni um áramótin 2011. Þeir voru báðir 100 kg. Um áramótin 2012 hafði Gulli vinur minn náð af sér 8 kg. en Gústi vinur minn bætt á sig 2. Þeir ákváðu að halda keppninni áfram og um þessi áramót hafði Gulli  bætt á sig 2 kílóum og var orðinn 94 kg., en Gústi náði af sér hálfu og var 101.5 kg. Þegar þeir ræddu þetta vinirnir sagði Gústi. Þú ert nú meiri feitabollan Gulli bætir á þig 2 kílóum meðan ég næ af mér hálfu kílói. Gústi ræddi það síðan endalaust hvað hann hefði náð að gjörsigra Gulla hlutfallslega í megrunarkeppninni árið 2012.

Hér fljótum vér eplin sögðu hrossataðskögglarnir.


Nýu fötin keisarans í útgáfu Þorvaldar Gylfasonar

Flestir þekkja söguna af Nýju fötum keisarans eftir H.C. Andersen þar sem litla barnið var eitt um það að benda á að keisarinn væri ekki í neinum fötum, eftir að loddarar og falsskraddarar höfðu talið öllum trú um að þeir hefðu gert þann mesta listvefnað sem gerður hefðu verið á byggðu bóli. Þegar barnið benti á að keisarinn væri ekki í neinum fötum þá þorðu allir að viðurkenna það og sáu ruglið.

Í nýrri útgáfu af ævintýrinu eftir Þorvald Gylfason segir: Stjórnlagaráð kom saman og leit yfir verk sitt og sagði að aldrei hefði nokkru þessu líkt verið gert. Hér er hin fullkomna stjórnarskrá. Forsætisráðherra dásamaði verkið og  þjónar hennar og töldu  listvefnað. En forsetinn sagði nei stjórnlagaráðið er nánast ekki í fötum. Uss sagði Þorvaldur þú átt að þegja þú kemur of seint. Falsskraddarar stjórnlagaráðsins sameinuðust síðan um að ráðast að forsetanum undir forustu Þorvaldar prófessors.

Útgáfa H.C. Andersen er betri og trú hans á að fólki átti sig á því þegar verið er að rugla það í ríminu. Hvað hefði gerst í ævintýrinu ef pabbi barnsins hefði sagt "uss þú mátt ekki segja neitt lengur."

Þá gengi keisarinn enn um nakinn eins og stjórnlagaráð og stór hluti Alþingismanna vill gera í stjórnarskrámálinu.


Þorvaldur í framboð fyrir Dögun

Ég hef það frá þrem heimildarmönnum sem ég tel áreiðanlega að Þorvaldur Gylfason ætli í framboð fyrir Dögun.  Aðrir öfgafyllstu stjórnlagaráðsmennirnir munu einnig ætla að munstra sig í áhöfnina.

Það er því ljóst að það fjarar hratt undan Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, sem hefur gengið erinda þessa fólks af ótta við að það mundi annars valda usla fyrir Samfylkinguna í næstu kosningum. 

 Þá er spurning hvort að bestu menn Samfylkingarinnar taki ekki völdin af Jóhönnu og leiti samninga við stjórnarandstöðuna um þær breytingar  á stjórnarskrá sem samkomulag ætti að nást um t.d. auðlindaákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur og valdsvið forseta lýðveldisins.Tillögum stjórnlagaráðs yrði síðan sturtað niður eins og vera ber við vandað löggjafarstarf.

Þorvaldur er öfgafullur Evrópusinni vill leggja landbúnaðarkerfið niður. Meðframbjóðendur hans í Dögun,  Guðjón Arnar, Þór Saari og Gísli Tryggvason eru eindregið á móti þessu og Pétur Gunnlaugsson útvarpsmaður fjandskapast út í allt og alla sérstaklega Evrópusambandið.  Flottur málefnagrundvöllur?  

Kjósendur geta þá séð hilla undir Dögun nýrrar ósamstöðu fari svo ólíklega að þessi söfnuður nái Þorvaldi á þing.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 436
  • Sl. sólarhring: 742
  • Sl. viku: 3588
  • Frá upphafi: 2513181

Annað

  • Innlit í dag: 392
  • Innlit sl. viku: 3335
  • Gestir í dag: 383
  • IP-tölur í dag: 383

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband