Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Á gröf hins látna blikar bensíntunna

Eitt af höfuðskáldum 20.aldar Steinn Steinar orti á sínum tíma um andlát Kommúnistaflokks Íslands, þegar Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn var stofnaður. Kvæðið hét Kommúnistaflokkur Íslands, in memoriam. Í lokahendingum kvæðisins segir:

"En orðstír hans mun lifa um ár og aldir

 þó allt hans starf sé löngu fyrir bí. 

 Á gröf hins látna blikar bensíntunna

 Frá British Petroleum Company"

Skáldinu fannst sínir gömlu félagar vera komnir í bland við hin kapítalísku tröll með því að samsama sig með Sósíalistaflokknum. 

Í gær fór Katrín Jakobsdóttir formaður VG í æðsta musteri kapítalískra pappírsbaróna, Kauphöllina til að hringja bjöllu til að opna fyrir það veðmang og lotterí kauphallarfursta, sem framleiðendakapítalistar hafa á stundum haft illar bifur á sbr. þá Thomas Alva Edison og Henry Ford, sem vildu með störfum sínum og uppfinningum leggja grunn að bættum lífskjörum hins vinnandi manns. En þeir gátu aldrei séð að kauphallarbrask gæti orðið til þess.

Varla er hægt að komast lengra frá sósíalískri hugsun en samsama sig með hugmyndafræði pappírsbarónanna eins og Katrín gerði í gær. Raunar verður að segja það pappírs- og lotterískapítalistunum á Nasdaq, það til hróss, að þeim tókst að selja alþjóðakvennahreyfingu og sumum stjórnmálamönnum þ.á.m. Katrínu, að bjölluhringing framákvenna til að opna fyrir viðskipti í hámusteri pappírskapítalismans einn dag á ári,  hefði eitthvað með kynjajafnrétti að gera.  

Upphaf kvæðis Steins Steinars gætu því sanntrúaðir sósíalistar nú kyrjað um útför sósíalískrar hugmyndafræði Vinstri grænna, sem er þó í sjálfu sér Guðsþakkarvert þar sem þeir hafa nú fundið hið Kapítalíska leiðarljós.

"Sic transit gloria mundi(Þannig fer um dýrð heimsins) mætti segja"

sagði Steinn Steinar í kvæði sínu um hugmyndafræðilegt andlát Kommúnistaflokks Íslands. Spurning er hvort það sama á ekki við um VG í dag.

 

 


Sofnað á verðinum

Fyrir nokkru greindi umboðsmaður Alþingis Tryggvi Gunnarsson frá því, að honum hefði ekki tekist að ljúka rannsókn á lögmæti gjaldtöku af almenningi og fyrirtækjum, sem stofnað var til fyrir 24 árum, en meginhluta þess tíma hefur Tryggvi Gunnarsson gegnt embætti umboðsmanns Alþingis.

Hlutverk umboðsmanns skv. lögum nr. 85/1997 er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Rannsókn á gjaldtöku hins opinbera af Alþingi er því atriði, sem fellur undir starfssvið hans skv. lögum um umboðsmann Alþingis.

Spurning um hvort gjaldtaka af almenningi og fyrirtækjum vegna þjónustu er mikilvæg spurning fyrir neytendur og eðlilegt hefði verið að umboðsmaður hefði sett það mál í forgang þannig að rannsókninni hefði þá lokið fyrir eða um síðustu aldamót fyrir 20 árum síðan, þá hefði rannsóknin tekið 4 ár sem hefði átt að vera kappnógur tími til að ljúka slíkri rannsókn. 

Nú 24 árum síðar kemur umboðsmaður og segir að ekkert verði gert frekar varðandi rannsóknina. Hún fellur niður vegna þess sleifarlags sem hefur verið á embættisfærslu umboðsmannsins s.l. 24 ár hvað þetta varðar. Þær afsakanir sem færðar eru fram af umboðsmanni varðandi þessa óboðlegu embættisfærslu eru satt að segja ótrúverðugar og standast ekki skoðun sé rýnt í það hvað og hvernig embættið hefur starfað þann tíma. 

Þetta mál varðar allan almenning og hagsmuni hans og hefði átt að vera forgangsmál, en hefur stöðugt verði sett neðst í bunkann, þar sem að umboðsmaður hefur iðulega opnað frumkvæðismál og unnið þau á methraða einkum ef þau gátu verið  til vinsælda fallið. 

Mér finnst sem talsmanni neytenda um árabil óviðunandi að rannsókn sem varðar allan almenning skuli ekki fást unnin vegna þess, að umboðsmaður telur að spurningin um réttmæti gjaldtöku af almenningi sé ekki svo mikilvæg að unnið sé að henni og rannsókninni lokið innan viðunandi tímamarka.

Þegar embætti umboðsmanns Alþingis tekst ekki á 24 árum að ljúka efnislegri rannsókn á mikilvægu máli sem varðar allan almenning og hugsanlega ólögmæta gjaldtöku af fólkinu í landinu þá er greinilega eitthvað að. Það sýnist því einboðið, að stofnunin sem kýs umboðsmanninn, Alþingi, láti þetta mál til sín taka og í því sambandi er eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis láti framkvæma stjórnsýsluendurskoðun á embætti umboðsmanns Alþingis. Minna getur það ekki verið. 


Hver ber ábyrgð á lífi og dauða

Á eins árs afmæli Kovid sjúkdómsins er eðlilegt að spyrja hvort hann sé versti sjúkdómurinn sem riðið hefur yfir heiminn síðustu 100 árin. Svarið er næsta örugglega nei. Lömunarveiki 1950 olli dauða og lömun milljóna barna svo dæmi sé tekið. Þá var mannfjöldi heimsins um helmingi minni en í dag.

Ýmsar inflúensur hafa verið skæðar og tekið mörg mannslíf. Þegar þetta er skrifað, er mannfjöldinn í heiminum 7.698.677.585 og fólki fjölgar um 3 á sekúndu eða um 260.000 á sólarhring. Á einu ári hafa 2 milljónir dáið úr Kovid, en á sama ári hefur fólki í heiminum fjölgað um 95 milljónir. Andstætt því sem margir halda fram, þá ógnar þessi sjúkdómur þó alvarlegur sé hvorki lífi mannsins á jörðinni og mundi ekki gera þó ekki yrði gripið til neinna ráðstafana.

Þróun í læknavísindum, næringarfræði og margvísleg önnur aukin þekking hefur stuðlað að betri lýðheilsu og lengt meðalævi fólks í okkar heimshluta jafnvel um tvo áratugi. Getur verið að vegna þessara miklu framfara á heilbrigðissviðinu, þá teljum við að hægt sé að koma í veg fyrir eða fresta dauðsföllum nánast í það óendanlega og það beri að gera það, hvað svo sem það kostar? Traust almennings og trú á heilbrigðiskerfið og krafan um ábyrgð ríkisins á lífi og dauða leiddi til þess, að heilbrigðiskerfið tók völdin í Kovid fárinu, en lætur stjórnmálamennina bera siðferðislega ábyrgð á því sem gert er eða ekki gert.

Krafan um að varðveita hvert einasta mannslíf og sú staðhæfing að mannslíf verði ekki metið til fjár, er flutt fram af slíkum þunga að athugasemdir um slæm áhrif vegna sóttvarnarráðstafana m.a. á líf annarra skipta ekki máli og afgerandi þjóðfélagsleg tilraun, á heilbrigðissviðinu er sett af stað og heldur áfram út í einhvern óendanleika. Svör við spurningum um siðferðlega ábyrgð á ákvörðunum sem varða líf og dauða eru mikilvæg. Ber einstaklingurinn ábyrgð, fjölskyldan, ríkið, Guð eða einhver annar?

Er í lagi að einstaklingurinn fari sér á voða en beri aldrei ábyrgð? Viljum við að ríkisvaldið setji ákveðnar reglur um líf og lífsstíl fólksins? Ef ríkisvaldið ber ábyrgðina á lífi og dauða er þá ekki rétt, að það taki ákvarðanir um fjarlægðarmörk, hvaða mörgum megi bjóða í boð, hvað margir mega koma saman, hvenær má kyssa ömmu og hvað megi borða og drekka og í hvað miklu magni. Matseðillinn frá lýðheilsustofnun verður þá það eina sem verður í boði.

Ef ríkisvaldið borgar allt hefur það þá ekki líka rétt til að taka allar ákvarðanir m.a. um atriði eins og hvað gerir lífið þess virði að lifa því og hvað eigi að gera til að koma í veg fyrir að fólk deyi. Viljum við fela ríkisvaldinu svona víðtækt vald? Var það einhverntíma ákveðið að ríkið hefði alfarið með líf og dauða fólks að gera?

Sagt er að Morgan skipstjóri, mikilvirkasti sjóræningi Karabíska hafsins, hafi spurt áhöfn sína þegar hann tók við sem foringi sjóræningjanna, hvort þeir vildu stutt líf og skemmtilegt eða langt líf og leiðinlegt í hlekkjum. Áhöfnin valdi frekar stutt líf og skemmtilegt.

Í þeim faraldri sem nú ríður yfir hefur ríkisvaldið ítrekað tekið ákvörðun um og talið sér heimilt, að frysta efnahagsstarfsemina og borga fólki laun fyrir störf sem það vinnur ekki og eru jafnvel ekki lengur til. Það er fordæmalaust, að ríkisstjórnir loki á atvinnustarfsemi og opni aftur að geðþótta. Á ríkisvaldið að hafa svo víðtækar heimildir? Hvenær var það samþykkt, að ríkisvaldið hefði svona víðtæk völd yfir atvinnustarfseminni?

Yfirvofandi efnahagskreppa er vegna pólitískra ákvaðanna. Sú kreppa verður óhjákvæmilega þung, þó fáir virðist skynja alvarleika hennar og ráðherrar tali eins og aldrei komi að skuldadögum og ríkissjóður standi enn svo vel, að við getum leyft okkur þetta. Vafalaust verður reynt að viðhalda trylltum hrunadansi efnahagskerfisins fram yfir kosningar ef þess gefst nokkur kostur, en hvað svo? Hafa stjórnmálaflokkar sett fram raunhæfa stefnu um það hvað eigi að gera til að vinna okkur út úr þeirri kreppu og hvernig þá eigi að skipta þjóðarkökunni?

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti sagði. „Helsta skylda ríkisins er að vernda borgarana en ekki að stjórna lífi þeirra. Slíkt þjóðfélag krefst einstaklingsfrelsis og einstaklingsbundinnar ábyrgðar, þar sem fólki er treyst til að ráða meiru heldur en minnu um líf sitt og störf. Í slíku þjóðfélagi blómstra flest blóm og mannlífið nær þeirri reisn og fjölbreytileika, sem er útilokaður í alræðishyggju ríkislausnasamfélags, sem við höfum stefnt hraðfara til undanfarin misseri vegna þess að stjórnmálamenn dagsins vilja ekki taka á sig ábyrgð og hafa takmarkaða hugmyndafræðilega kjölfestu og viðmiðanir.

Er ekki kominn tími til að treysta heilbrigðum einstaklingnum betur og láta hann gera sína réttu hluti og/eða vitleysur á eigin ábyrgð en ekki á ábyrgð skattgreiðenda. (Grein birt í Morgunblaðinu í dag 26.1.2021.)


Það getur brugðið til beggja vona.

Covid smit eru fá hér á landi og hafa verið það frá því fyrir miðjan desember. Tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum hafa þó verið fáar og óverulegar. Það sýnir hvað það er miklu auðveldara að taka frelsi frá fólki heldur en að veita það aftur. 

Þrátt fyrir fá smit og góðan árangur, þá eru sömu þulurnar tuldraðar án afláts til réttlætis. "Það getur brugðið til beggja vona" "Það er hætta á að allt fari úr böndunum" "Við getum hæglega misst þetta í veldisvöxt"

en síðast en ekki síst "næstu dagar ráða úrslitum"

Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju við komumst aldrei út úr þessum  "næstu dögum" og viðurkennt sé, að það séu ekki efni til að viðhalda þeim lokunum og takmörkunum sem sóttvarnaryfirvöld streitast við að halda í án nokkurrar framtíðarstefnumörkunar og þylji í síbylju möntruna: "Næstu dagar skera úr um það til hvaða ráðstafana verður gripið"  

Þjóðfélag getur ekki endalaust búið við geðþóttaákvarðanir og það þarf að vera einhver vitræn skýring á því af hverju fólk á Hólmavík, Húsavík og Hornafirði megi ekki taka upp eðlilegt líf þegar smit mælast ekki frá Botnsá í Hvalfirði og hringinn vestur,norður, austur og suður að Selfossi.

Ríkisstjórnin getur ekki staðið aðgerðarlaus hjá og ausið milljarði á dag úr galtómum ríkiskassanum, sem framtíðin á að borga. Því miður allt of þægileg tilvera fyrir marga í núinu enda viðbrögðin samkvæmt því. 


Sigurvegarar ársins

Forseti Evrópusambandsins, Úrsúla Geirþrúður frá Leyen og Boris Jónsson geta bæði fagnað sigri fyrir það að viðskiptasamningur Breta og Evrópusambandsins sé svo gott sem í höfn. Samningar sigldu ítrekað í strand, en þau Úrsúla og Boris gerðu sitt til að samninganefndirnar settust aftur og aftur við samningaborðið og hlutuðust til um atriði, sem réðu því að samningar náðust. 

Boris og Úrsúla eru ótvíræðir sigurvegarar ársins 2020.

Þar með er lokið margra ára þrautagöngu Breta við að komast þokkalega heilu og höldnu út úr Evrópusambandinu. Vonandi verður samningurinn báðum aðilum til góðs. Eitt er víst, að hefðu samningar milli Evrópusambandsins og Breta ekki náðst, hefðu báðir aðilar liðið fyrir það og mikil verðmæti tapast. 

Sennilega var það rétt hjá hinum skarpskyggna De Gaulle hershöfðingja og fyrrum Frakklandsforseta, að Bretar áttu ekki heima í Evrópusambandinu. Auk þess sá hann, að með aðild þeirra væri hætta á að öxullinn, sem öllu réði þá Þýskaland/Frakkland yrði þá ekki lengur einráður, en svo fór hinsvegar ekki. Fyrir vikið voru breskir hagsmunir hliðsettir oft á tíðum með þeim afleiðingum sem nú eru orðnar. 

Það eru mikil tíðindi, að Bretar sem hafa verið mestu áhrifavaldir á Evrópska þróun frá því á 18.öld fram yfir síðari heimstyrjöld, skuli nú vera utanveltu og algjörlega áhrifalausir. Þeir geta ekki lengur att Evrópuþjóðum í stríð hvort gegn öðru, hlutast til um málamiðlanir eða ógnað Evrópuþjóðum til að sitja og standa eins og þeir vilja, sem þeir hafa gert um aldir. 

Bretar sömdu um að deila fiskimiðum sínum að verulegu leyti með Evrópusambandinu. Um annað gátu þeir ekki samið. Athyglisvert hvað Evrópusambandið sótti það fast að njóta sem víðtækustu réttinda til fiskveiða í breskri lögsögu og vildu í lengstu lög ekki gefa neitt eftir. 

Þessi staðreynd ættu að sýna okkur Íslendingum, að aðild að Evrópusambandinu kemur, því miður eða sem betur fer, ekki til greina. Það er sá pólitíski veruleiki, sem íslenskir stjórnmálamenn ættu að gera sér grein fyrir. 


Neyðarástand

Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna,öfgasósíalistinn Antonio Guterres krefst þess að þjóðir heims lýsi yfir neyðarástandi vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum. Jafnframt gagnrýnir hann "ríku" þjóðirnar, sem á hans tungumáli er gamla Vestur Evrópa og norður-Ameríka fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Skynsemin og yfirlýsingar þessa aðalritara SÞ fara sjaldnast saman. 

En það er ekkert neyðarástand í loftslagsmálum. Ítrekað hefur verið sýnt fram á það með samanburði á hitamælingum hér á landi, að hlýnun er ekkert sérstök miðað við það sem áður hefur gerst og ástandið er ekkert slæmt síður en svo.  

Sósíalistinn Guterres hefur haft þau helstu baráttumál, að Evrópa taki við óendanlegum fjölda af svonefndum hælisleitendum og flóttafólki. En hann gerir enga kröfu á hendur öðrum ríkjum eða heimshlutum t.d. Saudi Arabíu, Kína, Japan og fleiri löndum sem taka ekki á móti neinu svonefndu flóttafólki. Af hverju skyldi hann ekki gera kröfur á hendur þeim ríkjum?

Krafa hans í loftslagsmálum beinist eingöngu að Vestur Evrópu og Bandaríkjunum, þrátt fyrir að þeir sem eru helstu sökudólgarnir skv. þessum trúarbrögðum eru Kína og Indland, sem og flestar aðrar þjóðir Asíu þar sem kolefnissporið er að aukast á meðan Vesturlönd fórna hagsmunum verkafólks síns og neytenda í stórum stíl á altari þessrar hjátrúar og samþykkja aukna kolefnsilosun þessara ríkja fram til 2030.

Hvað skyldi Guterres ganga til með því að gera endalausar kröfur á hendur Vestur Evrópu varðandi þessi tvö helstu áhugamál sín? Þessi barátta hans er til þess fallin, að draga efnahagslegan mátt úr Evrópu og Bandaríkjunum og veikja menningu þeirra. 

Kína sækir fram og ætlar sér að verða öflugasta stórveldið bæði á hernaðar- og viðskiptavsiðinu. Stjórnmálamenn í Vestur Evrópu hafa verið svo skyni skroppnir að þeir hafa lagt allt á sig til að hjálpa þeim að ná þessari yfirburðastöðu. Það sást heldur betur á síðasta leiðtogafundi Evrópusambandsleiðtoga hversu skyni skroppið þetta fólk er og tilbúið til að fórna eigin hagsmunum til að Kína og ýmsar aðrar þjóðir nái yfirburðarstöðu, en Evrópa veikist. 

Atonio Guterres náði þeim árangri sem forsætisráðherra Portúgal að koma landinu í alvarlega kreppu og kjósendur þar í landi höfnuðu honum í byrjun þessarar aldar. Þá tóku heimssamtök sósíalista sig til og komu því til leiðar að þessi foringi þeirra sem hafði hatast út í samkynhneigða, yrði aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Spor þessa manns hræða og hann hefur ekki hikað við að reyna að breiða yfir og afsaka falsanir loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, sem mælir stöðugt hækkandi hita á jörðinni með því að setja upp hitamæla þar sem heitast er og forðast með því að bera saman raunveruleikan og það sem þetta fólk vill að hafi gerst. 

Það er dapurlegt, að það skuli ekki vera forusta í Evrópu til að taka á bulli eins og kemur frá Antonío Guterres og standa vörð um hagsmuni evrópsks verkafólks og neytenda. Vonandi tekst Guterres ekki að eyðileggja efnahag Evrópu með sama hætti og honum tókst að gera gagnvart efnahag Portúgal meðan hann var forsætisráðherra þar í landi. 

 


Einn fyrir þig og nítján fyrir mig.

"Ef fram heldur sem horfir mun Ísland þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir marga tugi og jafnvel hundruði milljarða króna á komandi árum og áratugum. Þessi útgjöld munu með einum eða öðrum hætti leggjast á íslenskan almenning og fyrirtæki"

Þetta segir Jón Ágúst forstjóri Klappa hugbúnaðarfyrirtækis, sem býður upp á sérfræðiþekkingu til að auðvelda fyrirtækjum að fást við vandamálið.

Þessi gríðarlega skattlagning sem Jón Ágúst talar um er vegna trúarbragðanna um hnattænra hlýnun af mannavöldum. Ætlum við virkilega að gera fólkinu í landinu þetta. Ætlum við að rýra lífskjör komandi kynslóðar verulega? Það er glapræði og ástæðulaust. Í þau 30 ár sem þessi áróður hefur staðið og krafa um loftslagsksatta, hefur engin marktæk breyting orðið á hitastigi og öll spálíkön og spár hlýnunartrúboðsins reynst röng. 

Ætlum við samt að halda áfram út í fen ofurskattheimtu á fölskum forsendum, fé sem allt verður greitt úr landi. 

Á sínum tíma gerðu Bítlarnir lagið og ljóðið um skattheimtumanninn: "Taxman"  og framsýnir voru þeir:

"If you get too cold I´ll tax the heat" og síðar "Don´t ask me what I want it for" Sniðið fyrir skattlagningarfursta trúboðsins um hnattræna hlýnun ort fyrir hálfri öld.

Í lokin segir skattheimtumaðurinn sem tók 19 krónur af 20 í lagi Bítlana: 

"Þú vinnur ekki fyrir neinn nema mig"  

Magnaður spádómur? Er það svona þjóðfélag ofurskattheimtu sem við viljum?

 


Vitlausum ákvörðunum velt yfir á neytendur

Stjórn Sorpu tók vitlausar ákvarðanir í fjárfestingum, sem leiddu til gríðarlegs taps fyrirtækisins. Stjórnin, sem ætti e.t.v. frekar að kalla óstjórnin situr samt áfram enda pólitískir kommisarar skipaðir af bæjarstjórnum, sem eiga Sorpu. 

Vegna þessara vitlausu ákvarðana tók sama stjórn þá ákvörðun, að eðlilegt væri að neytendur borguðu fyrir vilausar ákvarðanir stjórnarinnar og greiddu tapið með stórhækkun á verði þjónustunnar. 

Sorpa er einokunarfyrirtæki, sem þarf ekki að óttast samkeppni. Neytendur þurfa að kaupa þjónustuna af þeim og hafa ekki í önnur hús að venda. Við slík tækifæri er nauðsynlegt, að þjóðfélagið bregðist við með þeim tækjum sem til eru og komi í veg fyrir óeðlilegar verðhækkanir. 

Gera verður þá kröfu til sveitarfélaganna, sem eiga Sorpu, að þau grípi í taumana og gæti að hagsmunum neytenda. Þá verða Samkeppnisyfirvöld að taka málið til meðferðar strax á grundvelli 11.gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Verðhækkunum eins og þessum vegna mistaka stjórnenda fyrirtækis má ekki velta með þessum hætti yfir á neytendur. Sveitarfélögin verða að axla ábyrgð á kommissörunum sínum og koma með nýtt fjármagn inn í reksturinn án í stað þess að sammælast um að stela af neytendum.

Í máli þessu reynir á hvers virði stjórnmálastéttin er. Sættir hún sig við svona vinnubrögð? 


mbl.is Sorpa sprengir upp verðskrána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir tala um veðrið en engin gerir neitt.

Á sínum tíma sagði spakur maður að það væri merkilegt, að allir væru að tala um veðrið en enginn gerði neitt í því. Svo kom að því að hópur fólks í leit að baráttumálum fann upp, að maðurinn réði veðrinu. Sú hugsun hverfðist m.a. um það að taka á vondu iðnveldunum þ.á.m. Íslandi með ötulli aðkomu Vinstri grænna og þau mundu umfram aðra þurfa að herða á takmörkunum á koltvísýringslosun en öðrum eins og Indlandi, Indónesíu og Kína gefnar frjálsar hendur. M.a. þessvegna er Bretland að borga miklar fjárhæðir til Kína árlega svo þeir geti komið sér upp fleiri vindmyllum.

Í aðdraganda Parísarsamkomulagsins var deilt um hvað draga þyrfti koltvísýringlosun mikið saman til að hitastig á jörðinni hækkaði ekki nema í mesta lagi um 1.5. stig þessari öld. Spekingarnir reiknuðu þetta út af "vísindalegri" nákvæmni sjálfsagt eins og þáverandi seðlabankastjóri á mesta verðbólgutíma Íslandssögunnar reiknaði út gengið með þremur aukastöfum til að allrar sanngirni væri gætt. 

Fulltrúar íslensku þjóðarinnar á Parísarráðstefnunni unnu sér það helst til frægðar að gæta ekki að einu eða neinu hagsmuna Íslands, en ræða um kynræn áhrif á hlýnun jarðar enda fulltrúarnir góðir og gjaldgengir fulltrúar ofsatrúarsamfélags sumra vinstri manna á Íslandi sem byggir m.a. á því að meint hnattræn hlýnun sé að verulegu leyti feðraveldinu að kenna. Þess vegna fannst þessum málssvörum íslensku þjóðarinnar gott á hana að greiða sem mest í sjóði í útlandinu vegna þess hvað hún mengaði mikið og ylli miklum spjöllum á veröldinni, svo ekki sé nú minnst á bévítans feðraveldið.

Þessir klafar sem bundnir voru á íslenska skattgreiðendur nema mörgum milljörðum á ári og takmarka sókn okkar til bættra lífskjara. Við þær aðstæður sem nú ríkja er mikilvægt að hinir betri og gógjarnari menn, sem hafa eðlilega yfirsýn og skynsemi taki af skarið og segi okkur frá Parísarsamkomulaginu og sjái til þess, að Ísland hætti að borga kolefnisskatta til útlanda sem eru eingöngu tilkomnir vegna þess hve illa hefur verið á málum haldið af fulltrúum Íslands á loftslagsráðstefnum allt frá Kýótu til Parísar.


Launahækkanir ábyrgðarleysi hvers

Morgunblaðið bendir réttilega á það í leiðara, að engin innistæða er fyrir launahækkunum sem hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði í djúpri kreppu. En hvað veldur?

Þeir sem leiða launahækkanirnar og hafa gert allt þetta kjörtímabil eru stjórnmálamenn, sem létu hækka laun sín af vinum sínum í Kjararáði um leið og þeir settust í valdastóla eftir kosningar. Sú launahækkun var órökstudd og röng og það var þá þegar fyrirséð, að tæki Alþingi og ríkisstjórn ekki á því, þá mundu verða keðjuverkanir á launamarkaðnum eða höfrungahlaup eins og fjármálaráðherra kallar það. 

Sú hefur líka orðið raunin og órói hefur verið á vinnumarkaðnum allt frá þessari sjálftöku stjórnmálastéttarinnar og æðstu embættismanna ríkisins. Aðeins einn þingmaður reyndi að andæfa, en ekki var hlustað á hann og hann er því miður þagnaður.

Þegar Morgunblaðið bendir réttilega á að sú launaþróun sem orðið hefur í landinu stenst ekki miðað við aðrar þjóðhagsstærðir, þá þarf fyrst að beina athyglinni að þeim sem tróna á toppnum og eru með starfskjör, sem eru langt umfram það sem almenni vinnumarkaðurinn getur boðið eða staðið undir. 

Það er því fyrst og fremst við ábyrgðarlausa ríkisstjórn og stjórnmálasétt að sakast. Þjóðfélagið lifir ekki endalaust á seðlaprentun og gjafapökkum frá ríkisstjórninni á kostnað framtíðarinnar.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 2485
  • Frá upphafi: 2506328

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2319
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband