Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Raunir Sviss í samningum við Evrópusambandið.

Viðskiptaritstjóri breska stórblaðsins Daily Telegraph skrifar grein í blaðið í dag undir heitinu "Switserlands ordeal ends all doubts: the EU poisons relation with every neighbour."

Í greininni rekur hann hvernig samningamenn Evrópusambandins hafi gengið gjörsamlega fram af Svisslendingum og sjö ára samningaferli hafi nú verið slitið. Svisslendingar halda því fram,að ráðamenn í Brussel hafi viljað koma þeim bakdyramegin inn í EES, en það segja þeir að sé of mikið valdaframsal varðandi m.a. löggjöf, skattheimtu, heilsuvernd og málefnum innflytjenda og hælisleitenda auk annars. 

Svisslendingar eru ekki tilbúnir að kalla það ok og afsal fullveldis yfir sig og hafa því sagt sig frá samningum við Evrópusambandið þrátt fyrir hótanir Evrópusambandsins um aðgerðir gagnvart Sviss. Stuðningur við aðild Sviss að Evrópusambandinu er nú 10% en var um og yfir 50% þegar best lét á árum áður. 

Í greininni er líka fjallað lítillega um frekju og yfirgang Evrópusambandsins í orkumálum gagnvart Noregi, en það sama á við um okkur og kröfur um frekara framsal valds í þeim málum af hálfu Norðmanna og það sama á þá við um okkur. 

Eigum við ekki að láta staðar numið og taka upp viðræður við Noreg um gagngerar breytingar á EES samningnum, sem var gerður við allt aðrar aðstæður en nú er uppi og vera reiðubúnir til að yfirgefa þann samning taki Evrópusambandið ekki sönsum og virði og viðurkenni fullveldi okkar í löggjafarmálum sem og öðrum málum en þeim sem sérstaklega kann að vera samið um. 

Íslenskir ráðamenn geta ekki látið sem allt sé í lagi í þessum málum og EES samningurinn sé enn réttlætanlegur óbreyttur og þjóni hagsmunum íslensku þjóðarinnar.   


Ralph Nader

Ralph Nader var þekktasti talsmaður neytenda um árabil í Bandaríkjunum og öðlaðist heimsfrægð. Hann varð þekktur þegar hann gagnrýndi bandaríska bílaiðnaðinn fyrir að sinna ekki öryggismálum. Í framhaldi af því skrifaði hann bókina "Unsafe at any speed".(óörugg á hvaða hraða sem er) um bifreið af tegundinni Corvair, sem General Motors framleiddi.

Viðbrögð General Motors þá stærsta fyrirtækis Bandaríkjanna, var ekki að bregðast við gagnrýninni og lagfæra galla í framleiðslu sinni heldur að veitast persónulega að Ralph Nader til að reyna að gera hann ómerkan.

Öldungardeildarþingmaðurinn Abe Ribicoff tók málið upp að höfðu samráði við Nader og málið var rannsakað og þá kom í ljós, að General Motors hafði ráðið einkaspæjara til að afla neikvæðra upplýsinga um Nader til að gera hann tortryggilegan, en ekki nóg með það þeir höfðu leigt vændiskonur til að leggja snörur fyrir Nader og honum var veitt eftirför. Allt var gert til að reyna að finna eitthvað neikvætt um Nader í stað þess að svara gagnrýninni. 

Málið endaði með þeim hætti, að General Motors var dæmt til að greiða Ralph Nader 425.000 dollara vegna brots á friðhelgi einkalífs og fleira. Nokkru síðar afgreiddi Bandaríkjaþing lög sem gerði kröfur til aukins öryggis í bandarískri bílaframleiðslu.

Þetta er rifjað upp hér af gefnu tilefni. Það er ekki ásættanlegt að stórfyrirtæki reyni að svara gagnrýni með að gera lítið úr eða veitast að gagnrýnandanum persónulega og brjóta gegn friðhelgi einkalífs hans.

Mér er ekki kunnugt um að nokkur þingmaður  á Bandaríkjaþingi hafi treyst sér til að verja þessar löglausu aðfarir General Motors gegn Ralph Nader á sínum tíma. 

Á sama tíma og gæta verður þeirrar meginreglu, að enginn sé sekur fyrr en sekt hans er sönnuð, þá er að sama skapi óafsakanlegt að vega að friðhelgi einkalífs einstaklinga, sem setja fram gagnrýni, jafnvel þó hún sé röng. Það eru með öllu óásættanlegar aðfarir hver eða hverjir svo sem í hlut eiga.

 


Sigríður brást ekki.

Ríkisvaldið lætur engan fá peninga nema með því að taka þá frá öðrum. Það er sú ófrávíkjanlega staðreynd, sem ætti öllum að vera ljóst.

Með því að auka millifærslur deilir ríkið út meiri peningum til sumra, sem það tekur frá öðrum. Um leið er verið að taka frelsi af fólki til að hafa sjálft ákvörðunarvald um, hvernig það vill eyða peningunum sínum.

Meðan Kóvíd hefur lamað þjóðfélagið virðist, sem ráðamenn hafi gjörsamlega misst tengslin við fjárhagslegan raunveruleika og talið að þar sem hvort sem er væri verið að eyða um efni fram, þá munaði ekkert um milljarð í viðbót í þetta eða hitt,sem ekki verður með nokkru móti tengt Kóvíd.

Þó talað sé um að þetta verði auðvelt að leysa þegar Kóvíd fer og ferðamenn flykkjast á nýjan leik til landsins, þá gleymist, að árið fyrir Kóvíd,var ríkissjóður ekki sjálfbær.

Nú hefur menntamálaráðherra Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, knúið fram í algjöru ábyrgðarleysi sérstakan stuðning við einkafyrirtæki, sem reka fjölmiðla. Helstu fyrirtækin sem gera það eru í eigu auðmanna. Það skiptir e.t.v. ekki máli, en er það ekki og á það ekki að vera aðalsmerki einkareksturs, að hann sé rekinn á áhættu þeirra sem reksturinn eiga og þeir njóti síðan ágóðans. Eða á það að vera þannig, að skattgreiðendur greiði og síðan njóti eigendurnir ágóðans. Þá er forsenda samkeppnisrekstrar orðin ansi veik.

Nú hefði maður ætlað,að þingmenn stjórnmálaflokka,sem berjast fyrir einstaklingsfrelsi og takmörkuðum ríkisumsvifum hefðu greitt atkvæði gegn því að taka peninga frá skattgreiðendum til að borga til fjölmiðla,sem almenningur hefur jafnvel engan áhuga á. En nei. Aðeins einn þingmaður stóð sig þegar kom að atkvæðagreiðslunni Sigríður Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra.

Sigríður Andersen á heiður skilið fyrir það að vera enn í hugmyndafræðilegum tengslum við það sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir. En það er synd, að hún skyldi vera sú eina.


Af hverju?

Í lok glæsilegs fundar Norðurskautsráðsins átti Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands. Lavrov innti forsætisráðherra eftir því hvort ekki væri rétt, að þjóðirnar tækju upp eðlileg samskipti og Íslendingar hættu "refsiaðgerðum" gegn Rússum með því að leggja bann á ákveðin viðskipti. Forsætisráðherra svaraði hvatvíst að bragði að það kæmi ekki til greina.

Af hverju ekki?

Hvaða tilgangi þjóna þessar refsiaðgerðir? Hvaða markmiði eiga þær að ná? Svörin eru einföld. Þessar refsiaðgerðir þjóna engum tilgangi og þær eiga að ná því markmiði að Rússar skili Krímskaga til Úkraínu, sem allir vita að þeir munu aldrei gera. Er það þá vilji íslenskra stjórnvalda að troða endalaust illsakir við Rússa í algjöru tilgangsleysi og til milljarða tjóns fyrir framleiðendur vítt og breytt um landið. 

Í lok fyrri heimstyrjaldar lagði þáverandi Bandaríkjaforseti Woodrow Wilson fram skynsamlega tillögu  á Versalaráðstefnunni 1919, sem náði að hluta fram að ganga og leiddi m.a. til þess að fólk í Slesvík fékk að kjósa um það hvort það vildi tilheyra Þýskalandi eða Danmörku. Farið var eftir niðurstöðunni og landamæri Þýskalands og Danmerkur grundvölluð á vilja fólksins hvað þetta varðar. 

Á Krímskaga fór líka fram þjóðaratkvæðagreiðsla um  það hvort fólkið þar vildi vera í Rússlandi eða Úkraínu. Niðurstaðan var afgerandi fólkið á skaganum vildi tilheyra Rússlandi. Enginn hefur mótmælt niðurstöðu þessarar atkvæðagreiðslu Krímverja með haldbærum rökum. Af hverju unum við því ekki að sama gildi um Krímverja og íbúa Slésvíkur?

Við megum ekki gleyma því að samskipti okkar við Rússa hafa alltaf gengið vel m.a. á tímum kalda stríðsins og íslensk stjórnvöld áttuðu sig á hagsmunum Íslands á tímum kalda stríðsins og héldu góðum samskiptum við Sovétríkin, en það kom í veg fyrir að Bretar gætu farið sínu fram og kúgað Ísland til hlýðni í landhelgisdeilum þjóðanna.

Forsætisráðherra hefur ekki fært nein skynsamleg rök fyrir áframhaldandi viðskiptastríði við Rússa. En ef við erum svona heilög í utanríkispólitíkinni af hverju eigum við þá viðskipti við Kínverja og Tyrki.

Þess verður að krefjast að stjórnarstefna í viðskiptum við aðrar þjóðir stjórnist af skynsemi en ekki glórulausu rugli.


Einkasala

Enn einu sinni eru komnar upp deilur um einkasölu á vörum nú varðandi netverslun ÁTVR og/eða annarra aðila

Margir muna einokunarverslun ríkisins með útvörp o.fl. svonefnda Viðtækjaverslun ríkisins,sem átti að tryggja öryggi þessara tækja og lifði mun lengur sem einkasala en nokkur skynsemi gæti mælt fyrir um, en þannig er það oft með einkasölur. 

Sérstakar mjólkurbúðir voru einu verslanirnar sem máttu selja mjólk hér áður fyrr og státnar afgreiðslustúlkur sáu um að ausa mjólkinni upp í mjólkurbrúsa, sem fólk kom almennt með með sér og afgreiða sérstaklega innpakkað skyr yfir búðarborðið. Þegar talað var um að færa sölu á mjólkurvörum inn í verslanir var því heldur betur mótmælt og talað um græðgi kaupmanna auk þess sem að þá yrði ekki gætt að gæðum og heilsu en því til viðbótar mundu hundruð kvenna missa atvinnu sína. 

Breyting varð á mjólkursölu engin missti vinnuna,sem gat ekki gengið jafnharðan í önnur störf og lýðheilsa landsmanna versnaði ekki neitt nema síður væri. 

Einokunarverslun opinberra aðila með kartöflur og grænmeti birtist í Grænmetisverslun ríkisins sem síðar varð Grænmetisverslun landbúnaðarins. Þessi stofnun átti að tryggja fæðuöryggi með því að jafnan væri nægjanlegt framboð af hollum og góðum kartöflum og grænmeti. 

Þegar ég gegndi formennsku í Neytendasamtökunum kom ítrekað fyrir að Grænmetisverslunin seldi innfluttar kartöflur sem gátu tæpast kallast mannamatur. Svo fór, að eftir að Grænmetisverslunin hafði flutt inn óætar finnskar kartöflur í miklu magni að við fengum nóg og fengum ýmsa aðila í lið með okkur m.a. lækna og kaupmenn og mótmæltum sölu á þessum óhroða. Þegar einokunarverslunin breytti engu og taldi þetta nógu gott í lýðinn, gengumst við fyrir mótmælum og undirskriftarsöfnun. 

Á einni helgi náðum við á annan tug undirskrifta undir mótmæli og fórum hróðug með það niur í landbúnaðarráðuneyti en þáverandi landbúnaðarráðherra neitaði að taka á móti okkur og undirskriftunum. En forsætisráðherra sýndi meiri kurteisi og veitti okkur viðtöku. 

Þessi barátta Neytendasamtakana ásamt stuðningi ýmissa í heilbrigðisgeiranum og kaupmanna eins og t.d. Pálma heitins í Hagkaup varð til þess, að einokun á sölu á kartöflum og grænmeti var lögð niður. Afleiðingin varð lægra vöruverð, betri vara og aukinn þrifnaður. 

Nú er deilt um netverslun með áfengi og ÁTVR telur fráleitt út frá heilbrigðissjónarmiði, að aðrir en ríkiseinokunin fái að stunda slíka verslun með áfengi. 

En er það svo, að borðalagðir ríkisstarfsmenn séu hæfari til að afgreiða áfengi en aðrir. Á skírskotunin til heilsufars við þegar aðgengi að áfengi er slík að það er selt í hundruðum bara og einnig vegasjoppum hringinn í kringum landið.  Telja má upp á, að þeir sem versla áfengi í netverslun séu ekki þeir sem líklegastir til að vera í bráðum heilsufarslegum vanda vegna neyslu á þessari vöru. 

Áfengi er hættulegt fíkniefni og þessvegna verður að vera ákveðin áfengisstefna í landinu, sem tekur mið af því með hvaða hætti lýðheilsusjónarmið og sala áfengis verði samrýmd. Í því sambandi er helst talað um verðlagningu og aðgengi og ríkisvaldið þarf að huga að þeim atriðum sérstaklega. En það verður ekki séð að ÁTVR þurfi að halda uppi neinni smásölu á áfengi. Af hverju ekki að fela þeim sem vilja kaupa eiga eða reka áfengisverslanir að gera það undir eftirliti ÁTVR sem yrði þá alfarið heildverslun með áfengi. Væri það ekki betri leið en sú að fela ríkisstarfsmönnum að hafa alfarið með smásölu úr verslunum að gera. Þjónar það frekari tilgangi í dag en verslun með mjólk á sínum tíma, viðtækjum eða kartöflum. 


Vald án ábyrgðar

Á sama tíma og forráðamenn ýmissa ríkisstofnana krefjast þess a fá aukin völd í samskiptum sínum við borgarana, er þess krafist, að þeir skuli vera ábyrgðarlausir í stöfum sínum. 

Seðlabankastjóri og Gylfi Magnússon fyrrum ráðherra og formaður bankaráðs Seðlabankans telja, að þrátt fyrir að starfsmenn Seðlabankans brjóti lög í störfum sínum og níðist á borgurunum, þá skuli þeir samt vera ábyrgðarlausir. 

Hvað þýðir það?

Það þýðir að þeir sem verða fyrir óréttmætum afskiptum starfsfólks hins opinbera skuli liggja óbættir hjá garði og bera harm sinn í hljóði því að réttur þeirra var tekinn út fyrir sviga af því að hinum opinbera valdsmanni sé allt heimilt í samskiptum sínum við einstaklinginn jafnvel að gera gróf mistök og jafnvel fara gegn viðkomandi sökum óvildar í hans garð.

Það er með miklum ólíkindum að endurómur hugmyndafræði einvaldskonunga átjándu aldar skuli settur fram með þeim hætti sem nú er gert af stjórnendum Seðlabanka Íslands. Mér er nær að halda að Seðlabankastjóri,sem er gjörhugull maður hafi ekki hugsað þessa hugsun til enda.

Hvar er þá vernd laganna fyrir einstaklinginn, sem má þola aðför og jafnvel ofsóknir af hálfu valdsherranna? Samkvæmt hugmyndafræði valdsherranna í Seðlabankanum skal almenningur bera harm sinn í hjóði og láta svipuhögg valdsins yfir sig ganga.

Þá er spurningin gildir eitthvað annað fyrir starfsfólk Seðlabankans en aðra opinbera valdsmenn eins og t.d. saksóknara, lögeglu og ráðherra. Já og hvað með starfsfólk heilbrigðiskerfisins með sömu rökum má halda því fram, að þessir aðilar allir eigi aldrei að bera neina ábyrgð á mistökum sínum eða jafnvel aðför að rétti borgaranna. 

Fyrir nokkrum árum fór gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands offari í aðför að einstaklingum og fyrirtækjum. Í einu tilviki voru fimm einstaklingar, sem ráku fyrirtæki erlendis sviptir lífsviðurværi sínu, æru og möguleikum til tekjuöflunar. Það var vegna þess m.a. að forstöðumaður gjaleyriseftirlits Seðlabankans gerði meiri háttar mistök og sakfelldi viðkomandi einstaklinga fyrirfram vegna brots á lögum, sem  voru ekki til. Þessir einstaklingar, sem þannig voru sóttir til saka og sviptir aflahæfi sínu og æru um margra ára skeið voru á endanum sýknaðir og þeim dæmdar óverulegar bætur vegna þessara gríðarlegu og óafsakanlegu mistaka starfsfólks gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. 

Hvað varð svo um valdsmanninn í Seðlabankanum, sem var vegna vanhæfni og vankunnáttu valdur að því að fjöldi fólks missti fótanna í lífinu? Seðlabankastjórinn fyrrverandi sá til þess að viðkomandi væri komið fyrir í merkri stofnun erlendis og leyst út með 30 miljón króna gjöf frá bankanum. 

Það er með ólíkindum  að þeim miðaldakenningum skuli í dag, haldið á lofti af málsmetandi mönnum og einum æðsta embættismanni þjóðarinnar, að hið opinbera vald skuli hafa heimild til að fara fram gegn fólki og fyrirtækjum að vild, án þess nokkru sinni að bera ábyrgð á gjörðum sínum. 

Jafnvel þó að valdsmennirnir í Seðlabankanum telji nú vera lag að opinbera myrka miðaldahyggju óskeikulleika hins opinbera valds og nauðsyn þess að einstaklingar í þjónustu hins opinbera valds beri aldrei ábyrgð á gjörðum sínum, þá er það ekki svo í lýðfrjálsu ríki og má aldrei verða.  

 


Spámaður er oss fæddur

Þegar síldin hvarf seinni hluta sjöunda áratugs síðustu aldar minnkaði þjóðarframleiðsla og gjaldeyristekjur þjóðarinnar verulega. Þá átti þjóðin frábæra hagfræðinga, sem voru með báða fætur á jörðinni menn eins og Ólaf Björnsson alþingismann og prófessor, Davíð Ólafsson alþingiasmann og síðar Seðlabankastjóra og Birgi Kjaran alþingismann og hugmyndafræðing svo nokkrir séu nefndir. 

Þessir hagfræðingar voru sér meðvitaðir um að afla verður þeirra fjármuna, sem borgað er með og hvorki heimili né ríkissjóður verða endalaust rekinn fyrir lánsfé. 

Við eigum enn góða hagfræðinga, sem greina ástandið með einföldum og skýrum hætti. Einn þeirra er Ragnar Árnason prófessor, sem benti m.a. á í Morgunblaðsgrein þ.6.mars s.l. að ferðaþjónustan hefði staðið undir þorranum af hagvexti áranna 2014-2019. Þá benti hann líka  á, að núverandi velmegun sé tekin af láni og segir m.a. "Þessar lántökur verður að greiða til baka fyrr eða síðar." Í sjálfu sér ekki ný sannindi, en horfin sumum. 

Á sínum tíma setti Böðvar Guðmundsson skáld og trúbadúr fram þá kenningu að hér á landi þyrftum við engu að kvíða því ameríski herinn mundi sjá um þjóðina þá ekki síst íslenskar alþýðupíkur eins og skáldið orðaði það í kvæði sínu. Allir gerðu sér grein fyrir, að Böðvar var með ádeilukvæði sínu að gera grín. 

Nú hefur þjóðin eignast spámann í líki Gylfa Zoega,sem hefur fundið þá einföldu lausn allra vandamála þjóðarinnar, að með því að loka landinu og halda áfram skuldsetningu, verði þjóðinni best borgið. Fagnaðarboðskap Gylfa hefur verið tekið með miklum fögnuði. Þekkt er úr sögunni fyrr og nú að dansinn í kringum gullkálfinn er fólki hugleikinn, sérstaklega ef ekkert þarf annað á sig að leggja en að dansa.

En veruleikinn skyggnist alltaf fram um síðir jafnvel þó hann verði ekki í líki Móse komnum af fundi Jahve á fjallinu helga. Spurningin er hvort falsspámenn verði þá vegnir og léttvægir fundnir eða geti sveiflað sér á aðra grein eins og skáldmæringar hagfræðinnar á árunum fyrir hrun gerðu.

 


Kæri Pútín

Heilbrigðisráðherra hefur biðlað til Pútíns um að Rússar selji okkur rússneska bóluefnið Spútnik V. Með því er raungerð viðurkenning á, að samflot með Evrópusambandinu varðandi bóluefni,hafi verið mistök. 

Betra væri að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin hefði séð ljósið fyrr og leitað strax eftir samningi við Rússa þegar fyrir lá, að Spútnik V er eitt besta ef ekki besta bóluefnið á markaðnum. Evrópusambandsglýja ráðamanna kom í veg fyrir það. 

Nú þegar biðlað er til Pútín um að sjá aumur á okkur, þá væri e.t.v. rétt, að við hættum um leið samfloti með Evrópusambandinu um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. 

Samstarf Íslands og Rússlands hafa verið góð og arðsöm fyrir Íslendinga. Gönuhlaup Gunnars Bragi Sveinssonar, sem anaði út í að setja viðskiptabann á Rússland, veldur tugum milljarða tjóni fyrir íslenska frameleiðendur á ári hverju og þessi maður er enn þingmaður og ekkert hefur verið gert í að víkja frá þessu rugli. Ísland í dag er furðufyrirbæri að þessu leyti.

Fyrst ríkisstjórnin fer nú bónarveg að Pútín í bóluefnismálum, er þá ekki rétt, að hún tilkynni nú þegar, að fallið sé frá öllum hömlum á viðskipti við Rússa og harmað, að Ísland skyldi hafa anað út í það fen með Evrópusambandinu.

Af hverju ættu Rússar að láta okkur hafa bóluefni þegar við erum á sama tíma að fjandskapast við þá? Það er glópska að halda áfram þessum ruglanda gagnvart Rússum.


Hin nýja sýn á vandanum.

Spakvitrasti stjórnmálamaður norðan Alpafjalla, Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, fjallar stundum um mál með þeim hætti að vísuhending um fjallið Einbúinn verða næsta hugleiknar eins og segir: Hann Einbúi gnæfir svo langt yfir lágt að lyngtætlur stara á hann hissa.

Í fréttatíma RÚV í hádeginu fann hann 5 ára fjármálaáætlun fjármálaráðherra allt til foráttu og segir að ekki sé ráðist að rót vandans sem sé atvinnuleysi. Logi bendir samt ekki á nein arðbær atvinnuskapandi verkefni, en setti fram nýja kenningu sem er einkar athygliverð.

Þannig sagði Logi formaður að þegar talað væri um tekjubætandi aðgerð í fjármálaáætluninni væri verið að vísa til niðurskurðar og skattahækkana. 

Nú fer mér eins og lyngtætlunum í kvæðinu Einbúinn. Svo vís er þessi kenning Loga, að hún verður ekki sett í vitrænt samhengi við allílfið eða neinar hagfræðikenningar fyrr eða síðar hvorki borgaralegar né sósíalskar.

Hvað er tekjubætandi aðgerð? Skv.orðskýringu er það aðgerð sem kemur í stað skatta og eykur þá væntanlega ráðstöfunartekjur fólks. Okkur lyngtætlunum er því fyrirmunað að skilja þá rökfræðilegu útleggingu Loga formanns, að tekjubætandi aðgerð þ.e. lækkun skatta sé ávísun á niðurskurð og skattahækkanir. 

Umræða verður um málið á Alþingi á morgun og væntanlega mun Logi sem hefur hér haslað sér völl með nýja sýn á hagfræðileg hugtök, orsök og afleiðingu gera okkur lyngtætlunum vitsmunalega grein fyrir því hvernig þetta getur farið saman með þeim hætti sem hann heldur fram.


Milliliður allra milliliða

Pétur Benediktsson heitinn, sendiherra, bankastjóri og alþingismaður gaf á sínum tíma út kverið "Milliliður allra milliliða" Á þeim tíma hömuðust sósíalistar og kommúnistar þess tíma sem og þesslyndir Framsóknarmenn við að gagnrýna svonefndan milliliðagróða og héldu því fram að lífskjör mundu batna til ef hægt yrði að útrýma honum. 

Pétur benti með beinskeyttum hætti á það, hversu vitlaus þessi umræða væri og ekki yrði hjá milliliðum komist þó ekki væri til annars en að framleiða vörur, koma þeim á markað og milli markaða. Til gamans benti hann á, að kýrin væri í raun milliliður allra milliliða. Hún biti gras og afurðin mjólk yrði til. 

Pétur benti líka á hversu vitlausar niðurgreiðslur væru þ.e. að ríkið tæki peninga skattgreiðenda og lækkaði með því vöruverð á sumum neysluvörum. Í því sambandi birti hann skopmynd, þar sem feitur maður situr við borð og skóflar í sig dýrindis krásum. Mjór og glorsoltinn hundur kemur að borðinu og mænir á feita manninn biðjandi augum. Feiti maðurinn tekur upp hníf og sker af rófunni á hundinum og stingur upp í hann og hundurinn labbar alsæll í burtu. 

Pétri fannst þessi skopmynd sýna vel að fólk borgi alltaf fyrir niurgreiðslur að lokum neytendur og skattgreiðendur. 

Ráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur til, að "gefa" fólki ferðagjöf. Ráðherrann ætlar ekki að borga ferðagjöfina sjálf. Þeir sem fá gjöfina borga hana. Sama og þegar feiti maðurinn skar hluta rófunnar af hundinum og stakk upp í hann. 

Ferðagjöf ferðamálaráðherra er þó smáræði á við það sem félagsmálaráðherra er búnn að unga út upp á síðkastið og greinilegt að hann er búinn að vera í kosningabaráttu lengi á kostnað skattgreiðenda til að tryggja sér þingsæti í Reykjavík. 

Þegar viðbrögð stjórnvalda við Kóvíd faraldrinum leiddu til mikils tekjufalls flestra á frjálsa markaðnum, sem ríkisvaldið ákvað að bæta með myndarlegum hætti fyrir suma, þá virðist sem flóðgáttir millifærslna og ríkishyggju hafi skyndilega brostið og peningum skattgreiðenda er ausið út eins og þeir séu óþrjótandi og aldrei þurfi að borga fyrir þessa innistæðulausu veislu. 

Sú hugsun virðist gleymd að stjórnmálamenn eru alltaf að fara með fjármuni annars fólks og þeim ber skylda til að gæta þess vandlega. Hvað skýrast kom þetta fram í viðhorfi formanns BSRB fyrir nokkru þegar hún sagði, að ríkissjóður væri ekkert heimilisbókhald og því væru engin tormerki á því að auka enn hallarekstur ríkissjóðs með myndarlegri framlögum til tekjuauka fyrir hálaunafólk. 

Samband íslenskra samvinnufélaga var stærsta fyrirtæki landsins og þar var ekki fylgt lögmálum heimilisbókhaldsins. SÍS fór í raun á hausinn vegna þess að grundvallarreglur heimilisbókhaldsins eru alltaf til staðar. 

Sama var um Baug, umsvifamesta fyrirtækis landsins um árabil. Þar var ekki fylgt heimilisbókhaldsreglum frekar en hjá SÍS og það endaði með þúsund milljarða gjaldþroti. 

Ríkissjóður lítur sömu lögmálum þegar upp er staðið. Auknar lántökur og hallarekstur ríkissjóðs í núinu leiða til hækkunar skatta og vaxta. Það eru þau óumflýjanlegu efnahagslömál, sem aldrei er hægt að komast framhjá þegar hallarekstur ríkis eða fyrirtækja er eingöngu til eyðslu í núinu.

En veislunni sem millifærslufurstarnir í ríkissjóð hafa boðið til enda ekki fyrr en eftir kosningar og svo virðist sem nánast öll stjórnmálastéttin sem og drjúgur hluti þjóðarinnar vilji dansa sem lengst í kringum þennan gervi gullkálf í draumi þess sýndarveruleika að það sé ekkert til að hafa áhyggjur af þar sem gömlu lánin megi alltaf greiða með nýjum eins og stjórnendur Baugs og SÍS töldu.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 233
  • Sl. viku: 2483
  • Frá upphafi: 2506326

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2317
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband