Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Upp er hafinn harmagrátur.

Forsætisráðherra Nýja Sjálands, Jacinda Ardern tilkynnti í gær um afsögn sína og brotthvarf úr pólitík. Þá hófst harmagrátur hinn mesti meðal vinstri stjórnmálaelítunnar á heimsvísu.

Einn dálkahöfundur orðaði það svo, að Jacinda Ardern og Barack Obama fyrrum Bandaríkjaforseti ættu það sameiginlegt að vera dáð erlendis þó þau hefðu tapað allri tiltrú heima fyrir og það væri vel þess virði að þetta sérkenni yrði rannsakað. 

Jacinda Ardern geistist inn á stjórnmálasviðið fyrir fáum árum og orðfæri hennar og yfirlýsingar féllu vel í geð vinstri stjórnmálaelítunni vítt og breytt um heiminn. Henni þótti takast vel upp að höndla mál eftir hryðjuverkaárás í Cristchurch fyrir nokkrum árum og koma fram sem góður fulltrúi lands síns, þó hún hefði ekkert við mannréttindabrot Kínverja að athuga ekki frekar en svo fjölmargir vinstri leiðtogar.

Það liðu ekki mörg ár þangað til það fóru að koma brestir í stjórnun landsins undir forustu Ardern og vinsældir hennar heima fyrir dvínuðu.

Í Kóvíd faraldrinum beitti Ardern aðferðum, sem einkenna einræðisherra. Nýja Sjálandi var algerlega lokað á grundvelli "zero covid" eða núll kóvíd stefnu hennar. Þær aðgerðir höfðu hræðilega afleiðingar. Þá var fólk skyldað til að fara í bólusetningu og athygli heimsins beindist smá stund að Nýja Sjálandi vegna þess að mótmæli við skyldubólusetningum voru barin niður af lögreglu af svipaðri hörku og gerist í ráðstjórnarríkjum.

Versnandi efnahagur, aukin skattheimta og fátækt varð síðan veruleikinn sem íbúar Nýja Sjálands búa við sem afleiðingu af stefnu Ardern. Kjósendur í Nýja Sjálandi hafa því snúið baki við Ardern. Skoðanakannanir hafa sýnt, að hún hefur tapað meirihlutanum og gott betur. Ofurstjórnmálamaðurinn á heimsvísu Jacinda Ardern tók ekki þá áhættu að verða niðurlægð í kosningum og ákvað því að segja af sér og láta öðrum það eftir að takast á við þau vandamál sem hún skilur eftir sig. 

Þó Ardern skilji eftir sig minningar um versnandi lífskjör, aukna fátækt og ógnarstjórn á tímum Kóvíd, þá harmar vinsti stjórnmálaelítan stjórnmálaleiðtoga, sem gat ekki horfst í augu við, að kjósendur mundu hafna henni í kosningum. 

Nú er hafinn harmagrátur vinstri stjórnmálamanna eins og Katrínar Jakobsdóttur, Keith Starmer og Justin Trudeau yfir þeirri illu meðferð sem þau segja að Ardern hafi þurft að undirgangast.

Landsmenn Ardern hafa þó aðra sögu að segja og minnast hennar með allt öðrum hætti þegar þeir þurfa að glíma við versnandi lífskjör, aukna verðbólgu og fátækt.

Arfleifð sem stefna vinstri manna skilur jafnan eftir sig. 


Kemur þeim þetta ekki við?

Í ágætri grein, sem Ragnar Önundarson fyrrum bankastjóri skrifaði í Morgunblaðið í gær kemur fram, að 4.000 hælisleitendur hafi komið til landsins vikuna 5.-11.desember.

Sambærileg tala fyrir Bretland miðað við fólksfjölda eru 720.000 manns. Allt árið í fyrra komu 40.000 manns með bátum til Bretlands. Bretar sætta sig ekki við það og hafa og ætla að grípa til margvíslegra ráðstafana m.a. senda hælisleitendur til Rúanda meðan mál þeirra fá meðferð í kerfinu. Sú aðgerð var dæmd lögleg á æðra dómstigi í Bretlandi í gær. 

Straumur hælisleitenda er orðinn svo stríður,að ekki verður við neitt ráðið og þá ættu stjórnvöld að grípa til neyðarráðstafana. Ráðherra útlendingamála Guðmundur Ingi Guðmundsson gerir samt ekki neitt annað en að fagna þegar ríkið tapar dómsmáli um málefni hælisleitenda. Sérkennileg ráðsmennska það.

Alþingi tók ákvörðun um að fresta að lögfesta bráðnauðsynlegar breytingar á lögum um málefni útlendinga sem dómsmálaráðherra lagði fram. Þar á bæ þykir fólki málið ekki brýnt. Á sama tíma býr fólk við stöðugan áróður ríkismiðilsins um nauðsyn þess að skipta um þjóð í landinu. Fólk er neytt til að borga kr. 20.000 á ári fyrir nef hvert eða 80.000 á fjögurra manna fjölskyldu fyrir þessa áróðursstöð.

Hvernig eigum við að fara að varðandi móttöku gríðalegs fjölda hælisleitenda sem streymir til landsins. Af sjálfu leiðir að við ráðum ekki við slíkt verkefni. Væri döngun í stjórnmálaforustu landsins þá væri þegar komin í gang neyðaráætlun til að bregðast við og koma í veg fyrir algert neyðarástands vegna örlætis þeirra sem ausa út peningum annarra. 

Í október  lýsti  Ríkislögreglustjóri yfir hættuástandi á landamærunum vegna mikils fjölda hælisleitenda sem streymdu til landsins. Síðan þá hefur ekkert verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að bregðast við og ráðherrann Guðmundur Ingi sem málið  heyrir undir sér enga ástæðu til að gera neitt annað en að klóra sér í höfðinu og e.t.v. víðar og fagna því að ríkið tapi dómsmálum þannig að leiðin verði enn greiðari fyrir hælisleitendur.

Hver er eiginlega stefna þessara voluðu ríkisstjórnar í þessum málum ef hún yfirleitt hefur einhverja? 


Regnbogafáninn über alles

Í gær lauk heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar. Gagnrýnt var, að mótið skyldi haldið í Katar, m.a. vegna mannréttindabrota landsins. En þegar Katar vann tilnefninguna, sannaðist enn það fornkveðna, að asni klyfjaður gulls kemst yfir hvaða borgarmúr  sem er. Sagt er að formaður Bandarísku sendinefndarinnar fyrrum forseti Bill Clinton hafi orðið svo reiður að hann hafi grýtt fokdýrum vasa í vegg þegar hann kom á hótelið sitt í bræði sinni

Vestur-Evrópubúar höfðu það helst við Katar að athuga, að samkynhneigt fólk byggi ekki við eðlileg mannréttindi, sem er satt og rétt og fordæmanlegt. Þessvegna sýndu ýmsir afstöðu sína í verki með því andstætt reglum að sýna Regnbogafánan við sumar aðstæður. 

Önnur mótmæli vegna mannréttindabrota Katara voru nánast engin. 

Ekki fór mikið fyrir að vakin væri athygli á réttindaleysi kvenna í Katar þar sem m.a. vitnisburður konu hefur helmingi minna gildi en karla og í hegningarlögum landsins eru hýðingar og grýtingar hluti af mögulegum refsiákvörðunum dómstóla landsins.

Ekki var vakin athygli á því hvað það þýðir að landið skuli búa við Sharia lög. Engar athugasemdir voru heldur gerðar varðandi það alavarlegasta og það sem bitnar á flestum, þ.e. réttleysi farandverkafólks í landinu,sem sumt býr stundum við þann kost að vera í raunverulegum þrældómi. Í sumum tilvikum kynlífsþrælkun m.a. vændi.

Katarar eru lítill minnihluti í landinu,sem flytur inn verkafólk í stórum stíl og þessi meirihluti, sem  býr í landinu hefur nánast engin borgaraleg réttindi. 

En allt þetta óréttlæti víkur fyrir því sem Vestur Evrópu er hjartfólgnast og telur verstu mannréttindabrotin og að því er virðist þau einu sem ástæða sé til að nefna eða berjast fyrir.  


Nýir skattar og nýar takmarkanir

Sl. fimmtudag komust samningamenn Evrópusambandsins að samkomulagi um að innleiða kolefnis landamæra skatt. Skatturinn á að leggjast á vörur sem fluttar eru til Evrópu frá löndum, sem eru ekki eins loftslagsgalin og Evrópusambandið. Skattlagningin er nýjasta dæmi þess hvernig frelsið er stöðugt takmarkað og meiri hömlur lagðar á þegar regluverk heildarhyggju  sósíalískra hugmynda nær fótfestu.

Kolefnisskattar sem Evrópusambandið hefur lagt á fyrirtæki í Evrópu dregur úr samkeppnishæfni þeirra og hækkar vöruverð til neytenda. Þegar það liggur svo fyrir,að önnur lönd eru ekki jafnkolefnisgalin og Evrópusambandið, þá verður að gera eitthvað til að rétta hlut evrópskra samkeppnisfyrirtækja og þá dettur kommissörunum í Brussel aldrei neitt annað í hug en nýir skattar.

Í fréttum í Sunnudagsblaði Financial Times segir frá því að norskir milljónamæringar flýji nú landið í umvörpum vegna sérstaks auðlegðarskatts sem sósíalistarnir í Noregi hafa lagt á. Ofurríka fólkið getur þetta og komið sér hjá óhóflegri skattpíningu, en það getur millistéttin og hinn almenni neytandi ekki.

Ríkisstjórnir sósíalista hafa aldrei skilið það, þ.m.t.ríkisstjórn Íslands, að ofurskattar á framtak einstaklinganna leiða alltaf til verri lífskjara og frelsisskerðingar.

 


Hvað kostar þingmaður eða þá borgarfulltrúi?

Leiðtogi Sovétríkjanna Leonid Bresnev leit á Willy Brandt sem þann mann, sem Sovétríkin gætu treyst og mundi ekki standa að árás á Sovétríkin. Bresnev var mikið í mun að halda honum við völd. Framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins þýska, flokks Brandt sagði í þætti þar sem fjallað var um líf og starf Brandt, að ákveðinn sendimaður Sovétstjórnar hefði komið á skrifstofu sína með 2 milljónir marka í seðlum og beðið hann að sjá um að þessir peningar yrðu notaðir til að koma í veg fyrir að vantrausttillaga á Brandt yrði samþykkt, ekki þyrfti að kaupa nema tvö atkvæði. Framkvæmdastjórinn sagði að það gæti hann ekki gert og sagði að sendimaðurinn hefði þá sagt að hann yrði að leita annarra leiða.Framkvæmdastjórinn sagði að sér hefði síðan komið á óvart hvernig tveir þingmenn greiddu atkvæði þ.á.m. fyrrum  kanslari og formaður kristilegra demókrata. 

Undanfarið hefur verið vakin athygli á því í Morgunblaðinu, að sérkennilegir hlutir eigi sér stað varðandi lóðamál borgarinnar þar sem milljarða hagsmunir eru í húfi og þar sitji oddviti Sjálfstæðisflokksins á hljóðskrafi við borgarstjórann. Annað mál er kaup fyrirtækis Orkuveitunnar á munum frá Sýn fyrir 3 milljarða. Miklir hagsmunir eru í húfi og málin fá hvorki viðhlítandi umfjöllun í fjölmiðlum né á vettvangi borgarinnar. 

Í Belgíu hefur lögreglan um nokkurt skeið haft til rannsóknar mútumál,sem talið er hafa haft áhrif á ákvarðanir Evrópuþingsins. Nýverið var gerð húsleit hjá nokkrum þingmönnum m.a. einum varaforseta þingsins og öðrum þingmanni og við það fundust annars vegar 900.000 evrur og hins vegar 700.000 evrur og það allt í seðlum. Ekki þykir vafi á því að þessir peningar komi frá Katar með milligöngu Marakósku leyniþjónustunar.

Giorgiana Maloni forsætisráðherra Ítalíu hefur haft hörð orð um að Evrópusambandið þurfi heldur betur að taka til hendinni og uppræta þessa spillingu á meðan Macron nýkominn úr ferð til Katar segir einhverra hluta vegna, að það verði að bíða þangað til fullnaðarrannsókn hefur farið fram. Jafnvel þó að spillingin og múturnar æpi framan í alla sem hafa gripsvit í kollinum.

Það sem liggur fyrir er að Katar reynir með mútufé að hafa áhrif á ákvarðanir Evrópuþingsins. Til hvers? Til fjárhagslegs ávinnings. Þannig er það alltaf þegar ríki eða auðfólk kaupir þingmenn eða borgarfulltrúa. 

Af því að heimspeki Filippusar Makedóníukonungs föður Alexanders mikla um að "það sé engin borgarmúr svo hár,að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann" hefur reynst rétt og sönn í þau 2.400 ár frá því þessi orð voru sögð, þá verða fjölmiðlar og lögregla,sem og kjörnir fulltrúar að vera á varðbergi og kanna alla hluti til hlítar þegar spurning getur verið um mútur  eða hagsmunaárekstri. 

Einnig vegna þessa verður að athuga sérstaklega varðandi val á frambjóðendum, að þeir séu ekki settir í óviðunandi aðstöðu eins og t.d. í prófkjörum,sem bjóða hættunni heim og dæmi sanna, að ítrekað hafa ákveðnir aðilar notið ótrúlegs stuðnings ákveðinna hagsmunaafla. 

Það kaupir engin þingmann eða borgarfulltrúa nema um sé að tefla mun hærri fjárhæðir í endurgreiðslu sem neytendur eða skattgreiðendur þurfa þá að greiða.

 

 


Klerkarnir hvika

Brottflæmdir Íranar hafa mótmælt harðýðgi og mannréttindabrot klerkastjórnarinnar víða um Evrópu undanfarið.

Ég gekk inn í einn slíkan mótmælafund í London fyrir nokkru. Það sem vakti helst athygli mína var aragrúi mynda af ungu fólki allt niður í 11 ára, sem öryggissveitir klerkastjórnarinnar höfðu myrt frá því að friðsöm mótmæli hófust í landinu. 

Fréttir meginstraumsmiðla eru svo lélegar og nánast allsstaðar þær sömu. Mikilvægar fréttir fara iðulega framhjá fólki vegna þess að ekki er fjallað um málin. Þegar landsliðið í knattspyrnu neitar að syngja þjóðsönginn á HM í Katar sér fólk hvað undiraldan er gríðarleg.

Nú lofar stjórn Íran að leggja niður siðgæðislögregluna og hætta að  skylda konur til að hylja hár sitt og andlit með tilheyrandi höfuðbúnaði. Eftir er að sjá hvort þetta gengur eftir og hvort að fólk sé ekki orðið svo langþreytt á þursaveldinu, að það hætti ekki fyrr en almennum lýðréttindum hefur verið komið á og klerkastjórninni ýtt til hliðar. 

Ríkisstjórn sem myrðir eigin borgara breytist þá í hryðjuverkasamtök. Í Hyde Park í London varð ég þess var að ríkisstjórn Íran er ein slík. Þeirri ríkisstjórn miðaldahugmyndafræði og ógnarstjórnar verður að koma frá völdum.

Ekki virðist vefjast fyrir írönskum konum, að telja höfuðblæjur og handklæði um  höfuð vera tákn ófrelsis kvenna. Á sama tíma fjölgar slæðukonum á götum Reykjavíkur og sértrúarhópurinn á RÚV fagnar og telur þann búnað hinn ákjósanlegasta fyrir konur og fjarri því að hafa nokkuð með áþján karlaveldisins að gera.

Á sama tíma heyja konur og frelsissinnar í Íran hatramma baráttu gegn þessu tákni ófrelsisins. 

 


Sannleiksógnin

Macron Frakklandsforseti vill hitta Elon Musk eiganda Twitter. Macrons líkar ekki að Musk, ætli að hætta ritskoðun á miðlinum. Hvað skyldi Macron óttast við frjálsa tjáningu?

Frægt er þegar Angela Merkel kvartaði við eiganda Fésbókar, að neikvæð umræða um innflytjendastefnu hennar væri leyfð á fésbók og krafðist þess að eitthvað yrði gert. "Við erum að vinna í því sagði eigandinn. Því miður gleymdist að slökkva á hátölurum þannig að aðrir heyrðu kröfu Merkel um ritskoðun.

Miðlarnir Twitter og Fésbók og aðrir meginstraumsmiðlar hafa verið notaðir til að koma í veg fyrir oft eðlilega tjáningu. Sú ritskoðun er réttlætt á þeim grundvelli að um hatursumræðu sé að ræða eða dreifingu falskra upplýsinga. 

Í Kóvíd faraldrinum voru skoðanir sem fóru í bág við stefnu stjórnvalda varðandi innilokanir, takmarkanir á frelsi fólks, sóttvarnarráðstafanir, bólusetningar, dæmdar falsfréttir eða þaðan af verra og voru ekki leyfðar af þessum miðlum. Í dag ættu allir að sjá hversu rangt það var og hve alvarlega það braut gegn tjáningarfrelsinu einmitt þegar sótt var að lýðfrelsi almennra borgara og t.d. ferðafrelsi afnumið ef fólk vildi ekki láta dæla í sig einhverju meðalaglundri sem á tilraunastigi. Þá var einmitt þörf fyrir óheft tjáningarfrelsi eins og alltaf.

Tjáningarfrelsið er mikilvægt á markaðstorgi stjórnmálanna og til að móta vitræna umræðu. Öll umræða stjórnmálamanna um falsfréttir og hatursorðræður er til þess fallin að takmarka þetta frelsi. Lýðræðið hefur getað lifað við  það hingað til að fólk fengi að tjá skoðanir sínar og bera um leið ábyrgð á þeim. Af hverju er sérstök þörf á því nú, að takmarka þetta tjáningarfrelsi nú og setja það í viðjar? 

Macron er ekki eini vestræni leiðtoginn sem stendur ógn af tjáningarfrelsinu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands boðar lagafrumvarp eftir áramót til að takmarka tjáningarfrelsið Á hennar máli heitir það að koma  í veg fyrir hatursorðræðu.

Við eigum að leyfa alla umræðu. Það er alltaf heppilegra en ritskoðun. Franska grínblaðið Charlie Hebdoe birti teikningar sem mér fundust umfram allt velsæmi. En var það mitt að dæma? Að sjálfsögðu ekki. Ekki frekar en Macron varðandi Twitter. 

Eftir að Íslamskir öfgamenn myrtu ritstjórn Charlie Hebdo lýstu vestrænir leiðtogar því yfir að þeir stæðu vörð um tjáningarfrelsið. En það hafa þeir ekki gert. Íslamistarnir sigruðu. Nú er algjör þöggun í fjölmiðlaheiminum um ógnarverk þeirra. Bók Salman Rushdies, Sálmar Satans mundi ekki fást gefin út í dag. 

Katrín Jakobsdóttir vill m.a. takmarka umræðu um Íslam með því að setja lög um hatursorðræðu til að koma í veg fyrir að sannleikurinn sé sagður. Sbr. austurríska kennarann sem fékk dóm í Mannréttindadómi Evrópu fyrir að segja sannleikann um Múhameð á þeim forsendum að það gæti valdið ólgu í þjóðfélaginu. Svo hart er nú vegið að tjáningarfrelsinu, að jafnvel sá dómstóll, sem á að gæta þess að tjáningarfrelsið sé virt telur rétt að meta hvort tjáning sé heimili á þeim forsendum, að hún valdi ekki ólgu í þjóðfélaginu. 

Hefði skoðun Mannréttindadómstólsins, Macron og Katrínar Jakobsdóttur verið viðurkennd á öldum áður, hefði upplýsingastefnan sennilega aldrei náð fram að ganga, franska og bandaríska byltingin aldrei orðið og Mahatma Ghandi aldrei fengið að tjá skoðanir sínar um frelsi Indlands undan nýlendukúgun. Allar skoðanir þessu tengdar ollu nefnilega ólgu í þjóðfélaginu. Þannig á það líka að vera á markaðstorgi stjórnmálanna.


Við borgum ekki.

Á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi krafðist Pakistan að stofnaður yrði bótasjóður, sem þjóðir Evrópu og N. Ameríku, sem bera ábyrgð á iðnbyltingunni greiddu þróunarríkjum eins og Pakistan, Kína og Indlandi, bætur fyrir tjón sem við eigum að hafa valdið vegna framþróunar,sem hefur orðið á vegna vestræns hugvits og dugnaðar.

Margir vestrænir leiðtogar þ.á.m. Svandís Svavarsdóttir tóku vel í hugmyndirnar og Svandís lofaði f.h.íslensku ríkisstjórnarinnar án allra heimilda, að leggja auknar byrðar á íslenskt alþýðufólk til að bæta þetta meinta tjón sem við eigum að hafa valdið. 

Hvað höfum við gert? Skiptir ekki máli segir VG við erum og höfum verið vondir kapítalistar og eigum að bæta fyrir þá synd. Syndaaflausn í formi nútíma aflátsbréfa v. hamfarahlýnunar.

Fulltrúi Pakistan grét og vísaði í hræðileg flóð nýverið í Pakistan, sem hefðu kostað gríðarlega mörg mannslíf og allt væri það manngerðri hnattrænni hlýnun að kenna,sem kapítalistarnir í iðnvæddu ríkjunum bæru ábyrgð á. Þróunarlöndin tóku undir þetta einum rómi enda alltaf eygt auravon í loftslags bullfræðinni.

Þegar Pakistan fékk sjálfstæði frá Bretum 1947 voru 33% landsins skóglendi. Í dag er það einungis 5% landsins. Gæti það haft þýðingu varðandi afleiðingar mikilla rigninga?

Árið 1950 voru meiri flóð í Pakistan en á árinu 2022, þar sem helmingi fleira fólk fórst en núna þrátt fyrir að fólksfjöldi væri þá mun minni en nú. Á síðustu 50 árum hefur fólksfjöldinn í Pakistan vaxið úr 65 milljónum í 225 milljónir. Gæti það haft einhver áhrif. Eigum við að borga fyrir það?

Eiga íslenskir skattgreiðendur eða skattgreiðendur og neytendur í V Evrópu og N.Ameríku að borga fyrir það að vegna framþróunar í kjölfar iðnbyltingarinnar og vestræns hugvits og dugnaðar hefur lífaldur lengst og fátækt og hungur í heiminum minnkað 

Það er svo alvarlegt mál fyrir Vesturlönd, að eiga fulltrúa á alþjóðaráðstefnum, sem eru rifnir úr tengslum við söguþekkingu og raunveruleikann og eru haldnir þvílíkri skömm á sjálfri sér og þjóðum sínum, að að þeir telja að allt sem misferst hefur í heiminum sé þeim að kenna og fyrir það verði skattgreiðendur og neytendur á Íslandi og víðar að greiða miklar bætur. 

Varla er hægt að finna verri stjórnmálamenn en þá, sem vilja rýra lífskjör eigin borgara vegna hluta sem þeim kemur ekkert við og er ekki þeim að kenna. Við stöndum á okkar rétti og virðum okkar gildi og dugnað.  Við neitum því að borga fyrir aflátsbréf Vinstri grænna í loftslagsbótasjóðinn.

 

 

 

 


The real thing

 Fjölmennasta og íburðarmesta veisla ársins, er og verður lúxus loftslagsráðstefnan í Egyptalandi Cop27. Þangað komu um 40 þúsund manns nánast allir kostaðir af skattgreiðendum og neytendum. Meir en 400 einkaþotur lentu með þáttakendur á ráðstefnunni og ótölulegur fjöldi risaþotna sá um að flytja restina. 

Þáttakendurnir eiga það sameiginlegt,að hafa stórkostlegar áhyggjur af kolefnissporinu þínu en engar af sínu.

Hin nýja stétt, nomen klatura, nýaldarinnar þarf ekkert að spara enda borgaði Kóka Kóla fyrir herlegheitin.

Auglýsingaskilti Kóka Kóla eru iðulega reisulegustu mannvirkinn í fátækustu hlutum heimsins. "The real thing" gnæfir yfir opnum klóökum í borgum og bæjum þriðja heimsins. Hjálpin mikla. Þá skiptir heldur máli að geta gripið í flösku sem hefur að geyma "the real thing".

Þáttakendum á Cop27 fannst ekkert að því að Kóka Kóla borgaði undir rassinn á þeim, þó það hafi lengi verið talið einkennismerki hins óhefta kapítalisma. Ekki þarf lengur að vandræðast yfir því þegar þeir ofurríku eru gengnir í lið með bullinu, sem þeir hafa að sjálfsögðu fundið leið til að græða á.

Svandís Svavarsdóttir og trúarsystkini hennar í loftslagskirkjunni brostu breitt og slógu taktfast, að heimurinn væri að farast ef ekki yrði gripið til þess að rýra lífskjör fólks í Evrópu og N-Ameríku.

Hin nýja stétt umhverfisverndarsinna gerði engar athugasemdir við það,að árlega framleiðir Kóka Kóla 120 milljarða einnota plastik flaskna. Þesar einnota plastik flöskur 120.000.000.000 valda mikilli eyðileggingu, mengun og  eyðileggingu á lífríkinu, ekki síst þar sem auglýsingaskiltin um "the real thing" gnæfa yfir mannlífinu.

Fyrirheitið á auglýsingaskiltinu um hinn sanna unað og velferð, sem falin er í einnota plastflösku er álíka vitlaust og annað sem gerðist á þessari ráðstefnu hinnar sjálfhverfu nýju stéttar loftslagskirkjunnar. 

Síðustu línurnar í kvæði Steins Steinars um Kommúnistaflokk Íslands, in memoriam með lítilli breytingu eiga jafnvel við  um gildi tildurráðstefnunnar Cop27

Á gröf hins látna blikar drykkjartunna frá Kóka Kóla Company.

 

 


Sigurvegarinn og Donald Trump

Ríkisstjóri Flórída Ron DeSantis var sá Repúblikani, sem jók fylgi sitt mest í nýliðnum kosningum. Lengi hefur verið mjótt á mununum milli Repúblikana og Demókrata í Flórída, en ekki lengur.

DeSantis er baráttumaður fyrir frelsi. Í Kóvídinu, var frelsið haft að leiðarljósi, en skírskotað til almennings að gæta sín. Það skilað betri árangri innilokanir, höft, boð og bönn. 

DeSantis hefur tekið stórfyrirtækin á löpp þegar þess hefur þurft og hafnað því að samtökin 78 önnuðust kynfræðslu í skólum svo fátt eitt sé nefnt.

Margir Repúblíkanar segja, að ný pólitísk stjarna sé fædd.

Að öðru leyti voru kosningarnar vonbrigði fyrir Repúblíkana. Frambjóðendur, sem standa næst Donald Trump,vegnaði sérlega illa. Margir segja því að tími Trump sé liðinn. 

Trump kennir öllum öðrum en sjálfum sér um úrslitin og er búinn að uppnefna DeSantis og segist vita meira um hann en konan hans og segist ætla að opinbera það. Greinilegt að Donald Trump telur hann ógna sér og getur ekki í sjálfselsku sinni horft til þess hvor þeirra sé líklegri til að sigra Demókrata í næstu kosningum. Miðað við úrslitin er það DeSantis en ekki Trump.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 316
  • Sl. sólarhring: 387
  • Sl. viku: 2797
  • Frá upphafi: 2506640

Annað

  • Innlit í dag: 314
  • Innlit sl. viku: 2629
  • Gestir í dag: 311
  • IP-tölur í dag: 305

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband