Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Skuldir heimilanna. Tillögur á Landsfundi.

Ég hef borið fram eftirfarandi breytingartillögur í nefndinni um Skuldavanda heimilanna á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins:

"Tillaga 1. UpphafSjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á séreignastefnu í húsnæðismálum.  Sjálfstæðisflokkurinn leggur í því  sambandi áherslu á að ungt fólk eigi kost á hagkvæmum lánum til húsnæðiskaupa.  Séreignastefnan á húsnæði á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklingana og betri lífskjör.  Skattstefnu og gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga vegna bygginga eigin húsnæðis verður að stilla mjög í hóf til að auðvelda einstaklingunum að koma sér upp þaki yfir höfuðið.  Tillaga 2. Fjármögnun íbúðarhúsnæðisLandsfundur Sjálfstæðisflokksins krefst þess að skipan húsnæðislána og lána til neytenda verði komið í svipað horf og það er á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Þannig verði verðtrygging af húsnæðis- og neytendalánum afnumin og samkeppni á lánamarkaði fyrir neytendur tryggð. Þess verði gætt að gjald- og vaxtataka lánastofnana verði svipuð og í nágrannalöndum  okkar. Þá telur Landsfundur Sjálfstæðisflokksins brýnt að fram fari skoðun á orsökum þess að lánakjör eru önnur og verri á Íslandi en um ræðir annars staðar í okkar heimshluta.  Tillaga 3 Úrvinnsla skulda heimilanna

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur réttlátt að höfuðstóll verðtryggðra lána verði færður til þeirrar viðmiðunarvísitölu sem var í gildi 1.10.2008.  Frá 1.10.2008 hefur íbúðarverð lækkað gríðarlega í verði. Á sama tíma hefur verið samdráttur í þjóðarframleiðslu og veruleg rauntekjulækkun.  Taka verður tillit til þessara staðreynda og gæta þess að réttlæti ráði ferðinni við úrvinnslu skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja. Þannig verði miðað við almennar aðgerðir til að leysa skuldavandann en ekki sértækar. Með sértækum aðgerðum hefur verið og verður búið til ójafnræði milli borgaranna. Með þeirri niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra  lána sem hér er lagt til er ekki lengur um forsendubrest að ræða og tryggt er eðlilegt jafnræði fjármagnseigenda og skuldara." 

Þetta eru tillögur um almennar aðgerðir varðandi skuldavanda fólksins í landinu í stað þeirra sértæku aðgerða sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur gripið til. Tillögur sem leysa ekki vandann, en mismuna hins vegar fólki.  Þannig á það ekki að vera og þess vegna verða tillögur til lausnar skuldavandans vegna efnahagshrunsins að vera almennar- mismunun borgaranna gengur ekki.

 


Glæsileg setning Landsfundar

Setning Landsfundar var bæði þjóðleg og virðuleg. Ræða formanns Sjálfstæðisflokksins var vel uppbyggð og sterk. Ef til vill fór formaðurinn  þó aðeins fram úr sér þegar hann fjallaði um Landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde.

Það var eftirtektarvert og ánægjulegt að formaðurinn skyldi ekki nota setningaræðuna til að fjalla um formannskjör í flokknum heldur flytja Landsfundarfulltrúum og öðru Sjálfstæðisfólki jákvæða og framsækna stefnu í þjóðmálum.

Bjarni Benediktsson hefur ekki áður flutt jafn sterka ræðu á Landsfundi og nú.

Það var gaman að sjá þjóðlega umgjörð og yfirbragð við setningu fundarins og gamla trausta ræðustólinn í stað tildurstólsins sem var á síðasta Landsfundi.  En það vantaði eitt. 

Þjóðfánann vantaði. Það má ekki henda aftur að íslenski fáninn sé ekki í öndvegi við setningu Landsfundar. 

Því má ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn er íslenskur flokkur sprottinn úr íslenskum jarðvegi  á grundvelli íslenskrar menningar og kristilegra mannúðargilda.


Fréttastofa VG ég meina RÚV

Í gær var sagt frá því í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu gengið úr þingsal vegna óánægju með afgreiðslu fjáraukalaga. Það eru nokkur tíðindi og  þess vegna talaði þingfréttaritari Sjónvarpsins við fjármálaráðherra, en einhverra hluta vegna engan annan.

Fjármálaráðherra sagði að útganga þingmanna stjórnarandstöðuþingmanna væri vegna Landsfundar Sjálfstæðisflokksins eins og sá flokkur væri einn í stjórnarandstöðu. Ekki komu fram frekari skýringar og stjórnarandstaðan fékk ekki að skýra sitt mál. 

Þessi frétt var  endurtekin óbreytt kl. 22. Steingrímur J. maðurinn sem mótmæli þingmanna beindust gegn var sá eini sem talað var við.

Þessi fréttamennska RÚV er eins og í einræðisríkjum þar sem tjáningarfrelsi er takmarkað og stjórnvöld stjórna fjölmiðlum. Í þessu tilviki hefði verið mikilvægt að ræða við leiðtoga stjórnarandstöðunnar vegna þess að það er ekki á hverjum degi sem stjórnarandstaðan velur þennan kost.

Sérstök fréttastofa Vinstri grænna hefði ekki afflutt fréttir með betri hætti fyrir Steingrím J en fréttastofa RÚV gerði í þessu tilviki.  En það er því miður ekki í fyrsta skipti.


Rafbækur og íslenskt mál

Samningur um útgáfu íslenskra rafbóka var undirritaður í gær. Á morgun er dagur íslenskrar tungu. Það hefði verið gaman að samningurinn hefði verið gerður þann dag.

Rafbækur munu í vaxandi mæli koma í stað pappírsbóka. Kostirnir við rafbókina eru margir m.a. að hægt er að vera með þess vegna 1000 bækur í lítilli lestölvu. Bókapöntun er afgreidd samstundis og rafbókartölvan er léttari en pappírsbókin.  Samt erum við bara á upphafstíma rafbókarinnar.

Rafbókin er líka umhverfisvænni en pappírsbókin.

Ég hef notað næst einföldustu gerð af Kindle lestölvu í rúmt ár. Hægt er að nota þá leturstærð sem hver kýs. Algengt verð á rafbókum er um eða undir 1000 krónur. Þegar bók Alistair Darling "Back from the brink" kom út keypti ég hana og byrjað að lesa á Kindlinum á sömu klukkustund og hún kom út.

Sé það vilji stjórnvalda að styðja íslenskt mál og málkennd þá er ljóst að okkar fámenna málsvæði verður að bregðast við rafbókinni með því að auðvelda útgáfu rafbóka á íslensku.


Seljum landið.

Sú var tíðin að flokksbræður innanríkisráðherra héldu því fram að Sjálfstæðismenn ætluð að selja útlendingum  landið og fórna sjálfstæði þess. Á þeim tíma jafngilti það landráðum og landssölu hjá vinstri sósíalistum allra handa á Íslandi að vera í NATO og hafa varnarlið.

Nú stendur Ögmundur Jónasson frammi fyrir því hvort hann á að heimila kínverskum flokksbróður sínum að kaupa meira land en nokkur útlendingur hefur áður keypt úr Íslandi. Flokksbræður Ögmundar sjá almennt ekkert athugavert við landssöluna og Samfylkingarmenn hamast að innanríkisráðherra.

Það er annars einstaklega merkilegur flokkur Samfylkingin. Það eina sem virðist sameina flokkinn er innflutningur útlendinga og fjölmenningarstefna. Innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru. Sala á landi og öðru sem selja má til útlendinga fyrir gjaldeyri. Samfylkingin er sennilega fyrsti og eini landssöluflokkurinn á Íslandi sem ber það nafn með sanni.

Þrátt fyrir kröfu Samfylkingarinnar og linkulega framgöngu Vinstri grænna varðandi landssöluna á Grímsstöðum þá stendur Ögmundur samt enn í fæturna og vonandi gerir hann það áfram og verður þá maður að meiri þó ágætur sé um margt.

Það er hins vegar til umhugsunar að það sé algjörlega á valdi innanríkisráðherra  að heimila landssölu eins og þá sem um ræðir varðandi Grímsstaði á Fjöllum.  Þá er þetta líka atriði sem þarf að endurskoða varðandi heimildir EES fólks til landakaupa hér á landi sem og frjálst flæði fólks til landsins.


Auknir skattar meiri velferð?

Formaður BSRB skrifar grein í Fréttablaðið í dag undir heitinu "Félagsleg samheldni skilar meiru en einstaklingshyggja" Athyglivert að í greininni eru ekki  færð fram rök fyrir réttmæti þessarar fullyrðingar.  Meginefni greinarinnar er fögnuður yfir hárri skattheimtu.  Svo er að skilja að formaður BSRB telji að háir skattar tryggi velferð og aukna framleiðslu í þjóðfélaginu. 

Samt sem áður er staðan sú í háskattalandinu Íslandi að helmingur heimila getur ekki borgað óvænt útgjöld eins og t.d. ef þvottavél bilar eða ef leita þarf til tannlæknis svo eitthvað sé nefnt.

Formaðurinn segir "Skattar hverfa nefnilega ekki bara ofan í einhvern pytt"  En  því miður gera þeir það af of stórum hluta til. Er  afsakanlegt t.d. að reka sendiráð á Indlandi, Japan og öllum Norðurlöndunum. Er  afsakanlegt að eyða milljörðum af opinberu fé í óarðbæra framleiðslu afurða? Hægt væri að spyrja hundruð álíka spurninga.

Þetta er þeim mun sárgrætilegra þar sem ein króna af hverjum fimm er tekin að láni til að standa undir ríkisútgjöldum og þann kostnað verða börnin, barnabörnin og jafnvel barnabarnabörnin okkar Elínar Bjargar Jónsdóttur formanns BSRB hvors um sig að greiða eigi íslenska ríkið að komast hjá gjaldþroti.

Formaður BSRB og fleiri sem hugsa eins og hún og setja fram fullyrðingar eins og þær sem koma fram í heiti greinarinnar ættu að skoða hvort staðhæfingin stenst sögulega skoðun.  Hvort sem okkur líkar betur eða verr  þá gerir hún það ekki. Þvert á móti þá er ofurskattheimtan og skuldasöfnun lýðræðisríkjanna ein versta og mesta ógnunin við efnahagslega sjálfstæð þjóðfélög og lýðræðið í dag.

Það þarf nefnilega alltaf að framleiða verðmætin sem standa undir velferðinni og sköttunum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Fjölgun sjúkrahúsa, tónlistarhúsa og skóla svo gott sem það kann að vera kemur því ekki til nema einstaklingshyggjan fái svigrúm til að skapa verðmætin sem þarf til að eitthvað verði afgangs til þess að reka öflugt velferðarkerfi.   


Slitastjórnir og ofurlaun

Tvisvar til þrisvar á ári uppgötva stjórnmálamenn og fréttamenn að sjálftaka þeirra sem sitja í slitastjórnum föllnu fjármálafyrirtækjanna er með öllu óeðlileg. Í janúar 2010 fordæmdu  þeir Gylfi Magnússon þá ráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þetta og töluðu um að breyta þessu. Það reyndist bara gaspur. Engu hefur verið breytt.

En það eru ekki bara ofurlaun slitastjórna sem eru óeðlileg. Það er líka óeðlilegt með hvaða hætti margt slitastjórnarfólk vinnur þannig að það fer út yfir öll siðferðileg mörk oft á tíðum. En engin gerir neitt og þetta fólk kemst óáreitt upp með að taka sinn ránsfeng.  Engin ber ábyrgð, en slitastjórnir ákveða að fara í mál gegn einstaklingum og fyrirtækjum. Þegar þau mál tapast þá yppta slitastjórnarmenn bara öxlum og halda jafnvel áfram málarekstri. Þetta fólk þarf engar áhyggjur að hafa það ber enga ábyrgð.

Þeir sem sitja í slitastjórnum hafa engan hag af því að ljúka vinnu sinni hratt og vel. Þvert á móti hefur slitastjórnafólkið hag af því að draga þetta sem lengst af því að meðan svo er getur það haldið áfram að skammta sér starfskjör eins og ekkert hafi í skorist.

Þegar ég talaði um það við fall bankanna að það væri betra að kjósa stjórnir fyrir föllnu fjármálafyrirtækin með svipuðum hætti og bankaráð þá töluðu menn um að það yrði of dýrt.  Hefði það verið gert þá hefði kostnaðurinn ekki orðið nema um 20-30% af því sem hann hefur orðið vegna kostnaðar við sjálftökuliðið.

Það getur verið dýrt að vera vitur eftir á og  enn dýrara að gera þá ekkert í því eins og þau Steingrímur og Jóhanna gera í þessu tilviki.

Var þetta hluti af því Nýja Íslandi sem þau Steingrímur og Jóhanna sögðu að mundi rísa af rústum hins spillta?


Burt með verðtrygginguna

Skoðanakönnun Hagsmunasamtaka heimilanna sýnir að mikill meiri hluti landsmanna vill fá lánakerfi eins og neytendur á hinum Norðurlöndunum búa við. Lán án verðtryggingar með eðlilegum vaxtakjörum.

Samkvæmt því sem kemur fram frá samtökunum þá kemur fram mikill meiri hluti í öllulm stjórnmálaflokkum með breytingu á lánakjörunum þannig að eðlilegt tillit sé tekið til hagsmuna neytenda.

Miðað við það væri því eðlilegt að samtökin mynduðu þverpólitískan hóp til að vinna að þessu hagsmunamáli innan stjórnmálaflokkana. Láta á það reyna hvort þeir eru tilbúnir til að standa fyrir þeirri breytingu sem nauðsynleg er í lánamálum neytenda.  Það hlítur að verða næsta og brýnasta verkefni samtakanna og miklu brýnna en að samtökin verði framboðssamtök. Það gæti orðið til að eyðileggja málið

Nema baráttan hefði  verið reynd til þrautar fyrst.

Verðtrygging verður að fara í lánum til neytenda. Eðlileg og sanngjörn lánakjör ætti að vera á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka og þeir ættu líka að koma breytingum fram. Það reynir á það hvort þeir gera það eða ekki. Fari svo að þeir geri það ekki þá eiga þeir stjórnmálaflokkar ekki lögmætt erindi við kjósendur.


Frelsi glæpamanna ógæfa almennings

Frjáls för fólks á milli landa EES svæðisins og afnám vegabréfaskoðunar á grundvelli Schengen reglna auðvelda erlendum glæpaklíkum að athafna sig hér á landi. Nú geta innbrotsþjófar og líkamsárasarfólk eða kynferðisofbeldisfólk komið hingað brotið af sér og komið sér síðan í skjól heima hjá sér.

Græðir einhver á svona reglum aðrir en glæpamenn?

 Eitt er að geta ekki komið lögum og refsingu yfir glæpamenn og hitt að geta ekki losnað við þá og eiga það á hættu að þeir haldi glæpum sínum gagnvart friðsömum borgurum áfram.

Bretar hafa  heldur betur fengið að finna fyrir því að regluverkið er orðið þannig að þeir geta ekki  komið hættulegum afbrotamönnum eins og nauðgurum og jafnvel morðingjum úr landi vegna þess að þeir hafa myndað svokölluð tengsl við Bretland- en þau tengsl þurfa raunar ekki að vera merkileg.

Þarf ekki að endurskoða þetta kerfi þannig að gætt sé hagsmuna venjulegs fólks og gætt þeirrar meginskyldu ríkis að tryggja öryggi borgarana og allsherjarreglu.


Rekinn fyrir að segja satt

Bandaríski hershöfðinginn Peter Fuller hefur verið rekinn úr starfi sínu í Afghanistan fyrri að gagnrýna Hamid Karzai forseta Afganistan og segja að Afganar væru vanþakklátir.  Hershöfðinginn sagði að ríkisstjórnin í Kabúl væri ekki í tengslum við raunveruleikann og hann vonaði að næsti forseti Afganistan yrði skárri.

Fuller sagði að Bandaríkjamenn væru að eyða um 12  billjónum dollara í að byggja upp her og lögreglu auk margs annars en á sama tíma segði Karzai að ef kæmi til átaka milli Pakistan og Bandaríkjanna mundu Afganar standa með Pakistan.  Fuller sagði að þetta væri eins og að stinga sig í augun með nál auk þess sem Afganar vildu fá skriðdreka og herflugvélar gefins eingöngu til að nota á hersýningum.  Yfirmenn hershöfðingjans sögðu að þessi ummæli væru óheppileg og leystu hann tímabundið frá störfum.

Fuller var semsagt að segja satt en óheppilegt. Hann er ekki sá eini sem er rekinn frá Afganistan  fyrir að segja satt. Stanley McChrystal fyrrverandi yfirmaður heraflans í Afganistan var rekinn fyrir sömu sakir eftir  blaðaviðtal í júní 2010.

Yfirmenn í bandaríska hernum eru farnir að spyrja af hverju erum við hérna og til hvers?

Herráðsforingi Íslands Össur Skarphéðinsson sem ólmur fór í stríðið við Gaddafí í Líbýu spyr ekki svona spurninga. Hann vill leggja sitt af mörkum til að viðhalda stríðsrekstri í Afganistan og skeytir þá engu um hversu vitlaust þetta stríð er. Nýjasta framlag Össurar er að etja mágkonu sinni Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrrum ráðherra og borgarstjóra á foraðið og senda hana til Afganistan. Þar á Ingibjörg að vinna að kvennfrelsismálum fyrir 70 milljónir í laun á ári. 

Ríkisstjórn Íslands þar með talinn Steingrímur J er greinilega þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að halda þessum fráleita stríðsrekstri í Afganistan áfram og loksins náði Össur að flæma Ingibjörgu Sólrúnu burt úr íslenskri pólutík og  af landi brott.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 771
  • Sl. sólarhring: 1360
  • Sl. viku: 6416
  • Frá upphafi: 2277054

Annað

  • Innlit í dag: 723
  • Innlit sl. viku: 5961
  • Gestir í dag: 699
  • IP-tölur í dag: 683

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband