Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2021

Þá og nú

15.febrúar 1989 marséraði Boris Gromov yfir Hairatan vináttubrúna frá Afganistan til þáverandi Sovétríkjanna. Gromov var síðasti hermaður Rauða Hersins til að yfirgefa Afganistan. Sovétmenn höfðu um árabil hjálpað Kommúnistastjórn Najibullah að halda völdum í landinu.

Her Sovétríkjanna skipulagði för sína úr Afganistan vel og Boris Gromov yfirhershöfðingu, síðar borgarstjóri í Moskvu, gekk síðan virðulega yfir brúna á eftir vélaherdeildum sínum. 

Najibullah forseti Afganistan, sem alltaf var kallaður leppur Sovétstjórnarinnar barðist áfram gegn Talibönum og Íslömskum vígaveitum og hélt út til ársins 1992 eða í rúm þrjú ár eftir að sovéski herinn fór. Najibullah var í griðum á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kabúl þegar Talibanar tóku hann og píndu hann með grimmilegum hætti til dauða og hengdu líkið síðan á aðalgötu í Kabúl. 

31.ágúst 2021 yfirgaf síðasti bandaríski hermaðurinn Afganistan. Það var ekkert virðulegt við það að sjá örþreyttan landgönguliða úr bandaríska hernum ganga inn í herflutningavél. Áður en bandaríski herinn yfirgaf landið var stjórnin sem þeir komu á laggirnar flúin. Hún hélt ekki út einn mánuð ekki einu sinni svo lengi sem ameríska herliðið var í landinu ólíkt Najibullah, sem hélt þó út í rúm 3 ár.

Herhlaupið kostaði Bandaríkin tuttugu trilljónir Bandaríkjadala. Þeir peningar verða ekki notaðir aftur. Bandarískir skattgreiðendur hljóta að velta fyrir sér hvort þeir vanhæfu forsetar sem hafa farið með völd á þessari öld hefðu ekki getað nýtt þessa fjármuni betur til hagsbóta fyrir sitt eigið fólk. 

Það er óneitanlega ömurlegt fyrir okkur vini Bandaríkjanna, að verða vitni að þessum hræðilegu óförum Bandaríkjanna, eftir að þeir hafa reynt að gera það ómögulega. Það sem meira er, að eygja enga von þar sem engum ætti að leynast, að æðsti maður ríkisins Bandaríkjaforseti er ekki hæfur til að gegna því embætti og staða Bandaríkjanna mun því miður bara versna þeim mun lengur sem hann heldur um valdataumana.

 

 


Lokun landamæra

Covid geisar nú sem aldrei fyrr í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Vegna hnattrænnar legu sinnar töldu stjórnmálamenn og sóttvarnarlæknar í þeim löndum, að með því að skella öllu í lás og takmarka öll samskipti við önnur lönd mundi þeim takast að komast hjá Kórónuveirufaraldrinum. Að sjálfsögðu tókst það ekki.

Fyrir rúmum áratug árið 2009 kom ný veira H1N1 svokölluð svínaflensa fram í Mexícó og það tók hana bara klukkustundir og daga að dreifast til allra meginlanda heimsins. Þá eins og nú reyndu yfirvöld að koma í veg fyrir að veiran bærist inn í lönd þeirra og freistuðu að beita allskyns lokunum, en þær komu fyrir lítið. Birtar voru hryllingsfréttir um gríðarlegan fjölda dauðsfalla vegna þessa nýja flensuafbrigðis.

Ég var staddur erlendis þegar fréttir bárust um þetta hræðilega flensuafbrigði. Fréttastofur létu að því liggja að flugferðir milli landa mundu stöðvast innan skamms sem og viðskipti. En til þess kom aldrei sem betur fer og sennilega muna fáir það fár, sem varð á fyrstu dögum þessa meinta ógnarlega vágests. Á þeim tíma sem betur fer tóku hvorki fréttamiðlar né sóttvarnaryfirvöld yfir og tókst ekki að hræða fólk frá því að lifa eðlilegu lífi. Hræðilega svínaflensan geisaði og leið hjá og fáir minnast hennar nú rúmum áratug síðar.

Af fenginni reynslu ættum við að geta gert okkur grein fyrir að það þýðir ekki að reyna að loka landamærum til að koma í veg fyrir að veirusmit berist. Delta afbrigðið dreifðist t.d. með ógnarhraða um allan heim á stuttum tíma. Þá liggur það fyrir að ástandið er síst verra nú í þeim löndum sem eru galopin eins og t.d. Svíþjóð og Spánn en í þeim löndum, sem beita hvað mestum lokunum á ferðafólk.

Af hverju tökum við ekki mið af þessu og tökum upp sömu reglur. 

Fyrr frekar en síðar verður að koma á aðlilegu lífi í landinu sem og á landamærunum. Vandamál Íslands eru ekki bara vondum útlendingum eða smituðum að kenna.

  

 

 


Þegar betur er að gáð.

Nýráðinn ritstjóri Fréttablaðsins Sigmundur áður þingmaður Samfylkingarinnar ritar leiðara í blað sitt í dag og fjallar um fullveldi þjóða. Ritstjórinn telur að fordjarfi Íslendingar ekki fullveldi sínu verði þeir einskonar Kúba. Raunar þekkt samlíking þ.e. Kúba norðursins. 

Eitthvað virðist hugtakafræðin vefjast fyrir ritstjóranum, en helst má skilja skrif hans um aflát fullveldis með þeim hætti, að alþjóðasamningar og samstarf svo og frjáls viðskipti leiði óhjákvæmilega til afsals fullveldis. En það er fjarri lagi.

Síðan tiltekur ritstjórinn þær þjóðir, sem hann telur að hafi mest fullveldi þjóða í heiminum. Þær eru að hans mati, Kúba, Venesúela og Norður-Kórea. Þessi tilvísun er klaufaleg í besta falli. Það eina sem þjóðirnar eiga sameiginlegt, hefur ekkert með fullveldi að gera. Sósíalískar kommúnistastjórnir fara þar með völdin og því pólitískt tengdar hugmyndafræði ritstjórans um Internationalinn sem muni tengja strönd við strönd og þjóðríki leggist af. 

Ritstjóranum datt ekki í hug að nefna Sviss, en þar er hvað besta dæmið um þjóð, sem heldur fullveldi sínu inni í miðri Evrópu og neitar að láta Evrópusambandið kúga sig til afsals fullveldis síns. Ritstjórinn ætti í því sambandi að huga að því sem gerðist nýlega þegar Sviss hafnaði því að verða EES þjóð vegna þess, að þeim hugnaðist ekki fullveldisafsalið, sem það hafði í för með sér. Samt býður Sviss borgurum sínum upp á ein bestu lífskjör í heimi og eru með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Fullveldi er annað og meira en verslun og viðskipti. Hvorki Þjóðverjar né Frakkar afsöluðu sér fullveldi þegar þeir komu á Kola-og Stálsambandinu og það sem þróaðist upp úr því viðskiptasamband Evrópuríkja leiddi ekki til þess fyrr en steininn tók að töluverðu leiti úr með Maastricht samningnum og síðar Lissabon sáttmálanum. Þá breyttist Evrópusambandið í annað og miklu miklu meira en viðskiptasamband aðilarríkjanna með tilheyrandi hlutbundnu fullveldisafsali til Brussel og Strassborgar.

Íslendingar hafa alltaf verið opnir og jákvæðir fyrir samstarfi og viðskiptum við aðrar þjóðir. Sem betur fer hefur meirihluti þjóðarinnar verið sammála um að slík samskipti verði á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar og fullveldisréttar Íslands. Það er fyrst á síðustu tuttugu árum, sem ákveðnir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafa haldið því fram, að fullveldið skipti engu máli, þegar valkosturinn sé framsal hluta sjálfstæðis- og fullveldisréttar þjóðarinnar til yfirþjóðlegs valds gegn þeirri dásemd að öðlast Evru sem gjaldmiðil. 

Því miður er svo komið fyrir okkur, að það eru valdamikil öfl í þjóðfélaginu sem krefjist þess að við afsölum okkur því fullveldi sem við höfum gegn ímynduðum hagsmunum. Þvert á móti ætti umræðan að snúast um nauðsyn þess að endurskoða EES samninginn miðað við þá þróun sem orðið hefur til að tryggja fullveldi þjóðarinnar enn betur en nú er og að því leyti ættum við að horfa til Sviss sem hefur gott samband við allar þjóðir sem vilja hafa samband og samstarf við Sviss á sama tíma og þeir neita að hlusta á erkibiskups boðskap hvort heldur hann er í Niðarósi eða Brussel.

Ekki væri úr vegi að ritstjóri Fréttablaðsins sem og aðrir skoðanabræður hans mundu hyggja að því sem frelsishetja Íslands Jón Sigurðsson forseti sagði í ritgerð sinni 1841 um Alþingi á Íslandi.

"Veraldarsagan ber ljóst vitni þess, að hverri þjóð hefur þá vegnað best, þegar hún hefur sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu."

Þessu ættu íslenskir stjórnmálamenn og ritstjórar aldrei að gleyma.

 


Hvað með Albaníu?

Stjórnvöld hafa kallað til eina af óteljandi nefndum ríkisins "Flóttamannanefnd" til að ráðslaga um hvernig má koma sem flestum Afgönum inn í landið, svo þau forsætisráðherra, velferðarráðherra og utanríkisráðherra geti öðlast innri frið og sálarró vegna mannúðarstarfa í Afganistan á umliðnum árum og axlað með því þá ábyrgð, sem þau telja að við berum á þessum mannúðarstörfum.

Flóttamannanefnd á að vera stjórnvöldum til ráðuneytis varðandi heildarstefnu og skipulag varðandi flóttamenn. Velferðarráðherra hefur þegar tjáð sig um að ausa sem mestum peningum um ríkissjóði til að axla þessa hræðilegu ábyrgð sem ofangreint þríeyki ríkisstjórnarinnar kveinkar sér undan. 

Fyrst Flóttamannanefndin er að störfum varðandi afganskt flóttafólk, þá væri e.t.v. ekki úr vegi að skoða, að múslimaríkið Albanía hefur sagst nú vilja taka við mörgum Afgönum. Væri þá ekki ráð, að ræða við ríkisstjórn Albaníu og bjóða þeim að taka við fyrirhuguðum flóttamönnum frá Afganistan, sem ríkisstjórnin ætlar sér að troða upp á þjóðina og greiða þeim fyrir þann greiða og koma þessari hræðilegu synd af öxlum forsætis,velferðar- og utanríkisráðherra, sem jafnast greinilega á við erfðasyndina í þeirra hugum. 

Ætla má að það væri farsælla fyrir afgönsku flóttamennina að vera í múslimsku landi, þar sem þeir geta hlýtt á ákall úr bænaturnum spámannsins með reglulegu millibili og mætt í moskurnar sínar til bæna í stað þess að senda þá hingað. 

Með því að semja við Albaníu um að taka við flóttamönnunum sem annars kæmu hingað mundum við þrátt fyrir að greiða Albaníu veglega fyrir greiðan, slá margar flugur í því eina höggi. 

Í fyrsta lagi mundum uppfylla skilyrði Katrínar Jakobsdóttur um að axla ábyrgð. Í öðru lagi mundum við stuðla að því að flóttafólkið væri í umhverfi sem er líkara því sem það þekkir og loftslagi sem hentar þeim betur. Í þriðja lagi yrði það þrátt fyrirað við greiddum Albaníu fyrir, mun ódýrara fyrir íslenska skattgreiðendur. Í fjórða lagi fengju forsætis-,velferðar-, og utanríkisráðherra friðþægingu synda sinn gagnvart Afganistan á umliðinum árum. 

 

 


Innrásin

Í gær var því haldið fram í fréttatíma RÚV sjónvarpsins af afganskri konu sem hér býr, að Ísland hefði ráðist inn í Afganistan. Þessi ummæli voru ekki leiðrétt í fréttatímanum, en konan ásamt stallsystur sinni var síðan gestur Kastljóss.

Íslendingar réðust aldrei inn í Afganistan, það gerðu Bandaríkin árið 2001. Íslendingar studdu ekki þá innrás þeir voru ekki um hana spurðir. NATO ríkin studdu við uppbyggingar og hjálparstarf í Afagnistan og sum sendu herlið til aðstoðar við að tryggja frið í landinu og stuðla að virkri uppbyggingu og lýðréttindum ekki síst lýðréttindum kvenna. 

Einn róttækasti þingmaður þjóðárinnar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir segir að þáttaka Íslands hafi verið á sviði öryggismála,endurreisnar og eflingar stjórnarfarsins og landið sé eitt af áhersluríkjum okkar í þróunarsamvinnu og áherslan sé á stuðning við afganskar konur og janfréttismál. Þetta er raunar sannleikurinn í málinu, jafnvel þó að Rósa Björk segi hann. 

Við sendum lögreglumenn til að stuðla að öryggi borgara í landinu. Við sendum hjúkrunarfólk, kennara og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til að freista þess að tryggja mannréttindi og öryggi borgara Afganistan fyrir öfgafullum múslimskum miðaldahyggjumönnum.

Þær stöllur sem töluðu í Kastljósi í gær lýstu því raunar hvað þær hefðu getað notið mun meira frelsis, öryggis og lýðréttinda síðustu 20 ár meðan vestræn ríki reyndu að tryggja mannréttindi og kynjajafnrétti í landinu. 

Hver er þá sú ábyrgð sem við þurfum að axla eftir að hafa stundað hjálparstarf í landinu á annan áratug. Berum við ábyrgð á því að ekki var hægt að uppræta víðtæka spillingu í landinu. Berum við ábyrgð á því að her landsins eða yfirstjórn var reiðubúin til að verja frelsi sitt. Staðreyndin er sú, að við berum enga ábyrgð á því að herir miðaldahyggjunnar skuli hafa tekið yfir í landinu þrátt fyrir víðtæka aðstoð Vesturlanda.

Við getum verið stolt af því framlagi sem við lögðum fram í Afganistan. Það er fráleitt að reyna að koma því inn  hjá fólki, að Vesturlönd beri ábyrgð á því að afganska þjóðin skuli ekki bera gæfu til að vernda eigið frelsi. Vonandi verður það sáðkorn sem var sáð varðandi lýðréttindi á síðustu 20 árum í landinu til að eitthvað vitrænt gerist þar í mannréttindamálum og stjórnarfari á næstu árum. En sú staðreynd að þessi tilraun til að koma á vitrænu stjórnarfari í landi múslima leiðir ekki til ábyrgðar þeirra sem það reyna.

Allt tal um að axla ábyrgð leiðir í raun að því, að þeir sem það segja eru að réttlæta það að við eigum að taka við miklum fjölda fólks, sem var ekki tilbúið að berjast sjálft fyrir frelsi sínu og mannréttindum. 

Við þurfum ekki að axla neina ábyrgð. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir eitt eða neitt varðandi Afganistan og við þurfum ekki að leggja neitt sérstakt fram vegna aðgerða okkar þar í landi.

Það tal sem stjórnmálamenn í landinu hafa nú uppi hver um annan og éta upp eftir forsætisráðhera, að við þurfum að axla ábyrgð á Afganistan er ekkert annað en bull. Er það einhver erfðasynd sem er þess valdandi eða hvað. Megum við ekki reyna að hjálpa fólki án þess að bera ábyrgð ef það er ekki fólk til að taka við hjálpinni. Berum við t.d. ábyrgð á því að skip sekkur þar sem við höfum kennt fólki fiskveiðar?  


Að axla ábyrgð

Katrín Jakobsdóttir segir að Íslendingar sem NATO þjóð þurfi að axla ábyrgð á málum í Afganistan. Það þýðir,að við eigum að taka við fjölda flóttamanna þaðan. En berum við einhverja ábyrgð? Nei enga. Við höfum hvorki verið gerendur né tekið ákvarðanir að einu eða neinu leyti varðandi Afganistan. 

Svo allri sanngirni sé fullnægt og komið til móts við Katrínu, sem ætlar skattgreiðendum að greiða fyrir góðmennsku sína í þessum efnum sem öðrum, þá legg ég til, að við bjóðum alþjóðasamfélaginu og Katrínu, að við tökum hlutfallslega við jafn mörgum afgönskum flóttamönnum og Saudi Arabía að frádregnum þeim fjölda sýrlenskra flóttamanna sem við höfum þegar tekið við umfram Saudi Arabíu ,en þeir hafa ekki tekið við einum einasta flóttamanni þaðan. 

Það ætti að standa Saudi Aröbum nær að taka við sínum múslimsku bræðrum og systrum, heldur en okkur og þar fyrir utan hafa þeir blandað sér bæði í sýrlensku borgarastyrjöldina og stríðið í Afganistan með gríðarlegum fjárframlögum til uppreisnarmanna í Sýrlandi og Talibana í Afganistan. Það ætti því að standa þeim mun nær en okkur að axla ábyrgð á því sem nú er að gerast í Afganistan. Því þeir bera óneitanlega ábyrgð.


Stórslys bandarískrar utanríkisstefnu

Nú þegar soldátar Talibana marséra syngjandi inn í Kabúl 10 dögum eftir að sókn þeirra hófst, þá er um leið staðfest mesta stórslys bandarískrar utanríkisstefnu síðan Víetnam.

Innrás Bandaríkjanna í Afganistan fyrir 20 árum, til að steypa þáverandi stjórn Talibana var í sjálfu sér rökrétt, eftir árás Al Kaída á tvíburaturnana o.fl. en þeir störfuðu í skjóli Talibananna. En það sem eftir hefur fylgt er það ekki. 

Það er ekki hlutverk Bandaríkjanna eða NATO að berjast gegn spillingu í Afganistan eða reyna að koma á lýðræði að vestrænni fyrirmynd. Þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna Donald Rumsfeld sagði  "They are not our broken societies to fix." og það átti að gefa auga leið. 

Á þeim 20 árum sem liðin eru síðan er áætlað að Vesturlönd aðallega Bandaríkin hafi eytt 2 trilljónum Bandaríkjadala í að byggja upp Afganistan þ.á.m. 300 þúsund manna herlið sem er hvergi sýnilegt, þegar 80 þúsund manna herlið Talibana lætur til sín taka og leggur undir sig landið á 10 dögum. 

Niðurlæging utanríkisstefnu Bandaríkjanna er því algjör og nokkuð ljóst að Talibanar sem og margir aðrir eru sannfærðir um að þeir geti farið sínu fram, þar sem núverandi Bandaríkjaforseti Joe Biden, sé hvorki til stórræðana né annarra ræðanna.

 

 


Neyðarstjórn Reykjavíkur vegna hvers?

Fyrir utan innmúraða í borgarkerfi Reykjavíkur hafa nánast engir vitað af því að borgarstjórn Reykjavíkur setti á laggirnar neyðarstjórn fyrir nokkrum mánuðum vegna Cóvíd. Neyðin er þó engin og ekki fyrirsjáanleg. 

Sem betur fer fékk almenningur að vita af þessu merka framtaki, en það var vegna þess, að Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi fær ekki að vera með. Ekki verður séð að öryggi borgaranna verði betur tryggt með aðkomu Kolbrúnar að nefndinni þó það sé asnalegt í sjálfu sér, að útiloka suma þegar neyðin er á "jafnalvarlegu" stigi og raun ber vitni.

Neyðarstjórnin hefur haldið nokkra fundi um ekki neitt og aukið þar með kostnað Borgarinnar úr meira en galtómum borgarsjóði, enda vel greitt fyrir setur á opinberum fundum jafnvel þó þeir snúist ekki um neitt og þjóni engum tilgangi. 

Í hugsjónallitlum og hugsjónalausum stjórnmálaheimi valdaflokka þarf iðulega að reyna að láta líta svo út, sem stjórnmálamenn séu að gera eitthvað. Þá þarf neyðarstjórn þó engin sé neyðin. 

Eða eins og Nikita Krúsjev fyrrum aðalritari Sovétríkjanna sagði eitt sinn: 

"Stjórnmálamenn eru allsstaðar eins. Þeir byggja brú þó að engin sé áin".


mbl.is Fær ekki sæti í neyðarstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minning um góðan vin

Gísli vinur minn Alfreðsson er látinn. Hans er sérstaklega minnst sem leikara og fyrrum Þjóðleikhússtjóra, þar sem hann kom á ýmsum góðum og þörfum nýungum. Gísli var afar farsæll í störfum sínum og vel metinn af þeim sem kynntust honum. 

Gísli var Sjálfstæðismaður og dró aldrei dul á þær skoðanir sínar. Það var ekki sérstaklega til vinsælda fallið hjá öllu samstarfsfólki hans, en það skipti Gísla ekki máli þar sem hann mat mannkosti fólks eftir verðleikum þess, en ekki skoðunum.

Lengst af þekkti ég Gísla af góðri afspurn, en fyrir tæpum 30 árum kynntumst við vel þegar við fetuðum okkur áfram í baráttunni gegn Bakkusi. Við spiluðum reglulega saman ásamt félögum okkar og nutum ýmissa annarra samvista. 

Gísli var margfróður og skemmtilegur og það var einstaklega gaman að sitja með honum og spjalla um fortíð og nútíð. Hann var það mikið eldri en ég, að hann gat frætt mig um margvíslega hluti, menn og málefni, sem ég þekkti aðeins af afspurn, en hann gjörþekkti. 

Síðustu árin sem Gísli lifði tókum við okkur tíma öðru hverju til að eiga notalega samverustund, þar sem við ræddum saman og skiptumst á skoðunum. Þær stundir voru mjög gefandi og ég sakna þeirra nú þegar. Stundum voru eilífðarmálin til umræðu og þó við værum ekki algerlega sammála um hvað tæki við, þá efuðumst við hvorugur um tilvist æðri máttar.

Í dag efast ég ekki um að Gísli er á þeim stað í tilverunni, þar sem góðir,grandvarir og heiðarlegir menn mega vænta að komast til að loknu þessu tilverustigi.

gíslialfreðsson.cover_Blessuð sé minning hans og ég færi eftirlifandi eiginkonu, börnum og barnabörnum mínar bestu kveðjur.   


Ber ekki ábyrgð á Stalín

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari og Gunnar Smári Egilsson foringi Sósíalista ræddu málin í spjallþætti á Bylgjunni í gærmorgun.

Arnar Þór benti af gefnu tilefni á ýmsar staðreyndir varðandi sósíalismann og arfleifð hans um víða veröld. 

Sósíalistaforinginn kom sér fimlega hjá því að svara fyrir syndir sósíalismans, en sagði Sjálfstæðisflokkinn sekan um að hafa ætíð staðið gegn réttmætum kröfum og réttindabaráttu verkafólks og almennings í landinu.

Upptalning Gunnars Smára á þessum meintu ávirðingum, var athyglisverð en röng. En sósíalistaforinginn bregður á það ráð, sem sósíalistar hafa alltaf gert, að veifa frekar röngu tré en öngvu.

Gunnar Smári sagði t.d., að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið einarðlega gegn svonefndum vökulögum um lágmarkshvíldartíma sjónamanna. Vökulögin voru samþykkt á Alþingi 1921 en Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929.

Þá sagðist Gunnar Smári ekki bera ábyrgð á Stalín. Það er vissulega rétt. Hann ber enga ábyrgð á Stalín og hann ber heldur enga ábyrgð á Karli Marx, Rauðu Khmerunum og áfram mætti halda. En hann er að boða hugmyndafræði þeirra. Hugmyndafræði sem alltaf og alls staðar hefur leitt til frelsisskeringar, örbirgðar og ógnarstjórnar.  

Þó Gunnar Smári beri ekki ábyrgð á Maó eða Stalín, þá er hann að boða kenningu þeirra, þrátt fyrir að sósíalisminn leiði ævinlega til hörmunga. Tilraunir með sósíalismann ættu því að vera fullreyndar eftir hörmungasögu hans í rúm 100 ár. 

Þeir, sem gera alltaf sömu mistökin og halda að næst verði það öðruvísi eru firrtir öllum ályktunarhæfileika auk annars.

Boðskapur sósíalista og afsökun er í því sambandi alltaf sá sami. Þeir sem stjórnuðu í nafni sósísalismans gerðu það ekki í raun og veru. Gerðu margvísleg mistök hans, en núna verði þetta öðruvísi. Það sögðu bankamennirnir og útrásarvíkingarnir líka fyrir hrun. Þú skilur þetta ekki sögðu þeir. Þetta er allt öðru vísi en áður þá voru gerð mistök, en fjármálakerfið hefur aðlagað sig.  Gunnar Smári flytur að breyttum breytanda boðskap sósíalismans á þessum fölsku forsendum þeirra sem ekkert muna og engu hafa gleymt.  


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 430
  • Sl. viku: 4234
  • Frá upphafi: 2449932

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3945
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband