Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022

Pakkið og við útvaldir.

Fátítt er að sjá jafn blygðunarlausan hroka og sjálfbirgingshátt og birtist í leiðara Fréttablaðsins í dag, en hann er skrifaður af ritstjóra blaðsins Sigmundi Erni Rúnarssyni. Einvaldskonungar liðinna alda í Evrópu hugsuðu og tjáðu sig með svipuðum hætti og  Sigmundur í leiðaranum í dag með hinni sígildu setningu "Vér einir vitum" skóflupakkið að sjálfsögðu veit ekki neitt, skilur ekki neitt og á ekki að fá að ráða neinu. 

Ritstjórinn fjallar um frönsku kosningar og aukið fylgi hægri flokka í Evrópu, sem hann kallar öfgahægri og fasista og niðurstaða hans er sú að þeir sem kjósa til hægri sé "illa upplýst alþýða, sem les hvorki fréttir né fylgist með rökstuddri umræðu á breyttri samfélagsgerð." Þá segir hann að þjóðfélag "veikleika og vanmáttar nærist á óttanum og sæki burði sína í fáfræði og fordóma."

Þá kemst ritstjórinn að þeirri niðurstöðu að þeir sem kusu með Brexit og nú Marine le Pen í frönsku forsetakosningunum sé svona fólk. Fólk sem fylgist ekki með fréttum og veit ekki neitt og skilur ekki neitt. Samkvæmt þeirri einkunargjöf er meiri hluti Breta þessarar gerðar og rúmlega 42% Frakka, sem greiddu le Pen atkvæði sitt. Þá segir ritstjórinn að málflutningur Brexit sinna í Bretlandi hafi verið uppsafnaður heilagrautur og ekki hefði staðið steinn yfir steini og í lokin heldur má skilja á honum að þeir sem kjósi til hægri og séu á móti Brussel valdi Evrópusambandsins séu fasistar.

Heiti leiðarans hefði eins getað verið í samræmi við efni hans:

"Fólk er fávíst pakk sem ætti ekki að fá að kjósa eða ráða enda fasistar upp til hópa." 

Þessi glórulausi hroki ritstjórans og fullvissa um eigið ágæti og skoðanir sínar og skoðanasystkina er svo ofboðslegur, að það verður eiginlega að þakka honum fyrir að opinbera þessar fólks- fjandsamlegu hugrenningar, sem virðast greinilega vera brúklegar í hópum Samfylkingarfólks og annarra Evrópusinna. 

Við fávísa illa upplýsta pakkið,sem viljum ekki í faðm kommisaranna í Brussel og berjumst fyrir sjálfstæði Íslands og íslenskri þjóðmenningu verðum víst að sætta okkur við það að gáfumannafélag Sigmundar Ernis og Samfylkingarinnar sendi okkur svona sendingar. En er nokkuð annað að gera fyrir okkur en að svara svona bulli með öðru en vitrænni umræðu sem við borgaralega sinnað fólk höfum alltaf talið að sé líka fyrir okkur venjulegt fólk.

Ekki bara aðalinn  og gáfumannafélög,sem telja sig réttborna til að ráða öllu.

 

 


Þursaveldið

Í síðustu viku hitti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ráðamann frá Saudi Arabíu og sagðist hafa rætt við hann um mannréttindi. Gaman hefði verið að vera fluga á vegg og hlusta á samtalið. Mannréttindi hafa nefnilega ekki þvælst fyrir þessu þursaveldi þar sem öfgafyllsta útfærsla af Íslam ræður ríkjum.

Baráttukonur í Saudi Arabíu gerðu kröfu um að þeim og öðrum konum í landinu yrði leyft að aka bifreið. Þegar ríkisstjórnin í þursaríkinu gat ekki lengur staðið gegn þeirri kröfu var það leyft, en síðan heimsótti lögreglan í fyllingu tímans baráttukonurnar og handtóku þær og margar sitja enn í fangelsi. Þursar bíða nefnilega síns tíma. 

Nokkrum mánuðum áður en fjármálaráðherra hitti fulltrúa þursaveldisins voru framkvæmdar fjöldaaftökur í þursaríkinu þar sem 81 maður var tekinn af lífi fyrir ýmsar sakir m.a. að hafa afbrigðilegar trúarskoðanir og ríkissjónvarpið sagði að þeir sem hefðu verið teknir af lífi hefðu gengið erinda Djöfulsins.

Fróðlegt hefði verið að heyra hvort fjármálaráðherra hafi tekið upp mál manns að nafni Badawi, sem hefur verið bannað að fara úr þursaríkinu til konu sinnar og þriggja barna sem búa í Kanada, en þau neyddust til að flýja eftir að Badawi hafði verið dæmdur til að þola 1000 vandarhög opinberlega, 50 á viku í 20 vikur og  tíu ára fangelsi að auki. Þegar hann var leystur úr haldi var sett á hann 10 ára ferðabann. Badawi fékk nýlega Sakharov verðlaunin fyrir hugsanafrelsi.

Badawi sem er bloggari hafði unnið sér það til sakar að gagnrýna Trúarbragðalögreglu þursaveldisins. Lögregluna sem bannaði að ungar stúlkur sem voru í brennandi húsi fengju að fara úr húsinu af því að þær voru ekki sómasamlega klæddar að mati lögreglunnar Þær brunnu allar inni. Ótrúlegt en svona ógeð gerist í þursaríkjum. Þessa lögreglu sem ber konur ef þær eru ekki í fylgd karlmanns eða það sést í öklana á þeim eða hárið leyfði Badawi sér að gagnrýna og  hefur þurft að þola fangelsi og vandarhögg og nú ferðabann í 10 ár fyrir. 

Við fulltrúa þessa þursaríkis sagðist íslenski fjármálaráðherrann hafa talað um mannréttindi. Það hafa raunar ýmsir aðrir vestrænir stjórnmálamenn sagst hafa gert. En þeir hafa annaðhvort ekki tjáð sig nægjanlega skírt eða þursaveldið tekur ekki neitt mark á þeim. Mér er næst að halda að hvorutveggja eigi við. 

Þursaveldið fer sínu fram vitandi að Vesturlönd gera ekki neitt þrátt fyrir glæpi þess innanlands sem erlendis eins og m.a. kemur fram í bókinni "Sleeping with the Devil" sem fyrrum háttsettur embættismaður í Bandaríkjunum skrifaði um samskipti ríkjanna.

Badawi hefur nú fengið Sakharov verðlaunin vegna baráttu fyrir hugsanafrelsi og ber að þakka það.  En baráttan gegn þursaveldinu þarf að taka aðra stefnu en vinsamleg orð um mannréttindi þar í land sem útúrdúr frá raunverulegu umræðuefni. Af hverju eru þeir ekki beittir sama harðræði og Rússar t.d. og eignir Saudi Arabískra auðmanna frystar? Það gæti haft áhrif.


Evrópusambandið og fjölmiðlaelítan óttast tjáningarfrelsið.

Elon Musk, sem ku vera ríkasti maður í heimi, hefur keypt Twitter og segist ætla að tryggja tjáningarfrelsi. Hann gagnrýnir að Twitter hafi m.a. lokað á dagblaðið New York Post, sem var Joe Biden Bandaríkjaforseta mótdrægt í aðdraganda forsetakosningana í Bandaríkjunum. Blaðið hafði m.a. komist yfir ýmis gögn varðandi son Biden sem voru síður en svo þeim feðgum til framdráttar. Þetta mátti ekki sjást þó  ekki væri farið með rangt mál. Enda grétu þeir starfsmenn Twitter sem höfðu staðið fyrir ritskoðunarstefnu og útilokunarstefnu á sumt fólk og skoðanir þegar fréttist að Musk hefði keypt fjölmiðilinn.

Musk sagði í þessu sambandi: "Free speech is the bedrock of functioning democracy." (tjáningarfrelsi er undirstaða þess að lýðræðið sé virkt) Hann spyr hvort þeir sem andæfa gegn kaupum hans á Twitter séu á móti tjáningarfrelsi. Verðug spurning.

Athyglisvert er að skoða hverjir hafa goldið varhug við og jafnvel andæft kaupum Musk á Twitter og því sem hann hefur sagt um frelsi fólks til tjáningar. 

Alþjóðasamtök blaðamanna bregðast illa við þegar Musk segir að fjölmiðillinn eigi að tryggja tjáningarfrelsi en ekki hefta það.

Evrópusambandið bregst illa við þegar maður kaupir fjölmiðil og segist ætla að tryggja tjáningarfrelsið.

Lögfræðingur fjölmiðilsins sem Musk keypti fór að gráta þegar hann hafði keypt fjölmiðilinn og tilkynnti að bann sem hún hafði sett á ákveðna fjölmiðla yrði aflétt þar sem nú mundi fjölmiðillinn starfa á grundvelli tjáningarfrelsis. 

Sérkennilegt að ofangreindir lyklaverðir hins eina sannleika sem má heyrast m.a.að skipt skuli um þjóðir í Evrópu og Bandaríkjunum, kynferðislegu sjálfræði og banni við því að orðinu megi halla gagnvart múslimum eða transfólki, nauðsyn skyldubólusetninga ggn Cóvíd o.fl. o.fl., skuli bregðast svona illa við því, að nú skuli eiga að leiða tjáningarfrelsið á ný til öndvegis hjá fjölmiðlinum Twitter.

Þolir vinstri sinnaða fjölmiðlaelítan og kassafólkið og möppudýrin hjá Evrópusambandinu ekki frjáls skoðanaskipti og tjáningarfrelsi allra. Mega bara þau þóknanlegu sem hafa "réttar skoðanir" að mati kassafólksins og möppudýrana fá að tjá sig og breikka enn meira gjána sem er á milli vinstri fjölmiðla- og  stjórnmálaelítunar og almennings í Vestur Evrópu og Bandaríkjunum.


Er þjófnaður sæmd?

Tvær konur sem kalla sig listakonur stálu eða létu stela listaverki Ásmundar Sveinssonar "Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku"

Þegar þjófnaðurinn uppgötvaðist og hið þjófstolna fannst inni í klambri sem þær stöllur kölluðu listaverk, voru þær kokhraustar og réttlættu þjófnaðinn með því að listaverk Ásmundar Sveinssonar af einum mesta kvennskörungi sögualdar hafi verið rasískt. Að þeirra mati hefur þá hver sem er rétt á því að gera hvað sem er við hið raunverulega listaverk Ásmundar.

Í frjálsu þjóðfélagi hefur fólk tjáningarfrelsi og getur haldið fram sínum skoðunum, en það réttlætir ekki, að einstaklingurinn fari sínu fram og taki sér sjálfdæmi um að framfylgja hverju svo sem honum dettur í hug jafnvel þó það gangi á réttindi annarra. Ef við samþykkjum það, þá er komið hið raunverulega frumskógarlögmál sem endar alltaf með  því að sá sterkari fer sínu fram að geðþótta gagnvart hinum veikari.

Þegar þjófnaður kvennana sem kenna sig við list uppgötvaðist hljóp til lögmaður þeirra og talar um sæmdarþjófnað,(sem hún raunar nefnir sæmdarrétt)  þar sem þær stöllur  hafi  komið hinu þjófstolna inn í klambureldflaugina sem þær gerðu og kalla listaverk. Væri fallist á þá skoðun þá getur hver sem er stolið hverju sem er og réttlætt það með einhverjum fáránleika eins og "listakonurnar" gera og komið  hinu þjófstolna inn í eitthvað klambur og slegið þar með sinni "sæmdar" eign á hið stolna. 

Ekki væri það nú beinlínis hugnanlegt eða mundi stuðla að friði og allsherjarreglu í samfélaginu. Er ekki rétt að þær stöllur sem stálu listaverki Ásmundar fái sömu meðferð og aðrir þjófar?

 

 

 


mbl.is Leyfi höfundar þarf að liggja fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynþáttafordómar á Íslandi

Forsætisráðherra mun eiga fund með tveim framákonum á Íslandi önnur er framkvæmdastjóra Búnaðarsamtaka Íslands og hin er varaþingmaður á Alþingi Íslands,kjörinn þingmaður þangað til endurtalning fór fram í Norðvesturkjördæmi. Tilefni fundarins er að ræða meinta kynþáttafordóma á Íslandi en báðar konurnar eru af erlendu bergi brotnar.

Framgangur viðmælenda forsætisráðherra og staða þeirra í íslensku samfélagi sýnir e.t.v. betur en margt annað hvað við setjum lítið fyrir okkur af hvaða þjóðerni fólk er eða hvaða húðlit það hefur. Jafnvel þó að ráðherra hafi orðið fótaskortur á tungunni varðandi húðlit annarar þeirra og fengið samþykkta afsökunarbeiðni fórnarlambsins.

Hvað gefur forsætisráðherra þá tilefni til að kalla þessar framákonur til sín til að ræða meinta kynþáttafordóma. Getur það verið eðlileg starfsemi lögreglu við að sinna ábendingu þegar hún leitaði hættulegs afbrotamanns af erlendu bergi brotinn, en sinnti starfi sínu af fullri prúðmennsku og virðingu gagnvart þeim sem var ranglega bent á. Þær aðgerðir lögreglu bera engan vott um kynþáttafordóma. 

 Sumir telja sig jafnari en aðrir en þeir eru líka til sem eru móðgunargjarnari en aðrir og telja að sér vegið geti þeir tengt sig við minnihlutahóp. Slík hróp eru ansi hvimleið í þeimi tilvikum þar sem þau eiga ekki rétt á sér, sem er æði oft. 

Við erum þjóðfélag sem er að sligast vegna kostnaðar við að halda úti vitlausustu löggjöf um útlendinga á heimsvísu. Þjóðarnauðsyn ber til að breyta þeirri löggjöf en það hefur ekkert með kynþáttafordóma að gera heldur almenna skynsemi.  

Sumt af því fólki sem hrópar hátt um að þeim séu sýndir kynþátta- eða aðrir fordómar og niðurlæging setur sig á stundum í stöðu fórnarlambsins án tilefnis. Tilburðirnir eru eins og hjá ofurfótboltahetjum sem láta sig falla niður þegar tekið er í treyjuna þeira og veltast um afmyndaðir af sársauka þangað til þeir standa upp og halda áfram leiknum eins og ekkert hafi í skorist. Af því að það var ekkert tilefni sem réttlætti þetta frekar en oft er um að ræða varðandi upphlaup meintra fórnarlamba. 


Loksins fundu Píratar stefnu í Borgarmálum

Oddviti Pírata í borgarstjórn hefur fundið baráttuvettvang fyrir flokk sinn í komandi kosningum og krefst þess nú að vistvæn græn fjölskyldustefna verði tekin upp í skipulagsmálum í Reykjavík með því að umferðarskilti verði fjarlægt.

Lengi hafa Píratar verið í vanda með að átta sig á stefnu sinni og þjóðmála áherslumálum öðrum en þeim að vera á móti. En nú hafa Píratar fundið verðugan pólitískan tilverugrundvöll,í líki umferðarskiltis á hjólastíg í Borgartúninu. 

Oddviti Pírata heimtar að þessi staur verði fjarlægður eigi síðar en strax, þar sem hann ógni öryggi í umferð hjólandi og gangandi fólks. Ekki skiptir máli öryggi í umferð bifreiða og er það allt í samræmið við sjónarmið meirihlutans.

Afhverju áttaði oddviti Pírata sig ekki fyrr á þessu ógnarmikilvægi umferðarmerkisins.  Samt hefur hún verið formaður skipulags- og samgöngunefndar Reykjavíkur um langa hríð. 

Þá finnur oddviti Pírata að því, að ekki skuli vaxa grænn gróður upp úr stéttum og malbiki í Reykjavík. Nefnir hún Hafnartorg sem dæmi og vandræðast yfir því að ekki skuli vera grænn gróður þar nema í sérstökum kerjum.

Vonandi fer formaðurinn ekki líka að vandræðast yfir því að ekki skuli heldur vaxa gróður upp úr steinsteyptum gólfum heimila í borginni en miðað við ummæli borgarfulltrúans getur þess verið vænta að hún telji það miklu skipta að hanna gólf húsa með þeim hætti.

Það er mikils um vert, að oddviti Pírata skuli hafa fundið verðugt baráttumál og telji að vandamál staura séu þau að þeir séu bara fyrir en þjóni litlum tilgangi að öðru leyti.


mbl.is Hjólar í staur og segir Hafnartorg klúður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetakosningar í Frakklandi

Í dag er kosið til forseta í Frakklandi á milli sitjandi forseta Emmanuel Macron og mótframbjóðanda hans Marine le Pen. Allar líkur eru á, að Macron verði endurkosinn, en því er spáð að Le Pen fái mun meira fylgi nú en síðast. 

Macron hefur ekki staðið undir væntingum franskra kjósenda og stefnumál hans varðandi Evrópusambandið og aðgerðir vegna meintrar hlýnunar loftslags af mannavöldum hafa ekki náð fram að ganga. Það fyrra vegna þess að Evrópuríkin utan Þýskalands hafa ekki viljað ganga jafn langt og Macron og það síðara vegna þess að Gulvestungar svokallaðir gripu til mikilla mótmæla strax og Macron ætlaði að skattleggja franska alþýðu til að borga fyrir draugasöguna um hnattræna hlýnun.

Le Pen boðar mikla stefnubreytingu í fyrsta lagi varðandi Evrópusambandið. Í öðru lagi varðandi aukinn félagslegan stuðning við þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og í þriðja lagi baráttu gegn auknum innflytjendastraumi og sérréttindum múslima í Frakklandi. 

Hún er kölluð hægri öfgamanneskja og barátta Macron gengur út á það. En þá er spurning hvar eru öfgarnar. 

Ekki er Boris Johnson kallaður hægri öfgamaður þó hann hafi verið einn helsti baráttumaðurinn fyrir Brexit. 

Aukin áhersla Le Pen á samneyslu og félagslega aðstoð er ekki hægt að kalla hægri hvað þá hægri öfgar. En andstaða Le Pen við innflytjendastefnu Frakklands og sérréttindi múslima í Frakklandi leiðir til þess að vinstri sinnaða fjölmiðlaelítan stimplar hana sem hægri öfgamanneskju, en það er al rangt. 

Getum við kallað þann sem starfar innan lýðræðisþjóðfélags og stendur fyrir lýðræðisleg gildi öfgamann þó hann hafi ákveðnar skoðanir? Tæpast fólk getur verið yst til vinstri eða hægri, en það gerir fólk ekki að öfgafólki nema það hafni þeim sjónarmiðum sem lýðræðisþjóðfélag felur í sér þ.e. sami réttur allra til skoðana sinna, réttindi minnihluta o.s.frv. Marine Le Pen virðir leikreglur lýðræðisþjóðfélagsins, hún boðar ekki ofbeldi eða byltingu hvað er það þá sem gerir hana að öfgamanneskju skv. vinstri sinnuðu fjölmiðlaelítunni. Ekkert annað en það að hún vill virða frönsk gildi og franska menningu og hafnar innflytjendastefnunni sem þó allir viðurkenna að gengur ekki. 

Þó að Le Pen komi til með að tapa fyrir Macron þá er eitt ljóst. Meirihluti þeirra sem eru af frönsku bergi brotnir munu greiða henni atkvæði, en Macron getur reitt sig á að nær allir Múslimar í landinu muni greiða honum atkvæði og vinni hann sigur þá á hann Múslimunum það að þakka. 

Svo er nú komið fyrir frönsku þjóðfélagi. 


Betra veður

Veðrið hefur ekki beinlínis leikið við landsmenn s.l. vetur og sá mikli meistari veðurfræðinnar Páll Bergþórsson spáir lítt bærilegu sumarveðri þetta sumar. 

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst eins og máltækið segir og nú lofar oddviti Sjálfstæðisflokksins við komandi borgarstjórnarkosningar betra veðri og segist munu efna kosningaloforðið um betra veður með því að gróðursetja tré. 

Leikkonan Emma Thompson segist geta flogið um á einkaþotu heimsálfa á milli og skilji ekki eftir sig kolefnisspor vegna þess að hún gróðursetji svo mörg tré. Af því sem Emma og Hildur halda fram þá er ljóst að gróðursetning trjáa er líkleg til að gera kraftaverk.

Árið 1979 var til sérstakur stjórnmálaflokkur sem nefndist Sólskinsflokkurinn, sem lofaði betra veðri og meira sólskini með því að draga Ísland suður á bóginn. Því miður fékk flokkurinn ekki nema 92 atkvæði og þessvegna erum við enn stödd úti í ballarhafi með endalausar lægðir, rigningu og leiðindaveður. 

Nú hillir hinsvegar undir það að Reykvíkingar geti tekið gleði sína á ný og fengið betra veður, minna rok og rigningu og meiri sól þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð meirihluta í Reykjavík. Vonum seinna verður þá Degi B. Eggertssyni komið í það skjól sem hann á skilið í bragganum sínum í Nauthólsvíkinni á meðan aðrir Reykvíkingar verma sig í sólinni og alsælu betra veðurlags í henni Reykjavík.

Kosningaloforð og áheit standast mismunandi en á sínum tíma á ungmennafélagsfundi á Akureyri stóðu menn upp og lofuðu að hinu og þessu og þá var skáldinu sr. Matthíasi Jochumsen nóg um og stóð upp og sagði: 

"Ég heiti því að verða hundrað ára eða detta dauður niður ella." og ekki stóð á efndunum hjá Matthíasi. 

 


mbl.is Hildur á auglýsingaskiltum á Tenerife
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega upprisuhátíð

Kristin trú byggir m.a. á fyrirgefningu og umburðarlyndi. Jesú talaði um Guðs ríki. Kristið fólk var í árdaga kristninnar upptekið við að ræða um með hvaða hætti og hvernig Guðs ríki væri og hvernig það mundi koma. Þó sú umræða láti ekki mikið fyrir sér fara í kristinni orðræðu í dag, þá er hún hluti af bæn okkar "Faðir vor" þar sem við segjum "til komi þitt ríki."

Vikan í Jerúsalem þegar Jesú kom og var fagnað á Pálmasunnudag þegar hann reið á asna inn í borgina var sigurstund. Sigurstundin hélt áfram þegar Jesú flutti boðun sína í musterinu. Boðun friðar, kærleika, fyrirgefningar og umburðarlyndis.

Þrátt fyrir þessa boðun hafði hann ógnað valdhöfunum bæði æðstu prestunum og Rómverjum, sem stjórnuðu Júdeu á þessum tíma. Sigurstundin á Pálmasunnudag breyttist í hræðilegan ósigur. Jesú var handtekinn, píndur og tekinn af lífi með krossfestingu. 

En jafnvel þessi stund ósigursins þar sem meira að segja lærisveinar hans yfirgáfu hann og þorðu ekki að koma nálægt þegar hann var píndur og krossfestur, þá breyttist það aftur í sigurstund þegar fréttist af upprisu hans. 

Sundurleitur hópur örvæntingarfullra manna, sem voru lærisveinar Jesú breyttist í baráttuhóp, sem var tilbúinn að færa fagnaðarerindið um Jesú til fólksins og hikaði ekki við að standa með trú sinni um Jesú krossfestan og upprisinn jafnvel þó að þeirra biði ekkert annað en dauðinn fyrir að gera það.

Páskadagur er og verður helsti sigurdagur kristins fólks. Sigurdagur sem beinir augum okkar að því kraftaverki sem varð þegar fólk sem næst stóð Jesú sá kraftaverkið með eigin augum og var síðan tilbúið til að færa hvaða fórnir sem var meira segja fórna lífi sínu fyrir trúna og trúarsannfæringu sína um boðun Guðs ríkis, friðar, fyrirgefningar og umburðarlyndis.

Til hamingju sigurhátíð upprisu Jesú og sigurs hins vanmáttuga gegn óréttlæti og valdboði.

Gleðilega upprisuhátíð. 

 


Sitthvað hafast menn að.

Á árum áður á Fróni mátti nánast ekkert gera á föstudaginn langa utan þess að hlusta á einu útvarpsstöðina Ríkisútvarpið, sem flutti jafnan drepleiðinlegustu dagskrá ársins þennan dag. Einnig er minnisstætt, að maður var tekinn til bæna af lögreglu fyrir það afbrot að selja páskaliljur á páskadag. 

Verandi á Spáni í fyrsta sinn í hinni helgu viku (semana santa) sem svo er nefnd,þ.e. páskavikan, sér maður aðra nálgun og virðingu fyrir píningu, krossdauða og upprisu Jesú en.

Haldnar eru skrúðgöngur í öllum borgum og bæjum Spánar, ekki einu sinni heldur oftar í dymbilvikunni, þar sem helgitákn eru borin og fólk klæðir sig í margvíslega búninga. Þetta er liður í helgihaldi,sem tekur stóran hluta vikunnar. Þetta er mikilvægur þáttur í helgihaldi og virðingarverð trúariðkun kristins fólks á Spáni.

Þó margt hafi breyst á umliðnum árum á Íslandi, hefur fólk virt helgi föstudagsins langa og páskadags og gætt þess almennt, að vera ekki með samkomur eða aðrar uppákomur á þeim dögum. 

Nú er þetta líka breytt. Í gær á föstudaginn langa hélt sértrúarhópur Gunnars Smára Egilssonar mótmælafund á Austurvelli. Svo mikið lá á, að ekki var hægt að virða helgi þess dags sem Jesús dó á krossinum, heldur þurfti að nýta hann til að koma áfram pólitískum áróðri og moldviðri. 

Það er e.t.v. dæmi um aftrúarvæðingu þjóðkirkjunnar að helsti prédikari á fundi sértrúarhóps Gunnars Smára skyldi hafa verið prelátinn Davíð Þór Jónsson í Laugarnesi. Því má ekki gleyma að preláti þessi var lengi vel þekktur skemmtikraftur sem flutti landsmönnum skemmitlegt bull og vitleysu með reglubundnu millibili

Ólíkt hafast menn að í mismunandi löndum og á mismunandi tímum.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 220
  • Sl. sólarhring: 491
  • Sl. viku: 4436
  • Frá upphafi: 2450134

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband