Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Óvinurinn eini.

Eftir að kommúnistar og sósíalistar höfðu háð harða baráttu í 70 ár á síðustu öld við að skapa velferð og réttlátt þjóðfélag urðu þeir að viðurkenna sig gjaldþrota og kerfi þeirra dygði ekki og því fylgdi örbirgð og ógnarstjórn. Þeir gáfust upp.

Við blasti þegar Sovétríkin féllu,gríðarleg mengun, þar sem mörg níðingsverk höfðu verið unnin á "móður jörð". Markaðskerfið eða kapítalisminn þurfti til að koma til að tryggja að fólk yrði ekki hungurmorða víða í kommúnistaríkjunum og hreinsa til þar sem náttúruvá blasti við. 

Nú hafa sósíalistar gleymt arfleifð sinni eða vilja ekki muna og halda því óhikað fram að allt það vonda, sem gerist í veröldinni sé stórkapítalismanum að kenna.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag fer ritstjórinn mikinn og kennir stórkapítalismanum um ástandið í loftslagsmálum og öllu því sem illa hefur farið í heiminum frá upphafi iðnbyltingar eða í tæp 400 ár.

Helstu stórkapítalistarnir í heiminum, Jeff Bezos hjá Amason ríkasti maður heims og Bill Gates hjá Microsoft sem fylgir þétt í kjölfarið eru þá vafalaust í þeim hópi sem verður um kennt, að mati leiðarahöfundar. Raunar eru þeir Jeff og Bill meðal ötulustu talsmanna grænna gilda og prédika ógnina af hlýnun jarðar á milli þess sem þeir fljúga á einkaþotunum sínum heimsálfa á milli. 

Hægt er að kenna markaðskerfinu um ýmislegt og það er fjarri því að vera fullkomið, en ritstjórinn hrapar að rangri niðurstöðu þegar hann gerir stórkapítalismann ábyrgan fyrir allri náttúruvá í heiminum og meintri hnattrænni hlýnun. 

Á líftíma ritstjórans hefur mannkyninu fjölgað um marga milljarða. Hver einstaklingur skilur eftir sig kolefnisspor og þarf að nýta sér það sem jörðin gefur af sér. Stórkapítalismanum verður ekki um það kennt nema e.t.v. ef á að taka það með í reikninginn, að markaðskerfið, kapítalisminn hefur tryggt gríðarlega framleiðsluaukningu matvæla. Í stað stórkostlegra hungursneyða, sem hefðu kostað milljónir mannslífa, þá hefur að mestu verið komið í veg fyrir þá vá,með skilvirkni kapítalismans nema í stríðshrjáðum löndum og þar sem kapítalisminn kemst ekki að eins og í Norður Kóreu og nú í Afganistan.

Í Kína er kommúnistaríki, þar sem kommúnistarnir sem stjórna landinu hafa áttað sig á því, að útilokað er að auka velmegun í landinu og koma  í veg fyrir hungursneyð nema með því að virkja markaðshagkerfið,kapítalismann. Þeir hafa því gert það og þeirra viðmiðun er sú, að það mikilvægast sé að tryggja borgurum Kína velmegun með markaðskerfinu. Saga kapítalismans í Kína er auk heldur svo stutt, að fólkið þar og stjórnendur landsins muna, að það var kapítalisminn líka stórkapítalisminn, sem lyfti Kína frá örbirgð og hungursneyð, þar sem milljónir dóu úr hungursneyð.

Kommúnistiarnir í Kína láta ekki fólk með hugmyndafræði nítjándu aldar sósíalisma eins og ritstjóra Fréttablaðsins segja sér að þeim líði betur í örbirgð og hungursneyð en með því að virkja kapítalismann þannig að fólkið hafi nóg að borða og njóti velmegunar.

Því miður virðast Vesturlönd hafa gleymt þessum grundvallaratriðum og þessvegna sækir Kína nú fram á meðan Evrópa er að dæma sig til efnahagslegs sjálfsmorðs.

 

 


Derringur í Erdogan

Einræðisherrann í Tyrklandi Tacip Erdogan lætur eins og sá sem valdið hefur í samskiptum við ríki Evrópu og Bandaríkin. Erdogan hefur fangelsað þúsundir Tyrkja og reynt að þurka út alla gagnrýni á sig. Meðal þeirra sem hafa verið í fangelsi Tyrkja er stjórnarandstöðuleiðtogi sem Erdogan hefur haft í fangelsi frá 2017 án þess að hann hafi nokkru sinni verið leiddur fyrir dóm 

Tíu sendiherrar mótmælti fangelsun stjórnarandstöðuleitogans án dóms og laga þ.á.m. önnur Norðurlönd en Ísland (Ísland er ekki með sendiherra í Tyrklandi) auk landa eins og t.d. Bandaríkjanna, Þýskalands og Frakklands og í framhaldi af því hótar Erdogan að reka þá úr landi. 

Nú ættu viðkomandi ríki að vera fyrri til og kalla sendiherra sína heim og tilkynna Erdogan að þau muni ekki senda þá til baka nema Tyrkir virði almenn mannréttindi. Á sama tíma ættu Evrópusambandsríkin að girða svo af landamæri Tyrklands og Evrópu, að Erdogan geti ekki sent hersveitir svokallaðra hælisleitenda yfir landamærin frá Tyrklandi til Evrópu. Á sama tíma eiga Evrópusambandslöndin líka að hætta að greiða miljarða á miljarða ofan til Tyrklands fyrir að halda hælisleitendum frá Evrópu. Hælisleitendur í Tyrklandi eiga að vera vandamál Erdogan en ekki okkar. 

Aumingjaskapur Vesturlanda gagnvart þessum ofstopamanni er þeim til skammar og nú er nóg komið. 


Danskurinn og fjandskurinn

Stefán Ólafsson í Vallanesi orti á 17.öld eftirfarandi um kaupmanninn á Djúpavogi:

"Danskurinn og fjandskurinn á Djúpavog

 hann dregur að sér auðinn við brimseltusog

 með fjandlega gilding og falska vog

 fari betur að reyrðist um hálsinn hans tog."

Mér datt þessi vísa í hug þegar ég heyrði lögregluyfirvöld í Noregi taka það sérstaklega fram, að maðurinn sem framdi hryðjuverkið í Kongsberg þar í landi væri danskur. 

Í sjálfu sér er eðlilegt að fréttamiðlar geri grein fyrir því hvaðan maðurinn er auk frekari upplýsinga um hann. Það sem er öðruvísi en jafnan er að fréttamiðlar birta almennt ekki slíkar upplýsingar. Hætt var að birta slíkar upplýsingar og talið jaðra við rasisma að gera það sérstaklega þegar framin voru skipuleg hryðjuverk múslima á borgara Vestur Evrópu. 

Þýskir, franskir og breskir fjölmiðlar gefa almennt ekkert uppi varðandi slíka árásarmenn nema væri hægt að segja að þeir væru þýskir,franskir eða breskir ríkisborgarar jafnvel þó að uppruni þeirra væri í Íslömsku ríki. Þagað er, ef uppruni þeirra er t.d. í Sýrlandi, Marokkó, Afganistan eða Írak. 

Þegar þeir sem ábyrgð báru á þessari stefnu fjölmiðla á Vesturlöndum hafa verið spurðir af hverju þeir hafi þessa stefnu, hefur jafnan verið borið við að fjölmiðlar vilji ekki kynda undir óróa í þjóðfélaginu, ekki stuðla að rasisma eða reiði gagnvart einstökum þjóðfélagshópum.

Í samræmi við þessa samstilltu stefnu fjölmiðla á Vesturlöndum er því óeðlilegt að segja frá því að árásarmaðurinn sé Dani, en þess er sérstaklega getið í vestrænum fréttamiðlum. Í þessum sömu fréttamiðlum er nánast aukaatriði ef á það er minnst, að maðurinn sé múslimi. Að sjálfsögðu hlaut það að vera aðalatriði að illyrmið  væri danskur. 

Um Danskinn gilda greinilega aðrar viðmðiðanir enda engin sem býst við neinu illu af þeim ekki einu sinni þeir sem búa nú á Djúpavogi. 

 

  


1000 milljónir dollara

Öfgastjórn Talibana tók völdin í Afganistan með það að höfuðmarkmiði að koma landsmönnum undir harðúð Sharía laga. Konur grýttar, hommum hent fram af húsþökum eða drepnir með öðrum hætti og hendur höggnar af fólki vegna minniháttar brota. 

Vesturlönd fluttu fjölda fólks brott í öryggi Vesturlanda og íslenska ríkisstjórnin samþykkti að taka við á annað hundrað Afgönum á flótta undan villimannastjórninni, svo gáfulegt, sem það nú var. Fréttir berast af miklum fjölda flóttafólks frá Afganistan til Íran. Þaðan mun það streyma til Evrópu með aðstoð smyglara sem græða feitt á málinu og "góða fólksins".

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þróunarstjóri kvennréttinda í Afganistan á vegum Sameinuðu þjóðanna, getur horft yfir rústir starfs síns til margra ára og tekið undir með þjóðskáldinu "Hvað er þá orðið um okkar starf"

Ætla hefði mátt að vestræn ríki mundu bindast samtökum um að útiloka Afganistan frá samfélagi siðaðra þjóða meðan villimennska Talibanana ræður þar ríkjum. Krafist þess, að lágmarksmannréttindi yrðu til staðar í landinu auk ýmiss annars annars yrði engin aðstoð í boði. En það er ekki gert.

Í gær ákvað Evrópusambandið að gefa Talibanastjórninni 1000 milljónir Evra eða 150 milljarða, sem heitir aðstoð. Skattgreiðendur í Evrópu hafa aldrei verið spurðir um þetta eða þeirra samþykkis leitað. Þessir fjármunir hefðu getað nýst vel til uppbyggingar og aðstoðar í Evrópu, en sömu peningunum verður aldrei eytt tvisvar. 

Óneitanlega skýtur það skökku við, að Valdstjórn Evrópusambandsins í Brussel skuli fyrst krefjast þess að lönd Evrópu taki við ómældum fjölda flóttamanna (um 90% þeirra eru ungir karlmenn) vegna ógnarstjórnarinnar í Afganistan og styrkja ógnarstjórnina síðan með gríðarlegum fjármunum. 

Hvers eiga evrópskir skattgreiðendur eiginlega að gjalda. 

Hefur fyrr komið fram hversu gjörsamlega glórulaus utanríkisstefna Evrópusambandsins er og hvernig öllum markmiðum hugsjónum og evrópskum gildum hefur verið kastað fyrir róða af þessu sama Evrópusambandi, sem á stundum virðist í mun að koma öllum evrópskum gildum og viðmiðunum sem lengst út í hafsauga.

 

 


Hvenær ber ráðherra ábyrgð?

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir forsætisráðherra, að það hafi ekki verið hennar að meta hæfi Páls Hreinssonar forseta EFTA dómstólsins, heldur hans sjálfs þegar hún réði hann til að gera álitsgerð um aðgerðir í sóttvarnarmálum.

Þetta svar forsætisráðherra sýnir undarlegt viðhorf, sem því miður allt of margir stjórnmálamenn eru illa haldnir af. Að þeir beri almennt ekki ábyrgð.

Í þessu svari forsætisráðherra felst, að henni beri ekki að kynna sér hvaða reglur gilda um dómara við fjölþjóðlegan dómstól, en ekki þarf að kafa lengi í ákvæði um dómstólinn til að sjá, að ráðning dómarans til starfans var í besta falli vafasöm. 

Katrínu Jakobsdóttur veit hvað hlutverk EFTA dómstólsins er og viðfangsefni hans varða fyrst og fremst aðgerðir eða aðgerðarleysi stjórnvalda þ.á.m. ríkisstjórna viðkomandi aðildarríkja þ.á.m. Íslands. Út frá almennri skynsemi og siðrænum forsendum var eða átti Katrínu að vera ljóst, að það var fráleitt að ráða dómsforseta EFTA dómstólsins til að fjalla um íslensk löggjafarmálefni og gera tillögur um breytingar, sem hann kynni síðar að þurfa að fást við sem dómari. 

Það er hlutverk ráðherra líka forsætisráðherra að leggja heildstætt mat á þau viðfangsefni,sem þeir fjalla um. Þeir eiga ekki að geta vikið sér undan ábyrgð. 

Meginatriðinu er samt ósvarað hvað sem líður þessu viðhorfi forsætisráðherra. Spurningunni um hvort það hafi verið eðlilegt að ráða dómsforseta EFTA dómstólsins til þessara starfa fyrir ríkisstjórnina, en því kemur Katrín Jakobsdóttir sér hjá að svara og vísar eingöngu í formið en ekki efnisatriði. Síðast en ekki síst. Hvað segir dómarinn Páll Hreinsson um málið. Gagnrýninni er jú fyrst og fremst beint að honum, þó að forsætisráðherra þrátt fyrir góða tilraun geti ekki heldur frýjað sig ábyrgð.  


Aukastörf dómsforseta EFTA dómstólsins í þágu aðildarríkis.

Fyrrum forseti EFTA dómstólsins gagnrýnir eftirmann sinn Pál Hreinsson harðlega í grein sem birtist í Morgunblaðinu 31.júlí s.l. Óvenjulegt er að sjá jafn harðorða gagnrýni frá dómurum um framgöngu eftirmanna sinna og útilokað annað en að taka hana til málefnalegrar umfjöllunar.  

Á s.l. ári fékk ríkisstjórnin Pál Hreinsson dómsforseta EFTA dómstólsins til að vinna álitsgerð um valdheimildir sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra o.fl. til opinberra sóttvarnarráðstafana skv. sóttvarnarlögum o.s.frv. með tilliti til stjórnarskrár. Jafnframt var þess óskað að dómarinn gerði frumtillögur að breytingum á lögum og reglum eftir því sem dómarinn teldi tilefni til. 

Óneitanlega vekur það upp ýmsar spurningar að dómari við alþjóðlegan dómstól, sem fjallar m.a. um aðgerðir íslenska ríkisins og/eða aðgerðarleysi skuli taka að sér lögfræði- og ráðgjafarverkefni fyrir íslenska ríkið. Iðulega reynir á mál gegn íslenska ríkinu fyrir dómstólnum og í álitinu er dómarinn að fjalla um málefni þar sem hæglega getur reynt á EES reglur t.d. varðandi frjálsa för fólks. Þessi aukastörf dómarans eru því með öllu óeðlileg.

Vinna dómarans fyrir íslensku ríkisstjórnina í sóttvarnarmálum vegna Kóvíd vekur upp spurningar um sjálfstæði og hæfi auk þess hvort eðlilegt sé að dómari þiggi verkefnagreiðslur frá ríki sem á undir í ýmsum dómsmálum þar sem hann er dómari.

Lögmannafélag Íslands hlítur að gera athugasemd við óeðlilega samkeppni dómara við alþjóðlegan dómstól við starfandi lögmenn, sem greiða skatta og skyldur til ríkisins og lúta ýmsum reglum um ábyrgð fyrir vinnu sína og hafa sérstaka skyldutryggingu vegna starfa sinna sem dómarinn hefur ekki. 

Á sínum tíma þótti þeim sem þetta ritar þessi skipan mála hjá forsætisráðherra með ólíkindum vegna ákvæða sem gilda um EFTA dómstólinn auk þess sem að framan er getið. En strangar kröfur eru auk þess gerðar til  að sjálfstæði dómara við EFTA dómstólinn verði ekki dregið í efa sbr. 30.gr. samnings milli EFTA ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um að óhæði og sjálfstæði dómara við dómstólinn. Við það bætist að í 4.gr.bókunar (protocol) 5 við samninginn um EFTA dómstólinn er m.a. talað um að dómarar skuli ekki taka að sér önnur störf nema með sérstöku samþykki allra ríkisstjórna EFTA ríkjanna.

Ekki liggur fyrir hvort slíks samþykkis hafi verið aflað áður en Páll Hreinsson hóf störf fyrir forsætisráðherra alla vega hefur það hvorki verið birt eða kynnt.

Þessi ákvæði um EFTA dómstólinn auk eðlilegra viðmiðana um aukastörf dómara eru þess eðlis, að Páll Hreinsson dómari verður að gera rækilega grein fyrir aðkomu sinni í íhlaupastörf hjá íslensku ríkisstjórninni og með hvaða hætti hann getur fengið það út, að slíkt samrýmist störfum hans sem óháður og sjálfstæður dómari hjá EFTA dómstólnum. Þögn í þessu sambandi er ekki ásættanleg hvorki frá forsætisráðherra né dómaranum. 

Hvað sem líður hugsanlegum réttlætingum Páls Hreinssonar á þessum aukastörfum fyrir ríkisstjórnina, þá liggur samt fyrir að þetta ráðslag Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er út frá öllum almennum sjónarmiðum og viðmiðunum með öllu óeðlileg og það átti bæði hún og dómarinn að gera sér grein fyrir. 

 


Fyrsta og annars flokks borgarar.

Franska byltingin 1789 markaði tímamót.Þá varð til stjórnarskrá sem lögfesti jafnstöðu allra franskra borgara. Nú hefur franska þingið ákveðið að breyta því, að gera mun á þeim sem eru Kóvíd bólusettir og þeim, sem eru það ekki. 

Heilbrigðistarfsfólk er með lögunum skyldað til að láta bólusetja sig. Þá verða til heilsupassar. Án þeirra má fólk ekki ferðast með flugvélum, járnbrautalestum, borða á veitingastöðum eða koma á ýmis söfn eða aðra opinbera staði.

Angela Merkel Þýskalandskanslari boðar takmarkanir á frelsi þeirra sem eru ekki bólusettir. Í Bretlandi er talað um að setja reglur um skyldubólusetningu skólafólks.

Dómstólar eiga eftir að fjalla um það hvort að þessi mismunun borgaranna samræmist grundvallarlög samfélagsins. 

Ekkert Kóvíd bóluefni veitir örugga vörn gegn smiti. Ekkert veitir örugga vörn gegn því að bólusett fólk smiti ekki aðra. Bólusetningin tryggir ekki að bólusettir veikist ekki. 

Bóluefnin á markaðnum eru ekki merkilegri en það, að framleiðendurnir ábyrgjast hvorki að ekki fylgi alvarlegar aukaverkanir né að þau hafi einhverja virkni sem skiptir máli.  Við þessar aðstæður þegar fyrir liggur nú þegar að ýmsar alvarlegar aukaverkanir tengjast bóluefnunum, er það með miklum ólíkindum og sýnir hve heillum horfnir pólitískir forustumenn í Evrópu eru, að þeir skuli láta sér detta í hug að skipta borgurunum í tvo hópa bólusettum og óbólusettum og svipta óbólusetta frelsi sínu á ýmsum sviðum.

Kóvíd faraldurinn hefur sýnt fram á, hvílík áhrif ofurþungi samræmds stöðugs hræðsluáróðurs hefur á fólk. Nú á að nýta þá hræðslu til að knýja alla til að láta bólusetja sig að viðlagðri ábyrgð að lögum og skerðingu lýðréttinda. 

Frakkar sem ríða á vaðið með skerðingu borgaralegra réttinda þeirra sem ekki láta bólusetja sig gerir það undir sama vígorði og Frakkar beita í hernaði áður en hundruðum þúsunda ungs fólks er fórnað á vígvellinum. 

Nú er sú eina von eftir, að dómstólar Evrópu standi sig og dæmi alla þá löggjöf ólöglega sem tekur af borgaraleg réttindi þeirra sem ekki láta bólusetja sig. 

 


Við ráðum og við ein vitum.

Evrópusambandið tekur að sér yfirstjórn aðildarríkja sinna og sækist stöðugt eftir að ráða meiru og meiru um ákvarðanir ríkisstjórna einstakra aðildarríkja. Ítrekað er einstökum ríkjum send tilmæli eða hótanir m.a. vegna efnahagsstjórnunar, innflytjendastefnu, landamæra o.fl. 

Nú hamast yfirstjórn Evrópusambandsins gegn Pólverjum og Ungverjum, en þó sérstaklega Ungverjum fyrir að banna hinsegin fólki ávirkan áróður fyrir unglinga og börn undir 18 ára. Evrópusambandið og RÚV kalla það að virða ekki mannréttindi.

Athyglisvert að skoða grein sem Douglas Murray, skrifaði fyrir nokkru undir heitinu. "Menningarleg styrjöld milli Austur og Vestur (Evrópu),gæti skipt EU í tvennt." Tekið skal fram að Douglas Murray er samkynhneigður.

Í greininni víkur hann að því hvernig barátta fyrir jafnrétti samkynhneigðra hafi að óþörfu farið út af sporinu á síðustu árum, þegar sú barátta hefði sigrað í Vestur Evrópu hefði umræðan umhverfst um baráttu fyrir að afneita kynferðislegum mismun og ýta áfram "trans" hugmyndafræði. Í því ljósi sé ekki óeðlilegt að Ungverjaland hafni því að taka upp kynfræðslu fyrir ungt fólk byggt á slíkri hugmyndafræði. 

Evrópusambandið hefði ekki þurft að gera neitt, en hefur kosið að gera það og enn og aftur segir Murray að þessi afskipti ýti undir þá skoðun Austur Evrópu ríkjanna (Visegard), að EU sé að reyna að þvinga sínum lífsháttum upp á þau. 

Ursula von der Leyen heldur því fram, að þessi Ungversku lög sem banna kynfræðslu hinsegins fólks til unglinga undir 18 ára aldri "stríði gegn öllum gildum--- Evrópusambandsins."

Sérkennilegt ef það eru helstu gildi Evrópusambandsins, að skylda einstök aðildarríki til að taka upp kynfræðslu sem er þóknanleg kommissörunum í Brussel. En í framhaldi af því hefur yfirstjórn EU ákveðið að bregðast við með lögsókn á hendur ríkisstjórn Ungverjalands. 

Ríkisstjórn Ungverjalands hefur ákveðið að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta umdeilda frumvarp, en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar mun ekki hafa nein áhrif á yfirstjórnina í Brussel, sem hefur nú tekið að sér yfirstjórn á kynfræðilegum og siðferðilegum ákvörðunum einstakra aðildarríkja á hvaða lagagrundvelli sem það er nú byggt. 

Sérkennilegt að enn skuli vera fólk á Íslandi sem mælir með því og telur horfa til framþróunar, að Ísland gangi í Evrópusambandið eins og það hefur þróast á undanförnum árum. 


Styðjum við hryðjuverkamenn?

Tyrkir undir stjórn Erdogan stuðluðu að borgarastyrjöldinni í Sýrlandi og hafa stutt mismunandi uppreisnarhópa í áranna rás m.a. Ísis þegar það hentaði. Þeir hafa vopnaðar sveitir sem eru á þeirra vegum í Sýrlandi og fá laun sín greidd af Tyrkjum.

Hugmyndafræði Erdogan er augljós. Breyta landamærunum og innlima hluta af Sýrlandi í Tyrkland.

Eftir því sem stjórnarher Sýrlands og bandamanna þeirra óx ásmeginn flúðu vígamenn Al Kaída, Ísis og fleiri samtaka Íslamskra hryðjuverkasveita til héraðsins Ídlip í Sýrlandi, sem Tyrkir hafa í raun yfirtekið komið í veg fyrir að Sýrlandsher kláraði borgarastyrjöldina. Tyrkir halda þar verndarhendi yfir meir en milljón vígamanna Íslamskra öfgamanna. Nú eins og í svo mörgu öðru sýna Tyrkir þá kænsku að láta aðra borga. 

Talið er að um 4 milljónir búi í Ídlib og um 3.5 milljónir lifa á matargjöfum frá Sameinuðu þjóðunum. Þær matargjafir fara í gegnum Tyrkland. Sameinuðu þjóðirnar með velþóknun Bandaríkjamanna og NATO ríkja styðja Tyrki til að viðhalda yfirráðum yfir héraði í Sýrlandi og styðja um leið fjölda hermanna vígasveita hryðjuverkahópa sem þar dveljast. 

Þegar hryðjuverkamenn Al Kaída flugu á tvíburaturnana í Bandaríkjunum þann 11. september fyrir 20 árum skar Bush jr. þáverandi Bandaríkjaforseti upp herör gegn Íslömskum öfgasveitum, en sló um leið á útrétta hönd Rússa, sem buðu fram alla aðstoð í þeirr baráttu. Nú 20 árum síðar senda Bandaríkjamenn hryðjuverkamönnunum í Ísis og Al Kaída matargjafir í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og styðja Tyrki til að viðhalda ófriði í þessum heimshluta og vernda vígamennina. 

Það er með ólíkindum að engin stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur í Evrópu skuli hafa gert athugasemd við þetta og krafit þess, að hætt verði að styðja vígamennina og Tyrkir dregnir til ábyrgðar vegna stríðsglæpa í Sýrlandi. 


Íhaldið og frjálslyndið

Fréttablaðið segir frá því með nokkrum fögnuði að íhaldssamir frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins hafi tapað fyrir hinum frjálslyndari. Í huga Fréttablaðsins felst Frjálslyndi í því að vilja sem nánasta samstarf með Evrópusambandinu helst fulla aðild, en íhaldsstefna að vilja það ekki.

Nafngiftir eins og þessar eru oft misvísandi og miðað við þá þingmenn sem blaðið minnist á, þá verður ekki séð, að þar sé um  algjöra einsleitni að ræða í pólitískri afstöðu ef undan er skilið að öll hafa þau verið mótfallin þéttara faðmlagi við Evrópusambandið og no border stefnuna sem fylgt er í innflytjendamálum. En það hafa raunar nokkrir aðrir þingmenn flokksins líka verið.

Frétt blaðsins vekur samt sem áður athygli á atriðum, sem er nauðsynlegt að Sjálfstæðisfólk hafi í huga við stefnumörkun á næsta Landsfundi. 

Þar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka afgerandi afstöðu fyrir og með fullveldi þjóðarinnar og krefjast endurskoðunar á EES samningnum þannig að löggjafarvaldið m.a. verði að öllu leyti í höndum Alþingis en ekki kommissara í Brussel. Þá verður að taka skynsamlega og ákveðna stefnu í innflytjendamálum svo við lendum ekki í sama hjólfari og Svíar eru lentir í.

Framhjá þessu verður ekki komist vilji Sjálfstæðisflokkurinn tryggja öryggi borgaranna og rétt íslenskra ríkisborgara til lands, náttúruauðlinda og landgæða. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 3546
  • Frá upphafi: 2513350

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 3321
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband