Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Seljum landið.

Sú var tíðin að flokksbræður innanríkisráðherra héldu því fram að Sjálfstæðismenn ætluð að selja útlendingum  landið og fórna sjálfstæði þess. Á þeim tíma jafngilti það landráðum og landssölu hjá vinstri sósíalistum allra handa á Íslandi að vera í NATO og hafa varnarlið.

Nú stendur Ögmundur Jónasson frammi fyrir því hvort hann á að heimila kínverskum flokksbróður sínum að kaupa meira land en nokkur útlendingur hefur áður keypt úr Íslandi. Flokksbræður Ögmundar sjá almennt ekkert athugavert við landssöluna og Samfylkingarmenn hamast að innanríkisráðherra.

Það er annars einstaklega merkilegur flokkur Samfylkingin. Það eina sem virðist sameina flokkinn er innflutningur útlendinga og fjölmenningarstefna. Innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru. Sala á landi og öðru sem selja má til útlendinga fyrir gjaldeyri. Samfylkingin er sennilega fyrsti og eini landssöluflokkurinn á Íslandi sem ber það nafn með sanni.

Þrátt fyrir kröfu Samfylkingarinnar og linkulega framgöngu Vinstri grænna varðandi landssöluna á Grímsstöðum þá stendur Ögmundur samt enn í fæturna og vonandi gerir hann það áfram og verður þá maður að meiri þó ágætur sé um margt.

Það er hins vegar til umhugsunar að það sé algjörlega á valdi innanríkisráðherra  að heimila landssölu eins og þá sem um ræðir varðandi Grímsstaði á Fjöllum.  Þá er þetta líka atriði sem þarf að endurskoða varðandi heimildir EES fólks til landakaupa hér á landi sem og frjálst flæði fólks til landsins.


Auknir skattar meiri velferð?

Formaður BSRB skrifar grein í Fréttablaðið í dag undir heitinu "Félagsleg samheldni skilar meiru en einstaklingshyggja" Athyglivert að í greininni eru ekki  færð fram rök fyrir réttmæti þessarar fullyrðingar.  Meginefni greinarinnar er fögnuður yfir hárri skattheimtu.  Svo er að skilja að formaður BSRB telji að háir skattar tryggi velferð og aukna framleiðslu í þjóðfélaginu. 

Samt sem áður er staðan sú í háskattalandinu Íslandi að helmingur heimila getur ekki borgað óvænt útgjöld eins og t.d. ef þvottavél bilar eða ef leita þarf til tannlæknis svo eitthvað sé nefnt.

Formaðurinn segir "Skattar hverfa nefnilega ekki bara ofan í einhvern pytt"  En  því miður gera þeir það af of stórum hluta til. Er  afsakanlegt t.d. að reka sendiráð á Indlandi, Japan og öllum Norðurlöndunum. Er  afsakanlegt að eyða milljörðum af opinberu fé í óarðbæra framleiðslu afurða? Hægt væri að spyrja hundruð álíka spurninga.

Þetta er þeim mun sárgrætilegra þar sem ein króna af hverjum fimm er tekin að láni til að standa undir ríkisútgjöldum og þann kostnað verða börnin, barnabörnin og jafnvel barnabarnabörnin okkar Elínar Bjargar Jónsdóttur formanns BSRB hvors um sig að greiða eigi íslenska ríkið að komast hjá gjaldþroti.

Formaður BSRB og fleiri sem hugsa eins og hún og setja fram fullyrðingar eins og þær sem koma fram í heiti greinarinnar ættu að skoða hvort staðhæfingin stenst sögulega skoðun.  Hvort sem okkur líkar betur eða verr  þá gerir hún það ekki. Þvert á móti þá er ofurskattheimtan og skuldasöfnun lýðræðisríkjanna ein versta og mesta ógnunin við efnahagslega sjálfstæð þjóðfélög og lýðræðið í dag.

Það þarf nefnilega alltaf að framleiða verðmætin sem standa undir velferðinni og sköttunum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Fjölgun sjúkrahúsa, tónlistarhúsa og skóla svo gott sem það kann að vera kemur því ekki til nema einstaklingshyggjan fái svigrúm til að skapa verðmætin sem þarf til að eitthvað verði afgangs til þess að reka öflugt velferðarkerfi.   


Slitastjórnir og ofurlaun

Tvisvar til þrisvar á ári uppgötva stjórnmálamenn og fréttamenn að sjálftaka þeirra sem sitja í slitastjórnum föllnu fjármálafyrirtækjanna er með öllu óeðlileg. Í janúar 2010 fordæmdu  þeir Gylfi Magnússon þá ráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þetta og töluðu um að breyta þessu. Það reyndist bara gaspur. Engu hefur verið breytt.

En það eru ekki bara ofurlaun slitastjórna sem eru óeðlileg. Það er líka óeðlilegt með hvaða hætti margt slitastjórnarfólk vinnur þannig að það fer út yfir öll siðferðileg mörk oft á tíðum. En engin gerir neitt og þetta fólk kemst óáreitt upp með að taka sinn ránsfeng.  Engin ber ábyrgð, en slitastjórnir ákveða að fara í mál gegn einstaklingum og fyrirtækjum. Þegar þau mál tapast þá yppta slitastjórnarmenn bara öxlum og halda jafnvel áfram málarekstri. Þetta fólk þarf engar áhyggjur að hafa það ber enga ábyrgð.

Þeir sem sitja í slitastjórnum hafa engan hag af því að ljúka vinnu sinni hratt og vel. Þvert á móti hefur slitastjórnafólkið hag af því að draga þetta sem lengst af því að meðan svo er getur það haldið áfram að skammta sér starfskjör eins og ekkert hafi í skorist.

Þegar ég talaði um það við fall bankanna að það væri betra að kjósa stjórnir fyrir föllnu fjármálafyrirtækin með svipuðum hætti og bankaráð þá töluðu menn um að það yrði of dýrt.  Hefði það verið gert þá hefði kostnaðurinn ekki orðið nema um 20-30% af því sem hann hefur orðið vegna kostnaðar við sjálftökuliðið.

Það getur verið dýrt að vera vitur eftir á og  enn dýrara að gera þá ekkert í því eins og þau Steingrímur og Jóhanna gera í þessu tilviki.

Var þetta hluti af því Nýja Íslandi sem þau Steingrímur og Jóhanna sögðu að mundi rísa af rústum hins spillta?


Burt með verðtrygginguna

Skoðanakönnun Hagsmunasamtaka heimilanna sýnir að mikill meiri hluti landsmanna vill fá lánakerfi eins og neytendur á hinum Norðurlöndunum búa við. Lán án verðtryggingar með eðlilegum vaxtakjörum.

Samkvæmt því sem kemur fram frá samtökunum þá kemur fram mikill meiri hluti í öllulm stjórnmálaflokkum með breytingu á lánakjörunum þannig að eðlilegt tillit sé tekið til hagsmuna neytenda.

Miðað við það væri því eðlilegt að samtökin mynduðu þverpólitískan hóp til að vinna að þessu hagsmunamáli innan stjórnmálaflokkana. Láta á það reyna hvort þeir eru tilbúnir til að standa fyrir þeirri breytingu sem nauðsynleg er í lánamálum neytenda.  Það hlítur að verða næsta og brýnasta verkefni samtakanna og miklu brýnna en að samtökin verði framboðssamtök. Það gæti orðið til að eyðileggja málið

Nema baráttan hefði  verið reynd til þrautar fyrst.

Verðtrygging verður að fara í lánum til neytenda. Eðlileg og sanngjörn lánakjör ætti að vera á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka og þeir ættu líka að koma breytingum fram. Það reynir á það hvort þeir gera það eða ekki. Fari svo að þeir geri það ekki þá eiga þeir stjórnmálaflokkar ekki lögmætt erindi við kjósendur.


Harðasti rukkarinn

Viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í morgun að Lífeyrissjóðirnir væru harðasti rukkarinn gagnvart skuldugum heimilium og kæmi minnst að lausn á skuldavanda heimilanna.  Þetta eru merkilegar upplýsingar.

Lífeyrissjóðirnir eru hugsaðir til að tryggja ákveðna velferð fólks þegar það hættir að vinna. Slíka velferð má tryggja með öðrum hætti en nú er gert t.d. með því að fólk geti myndað lífeyrissparnað með því að fjárfesta í eigin húsnæði og sé þá fjár síns ráðandi í stað þess að löggjafinn taki fjárráðinn af fólki með skylduaðild að lífeyrissjóðum og takmörkunum á fjárfestingum fólks vegna lífeyris.

Stjórnendur lífeyrissjóðanna vilja ekki horfa á það stóra samhengi að með því að neita aðkomu að og vilja til að leysa skuldavanda þeirra sem eiga eitthvað og geta eitthvað þá eru þeir að framlengja kreppu í landinu og koma í veg fyrir að aukna tekjuöflun sína í nánustu framtíð. Þessi afstaða lífeyrissjóðanna er því líkleg til að skaða þá þegar á heildarmyndina er liðið.

En stjórnendur lífeyrissjóðanna starfa samkvæmt því sem viðskiptaráðherra segir á þeim grundvelli að bjóða skuli upp hús fólks og reka það út á Guð og gaddinn til þess að því geti hugsanlega liðið betur í ellinni.


Ónýt úrræði

Fulltrúi ríkisins sem fylgist með meintum úrræðum ríkisstjórnarinnar  segir á Alþingi,  að bæði sértæka skuldaaðlögunin og 110% leiðin séu ótækar og/eða nái ekki markmiði sínu.

Þessi ónýtu úrræði ríkisstjórnarinnar komu fram eftir að ríkisstjórnin hafði áður lagt fram 3 ónýta svokallað velferðarpakka fyrir skulduga einstaklinga í þjóðfélaginu.

Einhvern veginn virðist stjórnendum þessa lands ganga erfiðlega að skilja að það varð sami bresturinn og óréttlætið hvað varðar verðtryggðu lánin og þau gengistryggðu. Í samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin hefði þurft að gæta jafnræðis skuldara og endurreikna verðtryggðu láinin miðað við vísitölu októbermánaðar 2008. Þessi réttláta og nauðsynlega leiðrétting verðtryggðu lánanna verður að ná fram.

Það er betra að móta almennar leikreglur í þjóðfélaginu sem gilda jafnt fyrir alla í stað þess að búa til sérreglur fyrir suma. Ríkisstjórnin hefur búið til sérreglur fyrir þá allra skuldugustu oft þá sem ekkert áttu og ekkert höfðu í raun lagt fram af eigin fé.  Þetta var röng leið.

Jafnvel þó að færustu hagfræðingar heims sem koma sérstaklega til að fjalla um vanda íslensks efnahagslífs segi allir að verðtryggingin gangi ekki og létta verði skuldabyrðum af venjulegu fólki sem stynja undir oki verðtryggingarinnar þá neitar ríkisstjórnin að gera nokkuð af viti í málinu.

Það er tími til komin að þrælar verðtryggingarinnar láti almennilega til sín taka og sýni þessari ríkisstjórn að þeir sætta sig ekki við þetta rán lengur.


Ólyginn sagði mér

Íslendingar þekkja það hvernig Gróa á Leiti fór að til að renna stoðum undir trúverðugleika ósanninda sinna. Þá sagði Gróa jafnan í upphafi máls síns "ólyginn sagði mér"  Þess var gætt að geta ekki höfundar til að útilokað væri að staðreyna það hvort Gróa segði satt.

Þorvaldur Gylfason prófessor við Háskóla Íslands hefur tekið við þar sem Gróu þraut erindið.

Fyrir hálfum mánuði síðan skrifaði hann grein í Fréttablaðið réðist að nafngreindum mönnum með því að vísa rangt til heimilda svo sem rækilega var bent á í grein í blaðinu daginn eftir.

Nú segist Þorvaldur á fésbókarsíðu sinni hafa átt samtal við fyrrum Seðlabankastjóra á safnfundi hagfræðinga innlendra og erlenda um efnahagsmál Íslands í Hörpu og þar hefði eftirfarandi komið fram:

"Fyrrverandi seðlabankastjóri sagði við mig í gær, að ein ástæðan til þess, að bankarnir starfa undir leyndarhjúp frekar en fyrir opnum tjöldum, sé sú, að mikið sé af óhreinu fé í umferð. Hann var að tala um Ísland. Mig langaði að segja við manninn: Hvers vegna ertu að hvísla þessu að mér? Hvers vegna skrifarðu ekki um þetta í blöðin?“

Í framhaldi af þess spurði fréttamiðill Þorvald nánar út í þetta samtal en Þorvaldur segist ekki geta sagt meira.

Ef þetta er rétt sem Þorvaldur segir þá er um grafalvarlegt mál að ræða. Um brot á lögum um peningaþvætti er þá  að ræða og Þorvaldi, ónafngreinda Seðlabankastjóranum sem og þeim bankamönnum og stjórnmálamönnum sem í hlut eiga ber lagaleg skylda til að upplýsa um "óhreina féð í umferð".

Þorvaldur getur ekki í þessu tilviki neitað að upplýsa um jafnvíðtæka svikastarfsemi í fjármálum og hann íjar að í fésbókarfærslu sinni.

En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Þorvaldur á mikilvæg trúnaðarsamtöl við ónafngreinda huldumenn. Í grein í Fréttablaðinu 7.7.2005 sagði Þorvaldur frá því að "ónefndur maður" hafi sest hjá sér í flugvél og upplýst hann um að ákæra yrði gefin út á hendur Baugsmönnum vikuna á eftir.  Þorvaldur hefur aldrei fengist til að upplýsa hvaða maður þetta var, en ummælin voru höfð uppi af hálfu Þorvaldar til að sýna fram á að víðtækt samsæri væri í gangi af hálfu lögreglu og stjórnvalda sem beindist að Baugsmönnum svokölluðu. Semsagt refsiverð atlaga æðstu manna löggæslu og ákæruvalds.

Nú sem fyrr er Þorvaldur að tala um alvarlegt lagabrot. Að þessu sinni þá verður ekki betur séð en hann haldi því fram að allir helstu bankamenn landsins, yfirmenn Seðlabanka og æðstu menn framkvæmdavalds tengist því. 

Úr því sem komið er getur Þorvaldur ekki annað en upplýst þjóðina um málið eða sæta því ella að njóta þess vafasama heiðurs að vera í sama flokki sem heimildamaður og vinkona hans Gróa á Leiti.

 

 


Upphefðin kemur að utan

Paul Krugman hagfræðiprófessor frá Bandaríkjunum,  lýsir enn einu sinni yfir aðdáun sinni á því hvað vel hafi tekist til á Íslandi frá hruni og stuðningsmenn Samfylkingarinnar mega ekki vatni halda og lýsa hver um annan þveran  ánægju sinni með Krugmann.

Athyglivert er í þessu sambandi að skoða að Paul Krugmann bendir sérstaklega á hvað það hafi verið gott fyrir Ísland að hafa krónuna og getað skert lífskjör almennings með því að lækka laun um allt að 70% miðað við fjölþjóðlega gjaldmiðla. 

Óneitanlega er það sérstakt að flokksspírur Samfylkingarinnar skuli hver um aðra þvera ásamt nokkrum verkalýðssinnum lýsa yfir ánægju með þessa gríðarlegu tekjuskerðingu launþega og mikilvægi þess að hafa íslensku krónuna.

Paul Krugmann kemur ekki inn á það að yfir 5.000 Íslendingar hafa flúið land frá hruni og skuldir heimila eru hæstar á Íslandi.

Paul Krugmann dáist að  því að fjármála- og ríkiskerfið á Íslandi skuli komast upp með að stela eignum fólksins með verðtryggingu og lækka laun að raungildi um allt að 70% til að bankar og ríki komist á þokkalegan kjöl. 

Er þetta virkilega það sem Samfylkingarfólk, verkalýðshreyfing og þeir sem kalla sig til vinstri í íslenskum stjórnmálum telja mikilvægast til heilla fólkinu í landinu og lýsa ánægju með?


Réttlætið í nefnd

Fólk mótmælir verðtrygginarráninu og lánaokrinu. Loksins hefur forsætisráðherra áttað sig á því að mótmælin við Alþingishúsið snúast um það.  Fyrir ári  þegar hún áttaði sig á því sama setti hún málið í nefnd. Niðurstaðan varð engin. Nú býður forsætisráðherra enn upp á nefndina.

Réttlæti felst ekki í því að setja óréttlætið ítrekað  í nefnd. Þess vegna var það rétt afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna að segja nei takk við boði um að taka þátt í friðþægingar nefndarstarfi forsætisráðherra.

Réttlætið felst í pólitískri stefnumörkun. Sú stefnumörkun snýst um að íslenskir neytendur fái sömu lánakjör og neytendur á hinum Norðurlöndunum. Sérkennilegt að þetta skuli vefjast fyrir Norrænu velferðarstjórninni.

Réttlætið fellst líka í því að ránsfeng innistæðulausrar höfuðstólshækkana verðtryggðu lánanna verði skilað til baka og höfuðstólarnir endurreiknaðir miðað við 1.10.2008.

Það er þetta sem þarf að gera hvorki meira né minna. Málið snýst um réttlæti og sanngirni.

Jóhanna Sigurðardóttir minnir mig á dönsku drottninguna sem bað ráðgjafa sinn um að fræða sig um sósíalisma og hann sagði henni að margt fólk væri óánægt með að hafa lítið að borða og fátækt. Þá sagði danska drottningin. "Hvílík vanþakklæti og við sem höfum gefið þeim Tívolí." 


Enn skilja Jóhanna og Steingrímur ekkert

Friðsöm mótmæli voru við Alþingishúsið þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Hvorki hún né meðreiðarsveinn hennar hann Steingrímur átta sig á hverju fólk er fyrst og fremst að mótmæla.

Þessi mótmæli voru sjálfsprottin að því leyti að enginn hópur eða samtök boðuðu til mótmælanna. Þeir einu sem mæltu með því að fólk mætti og mótmæltu hvöttu fólk til að mótmæla verðtryggingunni og okri á neytendur.  Um það snérust mótmælin. Að sjálfsögðu skildu Jóhanna og Steingrímur það ekki. Af því er ljóst að það þarf heldur betur að grípa til kröftugri aðgerða til að þau átti sig á því að fólk krefst réttlætis og sambærilegra kjara og fólk hefur í nágrannalöndunum einkum í lánamálum.

Næst þarf að efna til friðsamlegra mótmæla á skrifstofum ASÍ og Eflíngar til að mótmæla svikum verkalýðsrekendanna við umbjóðendur sína. Þar sitja skriffinnar sem berjast fyrir verðtryggingu og lánaokri.

En átti þau Jóhanna og Steingrímur sig ekki á kalli friðsamra mótmælenda þá þarf greinilega að gefa þeim sterkara meðal.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 408
  • Sl. sólarhring: 641
  • Sl. viku: 3438
  • Frá upphafi: 2606029

Annað

  • Innlit í dag: 391
  • Innlit sl. viku: 3235
  • Gestir í dag: 382
  • IP-tölur í dag: 373

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband