Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Samgöngur

Á skammri stund

Gamalt máltæki segir: "Á skammri stund skipast veður í lofti." Það sama á við um önnur náttúrufyrirbæri. 

Um kl. 22 í gær hófst eldgos á Reykjanesi nokkrum kílómetrum frá Grindavík. Enginn sérfræðingur í jarðvísindum spáði fyrir um gosið, sem sýnir vel að þrátt fyrir alla okkar þekkingu, mælitæki og aðra tækni, þá er náttúran söm við sig og duttlungar hennar eru  lítt fyrirsjáanlegir. 

Margir höfðu spáð fyrir um gos fyrir nokkru síðan, en það gos kom aldrei, en nú kemur það af miklu afli.

Á þessari stundu virðist, sem gosið muni ekki valda miklu tjóni og þá ekki í Grindavík, sem er mikið lán. 

Nú þarf að gæta allra varúðarráðstafana sem fyrr,en gæta þess að fara ekki offari. Jarðvísindamenn eiga auðveldara með að átta sig á aðstæðum og líkum á því hvað muni gerast eftir að gos er hafið. Vonandi hefur Ármann Höskuldsson einn fremsti sérfræðingur okkar í þessum málum rétt fyrir sér, þegar hann segir að líkur séu á því að draga muni hratt úr krafti gossins. 

Okkar kynslóð hefur verið blessunarlega laus við gos, sem hafa valdið miklu tjóni ef frá er talið gosið í Vestmannaeyjum. En þá tók þjóðin á, með samstilltu átaki og leysti þau mál sem þurfti að leysa. Vonandi gengur eins vel nú, að leysa þau mál sem þarf að leysa fyrir Grindvíkinga í þeirri von, að þeir geti snúið aftur í sinn heimabæ sem fyrst. 

Þegar útlitið var sem dekkst í Vestmannaeyjagosinu sagði þáverandi forsætisráðherra Ólafur Jóhannesson. "Vestmannaeyjar munu rísa". Mörgum þótti það ansi djarflega mælt á þeirri stundu, en það gekk eftir. Nú skulum við taka höndum saman um að láta það raungerast, að Grindavík muni rísa á ný sem fyrst með blómlegu mannlífi og atvinnulífi.


Viðbúnaður og undirbúningur

Jörð skelfur sem aldrei fyrr á Reykjanesi. Við sem fylgjumst með úr fjarlægð vorkennum þeim sem búa í nágrenninu sérstaklega Grindvíkingum, sem þurfa að þola margar svefnlausar nætur auk ýmiss annars og veltum fyrir okkur hvað við getum gert.  

Vonandi linnir skjálftum og vonandi komumst við hjá því í lengstu lög að það gjósi nálægt byggð á Reykjanesi. Gos nálægt byggð er ein alvarlegasta náttúruvá, sem um ræðir. 

Við þessar aðstæður ber öllum að undirbúa sig sem best. Huga verður að möguleikum á brottflutningi fólks með skömmum fyrirvara og koma upp hjálparstöðvum og bráðabirgðahúsnæði. 

Ekki verður komist hjá að skoða gerð nýs flugvallar fyrir innan- og millilandaflug annarsstaðar en á Reykjanesskaga. Þá kemur helst í huga Melasveit í Borgarfirði eða nágrenni Selfoss. Þó svo ekkert verði gert eða þurfi að gera, þá er gott að hafa valmöguleikann og láta vinna nauðsynlega hönnunarvinnu. 

Ísland er illa sett ef gos leiðir til þess að fjöldi fólks þarf að yfirgefa heimili sín og Keflavíkurflugvöllur lokast. Það er því miður raunhæfur möguleiki. Við verðum að búa okkur undir það og verðum að setja peninga í slíkan undirbúning en hætta að mala með stofukommúnistunum um mögulega hlýnun af mannavöldum.

Dekurverkefnum verður að ýta til hliðar þegar alvaran bankar á dyrnar. 


Að sjálfsögðu viljum við hærri loftslagsskatta

Merkilegt viðtal við utanríkisráðherra í kvöldfréttum. Hún lýsti yfir, að hún væri sammála auknum álögum Evrópusambandsins (ES) á kaupskipaflotann. Skattféð sem út úr þessu kemur rennur til ES og það finnst ráðherranum allt í lagi þar sem mörlandinn við heimsskautsbaug geti þá ornað sér við þá tilhugsun, að verða ekki stiknunarhitun að bráð svo vísað sé til orða kommúnistans Guterres framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Auk þess telur ráðherrann að þessi skattlagning á siglingar að og frá landinu réttlætis af því að nú greiði þessir aðilar enga loftslagsskatta. Semsagt að greiði fyrirtæki eða atvinnutæki ekki skatta,beri stjórnvöldum að skattleggja það. Raunar er þetta forspá Ronald Reagan sen talaði um skattlagningaráráttu vinstri sinnaðra ríkisstjórna: If it moves, tax it. If it keeps moving, regulate it. And if it stops moving, subsidize it.” (ef það hreyfist skattlegðu það/Ef það heldur áfram að hreyfast settu reglur um það/ Ef það hættir að hreyfast styrktu það:

Það gleymist oft hverjir greiða í raun skatta eins og þessa sem lögð eru á fyrirtæki. Það gera neytendur. Í því tilviki þar sem utanríkisráðherra telur réttlætanlegt að skattleggja skipaflotann, þá munu neytendur á endanum greiða þessa skatta í hærra vöruverði. Finnst ráðherranum það réttlætanlegt og eðlilegt og hvernig rímar það við meinta baráttu ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni?


"Snillingurinn"

Borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B.Eggertsson hefur sýnt af sér meiri snilli við að halda völlum en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður sennilega fyrr og síðar. 

Völd hans í Borginni byggjast m.a.að hilla til sín villuráfandi Framsóknarmann, taka skemmtikraftinn sem fékk á sínum tíma fylgi í borgarstjórnarkosningum, í fangið og gera hann að borgarstjóra, þó að Dagur stýrði  öllu og réði öllu. Nema e.t.v. litnum á kjól skemmtikraftsins í gleðigöngum þess tíma.

Þrátt fyrir stöðugt minnkandi fylgi við Dag í kosningum, þar sem flokkur hans hefur beðið hvert afhroðið á fætur öðru, þá hefur Degi alltaf tekist að koma skríðandi úr brunarústum Samfylkingar og fá til liðs við sig nýja flokka til að halda völdum. 

Slíkur línudans og pólitísk ástaratlot sem borgarstjóri hefur sýnt þeim sem hann þarf að eiga vingott við til að halda völdum hefur að sjálfsögðu kostað sitt en þann kostnað greiða borgarbúar en ekki Dagur sbr. aukin launakostnað borgarstjórnar síðast til að ná Vinstri grænum um borð. 

Þó Dagur hafi sýnt af sér mandaríska snilld við að halda völdum, hefur snilldin ekki verið sú sama við að stjórna borginni. Fjárhagsleg staða Borgarinnar er hræðileg, viðhald gatna er fyrir neðan allar hellur, hreinsun gatna og gangstíga er óviðunandi. Reykjavík  Dags B. Eggertssonar er borg þar sem svifryksmengun er iðulega yfir hættumörkum og veldur dauðsföllum í borg sem telur rétt rúm 100 þúsund íbúa. 

Vegna pólitískrar bábilju og tískustrauma reynt að ráða því með hvaða hætti fólk fer á milli staða. Stefna Dagsmeirihlutans í samgöngumálum og fleiri málum byggir á alræðishugmyndum og fyrirlitningu á venjulegu vinnandi fólki og getu þess til að taka eigin ákvarðanir.

Getur virkilega einhver nema innvígður og innmúaður Pírati, VG. Viðreisn eða Samfylkging greitt þeim flokkum atkvæði sem stóðu að braggaruglinu í Nauthólsvík. Þar kom í ljós algjör  óstjórn, spilling og ill meðferð á almannafé. Það er þó bara toppurinn á  stóra borgarísjaka spillingarinnar. 

"Snillingur" eins  og Dagur getur ekki haldið pólitískum loftfimleikum sínum áfram nema aðrir séu tilbúnir til að taka þátt í loddaraleiknum með honum. Á það geta Reykvíkingar ekki látið reyna enn einu sinni. Meirihlutaflokkana í borgarstjórn er því ekki hægt að kjósa.

Atkvæði greitt Samfylkingu, VG, Pírötum og Viðreisn í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík er atkvæði greitt með áframhaldandi spillingu, áframhaldandi fjármálalegri óstjórn, áframhaldandi afskiptum af því hvernig borgararnir ferðast og áframhaldandi loftmengun auk ýmiss annars. 

Dönsku stráin við braggan í Nauthólsvíkinni þó ekki væru annað ættu að vera nóg til að kjósendur höfnuðu algerlega Samfylkingu, VG,Pírötum og að ógleymdri nýjustu hækjunni Viðreisn.


Tími til að komast út úr döprum örlögum

Í bandarískri kvikmynd(The Groundhog day) segir frá manni, sem festist í sama deginum og endurlifir hann aftur og aftur.  Sjónvarpsmaðurinn reyndi allt til að komast út  úr þessum döpru örlögum að alltaf væri sami Dagurinn. Sömu döpru örlogin endurlifa Reykjavíkingar. Dagur B. Eggertsson, stjórnar Reykjavíkurborg jafnvel þó að kjósendur hafni honum ítrekað.  

Dagur varð fyrst borgarstjóri árið 2007. Síðan kom Jón Gnarr árið 2010, en Dagur var samt raunverulegur stjórnandi.

Jón Gnarr er flottur leikari. Meðan hann var borgarstjóri kom það vel í ljós. Á degi blindra fór hann um með hvíta stafinn blindastur allra, á degi fatlaðra fór Jón um á hjólastól fjölfatlaðastur allra og á hinsegin dögum var Jón Gnarr dragdrottning par exellance. Á meðan stjórnaði. Dagur B. á meðan dragdrottningin sveiflaði síðpilsinu í göngu hinsegin fólks. 

Frá 2014 hefur Dagur verið borgarstjóri og það hefur hallað undan fæti hjá borginni. Skuldasöfnun, spilling, umferðaröngþveiti og skortur á að hreinsun gatna og viðhald sé með þeim hætti sem nauðsynlegt er. 

Er fólk búið að gleyma Bragganum fræga í Nauthólsvíkinni og dönsku stráunum. Allt einstök spilling sem gerði það að verkum, að Dagur tilkynnti sig veikan og lét aðra um að svara fyrir óhroðann. Þó það dæmi væri svæsið þá var það aðeins eitt af mörgum, þar sem aðhalds og sparnaðar er ekki gætt enda verður fjárhagur Reykjavíkurborgar stöðugt verri undir stjórn Dags. 

Það er að vissu leyti snilld að geta stöðugt fengið nýja flokka sem hækjur til að styðjast við og geta verið áfram borgarstjóri. Dagur B. hefur verið snillingur í því, þvert á vilja borgarbúa.

Í lok  áðurnefndrar kvikmyndar, tókst manninum hann loks,að gera það besta út úr deginum. Í raunveruleikanum hafa menn fullreynt þennan Dag, sem er ekki að taka framförum nema síður sé og er vonandi að kvöldi kominn. 

Það er hægt að gera miklu betur en Dagur B Eggertsson og meðreiðarfólk hans. Það þarf framsækið fólk, sem vill stjórna með hagsmuni allra borgarbúa að leiðarljósi. Þess er að vænta að það komi fram og geri sig gildandi í kosningunum í vor. 

 

 


Andlitsgrímur.

Austurríki skyldar fólk til að vera með andlitsgrímur í stórmörkuðum og í þýsku borginni Jena er skylt að vera með andlitsgrímur í búðum flugvélum, lestum og strætisvögnum. Tékkar, Slóvakar og Bosnia Herzegovinia ganga enn lengra og skylda fólk til að nota andlitsgrímur á almannafæri. 

Skv nýrri rannsókn sem Daily Telegraph vitnar til í dag kemur fram að noti fólk sem er sýkt af C-19 eða álíka veirum andlitsgrímu, þá dregur það verulega úr fjölda sýkinga sem berast út í andrúmsloftið.

Á sama tíma bendir þýskur sérfræðingur í veirufræðum prófessor Hendrik Streeck á, að það sé í lagi að fara á hárgreiðslustofu eða til rakara, Covid 19 smit berist ekki eins auðveldlega og fólk haldi.

Prófessor Streeck bendir á, eftir rannsókn á heimili sýktrar fjölskyldu hafi ekki verið hægt að finna lifandi C-19 veiru á neinu yfirborði m.a. símum og hurðarhúnum. Þá bendir hann á, að fyrsti C-19 smitaði Þjóðverjinn hafi smitað þá sem voru að borða með henni, en ekki aðra gesti í matsalnum eða á hótelinu. 

Hann segir að C-19 hafi dreifst á fótboltaleikjum,kúbbum og börum og ennfremur "Við vitum að það er ekki um snertismitun að ræða þegar fólk snertir hluti, heldur smitast fólk vegna nándar hvort við annað eins og t.d. á dansgólfinu, fótboltaleikju, skíðabrekkum og við hátíðarhöld.

Þetta tvennt er athyglisvert og hafi Streeck rétt fyrir sér eins og rannsóknir hans sýna, þá hefur spritt- og hanskanotkun sáralitla jafnvel enga þýðingu til að draga úr smiti, þó hvorutveggja stuðli að almennu hreinlæti.

Það er hinsvegar nánd fólks sem skiptir máli við útbreiðslu C-19. Tveggja metra fjarlægðin er því skynsamleg og til þess fallin að koma í veg fyrir smit. En þá skiptir máli líka, að fólk noti andlitsgrímur úti við til að forðast að dreifa smiti. 

Væri ekki eðlilegt að Veirutríóið tæki það til alvarlegrar skoðunar miðað við það sem komið hefur í ljós, að skylda fólk eða alla vega mæla með að fólk væri með andlitsgrímur í stórmörkuðum, almenningsfarartækju og við  ýmis önnur tækifæri.

Þó ég viðurkenni, að ákveðin hjarðhegðun sé nauðsynleg við aðstæður eins og þessar sbr. "ég hlýði Víði," þá er nauðsynlegt í lýðræðisríki að ræða hlutina og komast jafnan að bestu niðurstöðunni miðað við þekkingu okkar hverju sinni. Því enn gildir það, að mennirnir eru ekki Guðir og enginn er óskeikull.  

  


Forustulaus Evrópa

Þegar forseti Evrópusambandsins (E) Ursula Geirþrúður von der Leyen birtist á sjónvarpsskjánum á mánudaginn,  til að fjalla um aðgerðir Evrópusambandsins vegna Coveit 19 (C) faraldursins, sáu áhorfendur valdalausan stjórnmálamann,sem var að reyna að láta líta svo út, sem Brussel valdið hefði einhverja þýðingu í baráttunni gegn C. Úrsúla talaði fyrir ferðabanni,sem var þá þegar orðin staðreynd.

Enn sem oftar bregst Evrópusambandið algjörlega. Samstaða Evrópusambandsríkja þegar bjátar á, hefur alltaf verið meira í orði en á borði. Aðgerðarleysi E hefur leitt til þess að hvert aðildarríkið af öðru hefur brotið sáttmála E í mörgum grundvallaratriðum hvað varðar hið margrómaða fjórfrelsi. E hefur ekki burði til að standa vörð um hagsmuni bandalagsríkja sinna þegar utanaðkomandi vandi steðjar að. 

Ítalía var fyrsta landið í Evrópu sem þurfti að fást við fjöldasmit. Á þeim tíma hefði verið rétt fyrir Brusselvaldið að bregðast við, og hlutast til um að öll bandalagsríkin kæmu Ítalíu til aðstoðar. En Brusselvaldið gerði ekki neitt. Ítalir báðu bandalagsþjóðir sínar um liðsinni m.a. að fá andlitsgrímur og öndunarvélar. En Evrópusambandsríkin gerðu ekki neitt. Meira en það. Þýskaland bannaði á tímabili útflutning á andlitsgrímum til Ítalíu. Fjórfrelsisákvæði Evrópusambandsins risti þá ekki djúpt hjá Angelu Merkel og félögum. Með þessu sýndu Þjóðverjar að ákvæðin um frjálsa verslun milli landa skipti þá ekki máli þegar hagsmunir Þýskalands eru annarsvegar. Engar athugasemdir hafa borist frá Bussel vegna þessa.

Það kom síðan í hlut Kínverja að útvega Ítölum lækningatæki þegar bandalagsþjóðir þeirra í Evrópusambandinu brugðust þeim.

Hvert þjóðríkið í Evrópu á fætur öðru hafa gripið til ráðstafana án samráðs við önnur ríki Evrópu. Frakkar og Þjóðverjar hyrningarsteinar þjóðríkja E hafa tekið ákvarðanir um að takmarka útflutning á lækningavörum, sem er brot á ákvæðum E um frjáls viðskipti milli ríkja E. Þjóðlöndin eitt af öðru hafa lokað landamærum sínum t.d. Austurríki og Tékkland, sem er brot á ákvæðum um frjálsa för. 

Ef til vill ætti þessi vanhæfni stjórnenda E og ríkja Evrópu ekki að koma á óvart. Sama gerðist þegar leysa þurfti skuldavanda Grikkja og síðar Ítala. Í stað þess að leysa vandann voru bæði ríkin sett í skuldafangelsi. 

Vanhæfni Evrópusambandsins til að móta stefnu í málefnum svonefndra flóttamanna er dæmi um, að þjóðríkin taka eigin ákvarðanir en E mótar enga stefnu. Angela Merkel gerði mikil mistök árið 2015 þvert á reglur Schengen sáttmálans. Eftir þau mistök reyndi Merkel með aðstoð Brussel valdsins að kúga önnur ríki E til að samþykkja að taka við ákveðnum hluta af hennar eigin mistökum án árangurs. Þegar það gekk ekki stóð Merkel fyrir því ásamt Brusselvaldinu að múta Tyrkjum til að meina meintu flóttafólki för frá Tyrklandi gegn því að Tyrkir fengju greiddar sex þúsund milljónir Evra árlega. En Grikkir og Ítalir eru látnir einir um að fást við vanda vegna stöðugs straums meintra flóttmanna til Lesbos og Lampedusa. Engin stefna er mörkuð af E og vinstri sósíalistinn Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóanna þrýstir á um, að Evrópa leysi vanda alheimsins í þessum málum sem og meintum vanda í loftslagsmálum.

Forustuleysi yfirstjórnar Evrópusambandsins og flókið regluverk bandalagsins kallar á að breytingar verði gerðar ef bandalagið á að vera marktækt í framtíðinni.  

Þessar staðreyndir ættu þó að færa íslenskum ráðamönnum heim sanninn um það, að fjórfrelsið margrómaða er ekki merkilegra en svo þegar kemur að mikilvægum hagsmunum stærstu þjóðríkja E, að þeim finnst sjálfsagt að brjóta gegn því. Af hverju ættum við í EES samstarfinu ekki að hafa sömu viðmið þegar kemur að mikilvægustu hagsmunum íslensku þjóðarinnar og segja þegar kemur að vitlausum orkupökkum sem öðru, það sama og einn framsýnasti forustumaður í íslenskri pólitík sagði forðum.

"Heyra má ég erkibiskups dóm, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."


WOW og lánastarfsemi Isavia. Hver vissi hvað?

Fyrir nokkru flaug vélin, sem Isavia ohf hafði tekið sem tryggingu fyrir skuldum WOW af landi brott. Isavia hefur því enga tryggingu lengur fyrir milljarða óheimilum lánveitingum.

Af þessu tilefni vakna nokkrar spurningar.

Í fyrsta lagi hver tók ákvörðun um stórfelldar óheimilar lánveitingar Isavia til WOW air? 

Í öðru lagi vissu ráðherrar fjármála og samgöngumála af þessum óheimilu lánveitingum og voru þeir með í ráðum varðandi málið?

Í þriðja lagi, hver tók ákvörðun um þann fáránleika sem tryggingartaka í flugvél þriðja aðila ALC fyrir skuldum WOW var? 

Vert er að benda á að hlutverk Isavia er ekki lánastarfsemi og þessvegna er brýnt að fá allar upplýsingar um það hverjir komu að þessu máli og hvort ráðherrar í ríkisstjórninni voru hafðir með í ráðum um þetta löglausa atferli stjórnenda Isavia?

Iðulega hefur verið minna tilefni til að Umboðsmaður Alþingis hæfi frumkvæðisrannsókn. Hvað gerir hann nú?


Huglæg þráhyggja og forræðishyggja

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur verið haldinn þeirri huglægu þráhyggju, að Borgarlínan svokallaða mun leysa allan vanda í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins. Nú hefur Dagur eignast samherja í þessari þráhyggju, en það er Helga Vala Helgadóttir alþingiskona.

Í grein sem Helga Vala skrifar í Morgunblaðið þ.21.september s.l. fjallar hún um stórátak ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og segir að stinga megi "þessu stórátaki í loftslagsmálum strax ofan í skúffu og stimplað, falleg orð á blaði, en lítið í verki" Ég vona að hún hafi rétt fyrri sér.

Ástæða þess að Helga Vala kemst að þessari niðurstöðu varðandi stórátakið í loftslagsmálunum er sú, að ríkisstjórnin hugsar ekki um það mikilvæga skref að fækka einkabílum á götum borgarinnar. Eins og Dagur hefur hamast við að reyna að gera með litlum árangri.

Þau Dagur og Helga Vala eiga það sameiginlegt að vilja hafa vit fyrir fólki og segja því hvernig það á að hegða sér og ganga iðulega langt í forræðishyggjunni. Að þeirra mati er vont að fólk skuli aka um á einkabílum. 

Nú er það svo að furðufyrirbrigði ríkisstjórnarinnar um stórátak í loftslagsmálum tekur forræðishyggju Helgu Völu og Dags fram að nokkru leyti. Skv. áætluninni á að banna fólki að kaupa og nota bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti. En það er ekki nóg að mati Helgu Völu enn frekari tálmanir skulu lagðir í götu einkabílsins og þá er það Borgarlínan sem leysir allan vanda. 

Í bið eftir Borgarlínunni mega síðan íbúar höfuðborgarsvæðisins norpa í kulda og norðangarra af því að það er gott að ferðast með þessum nýmóðins strætó og þetta forræðishyggjufólk nú í öllum flokkum telur að Borgararnir séu þess ekki umkomnir að velja sjálfir með hvaða hætti þeir telja hentugast að komast milli staða. 

En jafnvel þetta er ekki nóg fyrir Helgu Völu lengra skal haldið. Spurningin er hvort hún skrifar næst pistil um að allir skuli neyddir til að borða skv. matseðli frá Lýðheilsustöð ríkisins.


Rafmagnsbílaaðallinn.

Rafmagnsbíllinn minn er orðinn eins árs og þetta ár hef ég ekki notað jarðefnaeldsneyti ekki einu sinni á sláttuvélina sem líka er rafmagnsdrifin. Samneyti mitt við bíl og sláttuvél hafa verið með ágætum þrátt fyrir að þau séu ekki knúin jarðefnaeldsneyti. 

Eitt fer þó í taugarnar á mér í þessu sambandi. Ríkisvaldið mismunar mér á kostnað annarra borgara, sem nota bensín eða olíur til að knýja farartæki sín eða annað áfram. 

Ríkið leggur gríðarlega skatta á bensín og olíur, en okkur rafbílaeigendum stendur til boða ókeypis rafmagn úr hraðhleðslustöðvum þar sem þær eru. Auk þess borgum við lægri aðflutningsgjöld og bifreiðagjöld. Er eitthvað réttlæti í því?

Það er alltaf hættulegt þegar ríkisvaldið fer að beita ávirkum aðgerðum til að breyta neysluvenjum fólks. Stutt er síðan fólk fékk umbun fyrir að kaupa díselbíla. Nokkru síðar kom í ljós að díselinn er mun verri en bensínið. 

Við rafbílaeigendur eigum að borga okkar hlut til veghalds og aðrir bíleigendur með hvaða hætti svo sem það kann að vera innheimt. Þá er glórulaust að hafa rafmagnið úr hraðhleðslustöðvunum ókeypis. Eðlilegt væri að fólk borgaði ákveðna upphæð t.d. fyrir tengingu og síðan mínútugjald. Það gjald mætti síðan nota til að byggja upp hraðhleðslustöðvakerfi hringinn í kring um landi með um 50 km. millibili. 

Hvernig væri t.d. að tengigjald við hraðhleðslustöð væri kr. 500 og síðan greiddu menn ekkert fyrir fyrstu 10 mínúturnar en þá kr. 50 á mínútuna næstu 10 mínutur og kr. 250 næstu 10 mínútur. Það væri alla vega sanngjarnt og gæti stuðlað að því að fólk væri ekki að hanga lengur í hraðhleðslustöð en brýna nauðsyn bæri til.   

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 21
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 4237
  • Frá upphafi: 2449935

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 3948
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband