Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Háskólar vísindi og tjáningarfrelsi

Háskólar eiga að vera vagga vísinda, rökræðna og tjáningarfrelsis. Viðhorf þeirra sem vinna við háskóla víða á Vesturlöndum, kennara og nemenda er hins vegar allt annað.

Háskóli í Cardiff á Englandi hefur birt leiðbeiningar um óæaskileg orð til þess að meiða ekki fólk vegna kynferðis þess. Skv. því er "gentlemans agreement" bannað. 

Í háskóla í Cambridge amast stúdentar við því að fá Jamaican stew og Tunisian rice og segja að það vísi ekki til réttra menningarlegra sjónarmiða. Í öðrum háskóla í Cambridge var ævisaga Winston Churchill rituð af David Irving fjarlægð á bókasafni skólans vegna skoðana sagnfræðingsins.

Tímaritið Spike sagði í síðasta mánuði að 90% breskra háskóla tækju þátt í að takmarka tjáningarfrelsið m.a. hefðu 21 háskóli bannað ákveðnum úrvals álitsgjöfum að tala eingöngu vegna skoðana þeirra. Ákveðnar skoðanir og sjónarmið eru bönnuð eins og á tímum rannsóknarréttarins.

Átta af hverjum tíu fyrirlesurum í háskólum í Bretlandi er vinstra fólk, sem leiðir til hættu á hóphegðun. Adam Smith stofnunin segir að þetta hafi leitt til þess að ekki sé lengur tekist á um ólíka skoðanir og ætlanir og ályktanir um lykilmál séu ákvörðuð á grundvelli hóphegðunar um hinn eina rétta sannleika. Í því skyni að koma fram hinni einu réttu skoðun hélt prófessor í Sussex seminar um það með hvaða hætti ætti að fara fram gagnvart hægri sjónarmiðum og kæfa þau í fæðingu.

Þessu furðufyrirbæri sem margir háskólar eru að verða vegna rétttrúnaðar í stað vísindalegra vinnubragða, leiða til óskapnaðar þar sem ástæða er til fyrir stjórnmálamenn að gaumgæfa hvort peningum skattgreiðenda sé ekki betur varið til annars vísindastarfs en skoðanakúgaðra háskóla.

Háskólaspeki nýaldar hefur fundið það út að fólk sé í raun þess kyns sem það telur sig vera hverju sinni. Þegar svo er komið þá er ekki furðulegt að þolinmæði fyrir hlutlægum umræðum og vísindastarfi bíði hnekki og tímar allsherjarríkisins í anda fasismans,  sem Mussolini fasistaforingi talaði um renni upp fyrir tilstilli vinstri háskólaspekinnar.


Roe v. Wade

Sá dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem hefur valdið mestum deilum og umtali er dómurinn í máli Roe v. Wade. Dómurinn hafði þau áhrif að fóstureyðingar urðu löglegar í Bandaríkjunum.

Óháð skoðunum á fóstureyðingum þá er dómurinn lögfræðilega vafasamur auk þess sem að dómstóllinn tók sér vald til lagasetningar í miklu deilumáli, sem hefur valdið því að málið er ekki enn afgreitt eða útrætt í Bandaríkjunum, ólíkt því sem er víðast í Evrópu m.a. hér á landi.

Konan Jane Roe,sem fékk rétt til að láta framkvæma fóstureyðingu  þrem árum eftir fæðingu dóttir sinnar, hét ekki Jane Roe. Hún hét Norma Leah Nelson og síðar Norma McCovey og er nýlátin 69 ára að aldri.

Norma McCovey(Jane Roe) átti langa sögu um misnotkun, áfengis-og vímuefna. Hún hafði átt tvær dætur sem hún lét frá sér áður en hún varð ófrísk í þriðja sinn og gat ekki hugsað sér að eiga fleiri börn. Fóstureyðingar voru ólöglegar í Texas, en  Norma bjó í Dallas.

Lögmennirnir Sarah Weddington og Linda Coffee, sem leituðu að umbjóðanda til að fara í mál við Texas fylki vegna fóstureyðingabannsins fundu hana og tóku mál hennar að sér árið 1970 og stefndu Henry Wade lögmanni Dallas í nafni Jane Roe, tökunafn Normu og þess vegna er heiti málsins  Roe v. Wade.

Þegar dómur Hæstaréttar féll árið 1973 var barn Normu orðið 3 ára og hún hafði ættleitt það eins og fyrri börn sín tvö. Norma öðru nafni Jane Roe kom aldrei fyrir dóm.

Jane þ.e. Norma varð hetja þeirra "frjálslyndu", sem börðust fyrir frjálsum fóstureyðingum, en nokkru eftir að dómur Hæstaréttar féll, snéri Norma við blaðinu. Hún gaf út ritið "Won by Love" árið 1998 þar sem hún segir, að fóstureyðingar snúist um það að drepa börn í líkama móður.

Árið 2009 var hún handtekin ásamt 26 öðrum í háskólanum í Notre Dame í Indiana, þar sem hún mótmælti því að Obama kæmi í Háskólann.( Fréttastofa RÚV sagði aldrei frá mótmælum gegn Obama ólíkt því sem gerist með Trump)

Þannig geta hlutirnir snúist og hin svonefnda baráttukona fyrir frjálsum fóstureyðingum Jane Roe þ.e. Norma McCovey varð hatrammur andstæðingur fóstureyðinga og gekkst aldrei sjálf undir fóstureyðingu. Ekki er vitað til þess að hinn aðili dómsmálsins Henry Wade hafi haft ákveðnar skoðanir á efnisatriðum málsins.

Roe v. Wade umtalaðasta dómsmál Hæstaréttar Bandaríkjanna var mál þar sem aðilar málsins áttu enga hagsmuni og Roe varð síðar hatrammur andstæðingur eigin málsstaðar.

 


Sakleysisvottorð

Í réttarríkjum telst hver maður saklaus þangað til sekt hans er sönnuð.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að snúa þessu mannréttindaákvæði á haus og skylda alla, sem reka fyrirtæki þar sem 25 eða fleiri vinna, að sanna árlega að þeir brjóti ekki lög. Takist þeim það fá þeir heiðarleikavottorð.

Þegar stjórnvöld krefjast þess að ákveðnir borgarar verði að sanna sakleysi sitt og sýna fram á að þeir fari að lögum, þá er stigið hættulegt skref frá reglum réttarríkisins. Næst mætti ákveða að allir verði árlega sanna sakleysi sitt og gangast undir heiðarleikapróf og fá vottorð upp á það á eigin kostnað.

Skriffinnskan og báknið vex á kostnað þeirra sem þurfa að gangast undir heiðarleikaprófið.

Í lögum nr. 10 frá 2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru ákvæði að viðlagðri ábyrgð að lögum um að ekki megi mismuna fólki á grundvelli kynferðis. Skv. 19.gr. sbr. og 25.gr. laganna er skylt að greiða konum og körlum jöfn laun og öll mismunun bönnuð. Sérstök Jafnréttisstofa starfar,sem getur kallað eftir upplýsingum frá fyrirtækjum um að þau fari að lögum. Hægt er að vísa málum til kærunefndar jafnréttismála og starfandi eru skv. lögunum sérstakir jafnréttisfulltrúar og jafnréttisráðgjafar o.s.frv. o.s.frv. 

Þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu að greiða fólki sömu laun óháð kynferði og víðtæk lagaákvæði til að tryggja að svo sé gert m.a. víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar þá er það ekki nóg að mati ríkisstjórnarinnar. Hver maður skal sanna á eigin kostnað að hann brjóti ekki gegn lögunum.

Hvað sem líður göfugum markmiðum um jafna stöðu karla og kvenna sem og öðrum göfugum markmiðum þá má aldrei ganga of langt og skerða réttindi borgaranna og ætla þeim það að þeir séu að brjóta lög nema þeir geti sýnt fram á hið gagnstæða.

Þess vegna geta þeir þingmenn,  sem vilja einstaklingsfrelsi og vilja virða þá grunnreglu mannréttinda að hver maður skuli talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð ekki greitt þessum óskapnaði atkvæði sitt.

 

 


Hjónavígslur á forsendum ríkisins

Aftur og aftur opinbera þingmenn Vinstri grænna og Pírata andúð sína á kristni og kirkju. Engu skiptir þó að biskupinn reyni að friðþægja þeim með sömu hugsun og maðurinn sem henti kótelettum í tígrísdýrið í þeirri trú að það mundi leiða til þess að það gerði tígrísdýrið að grænmetisætu.

VG og Píratar hafa lagt fram á Alþingi tillögu um að einungis opinberir starfsmenn geti framkvæmt hjónavígslu svo gilt sé og telja rétt að afnema þau persónubundnu réttindi sem borgarar landsins hafa í dag til að velja. Ekki í fyrsta skiptið sem Sovétið sýnir sitt rétta andlit hjá forustufólki VG og Pírata.

Í nokkurn tíma hafa Vinstri grænir, Píratar o.fl. barist fyrir rétti samkynhneigðra til að fá kirkulega hjónavígslu og nú þegar það hefur tekist þá finnst þessum sömu aðilum rétt að svipta kirkjuna þeim rétti að framkvæma hjónavígslu svo máli skipti.

Nú er það svo að hjónavígsla hefur trúarlega skírskotun hjá mörgum, það voru m.a. rökin fyrir að samkynhneigðir fengju vígslu í kirkjum. En nú snúa VG og Píratar þessu á haus og segja að þetta skipti bara engu máli. Alla vega ekki lengur.

Þingmenn VG og Pírata leggja til að einstaklingunum verði meinað að láta presta eða forstöðumenn trúfélaga sjá um hjónavígslur svo gilt sé. Sama kerfi og VG og Píratar leggja til var við lýði í löndum kommúnista og að hluta til hjá nasistum. Flott að samsama sig með þeim flokkum eða hvað?

Einstaklingsfrelsið skal afnumið en í stað þess komi ríkisræðið þar sem þú skalt hvort sem þér líkar betur eða verr hvort sem þú ert gagnkynhneigður eða samkynhneigður. Þú mátt ekki hafa valfrelsi því það er eitthvað sem þessu stjórnlynda fólki í VG og Pírötum finnst allt of mikið af í þjóðfélaginu.  


Nú þarf að mótmæla lýðnum.

Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar einkum hér á landi farið mikinn og bent okkur á hvílík skepna í mannsmynd hinn nýkjörni Bandaríkjaforseti er. Helst hafa þeir haft horn í síðu hans fyrir að setja tímabundið bann við komu fólks frá nokkrum ríkjum þar sem meirihlutinn eru Íslams trúar.

Stjórnmálamenn í Evrópu hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja og talið þessa afstöðu Trump vera kynþáttahyggju þ.e. rasisma og óásættanlega í alla staði. Þau Angela, Hollande og Tusk hafa farið mikinn og skírskotað til bandarísku þjóðarinnar að taka í taumana. Einhvern tímann hefði það verið talið jafngilda því að erlendir þjóðarleiðtogar væru að hvetja til byltingar í öðru ríki.

Alþingi íslendinga hefur ekki látið sitt eftir liggja og Píratar fóru mikinn og kyrjuðu sálminn sinn úr ræðustól á Alþingi og þar sem þeim verður jafnan orðafátt þegar kemur að alvöru málsins þá tóku þeir þau tvö orð sem þeim eru tömust sér í munn í síbylju - rasisti- fasisti og þannig var þulan látin ganga um manninn sem Píratar og ríkisstjórn Íslands telja að sé hin mesta ógn við hinar einu hreinu og leyfilegu skoðanir að þeirra mati þ.e. Kanahatur, menningarleg og siðræn uppgjöf og opin landamæri

En svo bregðast krosstré sem önnur tré eins og segir í máltakinu. Nú hefur skoðanakönnun í 10 Evrópuríkjum staðfest að skoðanir Trump hafa yfirburða stuðning meðal kjósenda. Þannig vilja 54% Evrópubúa setja algjört aðkomubann á múslima. Trump setti bara 90 daga bann. Í Póllandi heimaríki Tusk eru yfir 70% kjósenda sem vilja setja á svona bann.

Hvar standa Evrópuleiðtogar þá Gulli minn góður. Eiga þeir ekki að fara í stríð við eigin landsmenn og mótmæla þeim fyrir rasisma og fasisma. Þurfa þeir þá ekki að berjast sem aldrei fyr til að skipta um þjóð fyrst einhliða fréttaflutningur, fréttafalsanir og fréttabann dugar ekki til.

Hvað er til ráða og hvað má þá vera til varnar sóma þeirra sem fordæma og fordæma aðra og standa svo frammi fyrir því að þeir standa naktir í næðingnum af því að fólk er ekki jafn skyni skroppið og forréttindaaðallinn í vestrænum þjóðfélögum sem heldur að peningar vaxi á skinni skattgreiðenda.

Nú þarf Alþingi og utanríkisráðherra að gera hið fyrsta hróp að kjósendum í Evrópu fyrir fasisma og rasisma og mótmæla því að þeir skuli leyfa sér að hafa skoðanir sem þau eru ekki sammála.


Er það svo?

Í dag kom utanríkisráðherra lýðveldisins Íslands á framfæri mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar við stefnu Bandaríkjaforseta í innflytjendamálum. Af því tilefni tók utanríkisráðherra fram í nafni íslensku þjóðarinnar.

"Bandaríkin hafa ætíð og framar flestum öðrum tekið opnum örmum á móti innflytjendum."

Er það svo?

Eftir að Bandaríkin voru fullmótuð hefur það verið miklum takmörkunum háð að vera samþykktur af stjórnvöldum sem innflytjandi með full borgararéttindi. Þess vegna þurfti fólk t.d. að dveljast langdvölum á Ellis Island fyrir utan New York þangað til það gat sýnt fram á að það væri ekki haldið sjúkdómum og gæti séð fyrir sér sjálft. Bandaríkjamenn voru ekki að taka við ómegð eins og Evrópa þ.á.m. Ísland eru að gera í dag.

Á þessari öld hefur verið reynt að sporna við innflutningi fólks til Bandaríkjanna með ýmsu móti. M.a. hefur verið reist girðing og múr að hluta eftir landamærum Bandaríkjanna og Mexícó og á tíma Obama var þessi landamæravarsla aukin, en dugar ekki til og þess vegna segist Trump ætla að gera hana markvissa til að ætlunarverk Obama um að koma í veg fyrir innflytjendastraum frá Mexícó verði að veruleika.

Staðreyndin er sú að á þessari öld hafa Bandaríkin ekki framar flestum öðrum tekið opnum örmum á móti innflytjendum nema síður sé.

Annar hluti mótmæla utanríkisráðherra er við þeirri ákvörðun Bandaríkjaforseta, að veita ekki fé skattborgaranna til upplýsingagjafar um fóstureyðingar.  

Forsendur ríkisstjórnarinnar í nafni íslensku þjóðarinnar eru:  

"Aðgengi að öruggum fóstureyðingum er mikilvægt mannréttinda- og heilbrigðismál".

Er það svo?

Hvar stendur það í íslensku stjórnarskránni að aðgengi að öruggum fóstureyðingum sé mannréttindamál. Er það að finna í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða Mannréttindasáttmála Evrópu eða Mannréttindalögum Íslands?

Það er eitt að hafa ákveðnar skoðanir. Annað að færa fram sanngirnisrök fyrir þeim. Síðan er spurning hvort þjóðríki  er að abbast upp á önnur ríki og stjórnvöld með þessar skoðanir.

En er það virkilega svo að íslenska ríkisstjórnin telji ástæðu til að hlutast til um það að öruggar fóstureyðingar verði leyfðar og styrktar af fé skattgreiðenda í öllum löndum heims?

Utanríkisráðherra má þá hafa sig allan við að senda mótmæli til þeirra 48 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna þar sem fóstureyðingar eru bannaðar. Í því sambandi er þá líka spurning af hverju beindi íslenska ríkisstjórin ekki mótmælum til þessara 48 ríkja í stað þess að vandræðast við Bandaríkjamenn út af mun minna tilefni?


Að byggja sitt eigið fangelsi.

Vilhjálmur Tell frelsishetja Svisslendinga, sem barðist við ofurefli einræðisafla. Sá sem sagan segir að hafi með lásboga skotið epli á höfði sonar síns, er sagður hafa sagt þegar hann var látinn vinna við byggingu fangelsis einræðisaflanna, að það væri hart að þurfa að byggja sitt eigið fangelsi.

Þessi saga kom mér í hug þegar ég hef ítrekað orðið vitni af skefjalausum áróðri fréttastofu RÚV, þöggun og rangfærslum.

Í hverjum einasta fréttatíma RÚV í gær frá kl. 7 að morgni til kl. 12 að kvöldi sem og í morgunfréttum í dag var hamrað á því að heimasíðu forseta Bandaríkjanna hefði verið breytt og nú væri ekki minnst á réttindi samkynhneigðra og vá vegna loftslagsbreytinga. Hins vegar var í engu getið hvaða áherslur hefðu komið í staðinn.

Þögn RÚV um áherslur Bandaríkjaforseta varð meira og meira æpandi eftir því sem sama fréttin um þær vondu breytingar á heimasíðu Trump skv. skilningi fréttastofu RÚV voru ítrekaðar oftar.

Þess var t.d. ekki getið í fréttum RÚV að eitt af fyrstu verkum Trump var að færa styttu af Winston Churchill aftur á viðhafnarstað í Hvíta húsinu. Obama hafði látið fjarlægja hana.

Frétastofa RÚV hefur ekki minnst á að helstu áhersluatriði Trump sem sett voru á nefnda heimasíðu forstetans heldur bara það sem er þar ekki en áhersluatriðin sem sett voru inn eru:

Að berjast við ISIL og sigra þau hermdarverkasamtök

Að skapa 25 milljón ný störf

Að minnka skattbyrði allra borgara

Að auka orkuframleiðslu Bandaríkjanna

Að endursemja um NAFTA

Að styrkja herinn (rebuild the military)

Að koma á öðru heilbrigðiskerfi en svonefndu Obamacare.

Vissulega má gagnrýna margt af þessu, en það er þó heiðarleg og hlutlæg fréttamennska að segja rétt frá og málefnalega um þá stefnu í stað þess að vera með einhliða neikvæðan áróður.

Áhersla Trump á rétt hins vinnandi fólks og nauðsynlegar takmarkanir á frelsi fjármagnsins til að eyðileggja störf fólksins er athyglisverð og eðlilslík því að ríkisstjórn Íslands mótaði þá stefnu, að vinna gegn því að fjármagnið geti á grundvelli rangláts kvótakerfis tekið vinnuna frá fólkinu að geðþótta.

Þá er gagnrýni Trump á NATO og utanríkisstefnu Obama réttmæt. Nauðsynlegt er að byggja brýr yfir til Rússa og skapa eðlileg samskipti og það þarf ekki að þýða neina undansláttarsemi heldur hitt að búa ekki til óvin fyrirfram eins og Óbama gerði með Assad,Mubarak, Al Sisi, Pútin o.fl.

Sú stefna Trump að ætla að draga úr frjálsum viðskiptum landa á milli er varhugaverð. Frjáls viðskipti hafa aukið velmegun í heiminum og fært hundruðir milljóna manna frá hungri til velmegunar. Á sama tíma hafa stjórnendur vestrænna ríkja ekki gætt að réttindum borgaranna en leyft fjármagnseigendum að fara sínu fram á kostnað hins almenna borgara.

Afturhaldið og vinstri pópúlisminn hafa gengið hönd í hönd fyrir sérréttindum hinna fáu á kostnað hagsmuna alls almennings.

Þessi mál hefði verið vert að RÚV hefði fjallað um og staðið fyrir málefnalegri umræðu í Kastljósi í stað þess að vera eingöngu með einhliða neikvæðar fréttir og vinstri sinnaða svonefnda sérfræðinga, sem geta ekki flokkast undir annað en skefjalausan áróður og innrætingu.

Vonandi bregst nýr menntamálaráðherra við þeirri áskorun að gera Fréttastofu RÚV að málefnalegri hlutlægri fréttastofu eins og lög um RÚV kveða á um. Við sem erum ekki vinstri pópúlistar eigum ekki að þurfa að greiða til þeirrar skoðanalegu dýflissu vinstri öfga sem fréttastofa RÚV hefur svo mikið dálæti á en gleymir á sama tíma því sem eru raunverulegar fréttir. 


Hræsnarar allra landa sameinist.

Óskilgreindur hópur kvenna ætlar að mótmæla á Arnarhóli niðurstöðu lýðræðislegra kosninga í Bandaríkjunum.

Mótmælakonurnar telja það brýnast í kvenfrelsismálum að láta Trump finna fyrir mótmælum og andúð vegna áratugs gamlla ummæla um konur, sem hann hefur beðist afsökunar á og eiginkona hans fordæmt. Hverju breyta þessi mótmæli. Engu. Þau eru ömurleg hræsni og þjóna ekki tilgangi í réttindabaráttu kvenna.

Mér til sárra leiðinda sé ég nafn fyrrverandi utanríkisráðherra Lilju Alfreðsdóttur tengd mótmælunum. ´Hingað til hef ég haft meira álit á henni en það að hún tæki þátt í þessu ómerkilega lýðskrumi, sem "fræðimaðurinn" Eiríkur Bergman kallar pópúlisma.

Vinstri öfga pópúlistinn Birgitta Jónsdóttir er að sjálfsögðu í forsvari. Við því mátti búast. Það er hins vegar illskiljanlegt að konur eins og t.d. Lilja og ýmsar aðrar sem þarna eru á skrá og eru bærar til að sjá hlutina af raunsæi og skynsemi skuli leggja nafns sitt við þessa ömurlegu hræsni.

Það er víða pottur brotinn hvað varðar réttindi kvenna. Konum er víða misboðið. Réttindi þeirra eru skert m.a. hefur Íslamska ríkið um árabil hneppt konur sigraðra trúarhópa og annarra andstæðinga sinna í kynlífsþrælkun, myrt og svívirt. Konur víða í löndum Íslams njóta mjög takmarkaðra réttinda og mun minni en karlar.

Ég hef ítrekað skorað á kvenréttindahreyfingar og samtök að taka undir með mér í baráttu gegn þeirri svívirðilegu kynlífsþrælkun og þrælasölu  kvenna, sem viðgengst í heiminum og er jafnvel að finna hér  á landi. Þar er barátta sem verður að taka og þeir sem unna réttlæti hvort heldur konur eða karlar þurfa að taka höndum saman um að uppræta. En ég hef hingað til ekki orðið þess var að kvennahreyfingar hér á landi hafi sinnt þessum réttindamálum kvenna.

Þær Arnarhólsstöllur hafa ekki haft neitt um undirokun og kynlífsþrælkun kvenna að segja undanfarin ár. Þær hafa ekki marsérað á Arnarhól. Jafnvel ekki boðað til þögulla mótmæla eða nokkurs gagnvart þessari svívirðu. Lilja Alfreðsdóttir sýndi þessum málum auk heldur engan áhuga meðan hún var utanríkisráðherra Íslands. Hvað kom eiginlega fyrir hana núna?

Þegar þetta háttalag mótmælakvenna gegn Bandaríkjaforseta er haft í huga og virt í skynrænu samhengi þá veður þessum mótmælum á Arnarhóli kl. 14 í dag ekki gefið annað heiti en: Ömurleg hræsni.

Mótmælakonurnar á Arnarhóli kl. 14 í dag eru hluti hóps vinstri öfga-kvenna- pópúlískra hreyfinga, sem í dag sameinast í hræsnisfullum aðgerðum á sama tíma og þær gera ekkert til að koma í veg fyrir raunverulegt misrétti sem konur eru beittar.

Vei yður hræsnarar.  


Pólitíska veðurfræðin

Það er nýlunda að flytjandi veðurfregna hvetji neytendur til að sniðganga vörur framleiddar í Kína. Þó ég sé honum efnislega sammála, þó á fleiri forsendum sé, þá orkar það tvímælis flytjandi veðurfrétta á RÚV setji þar fram hápólitísk sjónarmið.

Í sjálfu sér er þeim geðþekka flytjanda veðurfregna sem setti fram þessa skoðun vorkunn, af því að fréttastofa RÚV, stjórnendur krakkafrétta og Kastljóss hafa ekki hikað við að taka pólitíska afstöðu til ágreiningsmála og flytja einhliða fréttir. Sök veðurfræðingsins er því síst meiri eða alvarlegri en annarra sem við fréttaflutning starfa hjá RÚV.

Fréttir, líka veðurfréttir eiga að vera hlutlægar og án pólitískra palladóma eða sjónarmiða viðkomandi fréttaflytjanda til að tryggja hlutlægni, en hefur ekkert með rétt viðkomandi aðila til að vera brennandi í pólitíska andanum. En sá verður að koma því á framfæri á öðrum vettvangi.

Sniðganga á vörum frá einu landi er alvörumál. Vörur frá Kína eru almennt ódýrari en vörur framleiddar annarsstaðar. Gæði þeirra eru yfirleitt í lagi. Það er því ekki á grundvelli almennra neytendasjónarmiða sem hvatt verður til sniðgöngu.   

Pólitíska veðurfræðin, sem hefur gert loftslagshlýnun af mannavöldum að trúarsetningu horfir til þess, að Kína brennir kolum meir en nokkur annar. Indland er ekki langt undan  og hvað með Indónesíu? Eigi að sniðganga vörur frá Kína er eðlilegt að spurt sé hvort það eigi ekki að gilda um vörur frá löndum sem haga sér með svipuðum hætti?

Miðað við mínar upplýsingar og þekkingu, hafa Kínverjar farið fram af meiri óbilgirni gagnvart náttúrunni en nokkur önnur þjóð. Miðað við okkar vinnulöggjöf og réttindi launþega, þá eru vinnuaðstæður í Kína nær þrælabúðum vinnustöðum á Vesturlöndum.

Fólk á Vesturlöndum hefur horft á eigendur fyrirtækja brytja þau niður og flytja til Kína eða Indlands, þar sem réttindi verkafólks eru engin. Þau skammtímasjónarmið sem þar ráða eru seld því verði að stórir hópar launþega missa vinnu og þjóðfélög Vesturlanda tapa þegar heildarhagsmunir eru hafðir í huga.

Það er með eindæmum að verkalýðshreyfing Vesturlanda skuli ekki hafa brugðist við og mótmælt og mótmælt og mótmælt því að réttindi sem hún og framsýnir stjórnmálamenn hafa náð fyrir vinnandi stéttir skuli eyðilögð með því að taka fyrirtækin og flytja þau þangað sem réttindalaust fólk framleiðir það, sem þjálfað hörkuduglegt starfsfólk á Vesturlöndum gerði  áður og fékk greitt að verðleikum fyrir vinnu sína. Allt til að hámarka gróða fjármagnseigenda á kostnað hinna vinnandi stétta.

Verkalýðshreyfing Vesturlanda brást. Stjórnmálaflokkar brugðust og fjötruðu sig í hugmyndafræði heimsviðskipta þar sem frelsi fjármagnsins ræður öllu, en réttindi hins vinnandi manns gilda ekki. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn hafa verið helteknir af þessari heildarhugsun og hefðbundnir hægri flokkar hafa verið njörvaðir í 18.aldar sjónarmið um frelsi fjármagnsins. Svo finnst þessum aðilum skrýtið að það sem þeir kalla pópúlíska hægri flokka sem vilja gæta heildarhagsmuna vinnandi fólks skuli vaxa ásmegin. 

Fjármagnseigendur Vesturlanda sem hafa svikið vinnandi fólk á Vesturlöndum horfa á það án þess að blikna sem og stjórnmálamenn Vesturlanda að við framleiðslu Kína og annarra sambærilegra landa er farið á svig við flest það sem við á Vesturlöndum teljum skyldu okkar að gera til að varðveita náttúruna og umgangast hana með virðingu.

Það er svo merkilegt að hvorki stjórnmálamenn né verkalýðshreyfing hafa lyft litla fingri eða mótmælt því að fjármagnseigendur hafi fullt og óheft frelsi til að eyðileggja atvinnu milljóna fólks,lítilsvirða áunninn réttindi verkafólks og valda óafturkræfri mengun náttúrunnar.

Frelsi fjármagnsins hefur ráðið á kostnað hagsmuna vinnandi fólks. Vinstra fólk á Vesturlöndum hefur ekki sinnt hagsmunum hins vinnandi manns í framleiðslustörfum. Það er síðan undrandi yfir því að hinar vinnandi stéttir skuli yfirgefa hina sósíalísku alþjóðahyggju þrælabúðann. Hefðbundnir hægri flokkar hafa líka brugðist bundnir á klafa sérhagsmuna fjármagnsins hafa þeir litið framhjá heildarhagsmunum þjóðfélagsins til að trufla ekki gleðileik eyðileggingar fjármagnseigenda á áunnum réttindum verkafólks á Vesturlöndum og vestrænum gildum mannúðar og virðingar fyrir náttúrunni. 


Rök og rökleysa

Nokkru fyrir frestun funda Alþingis var til afgreiðslu frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar. Sigríður Andersen benti við það tækifæri á, að líklega væru fá dæmi um grófari mismunun gagnvart einstaklingum, en slík lagasetning þar sem nokkrum eintaklingum væri með þessum hætti hleypt framhjá almennum reglum um veitingu ríkisborgararéttar.

Þess hefði mátt vænta að málefnaleg athugasemd Sigríðar yrði til þess að alþingi hætti að rugla í biðröðinni.

Í stað málefnalegrar umræðu um athugasemd Sigríðar tók til máls tilfinningaþrunginn Pawel Bartoszek sem þakkaði fyrir að hafa fengið ríkisborgararétt með þessum hætti 19 árum áður. Á grundvelli persónulegra sérhagsmuna fyrir 19 árum taldi þingmaðurinn réttlætanlegt að mismunun einstaklinga héldi áfram.

Þessi ummæli Pawel eru ámóta og mannsins sem vildi ekki leyfa frjálsan innflutning á bifreiðum af því að hann naut fyrirgreiðslu ákveðins þingmanns til að geta ásamt örfáum flutt inn bíl vegna fyrirgreiðslu þingmannsins.

Þá er þessi rökleysa Pawel með sama hætti og fullyrt væri að óréttlæti væri fólgið í því að almennar lánareglur giltu í fjármálastofnunum og það ættu að vera sérreglur fyrir suma. Slík þjóðfélagshugsun sérhyggju og mismunar fólks er andstæð inntaki hugmynda um jafnræði borgaranna.

Nú hefði mátt ætla að fjölmiðlar hefðu gert málefnalegri athugasemd Sigríðar góð skil en það var ekki. Hún gleymdist. Þess í stað varð aðalfrétt þeirra hin tilfinningaþrungna rökleysa Pawel Bartoszek, sem hafði ekkert málefnalegt gildi varðandi þá athugasemd Sigríðar Andersen, að allir ættu að vera jafnir fyrir lögunum.  

Pawel sem iðulega hefur ritað góðar og markvissar greinar um þjóðfélagsmál, ætti að gaumgæfa að gerast aldrei talsmaður fyrir þeirri meginreglu einræðisins, sem greinir m.a. í bókinni Animal Farm: Að öll dýr væru jöfn, en sum dýr væru jafnari en önnur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 688
  • Sl. sólarhring: 779
  • Sl. viku: 3875
  • Frá upphafi: 2515788

Annað

  • Innlit í dag: 639
  • Innlit sl. viku: 3574
  • Gestir í dag: 610
  • IP-tölur í dag: 595

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband